09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 5. þm. Reykv., hæstv. forseta okkar, Jóhanns Hafsteins, vil ég segja þetta: Það, sem stendur í bæklingnum, er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrri kosningarnar í sumar marka lokaþátt stjórnmálatímabils í sögu þjóðarinnar, sem margir munu telja, að hefjist með valdatöku Framsfl. fyrir um það bil 30 árum.“

Það var engin stjórnarskrárbreyting, sem átti sér stað með valdatöku Framsfl. 1927: Hitt get ég vel skilið, að góður og gegn maður, eins og hæstv. forseti okkar, vilji gjarnan eiga sinn hlut í þessu tímabili og vilji því leggja á það annan dóm en sumir hans flokksmenn hafa gert og vilji þess vegna ekki eigna Framsfl. það einum, enda hafa þeir sjálfstæðismenn stundum tekið þátt í framförum í samstjórn við Framsfl.

Út af flutningi fjár til Seðlabankans, þá er mér ekki kunnugt um, hvað mikið það sé. Hins vegar veit ég, að úr minni heimabyggð hefur nokkur fjárhæð farið, svo að hundruðum þúsunda skiptir og kannske milljón, og er það allveruleg fjárhæð fyrir ekki stærri byggð en þar er. Varðandi það, sem komið hefur frá innlánsdeildunum, — ef það hefur ekkert komið, þá er það af þeirri einföldu ástæðu, að þangað hefur ekkert nýtt fé komið, og er það ekki nema eðlilegt vegna þeirrar samdráttarstefnu, sem hér hefur verið ríkjandi.

Út af ræðu hv. 1. þm. Vestf. vil ég segja þetta: Hann segir: Hv. Alþ. var sent heim af því, að stjórnarandstæðingar báðu um orðið og töluðu hér á hv. Alþ. Er það frambærileg rök, að hæstv. ríkisstj. geti sent Alþ. heim, af því að þm. tala um mál á Alþingi? Ég segi nei. Og ég veit ekki, hvort það er sérstök ástæða fyrir þennan hv. þm. að vera að ræða það, að þm. tali hér á hv. Alþ. Áður en ég kom hér á hv. Alþingi, var ég búinn að heyra af honum langar sögur um það, hvað hann tæki hér mikinn þátt í umr., og ég verð að segja það, að ég taldi honum það ekki til lasts. Hann var kjörinn á þing til þess að taka þátt í þingstörfum, í umræðum einnig. Og það erum við hv. þm. Það eru ekki frambærileg rök, að alþingismennirnir séu sendir heim, af því að þeir taki til máls. Hitt veit hæstv. ríkisstj., að hún framkallaði hér umr. á Alþ. í fyrrahaust; vegna þess að hún frestaði þingstörfum. Þá framkallaði hún umr. út af frestuninni sjálfri. Nei, sannleikur málsins er sá, sem ég skýrði frá, að hæstv. ríkisstj. kærði sig ekki um að hafa sitt þinglið við, þegar hún var að undirbúa viðreisnina. Og því verður ekki mótmælt með þeim rökum, að ríkisstj. sendi þing heim, af því að þm. tali. Það er ekki í hennar verkahring, eða hennar vald nær ekki til þeirra hluta.

Þá var hv. þm. að tala um það, að Framsóknarflokksmenn hafi farið úr ríkisstjórnum, sem þeir hafa setið í. Er það nú nokkuð sérstakt, þó að upp úr slitni hjá stjórnarflokkum, sem standa að ríkisstj.? Það er ekkert eilífðartryggðarband, sem bundið er með myndun ríkisstj.? Það er samningur um að reyna að koma áfram málum um tiltekinn tíma, og samstarf er, meðan hægt er að koma þeim málum áfram, sem stjórnarflokkar geta sameiginlega unnið að. Þegar sá tími er liðinn, að ríkisstj. geti staðið saman að þeim málum, sem hún ætlar sér að koma fram, þá er ekkert annað að gera en hætta samstarfinu, því að þá er stjórnin ekki starfhæf lengur. Það er þetta, sem hefur gerzt og annað ekki. Og þetta er bezta sönnunin fyrir því, að Framsfl. hefur aðeins verið í ríkisstj. til þess- eins að koma áfram þeim málum, sem þjóðinni mættu að gagni verða, en ekki setið þar stundinni lengur.