13.12.1960
Neðri deild: 36. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

134. mál, efnahagsmál

Eysteinn Jónsson:

Þegar hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir efnahagslöggjöfinni í fyrra, var það tekið fram mjög greinilega af hendi hæstv. ríkisstj., að efnahagslöggjöfin væri miðuð við að tryggja höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar öruggan starfsgrundvöll, þannig að hægt væri að leggja uppbótakerfið gersamlega á hilluna. Enn fremur var mjög sterklega lögð áherzla á, að ekki kæmi til greina að hverfa að uppbótakerfinu aftur í nokkurri mynd, enda mundi sú nýja skipan efnahagsmálanna, sem innleidd var, tryggja, að slíkt þyrfti ekki að koma til greina. Það var mjög sterklega lögð áherzla á, að þessar ráðstafanir væru við það miðaðar, að aðalútflutningsatvinnuvegurinn, sjávarútvegurinn, gæti staðizt gersamlega án nokkurs sérstaks stuðnings af hendi ríkisvaldsins, sem í nokkru gæti líkzt þeim stuðningsráðstöfunum, sem gerðar höfðu verið á undanförnum árum. Jafnframt var það tekið fram, að það væri halli, talsvert verulegur, á útflutningssjóði uppbótakerfisins og það yrði að leggja nokkurt gjald á til þess að jafna þennan halla. En jafnframt var það mjög greinilega tekið fram, að sjávarútveginum væri ætlaður svo ríflegur kostur í þessu nýja efnahagskerfi, að það væri hægt að leggja 5% útflutningsgjald á allar útflutningsafurðir, sem gengi til þess að greiða niður þennan halla á útflutningssjóðnum. En þegar því væri lokið, yrði þetta gjald afnumið. M.ö.o.: hæstv. ríkisstj. sagði, að þetta væri svo hagfelld lausn, sem hún beitti sér fyrir, að sjávarútveginum væri tryggður blómlegur, styrkjalaus rekstur og gæti þar að auki lagt 5% til þess að greiða hallann á útflutningssjóðnum.

Þetta var sú hlið viðreisnarinnar, — eins og hæstv. ríkisstj. vill kalla hana, en farið er nú að kalla hana yfirleitt í gamni, — sem sneri að sjávarútveginum.

En hvernig horfir nú þetta mál við, aðeins nokkrum mánuðum eftir að þessar nýju efnahagsráðstafanir voru gerðar? Það horfir við á allt aðra lund — það er óhætt að fullyrða — en hæstv, ríkisstj. vildi gera ráð fyrir fyrir fram og telja mönnum trú um að stefnt væri að, enda er það engin furða. Það var bent á það rækilega í fyrravetur, að þessar ráðstafanir gætu með engu móti staðizt og bæru dauðann í sér og hlytu að verða til stórtjóns bæði fyrir sjávarútveginn og þjóðina í heild. Fyrir því voru færð þau rök þá, sem nú sést að voru alveg rétt, að enginn atvinnuvegur, hvorki sjávarútvegurinn né nokkur annar atvinnuvegur í landinu, gat staðizt ólamaður þau geigvænlegu högg, sem hæstv. ríkisstj. greiddi með efnahagslöggjöfinni.

Með þessari löggjöf var sem sé allt gert í senn: Lækkað mjög gengi íslenzkrar krónu. Lagðar mörg hundruð millj. króna nýjar álögur á landsmenn til ríkisbúskaparins. Hækkaðir vextirnir þannig, að fullkomið okur má teljast og sennilega einsdæmi á jarðarkringlunni. Loks var innleiddur stórkostlegur lánsfjárskortur, sem einn út af fyrir sig hefur verið svo gífurlegur í framkvæmd, að mundi hafa nægt til þess að trufla eðlilegt atvinnulíf, hvað þá heldur þegar þetta fernt hefur allt farið saman, enda hefur niðurstaðan orðið sú, að atvinnuvegir landsmanna eru nú þegar mjög lamaðir orðnir af þessum ráðstöfunum. Almenningur býr við stórkostlega kjaraskerðingu, sem getur ekki staðizt svo að segja stundinni lengur og höfuðútflutningsatvinnuvegurinn hefur þegar dregizt verulega saman vegna þessara aðfara og þar með gjaldeyristekjurnar og þjóðartekjurnar og það svo aftur haft í för með sér framlengingu á þeim álögum, sem að réttu lagi átti að fella niður, eða m.ö.o. enn meiri álögur.

