16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

134. mál, efnahagsmál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í tilefni af því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér fyrir matinn. Nú sé ég ekki, að hæstv. ráðh. sé viðstaddur eða kominn. En hann hlýtur að vera rétt ókominn. Ég vildi þess vegna fara fram á það við hæstv. forseta, að hann léti þessa umr. ekki hefjast, fyrr en hæstv. ráðh. er kominn, og biðja hann að gera ráðstafanir til þess, að ráðh. hraði för sinni, ef hægt væri. Ég vildi fara þess á leit við forseta, að hann hinkraði við. (Forseti: Forseti sér nú ekki ástæðu til þess að hinkra við þess vegna. Hann hefur haft samband við hæstv. sjútvmrh., sem var flm. þessa máls, og á kvöldfundi í gærkvöld hafði forseti samband við ríkisstj. og lét auk þess hafa samband við alla þm. d., og með hliðsjón af því hafa ekki frekari ráðstafanir verið gerðar eða verða gerðar af hálfu forseta, annað en það, að sjútvmrh. mun sennilega rétt ókominn, en hann er nokkuð knappur með tíma, þar sem hann fór suður í Hafnarfjörð, og ég get beðið, ef þm. óskar, þangað til sá ráðh. er kominn.) Ég hafði ekki sérstaka ósk um það. Það var vegna þess, sem hæstv. fjmrh. sagði, sem ég kvaddi mér hljóðs, og mér eru það mikil vonbrigði, að hæstv. forseti sér sér ekki fært að hinkra við eða gera ráðstafanir til þess, að ráðh. mæti. Þetta fer að minna mann heldur ónotalega á eina leiðinlega nótt í fyrravetur, þegar þessi sami hæstv. fjmrh., sem nú er hvergi nærri, var týndur og var leitað að honum, en hann fannst ekki, en átti þó að vera viðstaddur tvímælalaust þær umr., sem þá fóru fram. Þá tók þáv. forseti, núv. varaforseti, sem var í forsetastól, það tillit til þess, hvernig ástatt var, að hann frestaði fundi af því að hæstv. fjmrh. fannst ekki. Mér eru það þess vegna mikil vonbrigði, að hæstv. forseti skuli ekki vilja gera ráðstafanir til þessa, og lýsi vonbrigðum mínum út af því.

Mér finnst það harla einkennilegar aðfarir hjá hæstv. fjmrh. að standa hér upp fyrir matinn og flytja þessar athugasemdir, sem hann gerði og gáfu fullt tilefni til þess, að umr. um þetta mál yrði haldið áfram nokkuð, sem menn annars höfðu ekki hugsað sér að gera, og hafa svo ekki smekk til að mæta á kvöldfundinum til að ræða málið áfram. Það er full ástæða til að víta þessa framkomu. Ég veit ekki, hvort hæstv. forseti vill taka það að sér að bera nokkuð á milli í þessu máli til hæstv. fjmrh., það er nú kannske varla von, að hann vilji það. En þrátt fyrir fjarvist fjmrh. verð ég að láta falla fáeinar athugasemdir út af því, sem hann sagði.

Það var svo að heyra af því, sem hæstv. fjmrh. tók fram, að það væri allt í nokkuð sæmilegu horfi með viðreisnina. Viðreisn er orð, sem stjórnarliðið er hætt að nota, er nú aðallega notað af stjórnarandstæðingum. Og það lýsir nokkuð út af fyrir sig, hvernig stjórnarliðið og hæstv. ríkisstj. finnur til inni á sér um það, hvernig þessum málum er komið, að orðið viðreisn er ekki lengur notað um það, sem gerzt hefur, nema af andstæðingum ríkisstj. Ríkisstj. og hennar stuðningslið fær sig ekki til þess lengur að kalla þær ráðstafanir, sem gerðar voru, því nafni, sem þeim var upphaflega gefið, viðreisn. Það segir sína sögu, og er í því fólgin allrækileg viðurkenning á því, hvað gerzt hefur.

