23.01.1961
Neðri deild: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég er satt að segja ofurlítið undrandi á málflutningi hjá hæstv. viðskmrh. Mér er ekki alveg ljóst, hvort hann veit ekki, hvort honum er ekki sjálfum ljóst, að hann fer ekki að öllu leyti með rétt mál, eða hvort hann álítur, að hann sé að tala fyrir tíu ára gömul börn, því að það er svo augljóst, að ýmislegt af því, sem hæstv. ráðh. hefur haldið hér fram, er ekki rétt, að það ætti að vera auðvelt fyrir barnaskólabörn að gera sér það ljóst, ef þau aðeins athuga það.

Ráðh. talaði um, að greiðslubyrðin hefði verið, þegar núv. stjórn tók við, orðin svo mikil, að af gjaldeyristekjunum hefði hún tekið 11–12%. Þetta er rétt. Af útflutningi átti hún að taka samkv. útreikningum, sem fylgdu frv. um efnahagsmál, 15.8%, en af gjaldeyristekjunum kringum 12%. Þetta er rétt. En nú í fimm ár hefur þessi hæstv. ráðh. verið í ríkisstj., og mest af þessari gjaldeyrisbyrði hefur myndazt í hans stjórnartið. Og þegar Alþfl. fer einn með stjórn, hækka ríkisskuldirnar, föst lán, um 25%, og þar að auki versnar gjaldeyrisstaðan svo mikið, að þegar þeir taka við, er hún hagstæð um tæpar 50 millj. með gamla genginu, en óhagstæð um 190 millj., þegar núv. ríkisstj. tekur við í janúarlok, þannig að miðað við nýja gengið versnar gjaldeyrisstaðan í tíð jafnaðarmannastjórnarinnar um 300 millj., og þar að auki voru tekin föst lán tæpar 200 millj., þannig að þegar jafnaðarmannastjórnin tekur við, hefur aðstaðan verið þannig, að af útflutningsverðmæti hefur þurft um 12% til að standa undir greiðslubyrðinni, en af gjaldeyristekjum sennilega 9–10. En hvað er þetta nú? Jónas Haralz lýsti því yfir á fundi Landssambands íslenzkra útvegsmanna, að það þyrfti 20% af útflutningsverðmætum þjóðarinnar í vexti og afborganir af lánum. Sem sagt, á tveimur árum og tveimur mánuðum hefur aðstaðan út á við versnað svo mikið, að 40% af núv. skuldum, núv. greiðslubyrði hefur myndazt á þessum tveimur árum og tveimur mánuðum. Svo kemur þessi hæstv. ráðh. og segir, að lánstraustið hafi allt verið þrotið, þegar greiðslubyrðin var aðeins 10% af gjaldeyristekjunum, því þegar vinstri stjórnin fer frá, er hún ekki nema 10% af gjaldeyristekjunum, um 12% af útflutningsverðmætinu, þá var lánstraustið þrotið og ekki hægt að fá lán. Nú er þetta orðið 20% af útflutningsverðmætinu, um 16% af gjaldeyristekjunum. Þá á að vera hægt að fá nóg lán og allt í blóma. Þetta skil ég ekki. Þennan málflutning skil ég ekki.

Ég hef enga löngun til að halla á núv. stjórn eða gera lítið úr hennar verkum umfram það, sem efni standa til. En þetta er fáránlegt, því að aðstaðan út á við hefur aldrei versnað jafnmikið, miðað við tímalengd, eins og í tíð núv. stjórnar og jafnaðarmannastjórnarinnar, og skal ég þó játa, að það var miklum mun lakara 1959 á margan hátt. Það hefur aldrei verið jafnmikil verðþensla fyrr eða síðar eins og það ár samkv. yfirlýsingu bankanna sjálfra. Ég furða mig þess vegna á þessum málflutningi. Þegar það eru 12%, sem við þurfum að borga af útflutningsverðmætinu, á allt að vera ómögulegt, þegar það er orðið 20%, er allt í lagi, staðið við allt, allt í blóma.