Ef menn skyldu halda, að þetta væri einhver sleggjudómur, sem stjórnarandstæðingar hefðu tilhneigingu til að fella um ráðstafanir hæstv. ríkisstj., geta menn fljótlega sannfært sig um, að það er misskilningur, bæði með því að hafa tal af þeim mönnum, sem við þetta verða að búa í sjávarútvegi og öðrum . atvinnurekstri, og enn fremur með því að skoða þær ályktanir, sem koma frá þeim samtökum, sem hér eiga hlut að máli, og raunar einnig þær yfirlýsingar, sem forustumenn þessara samtaka gefa um áhrif þeirra á atvinnureksturinn, og það menn, sem hafa ekki hina minnstu tilhneigingu til að halla á núv. hæstv. ríkisstj. eða gera hlut hennar verri í nokkurri grein en full ástæða væri til. Nefni ég þar m.a. þann vitnisburð, sem formaður L.Í.Ú. hefur gefið þessum ráðstöfunum, þar sem hann hefur lýst því yfir, að sjávarútvegurinn sé nú mjög lamaður af þessum ástæðum, og önnur fleiri ummæli í sömu stefnu.

Þetta hlaut að verða. Það var óhugsandi, að framleiðslan eða atvinnureksturinn í landinu gæti þolað allar þessar geigvænlegu ráðstafanir, þegar þær fóru allar saman, enda varð niðurstaðan sú eftir aðeins örfárra mánaða rekstur sjávarútvegsins t.d. við þessa nýju skipan, að heita mátti, að meginþorri eða mikill þorri sjávarútvegsfyrirtækja væri kominn í alger greiðsluþrot.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er þá einnig fullkomin þrotabúsyfirlýsing, ef svo mætti segja, af hendi hæstv. ríkisstj. í þessu máli, og skal ég færa fyrir því út af fyrir sig nokkrar ástæður.

Ég sagði áðan, að þegar gengið var frá efnahagsmálum og málum framleiðslunnar í fyrravetur og hið nýja efnahagskerfi sett á fót, sem átti að þola öll áföll og vera algerlega sjálfvirkt, þannig að aldrei þyrfti þar um að bæta á nokkurn hátt, — þegar það var innleitt, var sagt, að sjávarútvegurinn yrði svo stæltur, að hann gæti greitt 5% útflutningsgjaldið til að jafna hallann á útflutningssjóðnum. Það kom strax í ljós í fyrravetur, hversu fáránleg þessi fullyrðing var og allir þeir útreikningar, sem hér að lutu, því að í fyrravetur þurfti að byrja með því að afnema þetta gjald að hálfu, til þess að hugsanlegt væri, að endarnir næðu saman til bráðabirgða í þeim samningum um fiskverðið, sem þá stóðu yfir mánuðum saman á milli fiskkaupenda og hraðfrystihúsa annars vegar og útgerðarmanna hins vegar. Þá þurfti að afnema helminginn af þessu gjaldi, og var það fyrsta skekkjan, sem kom greinilega í ljós. En nú er komið í ljós eins glöggt og verða má, að jafnvel þótt þetta væri gert, þá hrökk það skammt til þess að bjarga sjávarútveginum frá þeim áföllum, sem hæstv, ríkisstj. hafði innleitt með efnahagslöggjöfinni. Það kom sem sé í ljós nú á haustmánuðum, að mikill meginþorri útgerðarfyrirtækjanna var kominn í greiðsluþrot, og ástæðurnar voru jöfnum höndum hin gífurlega vaxtahækkun, sem innleidd hafði verið, lánasamdrátturinn og hin óskaplega verðhækkun, sem varð á öllum nauðsynjum útgerðarinnar, bæði í sambandi við gengislækkunina sjálfa og allar þær nýju álögur, sem sópað var inn í ríkissjóðinn. Afleiðingarnar af öllu þessu urðu þær, að það var enginn rekstrargrundvöllur fyrir sjávarútveginn.

