19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

130. mál, söluskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ein af þeim ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. til þess að hleypa dýrtíðinni sem allra lengst upp á við í viðbót við það, sem leiddi af gengislækkuninni og fleiri stjórnarráðstöfunum á s.l. ári, var setning lagaákvæða um svimháan söluskatt. Það er einmitt þessi viðbótar-bráðabirgðasöluskattur, sem nú er hér til umræðu. Vissulega var það svo, eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á hér í þessum umr., að menn gerðu sér mjög vonir um það, að það yrði eitt af því fyrsta, sem hæstv. ríkisstj. gerði að nokkrum mánuðum liðnum, að fella niður þennan bráðabirgðasöluskatt. En svo virðist sem hæstv. ríkisstj. sé nú í engu ákveðnari en því að halda fast við hann og framlengja hann, gera hann að föstum tekjustofni fyrir ríkissjóð. Í þessu sambandi dettur mér í hug vísa, sem er eftir einn af hagyrðingum landsins. Hún er svona:

Klónni slaka ég aldrei á

undan blaki af hrinu,

þótt mig hrakið hafi frá

hæsta takmarkinu.

Það er eins og þessi vísa sé orðin kjörorð hæstv. ríkisstj., og er það þó sannarlega auðsætt mál, að hana hefur hrakið frá því hæsta takmarki sínu að tryggja þjóðinni betri lífskjör, en það var það, sem hún sagði að fyrir sér vekti með öllum sínum efnahagsmálaaðgerðum. Ég hygg, að hvert einasta mannsbarn í þessu landi geri sér það nú ljóst, að ríkisstj. hefur rekið óralangt frá þessu takmarki. Það hefur verið á það minnzt hér í umr., að miðað við október 1958 hafi lífskjörum alþýðu samkv. viðurkenndum vísitöluútreikningum hrakað um a.m.k. 12%. En þá er hæstv. ríkisstj. gerður sá greiði að miða ekki við þann tíma, þegar kaupmáttur tímakaupsins var mestur nú á siðarí árum, þegar vísitala tímakaupsins fór hæst, en það var í janúarmánuði 1959, rétt um sömu mundir og núv. hæstv. stjórnarflokkar fóru að ráða stefnunni. Þá var kaupmáttur tímakaupsins talinn 109 og hefur aldrei orðið hærri. Og hvað er hann nú? Nú er hann kominn niður í 85. Honum hefur því hrakað um 24 stig, þegar miðað er við það, þegar hann var beztur í upphafi þessa tímabils, og það, sem hann er nú. Þannig hefur hæstv. ríkisstj. hrakið frá því takmarki sínu, sem hún lét í veðri vaka að fyrir sér vekti, að tryggja þjóðinni bætt lífskjör.

Þessi efnahagsmálastefna, „viðreisnin“ svokallaða, sem allir nefna nú svo í háði, átti að vera leiðin til bættra lífskjara, eins og öllum er í fersku minni. Hæstv. ríkisstj. hefur svo sannarlega fengið blak af hrinu hvað eftir annað, áminningar um það, að þessi stefna leiddi í þveröfuga átt við það, sem látið var heita að fyrir ríkisstj. vekti í upphafi. Dýrtíðarólgan varð meiri en nokkurn óraði fyrir, og svo kom að því, að atvinnulífið fór að dragast saman, viðskiptalífið að dragast saman, ekki aðeins verkalýðsstéttin, heldur allar framleiðslustéttir þjóðarinnar sárkvörtuðu undan afleiðingum viðreisnarinnar, og meira að segja er svo komið, að kaupsýslustéttirnar emja nú á hæstv. ríkisstj. út af því, hvernig fyrir þeim sé komið, af þeirri einföldu ástæðu, að kaupmáttur fólksins hafi nú brostið. En svarið, sem fólkið fær, er þetta, að hæstv. ríkisstj. hyggi ekki á að slaka á klónni hið minnsta, hvorki á þann veg að fella niður söluskattinn né annan.