Viðvíkjandi uppgjörinu fyrir árið 1960, þá furða ég mig dálítið á því, vegna þess að það er ómögulegt að dæma það endanlega, það er ekki komið endanlegt yfirlit yfir það. Ég var í hagstofunni í morgun, einmitt hjá þeim, sem reiknuðu þetta út, og þeir sögðu, að það væri gersamlega ómögulegt að segja endanlega um þetta. Það er þess vegna ekki tímabært að gera endanlega upp, hvernig það ár kemur út. Við getum talað um áhrif vaxtahækkunarinnar og áhrif af gengislækkuninni, en tölulega séð er ekki hægt að segja ákveðið um, hvernig árið kemur út. Hitt er rétt, að þeir vita á hagstofunni um innflutning skipa og flugvéla, og hann verður nálægt 500 millj. Það er rétt. Það er líka rétt hjá hæstv. viðskmrh., að skip hafa verið flutt inn fyrir miklu meira fjármagn en s.l. ár, og það má gjarnan taka tillit til þess í uppgjörinu. En hitt er líka rétt, sem haldið hefur verið hér fram, að það er hægt að gera fleiri framkvæmdir og hyggilegar framkvæmdir og festa fé í fleiru en skipum. Fyrir árið 1959 og árin þar á undan skiptast útflutningsverðmætin þannig, að það eru um 3/7, sem hagstofan telur að varið sé til fjárfestingar i landinu, i fjárfestingarvörur, en ekki nema um 2/7 eða rúmlega það í neyzluvörur, þannig að það hefur verið varið til fjárfestingar fyrr en á þessu ári. En það er ekki nema sanngjarnt að taka tillit til þess, að það voru flutt inn mörg skip. Hitt má aftur um deila, hvort það var nauðsynlegt. Það er ómögulegt að segja endanlega um innflutninginn í desember enn, og svo koma hinar óbeinu greiðslur út og inn, leigur fyrir skip og ýmislegt fleira og tekjur af fluggjöldum og ýmislegt fleira, þannig að það er ómögulegt, eins og sakir standa, að segja nákvæmlega um, hvernig útkoman verður árið 1960. En í nóvemberlok standa hlutirnir þannig, að mismunur á innflutningi og útflutningi er 448 millj. Síðari hluta ársins voru flutt inn skip fyrir um 320 millj., og þetta er talið í desember. Þess vegna verður desemberinnflutningurinn alltaf hár. Ef þetta er lagt saman og gert er ráð fyrir, að út- og innflutningurinn verði eitthvað svipaður, þegar skipin eru tekin frá, — ef þetta er lagt saman, þá gerir þetta 768 millj. En það, sem hæstv. viðskmrh. gleymir, eru bara engir smámunir. Hann gleymdi að taka tillit til þess, að hann tók krónurnar 1959 eftir genginu þá, en aftur upphæðirnar í ár eftir genginu nú. Auk þess tók hæstv. ráðh. ekkert tillit til þess, að það voru miklu meiri birgðir í árslok 1959 heldur en nú. Þá voru t.d. síldarafurðir til fyrir um 170–180 milljónir króna. Það voru 19.5 þús. tonn af lýsi og 12500 tonn af síldarmjöli. Þetta gerir milli 170 og 180 millj. kr. í útflutningi. Það er ekki tekið tillit til þessa. Nú er búið að selja svo að segja allar síldarafurðirnar. Þess vegna ber að draga þessar auknu birgðir frá greiðsluhallanum 1959, en ber í raun og veru að leggja það við greiðsluhallann í ár til þess að fá eðlilegan samanburð á milli áranna, — fyrir utan það, að það er engin fyrirmynd að bera saman við árið 1959, því að það er lakasta árið. Miðað við nóvemberlok 1960 er útkoman því þannig: greiðsluhalli 448 millj. + skip 320 millj. + birgðir 170 millj.= 938 millj.

Ef við tökum árið 1959, hefur heildarinnflutningurinn verið samkv. núv. gengi 3379 millj. og útflutningurinn 2468. Þá er munurinn 911 millj. 1959, og ef við drögum frá þessum 911 millj. 170 millj. í birgðum síldarafurða, þá er eftir 741 millj. Ég sé því alls ekki, að viðskiptajöfnuðurinn verði hagstæðari 1960 en 1959. En ég tek það fram, að ég fullyrði ekki um þessa tölu, vegna þess að það eru ekki endanlegar niðurstöður komnar hjá hagstofunni. Hitt er annað mál, að það má vel vera, að greiðslujöfnuðurinn verði eitthvað hagstæðari, vegna þess að það er miklu, miklu minna af birgðum til í landinu nú en 1959. Auk þess má vel vera, að tekjur af skipum og öðru slíku verði meiri í ár en í fyrra. En endanlegan dóm er ekki hægt að leggja á þetta.

Það er ekkert, sem bendir til þess, að nokkur hlutur hafi skeð 1960, þannig að útkoman sé ánægjuleg, og það er alveg ljóst, að skuldir út á við hafa stóraukizt. Það hafa verið tekin lán, sennilega allt að 400 millj., fyrir skip, og auk þess hafa yfirdráttarheimildir ytra stórhækkað hjá Seðlabankanum, bæði hjá Alþjóðabankanum og Evrópugjaldeyrissjóðnum. Það var fengin yfirdráttarheimild fyrir milli 700 og 800 millj., og af því er búið að nota 2/3 hluta. Gjaldeyrisaðstaðan hefur aftur lagazt, og satt að segja getum við látið það liggja á milli hluta, þó að hæstv. forsrh. gleddi þjóðina á því, að gjaldeyrisstaðan hefði stórbatnað, en væri ekkert að hryggja hana á því, á hvern hátt hún hefði batnað, hún hefði batnað með því að taka lán. Hann sagði ekkert um það, hæstv. forsrh. Og það er ástæða til að gleðja fólkið um áramótin, ef það er hægt.

