09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara langt út í þessar umr., en ræða hv. 4. þm. Norðurl. v. (JPálm) gefur mér tilefni til þess að segja nokkur orð við afgreiðslu þessa máls.

Ég get tekið undir það, sem fram hefur komið hér, að nauðsyn ber til að hraða afgreiðslu ríkisreikningsins eins og auðið er. En það hlýtur að vera réttur skilningur, að því aðeins er um yfirskoðun að ræða af hendi trúnaðarmanna Alþ., að þá sé búin að fara fram sú endurskoðun, sem gert er ráð fyrir að fari fram af hendi ráðuneytisins, því að ef svo væri ekki, þá væri hér ekki heldur um yfirskoðun að ræða.

Það hefur komið fram í grg. frá yfirskoðunarmönnum nú, að endurskoðun af hálfu ráðuneytisins hafi ekki verið eins langt á veg komin að þessu sinni og venja er til, og í flestum tilfellum mun henni að mestu leyti hafa verið lokið, þegar þeir hafa tekið til við sín störf. Þrátt fyrir það, þótt svo væri, urðu þeir yfirskoðunarmenn við ósk hæstv. fjmrh. og hófu sína endurskoðun á ríkisreikningnum. Ég lít svo á, að þeir hafi með þessu brotið þann trúnað, sem hv. Alþ. hefur falið þeim. Endurskoðun þeirra á ekki að vera um það eitt að kreditera hæstv. fjmrh., hún á líka að vera eftirlit með því, að þeir, sem fara með hina umboðslegu endurskoðun, vinni sitt verk. Það er nokkur hætta á því, ef yfirendurskoðun fer fram, áður en því verki er lokið, að þá gæti það dregizt úr hömlu og jafnvel farið svo, að svo að árum skipti yrðu reikningar ýmissa minni háttar fyrirtækja ríkisins ekki endurskoðaðir. Það á að vera hlutverk yfirskoðunarmanna að gæta þess, að umboðsleg endurskoðun fari fram.

Eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. tók fram hér í umr. um daginn, þá er samþykkt ríkisreiknings á hv. Alþ. nánast kvittun Alþ. fyrir þeim störfum, sem trúnaðarmenn Alþingis, yfirskoðunarmennirnir, eru búnir að inna af hendi. Alþ. á að geta treyst þeim til þess að leggja ekki blessun sína yfir ríkisreikninginn, svo að farið sé fram á það við Alþ., að það samþ. hann, fyrr en lokið er þeim störfum, sem á að vera lokið, áður en yfirendurskoðun fer fram. Þetta á að vera ófrávíkjanlegt atriði, og ósk hæstv. fjmrh. þar að lútandi á ekki að ráða neinu um það. Hv. yfirskoðunarmenn hafa því algerlega brugðizt því verkefni, sem þeir áttu að leysa fyrir hönd Alþ., með að fara í endurskoðun, áður en undirbúningi var lokið. Um þetta verður ekki deilt, og verður engum til framdráttar, þó að þeir hafi trassað slíkt áður.

Annars var það nánast annað atriði í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., sem kom mér til þess að taka til máls, þó að þetta væri svo sem ærin ástæða til að tala um, því að það er ekki lítið atriði, þegar þeir, sem eru fulltrúar Alþingis gagnvart ríkisreikningnum og eiga að leggja hönd á verkið að síðustu, bregðast svo trúnaði þingsins eins og fram hefur verið tekið. En það var þrotabúið, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. var að tala um, og fleira skemmtilegt, sem fram kom í ræðu hv. þm. og ég mun víkja að síðar, sem gaf mér tilefni til að biðja um orðið.

Sá skilningur er almennur hér á Alþ. og alls staðar í þjóðfélagi voru, að þrotabú væri það, sem gæti ekki greitt sínar skuldir, ætti ekki eignir fyrir sínum skuldum og stæði með óreiðu hér og þar. En hver var óreiðan, sem ríkisstj. tók við í árslok 1958? Hún var þessi: 43.5 millj. í greiðsluafgang frá árinu 1958 voru til þess að ráðska með á árinu 1959, þegar búið var að greiða greiðsluhallann frá 1957. Þetta var þrotabúið, sem þessi hv. þm. var að tala um, — og þetta er maður, sem er yfirendurskoðandi ríkisreikningsins, sem heldur öðru eins og þessu fram, — þegar hæstv. ríkisstj. tekur við svo blómlegu búi, að hún nánast lifði á því, því að það var ekki þetta eitt, sem hún fékk í arf frá fyrrv. ríkisstj. til þess að ráðstafa á árinu 1959.

Svo var þessi hv. þm. að tala um, að það hefðu orðið litlar umframgreiðslur á árinu 1959, það hefði nú verið annað en áður hafi verið. Lítum á það.