Hér hafði hæstv. fjmrh. orð fyrir ríkisstj. í kvöld og þrætti algerlega fyrir það, að nokkurn tíma hefði verið gefið loforð um, að þessi söluskattur, sem þó var í gögnum ríkisstj. ávallt nefndur bráðabirgðasöluskattur, hefði ekki átt að vera í gildi nema fyrir árið 1960, það væru engin svik framin með því að framlengja hann, og mér skildist á hæstv. ráðh., að úr því að hann hefði verið kallaður bráðabirgðaskattur, þá hefðu allir mátt vita, að það væri ætlunin að framlengja hann, því að svo hefði það verið á dögum Eysteins Jónssonar, og nú virtist svo sem aldrei hefði vakað fyrir hæstv. ríkisstj. að afnema á næsta ári skatt, sem hét bráðabirgðaskattur. Það var sem sé Eysteinn Jónsson og svo Sovétríkin, sem voru fyrirmyndir hæstv. ráðh. í því, að söluskattur skyldi einmitt vera tekinn af fólkinu, og úr því að hann hét bráðabirgðasöluskattur, gat engum dottið í hug, að hann yrði afnuminn.

En það voru einmitt styðjendur hæstv. ríkisstj., sem stóðu í þeirri meiningu, að þegar nokkrir mánuðir væru liðnir og blessun stjórnarstefnunnar væri farin að segja til sín, jafnvægið farið að berja að dyrum, þá mundi hæstv. ríkisstj. byrja á því að afnema einmitt söluskattinn. Þessa minnist ég sérstaklega í sambandi við það, að þegar miðstjórn A.S.Í. á s.l. hausti var að hugleiða, hvaða svör verkalýðshreyfingin ætti að gefa hæstv. ríkisstj. vegna þeirrar kjaraskerðingar, sem orðin væri hjá öllum launastéttum landsins, og var komin að þeirri niðurstöðu, að ekki yrði hjá því komizt að krefjast 15–20% kauphækkunar í landinu móti þeirri kjaraskerðingu, sem þá var orðin, og gera ýmiss konar aðrar ráðstafanir að auki til kjarabóta fyrir fólkið, jafnvel þótt það kynni að kosta harða baráttu, þá voru einmitt nokkrir stjórnarsinnar í miðstjórn A.S.Í. sem sögðu: Við skulum fara aðra leið. Við skulum biðja ríkisstj. um að gera ráðstafanir án kauphækkana til þess að auka kaupmátt launanna. — Og þeir stungu upp á því, að hún skyldi beðin þess í fyrsta lagi til þess að lækka verðlag í landinu að fella niður þennan umrædda söluskatt, 8.8% söluskattinn af vörum í tolli. Við skyldum enn fremur biðja hæstv. ríkisstj. að lækka aðflutningsgjöld og herða á öllum verðlagsákvæðum og þjappa og þrýsta þannig verðlaginu niður. Þeir lögðu til, stjórnarsinnarnir í miðstjórn Alþýðusambandsins, á haustnóttum, að við bæðum ríkisstj. að lækka enn fremur en orðið væri útsvör, létta útgjöldum af almenningi með lækkun útsvara á láglaunatekjum. Og eitt af því, sem þeir lögðu til að við bæðum hæstv, ríkisstj, um til kjarabóta fyrir fólkið, var að lækka aftur útlánsvextina, sérstaklega í sambandi við húsnæðismál. Þetta leiddi til þess, að miðstjórn A.S.Í. samþykkti að reyna þessa leið, og daginn eftir þennan miðstjórnarfund hjá Alþýðusambandinu, eða þann 20. okt., var hæstv. forsrh., Ólafi Thors, ritað bréf, þar sem þess var farið á leit, að hann tæki upp viðræður við miðstjórn Alþýðusambandsins um það að fella niður söluskattinn, lækka aðflutningsgjöld, lækka útsvör af almennum launatekjum, lækka útlánsvextina og gera samkomulag við verkalýðssamtökin um hverjar aðrar ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. kynni að geta gert til þess að lækka verðlag, og Alþýðusambandið lýsti því yfir, að verkalýðshreyfingin mundi síðan meta, hve mikils virði þessar verðlækkanir væru sem kjarabætur fyrir launþega, og draga það frá kröfum fólksins að því er snertir kaupgjaldið sjálft.

Það voru höfð snör handtök um þetta, þar sem við þóttumst hafa fengið vísbendingu um það frá stjórnarsinnunum í miðstjórninni, að ríkisstj. mundi vera mjög fús til þess að fara þessa leið, því að við höfðum líka séð það í Morgunblaðinu í haust, að ríkisstj. vildi fara leið í kaupgjaldsmálunum, sem leiddi ekki af sér verkföll, en það væri bara verkalýðshreyfingin, sem ógnaði alltaf með verkföllum.

