13.02.1961
Neðri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Jón Pálmason:

Herra forseti. Út af þessari aths. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. vil ég ítreka það, sem ég tók fram hér í ræðu minni um daginn, að það hefur aldrei á undanförnum árum verið lokið endurskoðun á öllum reikningum ríkisstofnana og starfsgreina, enda þótt reikningarnir hafi verið afgreiddir. Ef hægt er að ásaka okkur yfirskoðunarmenn varðandi þetta átriði, sem kann vel að vera rétt, þá er það fyrir það að hafa ekki alltaf gert athugasemdir á hverju ári um þetta atriði. Sannleikurinn er sá, að á tímabili var endurskoðunardeild stjórnarráðsins enn lengra á eftir en hún er nú, þegar ríkisreikningar voru afgreiddir, enda þótt þeir væru svo gamlir sem upplýst hefur verið og sérstaklega greinilega fram tekið af hæstv. fjmrh. Hér er þess vegna ekki um neitt nýtt atriði að ræða, heldur er bara stigsmunur á því, hve langt endurskoðunardeildin er á eftir, og náttúrlega er það rétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að endurskoðunardeildin á að vera búin og þyrfti að vera búin, áður en reikningurinn kemur til afgreiðslu. En þetta hefur nú gengið svona, ekki einasta í okkar tíð, þessara yfirskoðunarmanna, sem nú eru, heldur og töluvert oft áður, að þessi endurskoðun er ekki búin. Og það er náttúrlega í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að hún eigi erfiðara með að ljúka sínu starfi, eftir því sem það vex, því að þetta hefur vaxið óstjórnlega á síðustu árum frá því, sem áður var.

Nú hefur hæstv. fjmrh. lýst því hér yfir, að hann hafi lagt svo fyrir, að það yrði farið að breyta til og endurskoða jafnóðum, og þá má vænta þess, að þetta færist í betra horf. En hitt verður að athuga, að það er rétt, sem aðalendurskoðandi ríkisins tekur fram í sinni skýrslu, að það er að nokkru leyti annað svið, sem endurskoðunardeildin hefur með að gera, heldur en við yfirskoðunarmenn, því að okkar aðalstarf er að rannsaka það, hvað farið hefur verið fram úr fjárlögum og að hve miklu leyti er fylgt lögum o.s.frv., auk þess sem við berum ævinlega saman spjaldskrána við reikninginn, til þess að það sýni sig, að það standi heima. Og eins og ég hef oft áður sagt, þá hefur óstjórnin í okkar fjármálum legið miklu meira í því um langa tíð, að það er ekki rétt á spilunum haldið, heldur en í því, að það væru ekki rétt færðir reikningar ríkisins, því að það er kunnugt mál, að aðalreikningshaldarinn, ríkisbókarinn Magnús Björnsson, er ákaflega vel fær í sínu starfi og fylgist með öllu eins og honum er mögulegt.

Út af þessu skal ég svo ekki fara fleiri orðum, nema frekara tilefni gefist til, en það er alveg viðurkennt frá minni hálfu, að ef um einhverjar sakir er þarna að tala, þá felast þær í því, að við höfum ekki á hverju ári gert athugasemdir um þetta mál.