Í kvöld mannaði hæstv. fjmrh. sig upp og hélt því fram í þeim fáu orðum, sem hann mælti, að þau vandkvæði, sem nú væri við að fást, væru fyrst og fremst vegna aflaleysis og verðfalls á afurðum, en ættu ekki rætur sínar að rekja til ráðstafana ríkisstj. Ég vil taka undir það, sem hér var sagt fyrir matinn út af þessu, að það er sorglegt, ef hæstv. ríkisstj. er enn þá slegin nákvæmlega sömu blindunni á málefni landsins og í fyrravetur, þegar hún réðst í þetta. Það er bágt að trúa því, að hæstv. ríkisstj. hafi ekkert enn þá lært af þeirri reynslu, sem fengin er. Og í lengstu lög verða menn að vona, að þetta séu meira mannalætí hjá hæstv. fjmrh., sem hann mælti hér í þessa stefnu, en að þar sé raunverulega um skoðun að ræða.

Það var bent á það í fyrravetur, að þær ráðstáfanir, sem gerðar voru, gengislækkunin, nýju tollaálögurnar og vaxtahækkunin, gátu aldrei haft minni áhrif til verðhækkunar í landinu en sem svaraði einum milljarði og 100 millj., þótt dregin væru frá þau hlunnindi, sem ríkisstj. beitti sér fyrir að kæmu til frádráttar, og skattalækkanir. Það var sýnt fram á þetta rækilega og margsinnis, og voru þó ekki einu sinni talin með þau verðhækkunaráhrif, sem hlutu að verða á rekstrarvörum framleiðslunnar, heldur var því þá treyst, að þeim verðhækkunaráhrifum yrði mætt með auknum tekjum framleiðslunnar, sem allt reyndist raunar rangt, því að verðhækkun til framleiðslunnar varð alls ekki sú, sem þurfti að vera til að mæta hækkunum á erlendum rekstrarvörum.

Það var þráfaldlega sýnt fram á það í fyrra, að svona ráðstafanir væru hrein fásinna. Það væri óhugsandi annað en að þær hlytu að hækka svo gífurlega verðlag í landinu, að þær lömuðu sjálfa framleiðsluna. Af þeim mundi leiða kjaraskerðingu, sem væri óbærileg, og stórkostlega dýrtíðaraukningu, sem yrði aðeins byrjun á því, að dýrtíðarhjólið færi að snúast á nýjan leik. Allt hefur þetta komið bókstaflega fram, að vísu enn stórkostlegar en orðið hefði, ef afli hefði orðið enn þá meiri en hann varð á þessu ári eða verðlag á afurðum farið hækkandi. En þessar afleiðingar hafa komið svo glöggt fram í rekstrarafkomu fyrirtækja og almennings, að engum manni ætti lengur að dyljast, að hér var um stórkostleg mistök að ræða.

Það sést bezt á því, að nú þarf að gera nýjar, stórfelldar ráðstafanir, aðeins níu mánuðum eftir að þessar hinar fyrri voru gerðar, sein þó áttu að vera algerlega til frambúðar. Það sést líka glöggt á því, að menn geta ekki lengur lifað af því kaupi, sem þeim er nú ætlað, og að kauphækkanir hljóta að eiga sér stað, áður en langt um líður, nema því aðeins að ríkisstj. snúi við og finni leiðir til þess að bæta kjaraskerðinguna að verulegu leyti með öðru móti.

Nýjar ráðstafanir vegna framleiðslunnar, nýjar ráðstafanir vegna kjaraskerðingarinnar, þetta er það, sem blasir við á næsta leiti. Og efnahagsmálin eru nú í örðugri hnút en þau hafa nokkru sinni verið um langt skeið og það fyrst og fremst vegna þeirra ráðstafana, sem ríkisstj. gerði. Þær voru svo fávíslega stórfelldar, að þær hlutu að grafa undan sjálfum sér, þegar farið væri að framkvæma þær. Og það er alveg furðulegt, að menn, sem eiga að vera sæmilega kunnugir íslenzku atvinnulífi, skyldu láta sér til hugar koma að gera þessar ráðstafanir, t.d. að bæta vaxtahækkuninni ofan á allt hitt og reikna hana ekki einu sinni inni í því dæmi, sem sett var upp fyrir framleiðsluna og afkomu framleiðslufyrirtækjanna, og vera svo alveg hissa á því, að þessi vaxtahækkun, ofan á allt hitt, hefur lamað framleiðslufyrirtækin og hefði verið búin að stranda mörgum þeirra, ef ríkisstj. hefði ekki nú þegar látið gera bráðabirgðaráðstafanir til að halda þeim fljótandi í bili.

