30.11.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í D-deild Alþingistíðinda. (3103)

901. mál, rannsóknarmál ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hinn 31. maí 1957 var samþ. ályktun hér á Alþingi um að athuga, hvort tiltækilegt væri að stofna lífeyrissjóð fyrir sjómenn, verkamenn, bændur, útvegsmenn og aðra þá, sem ekki njóta lífeyristrygginga hjá sérstökum lífeyrissjóðum. Hálfu öðru ári síðar, eða 20. des. 1958, skipaði fyrrv. félmrh., Hannibal Valdimarsson. 5 manna n. til að gera tillögur í samræmi við þessa þál. Í þessa n. voru skipaðir: Guðmundur J. Guðmundsson verkamaður, Gunnar Möller hrl., Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður n., Ólafur Jóhannesson prófessor og Sverrir Þorbjarnarson forstjóri.

Þessi n. hefur síðan haft málið til athugunar, og þessa dagana hefur hún verið að ganga frá sínu nál. Þegar ég fyrst leitaði til hennar um, hvað liði hennar störfum, þá var formaður n. ekki viss um að hún gæti lokið þeim nú alveg þessa dagana, en það varð þó úr, að svo var gert, og nál. hefur verið sent ráðuneytinu.

Ég skal aðeins geta um niðurstöðurnar í áliti n., sem eru svo hljóðandi:

„1) Sett verði löggjöf nm almennan lífeyrissjóð, sem allir landsmenn eigi kost á að tryggja sig hjá.

2) Slíkur almennur lífeyrissjóður veiti tryggingu, sem aðeins verði viðbótartrygging við almannatryggingarvar.

3) Unnið verði að breytingu á núverandi sérsjóðum, svo að þeir allir verði framvegis aðeins viðbótartrygging við almannatryggingarvar.”

Út af því, sem hv. fyrirspyrjandi. hv. 12. þm. Reykv. (PS), minntist hér á tryggingu sjómannanna, skal ég staðfesta það. sem hann sagði, að nefnd sú, sem það mál hafði sérstaklega til athugunar. sem var önnur n., hún lauk störfum í vetur sem leið og klofnaði. En áður en ákvörðun yrði tekin um meðferð málsins, vildi rn. fá heildarumsögn um allar lífeyristryggingar frá þessari n., sem hér hefur verið að störfum, áður en frá því máli yrði gengið sérstaklega, og þar sem þetta nál. liggur nú fyrir, þá ætla ég, að fljótlega munt hægt að taka ákvörðun um, á hvaða grundvelli málið verður nú borið fram.