02.12.1960
Efri deild: 31. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

85. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. frsm. n. Hann andmælti þeirri brtt., sem ég flyt við þetta frv. Hann taldi það ekki vera nein rök gegn ákvæði frv. um fjögurra manna stjórn, að það væri jöfn tala, en ekki oddatala, og hann taldi sig geta hrakið þetta með því, að ég og fleiri þm. hefðum greitt atkv. með því að kjósa í bankaráð Landsbankans og bankaráð Útvegsbankans 4 menn. En hann hljóp bara yfir það, að ríkisstjórnin skipar fimmta manninn í bæði bankaráðin, svo að það eiga 5 menn sæti í hvoru bankaráði. Ég held, að ég þurfi varla að hrekja þetta með gleggra dæmi. Þetta var eina dæmið, sem hann gat nefnt um stjórn opinberra stofnana sem fyrirmynd að þessu ákvæði í frv., og þar tókst nú ekki betur til.

Hann talaði um, að ég hefði fundið að því, að eins og sakir stæðu, þá væri framkvæmdastjóri bjargráðasjóðs nú formaður stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og að ég hafi ekki talið það viðeigandi, þar sem hann þyrfti að halda reikninga og gera upp reikninga sjóðsins. Ég nefndi ekkert reikninga þessa sjóðs, ekki einu einasta orði. Ég sagði, að framkvæmdastjóri hverrar stofnunar sem er á að gera stjórn stofnunarinnar reikningsskap á gerðum sínum, á verkum sínum sem framkvæmdastjóri. Og þannig er það alls staðar, ekki aðeins í opinberum stofnunum. heldur einnig í einkafyrirtækjum. Það er því óeðlilegt, að sami maður sé jafnframt stjórnandi og meðdómari um sín eigin verk. Þessu held ég fram. Það er að vísu svo, að jafnvel samkv. minni till. er það ekki útilokað, að formaður stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga kæmi í stjórn bjargráðasjóðs. En þar með er ekki sagt, að hann yrði áfram þá framkvæmdastjóri sjóðsins. En hér er ætlazt til, að þessi formaður, sem nú er framkvæmdastjóri sjóðsins, verði einnig meðstjórnandi.

Af því að hv. frsm. er kominn inn í þd. aftur, vil ég endurtaka það, sem ég var að segja, að það er rangt hjá honum, að bankaráð Landsbankans og bankaráð Útvegsbankans séu skipuð fjórum mönnum. Ég býst við, að hann misminni þetta. Það hlýtur að vera svo. Það er rétt, að kosnir eru af Alþingi aðeins 4, en það er einn stjórnskipaður í bæði bankaráðin, og það eru 5 í hvoru bankaráði — oddatala í hvoru bankaráði.

Ég sé því ekki annað en það standi alveg óhaggað, sem ég sagði áðan, að það er óheppilegt, það er undantekning, ef það er ekki einsdæmi, að oddatala sé á stjórnendum opinberrar stofnunar. Þetta er aðalatriðið fyrir mér. Hann gat þess um daginn, við 2. umr. þessa máls, að það mundi ekkert ske annað en það, að ef atkv. féllu 2 á móti 2 í ágreiningsmáli í sjóðsstjórninni, þá væri það mál fallið eða sú tillaga, sem um væri að ræða. En það er einmitt það, að ef slíkur ágreiningur er fyrir hendi um eitthvert mál, þá getur slík stjórn aldrei samþykkt neina jákvæða tillögu í málinu, af því að þar er ekki oddatala, og það er ekki heldur neitt ákvæði um það, að formaður stjórnarinnar hafi frekari atkvæðisrétt en hver annar í stjórninni.

Ég endurtek það, að ég tel, að það sé aðalatriðið að bæta úr þessum ágalla. Það er rétt hjá hv, frsm., að þetta er ekkert stórmál. En það eru mistök að afgreiða frv. svona frá sér. Og þegar maður sér þessi mistök, áður en frv. er þó komið gegnum 3. umr., þá eigum við að leiðrétta þau.