Það er talað í þessu sambandi um verðfall á mjöli og lýsi, sem ráðh. var að skjóta fyrir sig. Verðfallið á þessum afurðum var að miklu leyti komið fram, þegar efnahagsmálaráðstafanirnar voru gerðar, og það var getið um það sérstaklega í grg. efnahagsmálafrv., að þetta verðfall lægi fyrir og væri tekið tillit til þess. Þess var ekki heldur getið af hæstv. ráðh., að þetta verðfall varð meira en það hefði þurft að verða, m.a. vegna ráðstafana ríkisstj., því að hinir brjáluðu vextir, sem innleiddir voru, neyddu ýmsa framleiðendur til að selja afurðir sínar úr landi fyrir lægra verð en þeir hefðu ella fengið, þannig að jafnvel í sjálfu verðfallinu eiga ráðstafanir hæstv. ríkisstj. sinn þátt.

Hvernig getur hæstv. fjmrh. látið sér koma í hug, að þau vandkvæði, sem nú blasa við varðandi rekstur frystihúsa og báta, eigi rætur sínar að rekja til aflaskorts togaraflotans? En það liggur fyrir sem staðreynd, að afli á báta hefur verið í góðu meðallagi og síldaraflinn betri en oftast áður í 16 ár, aðeins einu sinni áður verið meiri í 16 ár. Nei, það er sannarlega ekki upplífgandi að heyra, að svo virðist sem hæstv. fjmrh. hafi ekkert lært af þeim stórkostlegu óhöppum, sem orðið hafa af þeim ráðstöfunum, sem hann hefur staðið fyrir, enda mun það nú vera sannleikurinn um þennan hæstv. ráðh, og suma aðra af þeim, sem fyrir þessu standa, að þeir munu lítið meira þekkja af íslenzku þjóðlífi eða íslenzkri framleiðslustarfsemi eða íslenzkum atvinnurekstri en þeir sjá af tilviljun út um gluggann hjá sér. Það mun vera sannleikurinn. Af þessu mun ekki stafa lítið af þeirri ógæfu, sem Íslendinga hefur hent, þegar þessum mönnum var falin forusta í málum þjóðarinnar.

Hæstv. ráðh. var annars nokkuð ánægður með ýmislegt. Hann sagði t.d., að gjaldeyrisstaðan hefði batnað um 200 millj. frá því í febrúarlok. Ég dreg ekki í efa, að hæstv. ráðh, á hér við bankareikningana. Og hann miðar við febrúarlok. Hvað meinar nú hæstv. ráðh. með því að vera að fleygja fram svona tölu? Jú, hann meinar auðvitað, að af þessu eigi menn að sjá, að eiginlega hafi þessar ráðstafanir heppnazt mjög vel og verkað mjög vel á íslenzkan þjóðarbúskap. En við skulum athuga ofur lítið, hvaða gildi það hefur að kasta svona tölu fram. Það er nú fyrst, að þegar efnt er til jafnstórkostlegs samdráttar í framkvæmdum og ríkisstj. hefur gert og annarrar eins kjaraskerðingar og hún hefur beitt sér fyrir, sem sverfur svo að mönnum, að flest heimili geta lítið annað keypt en allra brýnustu nauðsynjar til matar og til að halda við klæðnaði sínum, — þegar svona er sorfið að meginþorra heimilanna í landinu, eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert, og um leið stöðvaðar eða dregið stórkostlega úr framkvæmdum, þá mætti vera meira en lítill samdráttur í framleiðslutekjunum í útflutningnum, ef ekki kæmi fram afgangur á gjaldeyrisbúskapnum fyrsta árið, sem svona fantabrögðum er beitt.

Það mætti vera meiri samdrátturinn, það mætti vera meiri hörmungin, hvernig til tækist með framleiðslustarf þjóðarinnar og útflutningsviðskipti, ef ekki yrði stórkostlegur gjaldeyrisafgangur fyrsta árið, sem þessum fantabrögðum er beitt, segi ég aftur. Og væri þess vegna sannarlega ekki af neinu að státa fyrir hæstv. ríkisstj., þó að hún að vertíðarlokum í þetta sinn gæti bent á, að gjaldeyrisstaðan hefði batnað um nokkur hundruð milljónir af þessum ástæðum, þrátt fyrir þá lömun á framleiðslunni, sem stafar af þessum ráðstöfunum.