Þann 20. okt. var forsrh. skrifað á þessa leið um það, að við vildum taka upp viðræður við ríkisstj. um hvers konar ráðstafanir til verðlækkunar, til þess með þeim hætti að fá úr því skorið, hvað hægt væri að bæta launakjör fólksins, auka kaupmátt launanna, án þess að farið væri í kauphækkanir að öðru leyti en því, sem ríkisstj. kynni að bresta vilja eða getu til þess að leysa málið með þessari aðferð.

Það leið nokkuð á þriðju viku, þangað til svar barst frá ríkisstj. á þá leið, að nú vildi hæstv. ríkisstj. taka upp viðræður við Alþýðusambandið út af bréfinu. Þar mættu til viðtals af hendi hæstv. ríkisstj. fjmrh. og viðskmrh., en hæstv. forsrh. ekki. Ég hirði ekki að greina í einstökum atriðum, um hvað þetta viðtal snerist, að öðru leyti en því, að fulltrúar Alþýðusambandsins hafa tjáð mér, að engin vilyrði hafi á þessum fundi verið gefin um neinn árangur eftir þessari leið, en því hafi verið slegið föstu, áður en upp var staðið, að þetta væri fyrsta viðtal og fulltrúar Alþýðusambandsins mundu verða kvaddir til viðræðu við ríkisstj. síðar. Nú í dag eru tveir mánuðir siðan Alþýðusambandið skrifaði ríkisstj, og fór fram á þetta. Og nú er verið að knýja á um það hjá hæstv. ríkisstj., að söluskatturinn verði felldur niður, það sama sem var fyrsta atriði hjá stjórnarsinnunum, fylgismönnum hæstv. ríkisstj., í miðstjórn Alþýðusambandsins í haust, sem þeir sögðu að væri sjálfsagt að biðja fyrst um til þess að auka kaupmátt launa án kauphækkana. Það hefur að vísu ekkert komið út úr viðræðunum, enginn fundur verið boðaður af hæstv. ríkisstj. á ný, en hér berst svarið sjálfsagt. Það er auðheyrt, að hæstv. ríkisstj. vill ekki taka það í mál að gera þessa ráðstöfun til verðlækkunar og þar með til kjarabóta fyrir launastéttirnar.

Ég hygg, að það liggi fyrir á prenti, hafi verið birt í Morgunblaðinu, að ef söluskatturinn væri felldur niður, mundi það a.m.k. þýða 3% kjarabót fyrir launþegana. Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að það er meira að segja útlendur hagfræðingur, sem hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að ef þessi bráðabirgðasöluskattur verði felldur niður, muni það þýða um 3% kjarabót fyrir launþega. Nú skal ég ekki slá neinu föstu um það, hvort þessi útreikningur hins erlenda hagfræðings er réttur eða hvort hann er jafnvitlaus og aðrir útreikningar hagfræðinga hæstv. ríkisstj., — það gæti hann líka verið, — og þó er það ljóst, að einhver kjarabót hefði verið að því fyrir launþegastéttirnar, ef hann hefði fengizt felldur niður. Nú virðist auðsætt, að það fæst ekki. Undirtektirnar eru ekki þannig, að líkur þyki til, að hann verði afnuminn. En mér leikur hugur á að vita, hvort það er svo, að hæstv. ríkisstj, sé ófús til þess að fara þessa leið, hvort hún ætli ekki að halda viðræðum áfram við verkalýðssamtökin um það að reyna að bjóða launþegastéttunum, sem svo grátt hafa verið leiknar af allri viðreisninni, allri þessari efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj., neinar kjarabætur að þessari leið, með því að draga úr verðlaginu, lækka það, annaðhvort með lækkun á sköttum, útsvörum, vöxtum eða á annan hátt. Mér finnst, að þegar tveir mánuðir eru liðnir frá því, að þessi viðtöl hófust, mætti vænta þess, að niðurstöður færu að liggja fyrir. Og svo mikið er víst, að ef þessu verður neitað, annaðhvort með þögninni ellegar það fengist botn í viðræðurnar á þann hátt, að enginn árangur fáist að þessari leið, þá liggur það fyrir, að þá gefur hæstv. ríkisstj. ekki kost á annarri leið til kjarabóta en verkalýðshreyfingin berjist fyrir kauphækkunum, þaulreyni fyrst samninga við atvinnurekendurna, og náist ekki viðunandi árangur af þeim samningum, þá er það gefinn hlutur, og það veit hæstv. ríkisstj., að þá kemur til verkfalla. Mér þykir ekki óeðlilegt, að ég ræði þetta einmitt í sambandi við það, að söluskatturinn er á dagskrá, og mér þætti mjög svo eðlilegt, að hæstv. ráðh. gæfi nú Alþ. svör, þegar hæstv. ríkisstj. hefur forsmáð verkalýðssamtökin í tvo mánuði og ætlar sér sjálfsagt ekki að svara neinu.