Það hefur verið talað um aflaleysi í þessu sambandi, og það er rétt, að togararnir hafa fiskað mjög illa, og hefur aflaleysi átt stóran þátt í þeirra vanda. En afli á bátaflotanum hefur verið fullkomlega í meðallagi og síldveiðar gengu sízt verr á s.l. sumri en þær hafa gengið undanfarin allmörg ár, að undanskildu árinu í fyrra. Hér er því aflaleysi engan veginn um að kenna hvað flotann snertir, heldur eingöngu þeim gífurlegu og fávíslegu ráðstöfunum til hækkunar á öllum rekstrarkostnaði, sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir í fyrra og fyrirsjáanlegt var, að gat aldrei endað öðruvísi en með strandi hjá sjávarútveginum og annarri framleiðslu.

Í framhaldi af þessu hefur svo ríkisstj. í allt haust verið eins og fluga í flösku að reyna að komast út úr þessum vanda og finna einhverjar leiðir til þess að koma í veg fyrir, að framleiðslan í landinu stöðvaðist alveg. Náttúrlega hefur þetta orðið mjög erfitt verk, því að hún hefur verið að reyna að finna leiðir til að gera þetta án þess, að allt of mikið bæri á því, að efnahagskerfi hennar væri algerlega komið í strand. Og það fyrsta, sem hæstv. ríkisstj. gerði í þessa stefnu, að því er manni skilst, og það verður þá leiðrétt hér af hæstv. ráðh., ef ég hef ekki haft alveg réttar fregnir af því, sem hæstv. ríkisstj, hefur aðhafzt í þessa átt, — það fyrsta var að eiga hlut að því við bankana að lengja þau lán, sem útvegsmenn höfðu fengið til nótakaupa, og reyna þannig að koma í veg fyrir algert strand strax hjá mörgum þeirra. Enn fremur voru gerðar ráðstafanir til þess að efla þá deild aflatryggingasjóðsins, sem síldveiðinni átti að sinna, og lánveitingar í því sambandi viðhafðar úr öðrum hlutum sjóðsins.

Þá hef ég það fyrir satt, að gerðar hafi verið margvíslegar ráðstafanir með milligöngu bankanna til að veita ýmsum fyrirtækjum, sem gátu sett tryggingar, ný lán til að koma í veg fyrir algera stöðvun, með það fyrir augum, að þau, t.d. frystihús og önnur slík fyrirtæki, gætu greitt hráefnisverðið. Ég hef skilið það svo, að í þessu efni hafi orðið að ganga æði langt til þess að bjarga frá algerri stöðvun til bráðabirgða eftir þær aðfarir, sem þessi fyrirtæki höfðu orðið fyrir og ég hef með fáum orðum lýst.

Þá hefur mér skilizt, að hæstv. ríkisstj. hafi unnið að því að fá því framgengt, að útgerðin gæti fengið frest á afborgunum af lánum sínum, a.m.k. á haustgjalddögunum nú fyrir árið 1960, og væri það líka einn liðurinn í því að komast hjá algeru hruni. Vildi ég nú spyrjast fyrir um, hvort þetta sé ekki rétt, að hæstv. ríkisstj, hafi unnið í þessa átt, en ég hef ekki orðið var við, að neinar lagasetningar væru á gangi um þetta efni. Vildi ég því nota tækifærið til að spyrja hæstv. sjútvmrh, um, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hafi nú þegar gert í þessu efni og hverjar kunni að vera í vændum.

Enn fremur er hvað eftir annað lýst yfir, ég hygg, að það hafi komið einhverjar yfirlýsingar í þá átt frá hæstv. ríkisstj. á landssambandsfundinum t.d., — að í undirbúningi væru talsvert víðtækar ráðstafanir til, að nýjar lánveitingar ættu sér stað til útgerðarinnar og ef til vill fleiri atvinnuvega, en það er mjög á huldu, hvernig þessar lánveitingar eru hugsaðar. Manni skilst, að þetta sé líka einn liður í því að komast hjá algerri stöðvun og bæta úr þeim vanda, sem orðinn er. Ég vildi í þessu sambandi spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta mál væri komið svo langt, að hann gæti gefið Alþingi upplýsingar um, hvað verið væri að starfa að þessu leyti og hvað hæstv. ríkisstj. hefur í hyggju, hvers konar lánveitingar til framleiðslunnar það eru, sem hún hefði þá hugsað sér að gangast fyrir, og ef svo langt væri komið, hvernig það væri hugsað í framkvæmd og hvaða fjármagn það væri, sem þar ætti að koma til greina.