En hvað segir það um afkomuna í sjálfu sér? Sannarlega harla lítið, því að sá gjaldeyrisávinningur, sem þá kæmi fram, væri fenginn með því móti, að þjóðin væri í raun og veru að eyða af eignum sínum. Það kalla ég að eyða af eignum sínum, ef ekki er hægt að kaupa til viðhalds heimilunum, hvað þá til endurnýjunar eða eðlilegrar uppbyggingar í landinu. Það væri verið að éta út eigur þjóðarinnar og gæti verið gífurlegur halli á þjóðarbúskapnum í sjálfu sér, þótt einhver afgangur kæmi fram í sambandi við gjaldeyrisstöðuna í þrengstu merkingu.

Og hvernig mundi svo útlitið vera? Ekki er hægt að halda svona niðurskurði á neyzlunni áfram ár eftir ár, þó að það sé máske hægt í nokkra mánuði. Slíkt er ekki mögulegt. Ekki er hægt að stöðva mikinn hluta uppbyggingarinnar í landinu ár eftir ár, án þess að það komi gífurlega fram á sjálfum þjóðartekjunum og þjóðin færist bókstaflega á kaf í það fen fátæktarinnar, sem þessi stefna óneitanlega færir hana ofan í, ef ekki verður breytt um aðferðir.

Á þessu sjáum við, að það út af fyrir sig segir ekki mikið, hvort gjaldeyrisstaða bankanna batnar eða batnar ekki. Það segir ekki mikið út af fyrir sig. Aðalatriðið er, hvernig þessi stefna verkar á þjóðarbúskapinn og hvort hún getur yfirleitt staðizt til frambúðar.

Það er líka fleira í sambandi við það, þegar hæstv. fjmrh. landsins kemur fram og kastar út svona tölu, sem á að vera innlegg í alvarlegar umræður um þessi mál. Hann segir, að gjaldeyrisstaðan hafi batnað um 200 millj. frá því í febrúarlok. Er hann þá búinn að taka það til greina, hæstv. ráðh., að nú hefur verið keypt mikið af vörum til landsins gegn vörukaupalánum erlendis og það í miklu stærra mæli en áður hefur verið? Nei, auðvitað ekki. Hann er alls ekki búinn að taka þetta til greina. Er hann búinn að taka til greina, hversu mikið af öðru lánsfé hefur verið notað eða flutt til landsins á árinu? Nei, alls ekki. Hann hefur ekkert tekið það til greina. Hann slítur bara eina tölu út úr þeirri keðju af tölum, sem þarf að skoða til þess að átta sig á afkomu landsins út á við, og kastar henni fram alveg órökstuddri, þó að sú tala ein út af fyrir sig sýni alls ekki, hvernig búskapur þjóðarinnar út á við hefur gengið. Þetta leyfir hæstv. ráðh. sér samt að gera og telja innlegg í þessi mál.

Síðan kemur sá leikur hæstv. ríkisstj. að bera gjaldeyrisstöðuna saman við gjaldeyrisstöðuna í lok febrúarmánaðar. Vitanlega hefur slíkt ákaflega litla þýðingu að taka þannig eitthvert tímabil út úr árinu, slíta það út úr og gera það upp út af fyrir sig. Það eina eðlilega í þessu er að gera árið í heild upp út af fyrir sig og bera það saman við önnur ár. Í febrúar er vertíðin t.d. nýbyrjuð og búið að kaupa geysimikið af varningi til vertíðarinnar, en ekkert farið út af afurðum ársins. Hér við bætíst, að í febrúarlok s.l. vetur munu hafa verið óvenjulega miklar birgðir í landinu sjálfu af afurðum frá fyrra ári óseldum, sem hafa farið út á þessu ári, — þannig að þessi tala gefur, einnig þegar þetta er skoðað, enga hugmynd um það, hvernig gjaldeyrisbúskapurinn hefur gengið. Það er því stórkostlega ámælisvert af hæstv. ráðh. að kasta svona tölum fram. Það getur varla orðið skoðað öðruvísi en að hæstv. ráðh. vilji bókstaflega leiða athygli manna frá þeirri heildarmynd, sem blasir við, ef allir þættir þessa máls eru réttilega saman teknir. En það er auðvitað sú heildarmynd ein, sem hefur nokkra þýðingu, nema þá í blekkingarskyni, og það er ekki fallegt, ef hæstv. ráðh. er að fleygja fram svona tölum í því skyni.