Það má segja, að þetta komi ekki þessu frv. við, og satt að segja var ég dálítið hissa, hvernig umr. þessar snerust, en hæstv, viðskmrh. á nokkurn þátt í því.

Ég skal segja ykkur, að fyrir hálfum öðrum mannsaldri bjó norður í Húnavatnssýslu bóndi, sem Erlendur hét. Hann bjó í Tungunesi. Hann kom til kaupamanns síns, sem sennilega þótti ekki neinn sérstakur garpur, enda var erfitt að gera mikið þá, tækni var lítil, og menn voru ekki aldir upp sérstaklega vel margir hverjir á þeim árum, — hann kom til kaupamannsins eitt kvöld, hann var búinn að slá hjá honum einn dag, og sagði: „Mikið er slegið og vel er slegið, en meira verður slegið á morgun.“ Þessi setning lifir enn eftir meira en hálfa öld, og það er engin tilviljun, að setningin lifir, því að það þurfti mikinn skilning á mannlegu sálarlífi til að segja þetta. Ef hann hefði farið að finna að við drenginn, sem sjálfsagt hefur gert hér um bil eins og hann gat, og sagt, að hann slægi lítið og slægi illa, þá hefði það bara hryggt hann, komið inn kergju hjá honum, og hann hefði unnið minna og verr næsta dag. En með því að segja þetta við kaupamanninn framkallaði hann allt það bezta í eðli hans og gat náð eins miklum vinnuafköstum hjá honum og hægt var.

Mér datt Erlendur í Tungunesi í hug, þegar þeir voru að deila á ríkisstj., fyrrv. ráðh., hv. 1. þm. Austf. og hv. 4. þm. Austf., því að satt að segja sé ég enga ástæðu til þess að deila á ríkisstj. fyrir þetta frv., sem hún leggur hér fram, síður en svo. Ég álít, að frv. sé til bóta, og ég mun greiða því atkvæði. Hitt er annað mál, að það má deila um, hve langt það nær. Það út af fyrir sig er ekki aðalatriðið. Við getum ekki búizt við, að það sé allt gert í einu. En ég sé ekki annað en frv. sé til bóta, það sem það nær. Ég játa, að þetta frv. leysir engan veginn rekstrarfjárskort sjávarútvegsins, og ég býst við, að þetta sé m.a. gert til þess að greiða fyrir bankaviðskiptunum, og geri ráð fyrir, að bankastjórarnir eigi sinn mikla þátt í samningu þessa frv. Það, sem gerist með þessu, er ekkert annað en það, að teknar eru óreiðuskuldir, skuldir, sem menn hafa ekki getað staðið í skilum með, og þeim er breytt í föst lán og viðskiptabankarnir losna við þær, þær færast yfir í Seðlabankann. Þetta er vitanlega til bóta, einkum fyrir viðskiptabankana, og auk þess greiðir þetta fyrir viðskiptamönnunum. Þeir geta fengið ný rekstrarlán, þannig að þeir geti haldið sinni atvinnu áfram. Ég sé því enga ástæðu til þess að ráðast á efni þessa frv. Hitt getum við svo ekki sagt um hér, hvort framkvæmdin verður að öllu leyti réttlát. En fyrir mitt leyti get ég lýst því yfir, að ég álít, að þetta frv. sé til bóta. Svo má deila um það vitanlega, hvort það var ástæða til þess að framkvæma þetta með brbl. En það út af fyrir sig skiptir ekki öllu. Það er formsatriði, og vafalaust gerir ríkisstj. þetta að einhverju leyti af því, að henni leiðist að hlusta á ræður stjórnarandstæðinga og er að reyna að hlífa sér við því, þó að vafasamt megi telja, hvort þær verða nokkuð minni, þó að brbl. séu gefin út, heldur en þó að frv. sé lagt fram á annan hátt. Ég geri ekki svo mikið úr því, að það hafi bráðlegið á þessu. Má vel vera samt, að það hafi verið betra að ganga frá þessu strax heldur en draga það.

Ég benti á það í umr. um efnahagslöggjöfina s.l. vetur, að þessar ráðstafanir mundu skapa mikinn rekstrarfjárskort. Þessi stjórn er alls ekki ein um sökina með rekstrarfjárskortinn í landinu. Hann hefur verið að skapast alla tíð, sem gengið hefur verið að lækka. Þessi sífellda gengislækkun hefur valdið því, að verðmæti, sem fyrirtæki og einstaklingar höfðu lagt til hliðar til að styrkja rekstrarafkomu atvinnufyrirtækja sinna, hafa orðið svo að segja einskis virði, og rekstrarfjárskorturinn hefur alltaf farið vaxandi. Hann fór vaxandi í tíð vinstri stjórnarinnar, hann fór vaxandi í tíð þessarar stjórnar, og hann fór vaxandi í tíð þeirra stjórna, sem voru á undan vinstri stjórninni. Þetta frv. leysir náttúrlega engan veginn þann vanda, en það losar þarna um dálítið fjármagn.