Það má vel vera, að það sé fleira, sem ýmist hefur nú þegar verið gert til að greiða úr þessum vanda eða hafi komið til greina, en þetta er það, sem ég í fljótu bragði man eftir, og mundi mér finnast, að það væri sérstök ástæða að fá upplýsingar um þetta.

Samkvæmt því efnahagsskipulagi, sem upp var sett og átti að tryggja, að atvinnurekstur gæti gengið hér uppbóta- og íhlutunarlaust og styrkjalaust, átti útflutningsgjaldið af sjávarafurðunum að falla niður, þegar búið var að greiða hallann af útflutningssjóðnum. En nú er það augljóst, og í því liggur ekki minnsta þrotabúsyfirlýsingin, sem er að finna í þessu máli öllu saman, að hæstv. ríkisstj. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að hag sjávarútvegsins á þessu ári væri þannig komið, að það væri ekki með nokkru móti hugsanlegt, að útgerðin gæti staðið undir greiðslu sinna eigin vátryggingariðgjalda. Ef allt hefði verið með felldu um afkomu sjávarútvegsins, eins og hæstv. ríkisstj. vildi halda fram í fyrravetur, og efnahagskerfi hennar hefði staðizt sína raun, jafnvel fyrstu mánuðina, átti vitanlega aldrei að koma til mála að fara aftur inn á þá braut að greiða uppbætur til útgerðarinnar í því formi, að greidd yrðu öll vátryggingariðgjöld útgerðarinnar sem uppbætur. En það er þetta, sem hæstv. ríkisstj. er núna að gera, og ef ekki hefði staðið svo alveg sérstaklega á, að ríkisstj. hefur þarna þennan afgang af þessu 21/2% gjaldi, þá hefði hæstv. ríkisstj. nú þegar neyðzt til þess að afla nýrra tekna til þess að greiða þessi iðgjöld. En það er eingöngu vegna þess, að þessi afgangur er þarna til staðar af þessu 21/2 % gjaldi í útflutningssjóðnum gamla, að hæstv. ríkisstj. sleppur við það í bili að afla sérstakra nýrra tekna til að greiða þessi vátryggingariðgjöld. Hún getur tekið þessar álögur í það, sem lagðar voru á í fyrravetur.

En það er hverju mannsbarni augljóst, að ef allt hefði verið með felldu um efnahagskerfið og sjávarútvegurinn getað staðizt þessi högg, sem ríkisstj. greiddi honum í fyrravetur, þá hefði ekki átt að þurfa að koma til mála að fara að borga nú fyrir þetta ár sérstakar uppbætur í formi vátryggingariðgjalda flotans. Það er vitaskuld gert eingöngu vegna þess, hvernig sjávarútvegurinn hefur verið leikinn og gersamlega lamaður með þeim efnahagsmálaráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir.

Hér við bætist svo, að að óbreyttri stjórnarstefnu og óbreyttum stjórnarráðstöfunum sýnist ekki vera nokkur minnsta von um, að sjávarútvegurinn eða nokkur annar atvinnuvegur í landinu geti haldið áfram sinum rekstri, sýnist ekki vera nokkur von til þess, að óbreyttum efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstj. Þetta er hverju einasta mannsbarni í landinu orðið gersamlega ljóst og sennilega ríkisstj. líka. En það stendur bara svo á, að það er meiningin að reyna að dragnast einhvern veginn út þetta ár með því að taka uppbæturnar nýju af 21/2% skattinum og einhverjum afgangi, sem manni skilst jafnvel að hafi fundizt í útflutningssjóði. Það stendur þannig á, að það er hægt að taka peningana þarna núna, en það verður ekki gert til frambúðar.

Það væri mjög nauðsynlegt einmitt í sambandi við þessar umr., að það kæmi greinilega fram, eins greinilega og hægt væri, hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hugsar sér að gera í málefnum framleiðslunnar fyrir næsta ár. Það er alveg augljóst, að eins og þetta er núna, þá stefnir beint í vegginn. Það er óhugsandi, að framleiðslustarfsemin geti haldið áfram við þau skilyrði, sem hæstv. ríkisstj. bjó út í fyrravetur og áttu að vera varanlegar ráðstafanir, sem gerðu það að verkum, að þessi mál leystust öll af sjálfu sér úr því.