Það er ekki hægt að átta sig á því nú, hver verður gjaldeyrisniðurstaða þessa árs. En ég segi: Það mætti fyrr vera hörmungin, — og það vonar maður, að eigi ekki eftir að henda, — það mætti nú fyrr vera hörmungin, ef það yrði ekki verulegur gjaldeyrisafgangur á þessu ári, jafngífurlega og kaupgeta manna hefur verið slegin niður og framkvæmdir dregnar saman. Það mundi ekki spá vel fyrir næstu framtíð, ef slíkt ætti eftir að koma í ljós. Í lengstu lög verða menn þó að vona, að útkoman verði ekki svo hræðileg, alveg eins og ég sagði hér í sambandi við framlengingu söluskattsins, að ég á bágt með að trúa því, að svo ömurleg reynsla verði jafnvel af því, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, að það verði ekki verulegur greiðsluafgangur á ríkisbúskapnum á þessu ári. Það væri sannarlega ömurleg útkoma, ef það yrði ekki, þar sem hlaðið var á þjóðina nýjum álögum í fyrravetur, svo að mörgum hundruðum millj. kr. skipti, og tekjurnar áætlaðar svo lágt, að viðskipti þjóðarinnar hefðu mátt verða mun lægri en þau voru fyrir tveimur árum og tekjurnar stæðust samt. Þannig var í pottinn búið og því óhugsandi að gera ráð fyrir öðru en það hlyti að verða stórkostlegur greiðsluafgangur. Og ég trúi því ekki, fyrr en ég sé það, að svo ömurlega hafi til tekizt, þótt illa væri á haldið, að það verði ekki verulegur greiðsluafgangur á ríkisbúskapnum og líka gjaldeyrisafgangur í viðskiptunum við útlönd. Og mundi það sannarlega ekki, þótt þetta yrði hvort tveggja, segja mikið um, að skynsamlega hefði verið á haldið, fjarri því. Þar koma aðrir þættir til, sem ég hef rakið hér lauslega.

Ég skal nú stytta mál mitt og fara að láta þessum aths. lokið. En aðeins einn þátt vil ég þó nefna, vegna þess að ég gerði hann að umtalsefni í sambandi við söluskattsfrv. að hæstv. fjmrh. áheyrandi og beindi þá til hans spurningu út af þeim þætti málanna. Hann virti þá spurningu ekki svars þá og svaraði henni í raun og veru ekki heldur í þeim fáu orðum, sem hann sagði hér fyrir matinn. En þau orð lutu þó að sama efni og ég spurði hann um. Hann hefur oft, ráðherrann, og var að því nú enn í kvöld, að tala um, hvað kaupgeta fólks hafi í raun og veru verið lítið skert. Manni verður hugsað í því sambandi til málflutnings ráðh. um gjaldeyrisafganginn.

Það vita allir, að framleiðslan hefur lamazt, dregizt saman og þjóðartekjur minnkað. Og sé stórkostlegur gjaldeyrisafgangur, eins og hæstv. ráðherra var að reyna að fá menn til að trúa og ég veit ekkert um, af hverju getur það þá stafað? Ekki stafar það af auknum tekjum. Nei, það stafar þá af því, að kaupgeta almennings hefur verið svo gífurlega skert. En svo er þessi sami hæstv. ráðh. í sömu tíu mínútna ræðunni að færa fram rökstuðning um, að í raun og veru hafi kaupgeta manna sama og ekkert verið skert. Í þeim dæmum, sem menn hafi tekið, hafi menn alveg gleymt að taka tillit til þess, að bæði fjölskyldubætur og lækkanir á sköttum hafi vegið hér á móti, og í rammamyndum af þessu öllu, sem hæstv. ráðh. lætur af og til birta í blöðunum, lætur hann það dæmi venjulega ganga svona hér um bil upp, það hafi í raun og veru ekkert verið skert kaupgeta manna. Það sýnir svo samræmið í þessu, þegar hann svo talar um gjaldeyrisafganginn.

