16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

134. mál, efnahagsmál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil aðeins leiða athygli að því, eins og ég hef gert að nokkru leyti áður, að þær skýringar, sem hæstv. sjútvmrh. reynir að hafa hér í frammi til þess að réttlæta þann stórkostlega misreikning, sem upp hefur komið í sambandi við útflutningssjóð, hans skýringar fá ekki staðizt með neinum hætti, og ég álít, að hann sé að reyna að koma hér sök á stjórn útflutningssjóðs á mjög óréttilegan hátt. Ég hef veitt því athygli, að hæstv. sjútvmrh. hefur sagt hér hvað eftir annað, að skuld útflutningssjóðs, sem tilgreind var í grg. með gengislækkunarfrv., 270 millj. kr., hafi verið gefin upp í nóvembermánuði 1959, og segir, að hún hafi verið gefin upp af stjórn útflutningssjóðs. En hann sagði einnig, að það hefði komið í ljós í framkvæmdinni, að sú tala hafi reynzt rétt. En hvað segir í grg. fyrir gengislækkunarfrv.? Þar segir: „Ekki er hægt að segja um það með vissu, hversu miklar þessar skuldbindingar eru á hverjum tíma“ — skuldbindingar sjóðsins. „Samkvæmt áætlun sjóðsstjórnarinnar námu þær um 270 millj. kr. í árslok 1959“ — í árslok, en ekki nóvembermánuði. Þetta stendur í grg. fyrir frv. Þetta voru þær upplýsingar, sem stjórn útflutningssjóðs gaf, að skuldirnar mundu vera 270 millj. kr. í árslok 1959, og hæstv. ráðherra hefur hér staðfest, að þessar upplýsingar reyndust vera réttar. En hvar liggur skekkjan? Skekkjan liggur í því, að áfram sagði í grg, frv., að svo mundi sjóðurinn fá tekjur af gengisbreytingunni vegna óútfluttra vara, sem voru framleiddar fyrir gengisbreytinguna, sem sagt af birgðunum. Reiknað var út og sagt frá í grg. frv., að þessi gengishagnaður mundi nema 150 millj. kr. Ætlar nú hæstv. sjútvmrh. að reyna að halda því fram, að það hafi verið stjórn útflutningssjóðs, sem hafi reiknað það út á þessum tíma, hvað gengishagnaðurinn yrði mikill í sambandi við gengislækkunina af birgðum þeim, sem lágu fyrir í landinu? Nei, það vita allir, að það gat enginn reiknað út þennan gengismun nema þeir, sem voru að bollaleggja um breytingar á genginu. Þetta voru útreikningar ríkisstj. og hennar ráðunauta. Og það er þar, sem skekkjan liggur, eftir því sem hann segir nú sjálfur. Þetta voru ekki útreikningar stjórnar útflutningssjóðs. En birgðirnar lágu fyrir. Það vissu allir menn, hverjar birgðirnar voru. Fiskifélagið gaf upp birgðirnar, og það lá algerlega fyrir, hverjar þær voru, og þetta var einfalt reikningsdæmi. Þeir, sem vissu, hver skráningin á genginu átti að verða, og þeir, sem vissu, hverjar birgðirnar voru, það voru þeir, sem reiknuðu þetta út, að gengishagnaðurinn yrði 150 millj. og þá yrði a.m.k. um skuldahala að ræða hjá útflutningssjóði upp á 120 millj., og lögðu til að leggja á sérstakan útflutningsskatt, 5%, sem ætti að standa í 1–2 ár. Þetta, sem ég bendi nú á, sannar það, að þeir misreikningar, sem hér er um að ræða, voru gerðir af ríkisstj. og hennar ráðunautum í efnahagsmálunum, þeim sem undirbjuggu viðreisnarlöggjöfina. Það voru þeir, sem þurftu á því að halda, þegar var verið að samþykkja gengislögin, að sanna það fyrir hv. alþingismönnum og þjóðinni allri, að það væri skuldahali hjá útflutningssjóði upp á 120 millj. a.m.k. Þeir þurftu að sanna það, og þeir sönnuðu það strax í grg. fyrir frv. með því að fullyrða þetta, þó að þeir hefðu birgðirnar liggjandi í landinu og vissu, hver gengisskráningin átti að verða.

Það hefur sem sagt sannast þarna, að þessir aðilar fullyrtu það í tölum í grg., sem fær ekki staðizt. Og það voru þessir sömu aðilar, sem síðan hafa verið að gefa upplýsingar um það, að útkoman á útflutningssjóði væri ýmist 40 millj. eða nú seinast 88 millj.

Það er miklu eðlilegra, að hæstv. ráðherra hætti þessum skýringum sínum, því að þær fá ekki staðizt. Það sjá allir menn, að þær eru ekki réttar, og auðvitað, eins og fyrri daginn, berast böndin að sérfræðingum ríkisstj. og henni sjálfri í sambandi við það, sem hún hefur fullyrt varðandi viðreisnarlöggjöfina sem heild.

Ég hafði hugsað mér að segja hér ýmislegt fleira í sambandi við það, sem hefur hér fram komið. En umræður hafa dregizt svo, að ég ætla að hætta við það og aðeins segja að lokum nokkur orð í sambandi við þau orð, sem féllu hér hjá hæstv. sjútvmrh, viðvíkjandi þeim umræðum, sem hér hafa farið fram um veltuinnlán og sparlinnlán, eða sparifjáraukninguna, sem oft er nefnd. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðherra sagði: Veltuinnlán og sparlinnlán eru sitt hvað, og má ekki blanda þeim saman. Ég hef bent á það áður hér í umræðum, og vil benda þessum hæstv. ráðherra á það, að Fjármálatíðindi Seðlabankans, hið mjög merkilega og uppfræðandi rit um fjármál, þar sem einn af uppáhaldshagfræðingum og ráðunautum ríkisstj. stjórnar því, sem þar er sett á þrykk, hafa nokkrum sinnum birt í töflu sparifjáraukninguna og veltulánaaukninguna og birt þetta í línuritum og lagt svo allt saman út í eina mynd á eftir og sagt, að heildarinnlánin væru svona mikil. Þeir hafa, þeir vísu menn þar, séð mögulegt að leggja saman veltuinnlán og spariinnlán og talað um heildarinnlán. Þetta hafa þeir gert, þótt hæstv. ráðherra segi, að þessu megi ekki blanda saman: En svona eru fundin heildarinnlánin, sem eru þá vitanlega líka um heildarsparnaðinn eða það, sem lagt er fyrir af fé á viðkomandi tímabili, því að þetta hvort tveggja er mjög skylt hvort öðru, og verður ekki auðveldlega annað tekið út úr. — Ég vildi aðeins benda hæstv. ráðherra á það, að hann getur séð útreikninga frá einum af aðalhagfræðingum ríkisstj. í þessum efnum og séð, hvernig hann leggur þessar tölur saman og hann blandar þeim saman.