19.12.1960
Efri deild: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

134. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það var aldrei meining ríkisstj., að þeir vextir, sem ákveðnir voru í sambandi við setningu l. um efnahagsráðstafanir, yrðu varanlegir, heldur voru þeir settir fyrst og fremst til þess að reyna að tryggja það, að ásókn í lánsfé til fjárfestingar yrði minni en áður hafði verið og að þessum vöxtum yrði haldið í þessu horfi, þangað til nokkurn veginn væri náð því jafnvægi, sem sótzt var eftir. Þó hefur því verið lýst yfir á opinberum vettvangi nú, að ríkisstj. hefði til athugunar tillögur um lækkun vaxtanna og þá e.t.v. í áföngum. Um þetta er ekki tekin nein ákvörðun enn þá, en vitaskuld verður þessum vöxtum ekki haldíð í því horfi, sem þeir nú eru, lengur en álitið er stranglega nauðsynlegt.

Ég fyrir mitt leyti skal ekki segja um það á þessari stundu, hversu mikið verður unnt að lækka vextina, en ég teldi það afar óheppilegt, ef því yrði slegið föstu með lögum, hvað vextir eigi að vera háir. Vaxtaákvörðunin er í höndum Seðlabankans og var það a.m.k. að forminu til, og þó að hún hafi verið tekin í samráði við ríkisstj., þá var ákvörðunin Seðlabankans á sínum tíma, og ég tel ekki óeðlilegt, að hún verði það áfram, en Alþingi grípi ekki fram fyrir hendur bankans og ákveði vextina, því að það getur líka verkað í öfuga átt við það, sem ég veit að hv. þm. stefnir að, að fá vextina færða niður í það horf, sem þeir voru, áður en breytingin átti sér stað. Ég skal þess vegna í einni setningu segja sem mitt álit um till., að ég tel það vel geta komið til mála, að vextirnir verði færðir í það horf, sem till. fer fram á. En þetta mál er til athugunar hjá ríkisstj., það hefur engin ákvörðun verið tekin, og ég tel það ekki æskilegt, að vextirnir verði bundnir með lögum nú.