02.12.1960
Efri deild: 31. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

85. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eftir að þetta mál var hér til 2. umr. í þessari hv. d., hefur heilbr.- og félmn. haldið um það tvo fundi að beiðni hv. 9. þm. Reykv.

Eins og þdm. væntanlega muna, benti hv. 4. þm. Vestf. á það við 2. umr., að hann teldi óeðlilegt og óæskilegt, að einungis 4 menn ættu sæti í stjórn bjargráðasjóðs eða í bjargráðastjórn, eins og hún er kölluð í frv. Út af þessu mun það hafa verið, að hv. 9. þm. Reykv. fór þess á leit, að nefndin athugaði málið betur, og sú athugun hefur nú farið fram, eins og ég sagði áðan, á tveim fundum nú milli umræðna. Á þessum fundum komu fram að segja má báðar þær brtt., sem hér hafa komið fram, bæði brtt. á þskj. 160 og sömuleiðis hin skriflega brtt., sem þeir flytja, hv. 9. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. e., en báðar tillögurnar voru felldar í n., þannig að n. sem heild sá ekki ástæðu til að koma með brtt. við frv. Aðalrökin fyrir þessum brtt. hjá flm. þeirra skilst mér séu þau, að þeir telja ekki við hæfi, að fjórir menn eigi sæti í bjargráðastjórn, og hv. 4. þm. Vestf. sagði hér áðan, þegar hann mælti fyrir sinni till., að hann áliti, að það væri hrein undantekning eða jafnvel einsdæmi, að stjórnendur stofnunar væru 4, eða þannig, að þar væri ekki oddatala. Í mínum augum eru þetta engin rök. Eins og ég benti á við 2. umr. málsins, veldur það engum erfiðleikum né vandræðum á neinn hátt, þó að tala stjórnenda standi á jafnri tölu. Ég vil benda á það sem dæmi í þessu efni, að flm. beggja þessara brtt. voru á sínum tíma fyllilega samþykkir því, ef ég man rétt, að bankaráð Landsbankans og Útvegsbankans skyldu skipuð fjórum mönnum, og ég minnist þess ekki, að þeir kæmu þá fram með neina tillögu í þá átt, að forseti Alþýðusambandsins eða einhver annar skyldi eiga sæti í þessum bankaráðum, til þess að tala bankaráðsmanna skyldi standa á stöku. Því verður þó vart neitað, að báðir þessir bankar eru mikilsverðari fyrir þjóðarbúskapinn en bjargráðasjóður og skal ég þó engan veginn gera lítið úr þýðingu hans.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að ég hef átt tal við ráðuneytisstjóra félmrn., sem jafnframt er nú formaður stjórnar bjargráðasjóðs, um þessi mál og um þessar tillögur, sem fram komu í heilbr.- og félmn. og nú eru komnar fram hér í hv. d. Hann staðhæfði, að stjórn sjóðsins mundi vera andvíg því, að aðrir og fleiri ættu sæti í bjargráðastjórn en frv. gerir ráð fyrir, en þetta atriði hefur verið þrautrætt innan sjóðsstjórnarinnar. Afstaða mín í málinu miðast að vísu ekki við afstöðu þessara ágætu manna, heldur af hinu, að ég sé engin rök fyrir því, að ástæða sé til að breyta þarna um frá því, sem frv. ráðgerir.

Hv. 4. þm. Vestf. benti á það sem önnur rök fyrir sínu máli, að það væri ekki heppilegt eða æskilegt, að formaður stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem jafnframt væri nú framkvæmdastjóri bjargráðasjóðs, skyldi eiga sæti í bjargráðastjórn. Hann benti á það, að sú skylda hvíldi á framkvæmdastjóranum að sjá um fjárreiður sjóðsins og gera upp reikninga hans og því væri ekki æskilegt, að hann ætti sæti í bjargráðastjórninni. Út af þessu vil ég einungis benda á það, að ég sé ekki, að þetta geti skipt nokkru máli, enda er svo fyrir mælt í 5. gr. frv., að ársreikningar sjóðsins skuli endurskoðaðir af endurskoðunardeild fjmrn. og endurskoðendum ríkisreikninganna ár hvert. Ég býst við því, að þetta mundi hver sem er telja fullnægjandi tryggingu fyrir því, að ekki yrði misfarið með fjármuni sjóðsins.

Sami hv. þm. benti réttilega á, að það væri sjálfsagt og eðlilegt að taka tillit til sambands sveitarfélaganna í skipun bjargráðastjórnar. Ég er honum alveg sammála um þetta, enda gerir frv. ráð fyrir, að svo skuli gert. Nýmælið í frv. er það, að í bjargráðasjóðsstjórn skuli einmitt eiga sæti formaður sambands sveitarfélaganna, og með þeim hætti fær sambandið áhrif á meðferð þeirra mála, sem þar eiga heima og þar er um fjallað.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, enda að vísu ekki stórvægilegt mál. En af þeim ástæðum, sem ég hef nú rakið, mun ég greiða atkv. gegn báðum þessum brtt., sem fram hafa komið.