En út af þessu sífellda tali hæstv. ráðh. um vísitölubúið vil ég leyfa mér enn að endurtaka það, sem ég sagði í fyrradag, og það er þetta: Það er gert ráð fyrir því, að vísitölubúið þurfi að hafa 68 þús. kr. tekjur eða því sem næst, og ég spurði hæstv. ráðh., hvar verkamenn og bændur ættu nú að taka 68 þús. kr. tekjur til að greiða kostnaðinn við að framfleyta þessari margumtöluðu vísitölufjölskyldu, sem hæstv. fjmrh. miðar allar sínar hugleiðingar við. Hvar á meginþorri almennings, þ.e.a.s. verkamenn og bændur, að taka þessar tekjur, eftir að búið er að þjarma þannig að framleiðslunni, að eftirvinnan, sem menn hafa notað til þess að fá endana til að mætast, hverfur að miklu eða máske öllu leyti og atvinnuleysi kemur í staðinn? Ég bað hæstv. ráðh. þá að snúa sér að því að gera grein fyrir hag þeirra og heimilisreikningi þeirra, því að þessi vísitölureikningur er eins konar heimilisreikningur. Ég bað hann að snúa sér að því að athuga heimilisreikning þeirra, sem ættu að lifa á 4 þús. kr. á mánuði, sem er kaup verkamanns, sem hefur vinnu 8 stundir hvern einasta dag og aldrei verður lasinn og aldrei þarf að láta sig vanta í vinnu. Það mundi hafa miklu meira gildi, ef hæstv. ráðh. vildi snúa sér að þessu verkefni, en vera að þessu sífellda fimbulfambi um vísitölubúið og í því sambandi viðhafa þær hártoganir, sem eru hrein storkun við almenning í landinu.

Þessar hártoganir hæstv. ráðh. í sambandi við þessi mál eru hrein storkun við þá, sem horfa fram á þá alvöru, sem orðin er varðandi möguleika á því að sjá sér og sínum farborða. Þær eru hrein storkun í þeirra garð, þessar hártoganir ráðh. Honum væri nær, í stað þess að halda þessum storkunum áfram, að snúa sér að því verkefni að gera grein fyrir búskap þeirra bænda og verkamanna, sem ætlað er að framfleyta sér og sínum fjölskyldum á þeim tekjum, sem ég hef margnefnt, reyna að reikna út eða láta sína menn reikna út, hvernig þetta geti staðizt, hvaða glóra sé í þessu. Og ef hæstv. ráðh. sýndi einhverja alvarlega víðleitni í þessu, býst ég við, að hann mundi fara að verða áhyggjufullur út af því, hvernig þetta fái í raun og veru staðizt, sem hann og aðrir hafa verið að matreiða.

En það er bara sagt, eins og ég minnti á hér í fyrradag, að þetta verði svo að vera, af því að það sé ekki hægt að borga meira. Og það segir ríkisstjórnin, sem hefur hækkað vextina á framleiðslunni þannig og það sumpart á afurðalánum, sem kosta bankana ekki neitt nema pappírinn, sem víxlarnir eru skrifaðir á, hækkað vextina þannig, að það mun í mörgum dæmum hafa aukið útgjöld framleiðslufyrirtækjanna sem svarar 20% af öllu kaupgjaldi þeirra. Hefur hæstv. fjmrh. engar áhyggjur af þessu? Heldur hann, að þetta geti staðizt? Sér ekki hæstv. ráðh., að þetta fær ekki með neinu móti staðizt? Og ef hæstv. ríkisstj. snýr ekki alveg við á þeirri braut, sem hún hefur gengið, og gerir ráðstafanir tafarlaust til þess t.d. að lækka vextina og afnema innflutningssöluskattinn og gerir aðrar ráðstafanir í framhaldi af því, sem kynnu að geta orðið til þess, að ekki yrðu almennar kauphækkanir í landinu, þá hljóta þessar ráðstafanir, sem hún hefur verið að gera, að verða til þess, að hér rís í landinu enn frekari hækkunaralda. Það er óhugsandi annað.

Það eru mikil vonbrigði, að þegar málin eru rædd og bent er á þessar staðreyndir, þá skuli hæstv. fjmrh. ekkert hafa fram að bera annað en fullyrðingar um, að það sé allt í lagi, þetta stafi bara allt af því, að togararnir hafi fiskað illa núna í nokkra mánuði. Það er það eina, sem fjmrh. landsins hefur að segja um þessi mál og um þetta útlit.