28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú leyfa mér að bjóða hæstv. forseta velkominn aftur í forsetasætið úr utanlandsferð sinni.

Það er nú gömul saga að ræða um ríkisreikningana á hverju ári, eins og það er einnig gömul saga, að flest af því, sem sagt er um það mál, hefur raunverulega ekkert gildi, því þó að haldið sé uppi gagnrýni á ýmislegt, sem skeð hefur, þá er sú gagnrýni lítils virði, þegar hv. alþm. samþykkja athugasemdalaust reikningana ár eftir ár. Það er því raunverulega heldur leiðinlegt verk að ræða um jafnalvarlegt atriði og það m.a., sem hér hefur skeð, að hæstv. þáv. fjmrh. hefur leyft sér að greiða 20% af útgjöldum ríkisins án þess að hafa nokkra heimild til þess, eins og sést á ríkisreikningnum. Það eru tæpar 160 millj., sem eru greiddar hér utan fjárlaga, en fjárl. hafa ákveðið, að greiða mætti 807 millj. kr. Það sýnir náttúrlega gersamlegt ábyrgðarleysi hjá þeim hæstv. ráðh., sem hefur farið með þessi mál, að leyfa sér slíka hluti, og er raunverulega alveg óskiljanlegt, að hæstv. Ed. skuli hafa látið fara frá sér reikninginn athugasemdalaust og allir hv. þm. þeirrar hv. d. samþ. þetta gerræði, sem ég álít að hafi verið framið hér í sambandi við fjármál ríkisins.

Ég var að blaða í þessari miklu bók og sé, að endurskoðendur landsreikninganna hafa, eins og venja er til, gert allmargar athugasemdir við reikninginn. Þeir hafa fengið við þeim svör frá hæstv. ríkisstj. og síðan sett sínar aths. aftan við, þar sem stendur ýmist: „til eftirbreytni framvegis“, „til athugunar framvegis“ eða „til aðgerða Alþingis“, og þessar athugasemdir eru svo að segja við hvern lið ríkisreiknings þess, sem hér liggur fyrir til umr. Ég skal ekki fara hér út í hin einstöku atriði og engin af þeim, sem gerðar eru aths. við ,.til eftirbreytni framvegis“ og ,.við svo búið má standa“, en mér þykir rétt að segja hér nokkur orð um þá liði, þar sem sagt er: „til aðgerða Alþingis“. En það eru liðirnir nr. 17–22 í ríkisreikningnum og enn fremur liðirnir 48–51.

Ég vildi í þessu sambandi mega beina þeirri fyrirspurn til hv. fjhn., sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar, hvernig hún skilji þessar aths. endurskoðendanna. Skilur hún það svo, að það sé hennar skylda að taka þessi sérstöku atriði til athugunar og benda Alþ. á, hvort ástæða hafi verið til þess að vísa þessu til Alþingis, og þá hvort það sé ástæða til að gera einhverjar ráðstafanir í sambandi við þessa sérstöku liði? Eða telur hún sig ekki hafa skyldu til þess eða heimild til þess að glugga nokkuð meira í þessi mál? Mér hefur fundizt, að það væri algild regla hér á hæstv. Alþ., að deildir teldu sér ekki koma við þessi mál, þó að athugasemdunum væri vísað til hv. Alþ. Og ég sé það á nál, á þskj. 152 frá hv. fjhn. Ed., að þeirri ágætu nefnd finnst, að hún þurfi ekkert um þessi mál að hugsa: „Nefndin hefur athugað frv. og borið saman við ríkisreikninginn, og leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.“ M.ö.o.: hún sýnist leggja blessun sína yfir 154 millj. kr. greiðslu úr ríkissjóði, án þess að hæstv. ráðh. hafi haft til þess nokkra heimild.

