10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Mér er að sjálfsögðu ljúft að veita þær nánari upplýsingar, sem síðasti ræðumaður óskaði eftir. Þær umsagnir, sem lágu formlega fyrir n., eru umsögn Háskóla Íslands, undirrituð af rektor háskólans, og umsögn stúdentaráðs Háskóla Íslands, undirrituð af formanni þess, en stúdentaráð sendir í þessu sambandi ályktanir, sem almennur stúdentafundur gerði 14. febr. s.l. Þau álit, sem borizt hafa frá námsmönnum erlendis og hafa öli komið til n. án þess, að óskað væri eftir, af þeim augljósu ástæðum, að það er bæði tímafrekt að skrifa til útlanda eftir áliti um frumvörp og þyrfti þá að skrifa til æði margra staða, þessi álit eru: Í fyrsta lagi frá Félagi íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn, og þar er um að ræða samþykkt, sem gerð var á fundi með 32 shlj. atkv. laugardaginn 18. febr. Í öðru lagi frá Félagi íslenzkra stúdenta í Stokkhólmi. Það er ýtarlegt og langt skjal, þar sem þeir gera grein fyrir námskostnaði, færa rök fyrir því, að í þeim löndum, þar sem nám er dýrast, mundi það hafa þær afleiðingar fyrir námsmenn, ef þeir fengju enga styrki að heiman, að skuldasöfnun yrði þeim óbærilega mikil, því að þeir mundu í flestum tilfellum þurfa að taka lán til viðbótar þeim ríkislánum, sem reiknað var með í frv. óbreyttu. Í þriðja lagi umsögn frá formanni Félags íslenzkra háskólastúdenta í Frakklandi.

Þetta eru þær upplýsingar, sem formlega lágu fyrir n. Það er langt mál að lesa þetta allt, en efnislega eru umsagnirnar þannig, að stúdentar hér heima eru þeirrar skoðunar, ef dæma má eftir áliti stúdentafundar og ýmsum öðrum upplýsingum, að þeir hafa höfuðáhuga á námslánum, enda er þeirra hlutur í námsstyrkjum æði lítill. Hins vegar hafa stúdentar erlendis, sem notið hafa styrkjanna, áhuga á því að halda þeim áfram.

Þessar umsagnir eru þó ekki eina ástæðan fyrir því, að menntmn. komst að þeirri niðurstöðu, sem fyrir liggur. Þegar við 1. umr. málsins komu fram allsterk andmæli hér í þessari hv. d. gegn því, að styrkirnir yrðu felldir niður. Ég hygg, að það hefði ekki verið hægt að skapa samstöðu allra nm., sem eru úr öllum flokkum þingsins, um málið á annan hátt en þennan. Ég fyrir mitt leyti tel það mikils virði í máli sem þessu, að það fáist afgreitt með samkomulagi, en verði ekki knúið fram með deilum, ekki sízt þegar hæstv. menntmrh. við nánari athugun málsins og athugun á öllum þessum aðstæðum sá sér fært að fallast á þá skoðun, sem hér hefur orðið ofan á. Hann lét gera þá ýtarlegu athugun, sem fram kemur í fskj. með nái., og flutti síðan þá brtt., sem fyrir liggur.

Ég vænti þess, að þessar upplýsingar séu nægilegt svar við fyrirspurnum hv. síðasta ræðumanns.