Ég lagði einnig hlustirnar við, þegar hæstv. viðskmrh. fór að deila á stjórnarandstöðuna fyrir það, að hún færi rangt með hagfræðilegar tölur og yfirleitt rangfærði hlutina í málflutningi, og ég bjóst þess vegna við, að ég mundi heyra frá hæstv. ráðh. mjög svo áreiðanlegar tölur og grg. í hagfræðilegum efnum. Ég skal taka undir það með hæstv. ráðh., að bæði í blöðum og eins hér á Alþ, vill vera gert of mikið að því að halla réttu máli. Það er náttúrlega hægt að tala um aðra hlið mála í flestum tilfellum, þannig að það geti verið hlutdrægt, án þess að beinlínis sé sagt ósatt. En yfirleitt er það þannig, að fólkið veit ekki, hverju það á að trúa. Þannig er það í umr. hér á Alþ., sem kenndar eru við eldhúsið, svokallaðar eldhúsdagsumræður. Ég hef talað við marga menn á eftir, og þeir hrista höfuðið og segja: Ja, ég veit ekkert, hverju ég á að trúa. Þeir skrökva yfirleitt allir. — Þetta er yfirleitt þannig. Ég álít það galla hjá okkur Íslendingum, það er ef til vill fátækt okkar og fámenni, sem gerir það, að við höfum ekki haft efni á að halda uppi blöðum og ekki fréttaþjónustu í blöðum einu sinni án þess að vera meira og minna hlutdrægir. Stærri þjóðir geta þetta. Þar geta stórblöð verið óháð flokkunum að miklu leyti. Þar eru sjálfstæðir ritstjórar, sem geta haldið fram sínum skoðunum án tillits til þess, hvernig hinir pólitísku flokkar líta á einstök mál. En hér er minna um þetta. Hér eru blöðin háð flokkunum. Ég skal viðurkenna, að þetta er galli, og málflutningur bæði stjórnarandstöðunnar nú og áður hefur oft verið á annan hátt en vera ber.

Stjórnarandstaða á hverjum tíma á að viðurkenna það, sem ríkisstjórnir gera vel, en deila sanngjarnlega á þær fyrir það, sem henni finnst illa gert, en ekki deila á ríkisstj. án þess þá að benda á leiðir, sem hentugra væri að fara. Það er hægt að segja við hvaða stjórn sem er: Það er allt vitlaust, sem þið gerið og rangt. En það verður þá að benda á aðrar leiðir, til þess að hægt sé að taka tillit til þess, — benda á aðrar leiðir, sem séu betri og færari.

Það er því að breyta öfugt við það, sem Erlendur í Tungunesi gerir, að deila á það, sem ekki er ástæða til að deila á. Ríkisstj. er ekki nema starfsmenn þjóðarinnar. Við erum fulltrúar þjóðarinnar hér á Alþ. Það má deila um, hvort á að hæla því, — eins og Erlendur hefur e.t.v. gert, hann gerði það í vissum tilgangi, — hæla því, sem er ekki hólsvert. Það er ekki ástæða til þess. En það er ekki heldur ástæða til að lasta það, sem er ekki sérstök ástæða til að lasta.

Ég bjóst við hjá viðskmrh. að heyra áreiðanlegar tölur, sérstaklega um hagfræðileg efni. Eitt af því, sem hann fræddi okkur um viðvíkjandi vaxtabyrðinni, var það, að 2% vaxtahækkun þýddi fyrir togaraútgerðina 0.7% lækkun á brúttótekjum og fyrir bátaútveginn 0.6% af brúttótekjum bátsins. Ég var hissa á þessu, því að ég hygg, að hverju barni um fermingu geti verið það Ijóst, að þetta nær engri átt. Aðeins tækin til að afla síldarinnar, nótin, blokkir og síldarleitartæki, kosta sennilega 900 þús. kr. Þetta þarf báturinn að hafa vegna rekstrarins. 2% af þessu gerir 18 þús. kr. á ári. Mér skildist, að hæstv. ráðh. tæki útreikninga L.Í.Ú., og þar er miðað við 60 tonna bát. 60 tonna bátur aflar tæplega meira en 2.2 2.4 mill j. á ári, þannig að aðeins þessar 18 þús., aðeins 2% af síldarleitartækjum og nót, gerir meira en ráðh. sagði að allur vaxtakostnaður útgerðarinnar við bátinn væri. Þetta er svo augljóst, að hvert barn ætti að geta gert sér grein fyrir því. Landssambandið áætlar bátinn á 4 millj. og reiknar út frá því. Nú má vera, að hæstv. ráðh. hafi ekki athugað, að Landssambandið reiknar aðeins vexti af 1/3 úr árinu. Það gerir aðeins upp vetrarvertíðina, um 4 mánuði, og vexti af höfuðstól og rekstri þann tíma reiknar Landssambandið 92 þús. En það þarf vitanlega að borga vexti lengur, og Landssambandið áætlar, að rekstrarfé bátsins, þ.e. fyrir utan stofnfé bátsins, sé eitthvað í kringum 200 þús. kr., en það sér nú hver maður, hvort það er nægilegt fyrir öllum veiðarfærum. Veiðarfæri á slíkan bát kosta aldrei minna en milljón, þannig að ef á að reikna raunverulega vexti,. þá standa veiðarfæri og bátur í 5 millj. Hitt má svo deila um, hvort á að taka alla þessa upphæð, vegna þess að það voru mörg skip til gömul í landinu, sem ekki hvíldu mjög miklar skuldir á, þegar vaxtabreytingin varð. En ef á að taka bát af svipaðri stærð nokkurn veginn nýjan, þá eru þarna 5 millj., og 2% af 5 millj. eru 100 þús., en 100 þús. af 2.–2.4 millj. gerir alltaf 4%, en ekki 0.6%. Hér er því um hringavitleysu að ræða.