Ég veit ekki satt að segja. hvað á að þýða að vera að leggja slíka reikninga fyrir Alþingi, láta fara fram um þá 6 umræður, tvær nefndir að athuga reikningana og skila svo frá sér slíku áliti eins og hér hefur verið gert, eftir að endurskoðendurnir hafa vísað ákveðnum mikilvægum atriðum til aðgerða Alþingis. Ég skal ekki ræða efnislega neina þessa liði við þessa umr. og bið eftir því að sjá, hvort hv. fjhn. þessarar hv. d. hyggst hafa sömu vinnubrögð um þetta mál og ég sé að hefur verið gert í hv. Ed., og komi þaðan álíka nál., þar sem engar athugasemdir eru gerðar, þá geymi ég mér að sjálfsögðu allan rétt til þess að ræða þessa liði efnislega. En ég vænti þess, — og það var þess vegna, sem ég tók til máls hér, — að hv. fjhn. þessarar hv. d. athugi alveg sérstaklega alla þessa liði, sem er vísað til aðgerða Alþingis, og leiðbeini okkur öðrum hv. þm., hvernig við eigum að greiða atkv, um þá liði sérstaklega. Nú sé ég, að hv. formaður n. er ekki hér inni, en mér er ljóst, að hæstv. forseti d. á sæti í n., og vænti því, að hann minnist á þetta mál, þegar frv. kemur til meðferðar í hv. fjhn.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða hina einstöku liði reikningsins. En hvað snertir það atriði, sem hér hefur verið rætt um, ríkisábyrgðirnar, þá get ég ekki verið sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að það sé einhver goðgá að minnast á þau mál. Það er orðinn óhugnanlega hár liður í ríkisrekstrinum að greiða vanskilaskuldir þeirra aðila, sem hafa ekki greitt samkv. samningum við ríkisstj. þær skuldir, sem hún hefur tekið ábyrgð á. Ég get ekki heldur verið sammála hv. 1. þm. Austf. um, að hér eigi að fara svo að segja takmarkalaust í ábyrgð fyrir ríkissjóðinn. Það er alveg rétt; sem hann tók fram um mikið af þeim framkvæmdum, sem hafa verið gerðar og hefðu ekki verið gerðar, ef ríkissjóðar hefði ekki veitt þessar ábyrgðir, að þeir, sem bær hafa fengið, hafa greitt inn til ríkissjóðsins eftir öðrum leiðum stórar fjárfúlgur, og það hefði ekki verið hægt að koma þessum verkum í framkvæmd, nema ríkið hefði aðstoðað þessa aðila sérstaklega, eins og hann benti á hvað snerti hafnirnar. En ég vil í sambandi við bað einnig benda á, að það hefur enginn hv. þm. átalið slíkt. Það er samkv. ákvæðum í lögum. að ríkissjóður skal skyldugur til þess að ábyrgjast hafnarframkvæmdir 60%. En það eru ýmsar aðrar framkvæmdir, sem ríkissjóður hefur tekið ábyrgð á og hafa verið miklu óheppilegri og miklu hættulegri. Ég er ekkert að ásaka hæstv. fyrrv. ríkisstj. eða hæstv. fyrrv. fjmrh.. þó að hann hafi gefið út sumar af þeim ábyrgðum, en ég vil benda á, eins og ég benti á á sínum tíma, þegar ég var hér áður á þingi, að það var aldrei neitt vit í, að ríkissjóður tæki að sér ábyrgð á 85–90% af nauðsynlegu framlagi í áhættusama atvinnugrein, sem hefði engan fjárhagslegan grundvöll, ef ekki var lagt fram nema 10–15% frá þeim aðilum, sem áttu að starfrækja og bera ábyrgð á fyrirtækjunum. Og ríkisstjórnin verður sannarlega að athuga nánar þá liði. þar sem svo langt er gengið í ábyrgðum af ríkissjóði þar sem vitað er, að aðilar, sem slík fríðindi öðlast, hafa sáralitla eða enga löngun til þess að standa við sínar skuldbindingar. Þegar þeir hafa getað fengið ábyrgð ríkissjóðs fyrir allt að 90% af kostnaði til framkvæmdarinnar, þá er búið að ganga svo langt í ríkisábyrgðum, að það er ekki neinn snefill af viti í að gefa slíkar ábyrgðir.

Ég skal láta þetta nægja í þetta sinn, — vil svo aðeins svara því til hv. 3. þm. Reykv. að mótmæla þeim fullyrðingum, sem hann hefur sagt um það, að hæstv. núv. ríkisstj. sé að skipuleggja atvinnuleysi í landinu, fjárhagslegt hrun. Það eru álíka órar og þegar hann er að ræða um Bandaríkin og hernámið og slík áhugamál, sem virðast hafa ruglað eitthvað hans ágæta heilabú, en þá getur hann jafnan ekki setið á sér að fara ekki út í margvíslegar öfgar, og ber þá fram margvíslegar fullyrðingar, sem ekki fá staðizt.