Nú eru þær tölur, sem notaðar eru í sambandi við þessi vátryggingariðgjöld, nokkuð mikið á reiki. En í sambandi við það vil ég þó spyrja hæstv. ráðh., af því að ég varð ekki var við, að það kæmi fram í hans ræðu, hvað mikið búið sé að innheimta með þessu 21/2 % útflutningsgjaldi og hvað mikið hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir að þetta gjald verði samtals af allri framleiðslu ársins 1960, sem skattskyld á að verða. Þá langar mig líka til að vita, ef hæstv. ráðh. gæti upplýst, hvað ársvátryggingariðgjöldin fyrir allan báta- og togaraflotann nema hárri fjárhæð. Loks væri mjög æskilegt að fá að vita, hver verður útkoma útflutningssjóðs. Hver verður halli hans, sá sem þarf að jafna af þessu 21/2% gjaldi? Eða varð hann kannske, þegar allt kom til alls, enginn? Var þetta allt saman kannske misskilningur, að það væri halli á útflutningssjóðnum?

Í fyrra var það látið mjög í veðri vaka, að það væri talsverður halli á útflutningssjóðnum. Það var á meðan verið var að koma á þessum gífurlegu ráðstöfunum, sem hér voru þá til meðferðar. Þá var mikið gert úr því, að það væri verulegur halli á útflutningssjóðnum, og það var efnt til 120 millj. kr. skatttöku til að jafna hann. Var þetta þá allt saman rangt? Var enginn halli raunverulega á útflutningssjóðnum? Var þetta bara saga, sem búin var til og haldið á lofti, meðan verið var að fá þjóðina til að trúa því, að hún þyrfti að sætta sig við allar þessar ofboðslegu ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj, beitti sér fyrir? Var þetta bara þjóðsaga, sem búin var til um hallann á útflutningssjóðnum þá, eða hvað er það, sem raunverulega hefur skeð, og hver er þá niðurstaðan af þessum útflutningssjóðsrekstri nú, því að nú ætti að vera hægt að sjá það alveg? En furðulegt má það teljast, ef menn hafa séð þetta svo ónákvæmt í fyrravetur, að það, sem menn héldu þá að þyrfti 120 millj. til að jafna, hafi máske reynzt vera ekki neitt. Það hefði því ekkert þurft að leggja á til að jafna þennan halla.

Ég man ekki betur en við gerðum ráð fyrir því í fyrra, að eitthvað af þessum 5%, sem átti þá að leggja á útgerðina eða útflutninginn, mundi vera lagt á til þess, að ríkisstj. hefði þar eitthvað til að byrja á uppbótakerfinu aftur, ef hún þyrfti á að halda. Ég hygg, að við höfum einmitt þá vikið nokkuð að þessu. Það var svo óljóst um það, hvað halli útflutningssjóðsins væri mikill, og óljóst um, hvað ætlazt væri fyrir með þessum 5%, að við munum hafa leitt nokkrar getur að því þá, að jafnvel mundi hér blandast inn í hjá hæstv. ríkisstj., að þetta fé ætlaði hún sér að hafa til að byrja á uppbótakerfinu aftur.

Og hvað er nú komið í ljós? Það kemur í ljós, að þetta fé á að nota til að byrja á uppbótakerfinu aftur, á meðan ríkisstj. er að venjast ósigrinum, á meðan hún er feimin. Á meðan hún er feimin við að játa, hvernig komið er, getur verið gott að grípa til þessa sjóðs af útflutningsgjaldinu, sem lögleiddur var í fyrra, til að greiða uppbæturnar.