Ég fór aldrei lengra en það, að ég tók milljón í veiðarfærum og milljón í stofnverði bátsins, sem vaxtahækkunin kæmi niður á, þegar ég hélt hér ræðu um daginn. Ég fór aldrei lengra en það. En ef á að taka heildarverð bátsins, þá gerir 4% hækkun á 5 millj, um 200 þús., en 2% gerir um 100 þús. eða um 4% af brúttóaflaverðmæti þessa báts. Ég skil þess vegna ekki, hvernig hæstv. ráðh. hefur getað fengið þessar tölur út. En Landssambandið áætlar bara það rekstrarlán, sem fæst í bankanum, í kringum 200 þús. kr., og svo bátsverðið í fjóra mánuði og rekstrarvíxillinn tekinn í 4 mánuði, en svo þarf allt, bæði til síldarútgerðar og haustvertíðar að auki, þannig að hér er um hringavitleysu að ræða. Ég hef ekki reiknað togarann út, en ég hygg, að það sé ámóta mikil fjarstæða. Viðvíkjandi vinnslustöðvunum er hið sama að segja. Við reiknuðum þetta út á landssambandsfundinum. Það er rétt að vera sanngjarn og taka tillit til hlutanna, eins og þeir eru. Skal ég gjarnan ganga inn á, að þetta sé ekki nema 8–9 mánuðir nú, og fiskkg á að vera nú eitthvað kr. 2.90, en í meðförum vex það um 2/5 hluta, þannig að við getum reiknað með, að fiskurinn kosti frystihúsið, hvert kg af ferskum fiski, þegar búið er að vinna hann, um 5 kr. 4% af því yfir árið er um 20 aurar. Nú skal ég slaka til um 1/5, þannig að þetta verði ekki nema 16 aurar á kg. Við áætluðum þetta 20 aura á landssambandsfundinum. En við skulum vera sanngjarnir og ekki gera þetta meira en 16 aura á kg með 4% vaxtahækkuninni. En svo kemur bara hækkun vegna skulda, sem fiskvinnslustöðin sjálf er í, þannig að það mun ekki vera ofreiknað, að vegna 4% vaxtahækkunarinnar voru frystihúsin neydd til að borga 20 aurum lægra og vegna 2% vaxtahækkunarinnar, sem eftir er, þurfa þau að borga 10 aurum lægra fyrir fiskinn. Svo bætist við vaxtahallinn, sem lendir á bátnum sjálfum. Ég skal fallast á, að það sé fullhátt að reikna það 4%, vegna þess að nokkur hluti af bátunum er keyptur með gömlum og hagkvæmari lánum, en ég hygg, að ekki sé ofreiknað, að það séu 8 aurar, og það hefur ekki verið lækkað enn þá, sem lánað er út á skip, það verður kannske gert með þessum nýja sjóði, að svo miklu leyti sem menn koma sínum lánum þar fyrir. En ég hygg, að þessi vaxtahækkun, sem eftir er, þessi 2%, muni valda því, að fiskframleiðendur fái 15–18 aurum lægra fyrir hvert kg af ferskum fiski, og það er mikill skattur, en s.l. ár hefur það verið um 30 aurum lægra. Ef við kæmum okkar vöxtum niður í það, sem Norðmenn hafa, þá hefðum við getað fengið 50 aurum hærra fyrir hvert fiskkg s.l. ár, og það munar um minna.

