19.10.1960
Sameinað þing: 4. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í D-deild Alþingistíðinda. (3048)

951. mál, lántökur erlendis

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég svaraði ekki öðru í upphafi en því, sem fsp. gaf með réttu beinlínis tilefni til. En eins og ég benti á áðan, er fjórða spurningin ekki alveg rétt orðuð, ef það vakir fyrir hv. þm., sem hann nú gat um í viðbótarathugasemdum sínum, því að eins og honum er áreiðanlega jafnljóst og mér, þá eru lagaákvæðin þannig, að leyfi ríkisstj. þarf til þess að taka lán til lengri tíma en eins árs. Hins vegar er innflytjendum heimilt að semja um greiðslufrest til allt að þriggja mánaða, án þess að leyfi ríkisstj. eða banka komi til, en til 3–12 mánaða greiðslufrests, þarf leyfi banka. Ég skal gjarnan, að gefnu þessu tilefni frá hv. þm., skýra frá því, sem ég veit um þessi atriði, því að það er alveg rétt hjá honum, að til þess að fá myndina fullkomna af gjaldeyrisstöðunni, er nauðsynlegt að hata hugmynd um þetta, en bankarnir hafa einmitt í fyrsta skipti nú, sáðan 1. júní, hafið skýrslugerð, sem gerir þeim kleift að fylgjast með því, hversu mikið er um notkun þeirrar heimildar, sem nú er gert ráð fyrir að innflytjendur geti notað til allt að eins árs greiðslufrests erlendis.

Útistandandi eru nú í frjálsum gjaldeyri, bæði í ábyrgðum og innheimtum, um 80 millj. kr., og er hér nær eingöngu um að ræða þriggja mánaða gjaldfrest, en yfirleitt hafa bankarnir ekki fallizt á greiðslufrest til lengri tíma en þriggja mánaða, nema hlutaðeigandi innflytjandi hafa getað sýnt fram á með alveg óyggjandi og fullum rökum, að það hafa verið venja áður í þeirri sömu viðskiptagrein. Það má öllum kunnugum þessum málum vera ljóst, að þó að áður hafi ekki verið leyfilegt að hagnýta neinn gjaldfrest erlendis, þá mun hafa kveðið að því í allverulegum mæli, og þarf það í sjálfu sér engum að koma á óvart. Sú reynsla, sem bankarnir hafa aflað sér um þessi atriði nú, eftir 1. júní, þegar farið var að framkvæma ákvæði hinna nýju laga, hefur leitt í ljós, að það hefur tvímælalaust verið um að ræða allverulega notkun á greiðslufresti erlendis áður, þótt lög hafi ekki gert ráð fyrir slíku. En ég endurtek, að um lengri greiðslufrest en þrjá mánuði er ekki að ræða, nema því aðeins að bönkum hafa verið gerð fullkomin grein fyrir því, að þar sé um ábreytta viðskiptanætti að ræða frá því, sem áður var. Útistandandi eru í vöruskiptagjaldeyri 78 millj. kr., þar af 57 vegna olíukaupa í Sovétríkjunum.

Vilji maður gera sér grein fyrir því, hvort hér sé um nokkuð óeðlilegt eða óvenjulegt að ræða eða hvort líkur séu á því að notkun greiðslufrestsins hafi stefnt eða sé að stefna gjaldeyrisaðstöðu okkar í hættu, þá er einfaldast og ábyggilegast að athuga þær breytingar, sem hafa orðið á ábyrgðaskuldbindingum og greiðsluskuldbindingum bankanna við síðustu mánaðamót og á sama tíma í fyrra og breyta skuldbindingatölunni í fyrra í nýja gengið, til þess að tölurnar verði sambærilegar.

Ég hef upplýsingar um þessi atriði. Í septemberlok 1959 námu ábyrgðaskuldbindingar bankanna í frjálsum gjaldeyri 125 millj. kr., — tölunni hefur verið breytt í nýja gengið. Í septembermánuði s.1. námu ábyrgðarskuldbindingarnar 123.5 millj. kr. í frjálsum gjaldeyri. Ábyrgðarskuldbindingarnar hafa m.ö.o. lækkað, svo að þær eru 11/2 millj. lægri í septemberlok í ár en þær voru í septemberlok í fyrra. Um greiðsluskuldbindingarnar er það að segja, að þær námu í septemberlok 1959 153 millj. kr. á nýja genginu, en greiðsluskuldbindingarnar 30. sept. nú í ár námu 175.8 millj. kr. Þær hafa því aukizt um 22.8 millj. kr., sem verður áreiðanlega ekki talin há upphæð og ekki varhugaverð að neinu leyti.

Á þessu sést því, að ef teknar eru saman ábyrgðarskuldbindingar og greiðsluskuldbindingar bankanna í septemberlok í fyrra og í ár, þá er þar um aukningu um því sem næst 20 millj. kr. að ræða. Þetta er öruggasti mælikvarðinn á það, hvort heimildin til þess að hagnýta sér greiðslufrest erlendis hefur verið misnotuð þannig, að af því mætti teljast einhver hætta fyrir gjaldeyrisástandið. (EOl: Á hvaða gengi er þetta gamla reiknað þarna?) Reiknað á nýja genginu, reiknað á 38 kr. dollarinn. (EOl: Við hvað er miðað, þetta gamla?) 16.32 og 38 kr. Þessar tölur baka af öll tvímæli um það, að á þessu sviði gjaldeyrisafkomunnar er ekki heldur um neina voveiflega atburði að ræða, ekki um neina þróun að ræða, sem ástæða sé til að óttast, þannig að gera þurfi sérstakar gagnráðstafanir.

Þá þykir mér að síðustu rétt, fyrst málin hafa borizt inn á þennan vettvang, að skýra hinu háa Alþingi frá nýjustu tölunum, sem fyrir hendi eru um gjaldeyrisaðstöðuna, til viðbótar þeim, sem nýlega hefur verið skýrt frá opinberlega og birzt í blöðum. Þróun gjaldeyrisaðstöðunnar á fyrstu tveim vikum þessa mánaðar, sem nú er að líða, eða á tímabilinu frá 1.–13. okt., er sú, að gjaldeyriskaup bankanna á fyrstu tveim vikum oktábermánaðar í frjálsum gjaldeyri námu 83.3 millj., en salan 73.6 millj., þannig að í frjálsum gjaldeyri batnaði gjaldeyrisaðstaðan á fyrstu tveim vikum októbermánaðar um 9.7 millj. kr. Kaupin í vöruskiptagjaldeyri námu 16 millj. kr., en salan 12.9 millj. kr., þannig að einnig í vörukaupagjaldeyri batnaði gjaldeyrisaðstaðan um 3.1 millj. kr. Á fyrstu tveim vikum októbermánaðar hefur því gjaldeyrisaðstaðan í frjálsum gjaldeyri og vörukaupagjaldeyri batnað um 12.8 millj. kr., og er því enn um þá sömu þróun að ræða, sem verið hefur í þeim málum undanfarnar vikur og mánuði.