Hæstv. ráðh. fullyrti það í ræðu sinni í kvöld, að í raun og veru hefði söluskatturinn ekki verið nein aukabyrði á fólkinu, á launþegunum, því að það hefði verið létt af sköttum, tekju- og eignarskatti t.d., þannig að þetta stæðist á endum, þetta dæmi gengi upp, lækkun skatta næmi jafnmiklu og söluskatturinn. Þetta er alrangt, eins og sýnt var fram á hér í kvöld. Tekju- og eignarskatturinn var árið 1959 130 millj., og hann verður á árinu 1961 75 millj., vörumagnstollurinn var 35 millj. 1959 og verður það á árinu 1961. Innflutningsgjaldið af benzíni var 17 millj. árið 1959, en verður á árinu 1961 58 millj. Verðtollurinn var 270 millj. árið 1959, en verður á árinu 1961 343.6 millj. Söluskattur af innflutningi var 145 millj. á árinu 1959, en verður 156.5 millj. á árinu 1961. Söluskattur af innlendri vörusölu og þjónustu, að frádregnum hluta sveitafélaganna, var enginn árið 1959, en verður 148 millj. á árinu 1961. Og bráðabirgðasöluskattur af innflutningi, að frádregnum hluta sveitarfélaganna, var enginn árið 1959, en verður 134.5 millj. 1961. Þessir skattar, sem hér hafa nú verið taldir, námu á árinu 1959 597 millj., en á árinu 1961 koma þeir til með að nema 950.6 millj. kr. Hækkunin er þarna 353.6 millj. Svo segir hæstv. ráðh., að þetta gangi alveg upp, lækkunin á tekjuskattinum og aðrar lækkanir samsvari alveg þeirri hækkun, sem hafi orðið á söluskattinum. Nei, kjaraskerðingin hefur átt sér stað í gegnum gengislækkunina og verðhækkunarflóðið, sem af henni leiddi. Hún stafar af söluskattinum og hlutdeild hans í verðhækkununum. Og versta, fantalegasta kjaraskerðingin liggur í vaxtaokrinu og lánasamdrætti bankanna og samdrætti atvinnulífsins og þannig minnkandi atvinnu.

Það fer því ekkert á milli mála, að kjaraskerðing launastéttanna í landinu er mun meiri en vísitala vöruverðs og þjónustu segir til um. Hún er miklu meiri en opinberar skýrslur um kaupmátt tímakaupsins segja til um vegna einmitt samdráttar atvinnulífsins.

Ég skal láta mér nægja að ræða eingöngu um þetta atriði, og hefði þó verið full ástæða til að halda miklu lengri ræðu um þessa viðreisnarráðstöfun hæstv. ríkisstj., söluskattinn. En þess hefur verið óskað, að menn stytti ræður sínar, til þess að hægt sé að ljúka málum hér á fundinum í kvöld, og skal ég hér láta staðar numið. En mér þætti afskaplega vænt um, ef hæstv. ráðh. gæti upplýst það hér á Alþingi, þó að hann hafi neitað verkalýðssamtökunum um svör við því, hvaða möguleikar eru á því, að hann auki kaupmátt launanna, bæti launastéttunum að einhverju leyti upp þá gífurlegu kjaraskerðingu, sem þær hafa orðið fyrir, með einhverjum þeim ráðstöfunum, sem gætu leitt til lækkaðs vöruverðs. Verkalýðshreyfingin hefur lýst því yfir, að hún mundi meta slíkar verðlækkanir til kjarabóta og draga jafngildi þeirra frá sínum framlögðu kauphækkunar- og kjarabótakröfum.