Ég sé sérstaka ástæðu til að þakka ríkisstj. fyrir það að lækka vextina um þessi 2%, og ég vil segja líkt og Erlendur í Tungunesi sagði, að þetta er vel gert og viturlega, og ég vona, að ríkisstj. eigi eftir að breyta enn viturlegar. Það er út af fyrir sig mannlegt að sjást yfir hluti og gera vitleysur, það gera allir meira og minna í lífinu. Það er enginn alvitur. En það þarf manndóm til þess að viðurkenna, að mönnum hafi missýnzt, og laga það. Það er hólsvert að viðurkenna það, sem mistekizt hefur, og ráða bót á því. Hinir, sem gera yfirsjónir, en vilja ekki viðurkenna þær og berja höfðinu við steininn, það eru vandræðamennirnir. Það er mannlegt að gera yfirsjónir og bæta úr þeim. Ég vona því, að ríkisstj. haldi áfram að haga sér viturlega. Ég álít, að þetta hafi verið til bóta, bæði vaxtalækkunin og eins myndun þessa sjóðs. Ég vona bara, að ríkisstj. geri betur, að hún haldi áfram að lækka vextina a.m.k. niður í það, sem þeir voru, og greiði úr þeim lánsfjárskorti, sem atvinnuvegirnir eiga nú við að etja.

Það er verkfall hjá bátunum. Fólkið er mjög óánægt yfir þessu og hvert smáþorp skaðast sennilega um 100 þús. á dag og stærri verstöðvarnar miklu meira. Í raun og veru er ekkert vit í þessu. Við vitum, að það vofa yfir vinnustöðvanir í landinu, og sannleikurinn er sá, að ég álít, áleit í fyrra og álít enn, að ráðstafanir ríkisstj. hafi verið óþarfar. Ég álít, að þessi vaxtahækkun hafi ekki haft nokkur áhrif á aðstöðu okkar út á við. Þar var aðeins um tilfærslu innanlands að ræða. Fólkið hefði reynt að spara eins og það gat, því að kjaraskerðing varð fyrir því, með því að rétta gengið og afnema útflutningssjóðinn. Það varð kjaraskerðing, þó að hún væri miklu minni. Það þurfti ekki að ganga lengra. En út á við hefur þessi vaxtahækkun ekki gert okkur neitt gagn, hefur ekkert lagað fjárhag landsins út á við. Þetta er aðeins tilfærsla innanlands, sem kemur svo að segja eingöngu niður á mönnum, sem eru að fást við framleiðsluna, en fé safnast fyrir í dauðum sjóðum og hjá sparifjáreigendum að nokkru leyti, en fáir eiga mikla peninga, sem bera hita og þunga atvinnulífsins á herðum sinum. Við vitum, að afkoma hins vinnandi fólks í landinu er undir því komin, að atvinnuvegirnir geti gengið.

Það má vera, að það sé barnaskapur, og er það á víssan hátt að vera alltaf að metast á um, hvort það sé betur eða verr stjórnað, betri eða lakari útkoma þetta árið eða hitt, og satt að segja er ekki hægt að heimta of mikið af einni ríkisstj. Ríkisstj. ræður ekki við það, hvort vel aflast, hvort síldin veður eða ekki. Hún ræður ekki heldur verðlagi ytra. Það er takmarkað, sem þessar ríkisstjórnir geta ráðið, og ég held, að í mörgum tilfellum séu þær dæmdar ósanngjarnlega. Verðbólgan hefur sí og æ verið að vaxa. Það hefur aukið rekstrarfjárskort í landinu. Það er verðbólgan, sem hefur skapað rekstrarfjárskortinn í landinu. Þess vegna verðum við að gera okkur ljóst, að hér hefur eitthvað verið að, og þá þurfum við að gera okkur ljóst, hvað það er. Ég er sannfærður um, hvað að er. Það er alltaf verið að fella gengið vegna útgerðarinnar í landinu. Útgerðarmennirnir sjálfir jafnvel trúa því, að útgerðin hagnist á því. En sannleikurinn er sá, að útgerðin hagnast ekki á því, en hún skaðast á því að því leyti til, að rekstrarfjárskorturinn eykst. Það hefur verið þannig oft a.m.k., að sjómennirnir voru ráðnir fyrir ákveðinn aurafjölda fyrir hvert kg af fiski. Þetta varð til að freista útgerðarmannanna, þannig að ef þeir fengju fleiri aura fyrir hvert fiskkg, þyrftu þeir ekki að borga hásetunum meira, en fengju mismuninn í sinn vasa. En svo skeði bara það, að hásetarnir komu annaðhvort sama árið eða árið á eftir og heimtuðu sinn hluta, og það var ekki nema mannlegt og eðlilegt, svo að þetta var eins og að elta sinn eigin skugga. Þetta var bara fíflaskapur. Útkoman varð ekki betri.