Hér fer auk þess eitthvað á milli mála í þessu, því að hæstv. ráðh. sagði, að það yrði að nægja upp í vátryggingargjöldin, sem afgangs yrði í útflutningssjóðnum. Manni skilst, að á landssambandsfundi hafi margir skilið þær orðsendingar, sem gengu frá hæstv. ríkisstj., þannig, að hún mundi tryggja, að vátryggingariðgjöldin yrðu öll greidd á árinu 1960. Þar hefur þá orðið einhver misskilningur, því að ég heyrði, að hæstv. ráðh. sagði, að stjórnin hefði ekki heitið öðru en því, að afgangurinn gengi til iðgjaldanna. Mér er nær að halda, að þessi skilningur hafi alveg fest rætur hjá þeim, sem voru á landssambandsfundinum. Það má mikið vera, ef hér er ekki eitthvað óhreint í pokanum, þannig að hér hafi einhver fyrirheit verið gefin, sem eigi kannske að fara dult, á meðan menn eru feimnastir við að játa skilmerkilega, að þetta nýja efnahagsmálakerfi er gersamlega komið út um þúfur og að byrjað er aftur á gamla laginu. En þetta á kannske að vera eitthvað óljóst, á meðan menn eru að venja sig við það.

Þessar ráðstafanir, sem hér eru ráðgerðar í frv., eru miðaðar við, eins og hæstv. ráðh, útskýrði og ég hef aðeins minnzt á, að greiða fyrir bátaflotanum og togaraflotanum með því að greiða vátryggingariðgjöldin. Ég var að segja, að ég sakna þess mjög, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki nú þegar hafa gert ýmsar aðrar ráðstafanir til þess að bæta úr því böli, ég segi böli, — sem innleitt var í mörgum greinum með því, sem aðhafzt var í fyrra.

Í því sambandi vil ég — benda á frv., sem lagt var fram í þingbyrjun af mér og öðrum framsóknarmönnum í hv. d. En þetta frv. fjallaði um að breyta vöxtunum aftur í það horf, sem þeir voru fyrir gengislækkunina. Og enn fremur fjallaði frv. um að hætta að draga helming af sparifjáraukningunni inn í Seðlabankann. Ef þetta væri gert, gætu það orðið fyrstu skrefin til að gera raunhæfar ráðstafanir til að bæta úr þeim óhöppum, sem orðið hafa, því að vaxtaokrið er auðvitað einhver allrá þungbærasti liðurinn í þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur lögleitt, og einnig lánasamdrátturinn, eins og hann hefur verið framkvæmdur. Alveg tvímælalaust hefur þetta tvennt ásamt öðru dregið stórkostlega úr sjálfum þjóðartekjunum umfram það, sem þær hefðu ella orðið, vegna þess hve það hefur lamað allan atvinnurekstur í landinu. Þetta frv. hefur ekki enn þá verið afgreitt frá hv. fjhn. d, og er þar enn, og hafa ekki verið sett fram nál., enda þótt gengið hafi verið eftir því af fulltrúa framsóknarmanna í n., að þetta frv. yrði afgreitt.

Nú vil ég í þessu sambandi, þegar farið er hér að ræða um efnahagslöggjöfina og flytja af hendi hæstv. ríkisstj. frv. um að breyta henni, mjög eindregið skora á hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihlutann að taka upp í frv. þau efnisákvæði, sem í okkar frv. eru, og byrja nú á byrjuninni, þ.e.a.s. að breyta vöxtunum, lækka vextina og bjarga þannig framleiðslunni í landinu frá algeru þroti, sem yfir vofir, ef þessari fásinnu um vextina er haldið áfram. Og ég vil skora mjög eindregið á hæstv. ríkisstj, að taka þennan þátt málsins inn í þetta frv. og skora á hv. fjhn. að taka það til gaumgæfilegrar meðferðar að taka þau efnisákvæði, sem eru í frv., sem ég . áðan greindi, inn í þetta mál. Ef það væri gert að snúa nú alveg við um vaxtapólitíkina og hætta þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið til þess að draga saman lánveitingarnar, þá mundu það geta orðið fyrstu skrefin til að greiða fyrir því að komast út úr öngþveiti, sem stefnt hefur verið til. Og ég vil hér með láta þess getið að lokum, að ef hv. fjhn. treystir Sér ekki til að fallast á að taka þessi ákvæði um vaxtalækkunina, sem er það. mál, sem er langsamlega mest aðkallandi, — ekki bara einhverja smávægilega vaxtalækkun, heldur að færa vextina aftur í það, sem þeir voru, — ef þessi ákvæði verða ekki tekin upp í hv. fjhn., þá munu að sjálfsögðu verða gerðar ráðstafanir til þess að flytja brtt. um að efni við 2. umræðu.