Árið 1959 voru fjárlög afgreidd hér á hv. Alþ. í lok aprílmánaðar. Ríkisstj. tók við um áramótin og endurskoðaði því fjárlagafrv. á fyrstu fjórum mánuðum ársins, áður en það var afgreitt. Hún fór frá 20. nóv. Er að undra, þó að hún á þessu tímabili eyddi ekki miklu umfram fjárlög, þegar hún fékk fjárlögin afgreidd, þegar fjórir mánuðir voru liðnir af árinu, og sat nánast í sjö mánuði eftir það? Við þetta er svo því að bæta, að hér er 40. aths. endurskoðenda ríkisreikningsins, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eignahreyfingar samkv. 20, gr. hafa farið langt fram úr fjárlögum. Samkv. fjárlögum er gert ráð fyrir 85.8 millj. útgjöldum, en þær námu samkv. ríkisreikningi 238.9 millj.“

Hér fannst samt hv. yfirskoðunarmönnum, að þeir þyrftu að gera aths. við, þrátt fyrir það lof, sem hv. þm. sá ástæðu til að bera á hæstv. fyrrv. ríkisstj. fyrir, að ekki hefðu verið neinar umframgreiðslur.

Svo kom hv. þm. að því, sem var það skemmtilegasta í ræðu hv. þm., og það var tal hans um tvöfaldan ríkissjóð. Ég verð að segja það, og það er víst alkunna, að ég hef aldrei gert mikið stáss með núv. hæstv. ríkisstj., enda ekki séð ástæðu til þess, að þar væri neitt til að stássa með. Ég hef hins vegar aldrei ætlað henni verri hlut en fram hefur komið. Mér var það ljóst, þegar hæstv. ríkisstj. sendi Alþ. heim á haustmánuðum 1959, að hún var þá að undirbúa viðreisnina og var með því að senda þm. heim að koma í veg fyrir, að hennar eigin stuðningsmenn yrðu viðstaddir, þegar málið væri undirbúið, svo að þeir ættu ekki kost á því að fylgjast með undirbúningnum og á þann hátt að komast inn í málið. Var öllum ljóst, að þetta var höfuðtilgangur hæstv. ríkisstj., en ekki það að losna við stjórnarandstöðuna. Það þurfti að leyna málinu fyrir stjórnarstuðningsmönnunum, svo að þeir væru ekki til kvaddir, fyrr en málið væri fullundirbúið, og yrðu að gera það upp við sig að fylgja annaðhvort ríkisstj. sinni eða ekki. En hitt hafði mig aldrei grunað, að hæstv. ríkisstj. kæmi þannig fram við sína stuðningsmenn, að hún sendi þeim ekki einu sinni „hvítu bókina“, Viðreisn, — ég taldi alveg víst, að hún hefði ekki haft þá þar útundan, þeir hlytu að hafa fengið bókina heim á sín heimili eins og við hinir. En ég heyrði á ræðu þessa hv. þm., að hann hefur a.m.k. ekki lesið bókina, ef hann hefur fengið hana, því að á bls. 31, neðst, stendur þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Hrein útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna afnáms útflutningssjóðs nemur því 113 millj. kr.“ Þetta er að vísu búið að segja oft og mörgum sinnum hér á hv. Alþ. En svo kemur hv. 4. þm. Norðurl. v., yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna, og segir: Áður fyrr voru ríkisreikningarnir tveir og útgjöld ríkisins hafa því lækkað um nærri 900 millj. kr., vegna þess að útflutningssjóður var felldur niður. — En í „hvítu bókinni“ stendur: Aðeins 113 millj. af hækkun ríkisgjaldanna 1960 voru vegna þess, að útflutningssjóður var niður lagður. — Annað var það ekki og ekki meira. Hver á svo að trúa því, að þegar yfirfærslugjaldið var hækkað með gengisbreyt. úr 55% í 132%, þá sé minna á þjóðina lagt? Öðrum tollum og sköttum var haldið, sumir nýir á lagðir, og þeir hækkuðu vegna þess, að þeir voru teknir af hærri stofni. Samt getur þessi hv, þm. komið hér á Alþ. og sagt, að raunverulega hafi ríkisútgjöldin lækkað um 900 millj.

Ég verð að segja það, að þegar þannig er á máli haldið og það af manni, sem jafnhliða segir frá því, að hann hafi endurskoðað ríkisreikninginn yfir 20 ár, þá verður manni að hugsa: Ja, endurskoðunin, guð hjálpi mér. — En það var aðeins eitt, sem var þess vert í ræðu þessa hv. þm., að því væri á lofti haldið, — því að þetta er nánast til gamans, að halda því fram, að ríkisútgjöldin hafi lækkað um 900 millj., — það var þetta, sem hv. þm. sagði um sjóði landbúnaðarins. Hann sagði það í sambandi við ríkisábyrgðirnar, sem ég ætla ekki að fara að ræða hér nú, því að þær koma sennilega til umr. hér í hv. deild síðar, að það væri ekki nema eðlilegt, að ríkissjóður tæki að sér greiðslu á ábyrgðum vegna sjóða Búnaðarbankans. Um þetta höfum við framsóknarmenn lagt fram frv. í hv. Ed. Það mætti mikill mótspyrnu. Og það er gleðilegt, ef á stjórnarheimilinu er að verða skilningur á réttmæti þessa. Það var það eina, sem kom fram í ræðu þessa hv. þm., sem merkilegt gat talizt.

Um þetta mál eða ræðu hæstv. fjmrh. ætla ég ekki að segja neitt frekar að sinni, enda hafa því máli svo góð skil verið gerð. En mér finnst, að hv. 4. þm. Norðurl. v. þurfi að átta sig betur á ýmsum hlutum, áður en hann heldur slíka ræðu sem hann flutti hér fyrir nokkrum dögum.