Á tímabilinu frá 1950 til 1958 lækkar gengi íslenzkrar krónu sem svarar því, að það breytist úr 100 í 180. Ef útgerðin hefði alltaf átt að græða á hverri gengisfellingu, hefði hún átt að vera orðin stórrík, en staðreyndin er, að hún er ekkert ríkari, það er bara meiri rekstrarfjárskortur. Svo ætlar ríkisstj. í fyrra að láta útveginn græða á því að fella gengið enn þá meira, þannig að krónan 1950 verður að 2,30, sem sagt, ríkisstj. tók þarna í einu stökk, sem fyrrv. fjmrh., hv. 1. þm. Austf., var 5 ár að. Niðurstaðan var sú sama, tók bara lengri tíma. Ekkert lagaðist fyrir útgerðinni, aldrei verri ástæður en nú, ekkert meiri eignir, en miklu meiri rekstrarfjárskortur, og þó nældi útgerðin í þann hluta, sem sjómönnunum bar, því að kaup sjómanna hækkar ekki fyrr en nú. Ég skal viðurkenna, að á vertíðinni í fyrra græddu útgerðarmennirnir ofur lítið á þessu, meðan þeir höfðu gömul veiðarfæri og bjuggu við gömul lán, en það er búið nú. Nú heimta sjómennirnir víssan hluta af brúttótekjum til að fyrirbyggja; að þetta komi fyrir. Út af fyrir sig er ég því hálffeginn. Það er þessi liður, sem fyrst og fremst hefur freistað útgerðarinnar, þessi kaupgjaldsliður, til þess að sætta sig alltaf við sífellt fleiri og fleiri krónur. Hjá vinstri stjórninni var þetta þannig, að útgerðarmennirnir vildu fá fleiri krónur. Jú, þeir fengu það. Svo komu sjómennirnir og báðu um fleiri krónur. Þeir fengu það. Báðir voru ánægðir, en hvorugur ríkari, en gengið féll. Enginn gekk betur fram í því en hv. fyrrv. sjútvmrh. að koma þessu á.

Núv. ríkisstj. gerði sömu yfirsjónina. Ríkisstj. gerði sér ekki ljóst, að útgerðin gat ekki grætt á þessu. Þið getið farið í gegnum áætlun Landssambandsins lið fyrir lið. Hver einasti liður í útgjöldunum, sem nokkru máli skiptir, er algerlega háður genginu nema bara kaupið, og það er hækkað nú. En þetta var reiknað út á dálítið skoplegan hátt, vegna þess að teknamegin var hækkunin á fiskinum gerð 20 aurum meiri en hún varð, vegna þess að ekki var tekið tillit til vaxtahækkunarinnar. Þegar frystihúsin áttu að borga þetta, neituðu þau því. Við áttum að fá 2.85, en fengum ekki nema 2.63 fyrir slægðan fisk. Þetta var reiknað þannig út, að það var tekið tillit til hækkunar á veiðarfærum, það var tekið tillit til hækkunar á olíu, það var tekið eitthvert tillit til hækkunar á beitu, en sleppt öllum öðrum gjaldaliðum. Það er alltaf hægt að fá hagstæða útkomu með því að taka teknaliðina, en aðeins sumt af gjaldaliðunum. Það er von, að það skjóti dálitið skökku við með því móti. En það er ekki hægt beinlínis að deila á þessa stjórn frekar en aðrar stjórnir. Það hefur engin ríkisstj. sett sig nægilega vel inn í þetta.

Ríkisstj. er skylt að hugsa hlutina, en ekki láta aðra gera það fyrir sig. Það er búið að flagga með sérfræðingum og hagfræðingum hér í mörg ár. Hvað hefur komið út af því? Fyrrv. forsrh., hv. 2. þm. Vestf., ég held, að hann hafi verið með erlenda sérfræðinga, og þeir áttu að gefa okkur einhverjar skýrslur, taka út þjóðarbúið, og það var ef til vill minnst ástæða að taka það út 1956. Út á við voru skuldirnar tiltölulega litlar og verðbólgan miklu minni en nú. En hún kom aldrei, þessi úttekt. Svona hefur þetta gengið ríkisstj. eftir ríkisstj. Alltaf hafa einhverjir sérfræðingar setið á rökstólum og verið að reikna allt út. Og hvað hefur komið út úr þessum útreikningum? Aldrei neitt af viti, mér vitanlega.

Svo skeðu þessi undur. Fyrirmælin hafa sennilega komið frá París um þessa blessaða vaxtahækkun. Viðskmrh. var að tala um, að það væri allt i lagi að fá lán erlendis nú, þegar þarf um 20% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar til að borga vexti og afborganir, en það átti að vera ómögulegt að fá lán, þegar ekki þurfti nema 12%. Við skiljum ekki þetta, sem erum ólærðir. Það má vel vera, að fyrirmælin um þessa vaxtahækkun hafi komið frá París, en þau eru komin frá mönnum, sem vita ekkert, hvað þeir eru að gera eða segja. Hvernig í ósköpunum eiga útlendir menn að vera inni í okkar atvinnurekstri, og hvaða þjóð í Evrópu hefur hliðstæðan atvinnurekstur og íslenzkur sjávarútvegur er? Hvaða þjóð í Evrópu hefur jafnmörg prósent af sínum útflutningi bundin við þessa einu atvinnugrein, og hvaða þjóð í Norðurálfu mun bjóða útgerðinni upp á önnur eins vaxtakjör og gert hefur verið hér á landi s.l. ár? Þetta er allt annað en í iðnaðarlöndum, þar sem þarf minni fjárfestingu til þess að framleiða verðmætin. En hér á landi er þetta ekki hægt, og þessi fyrirmæli eru gefin af mönnum, sem alls ekki eru inni í okkar málum. Fyrrv. og núv. ríkisstjórnir hafa haft næga vitsmuni, ef þær hefðu nennt að setja sig inn í hlutina og hugsa um þá.

Það skeði einu sinni norður í Reykjadal, að þar bjó bóndi sem Páll hét og var kenndur við Staðarhól, kallaður Staðarhóls-Páll, og var af fyrirmönnum kominn. Það var eitt vor, að hann hafði alið 20 kálfa inni í fjósi. Hann fór sér til gamans upp á bæinn til að sjá kálfana leika sér, þegar þeir kæmu út. En hann athugaði ekki, að hann ætti að hafa vit fyrir kálfunum. Þeir settu halana upp í loftið og stukku allir í Reykjadalsá og drápu sig þar, allur hópurinn. Og þá varð Páli að orði: „Rú þér, strú þér, Reykjadalur“. Ég veit ekki, hvort Páll kenndi kálfunum eða sjálfum sér um þetta, en vitanlega átti hann að hafa vit fyrir kálfunum.

Viðvíkjandi öllum þessum hagfræðiútreikningum hér fyrr og síðar datt mér StaðarhólsPáll í hug. Þetta er dálítið hliðstætt. Það er verið að láta menn, sem alls ekki hafa vit á þessum hlutum, reikna út allt viðvíkjandi afkomu okkar og atvinnurekstri, menn, sem alls ekki hafa sett sig inn í þetta og geta það ekki nema á löngum tíma. Það er verið að kalla á hagfræðinga. Hagfræðingar hafa yfirleitt ekkert fengizt við atvinnurekstur og eru sennilega heldur litlir fjármálamenn flestir þeirra, — misjafnir eins og aðrir menn. En mönnum, sem ekkert hafa fengizt við atvinnurekstur, fer dálítið líkt og kálfunum. Kálfarnir þekktu ekki vatn frá jörð, þeir bara hlupu, kálfagreyin, og voru að leika sér. Það var ekki eðlilegt, að þeir hefðu vit á slíku. Alveg eins er með menn, sem eru að reikna eitthvað út, sem þeir hafa aldrei komið nálægt sjálfir, þeir vita ekki, hvað þeir eru að gera. Og þannig er með þessa blessaða vaxtahækkun. Hún er hugsuð af mönnum, sem alls ekki eru inni í atvinnurekstri okkar.

Ég álit, að við eigum í meiri örðugleikum fjárhagslega en við höfum átt í áður, án þess að ég vilji halla á núv. ríkisstj. Ég skal játa, að mér hafa fundizt deilurnar allt of ábyrgðarlausar. Ég held, að það sé eitt að okkur Íslendingum. Við eigum fyrst og fremst að vera Íslendingar og þar næst að vera flokksmenn, en við gerum of mikið af því að vera meiri flokksmenn en Íslendingar, — vera fyrst flokksmenn og þar næst Íslendingar. Ég álít, að menn verði að kunna sér hóf í deilunum. Við erum búin að vera ófrjáls þjóð í 600—700 ár. Fólkið hefur dáið úr hungri og átt við ýmsa örðugleika, vegna sundrungar, vegna þess að menn tóku ímyndaða hagsmuni fram yfir þjóðarhag. Þeir létu einstaklingsvöld á Sturlungaöld sitja fyrir þjóðarhag. Þá töpuðum við frelsinu. Ef við kunnum okkur ekki hóf í flokkadeilum og ef við leysum ekki vandamálin af skynsemi og drengskap, þá getur farið svo, að við verðum aftur ósjálfstæð þjóð, og það er ekki viturlegt eða hyggilegt. Við þurfum þess vegna að stilla deilunum í hóf, við þurfum fyrst og fremst að vera Íslendingar, svo er gott að líta til flokkanna. Til þess að við getum haft okkar fjárhag í lagi, verðum við að hætta þeim fíflaskap að vera sífellt að fella gengið, koma atvinnufyrirtækjunum í fjárhagslegt öngþveiti á þann hátt og koma því inn hjá fólkinu, að það sé ekki hægt að treysta verðgildi peninganna, þannig að það fáist ekki til að geyma sína peninga í bönkum. Það er ríkisstj. að kenna, að þetta hefur gerzt. Þær hafa ekki haft kjark til að taka á heilbrigðan hátt á vandamálunum, og þær hafa hreinlega ekki nennt að setja sig inn í hlutina og skilja þá til hlítar. Þær hafa sagt einhverjum sérfræðingum að reikna þetta út fyrir sig, sem alls ekki hafa haft nægilegan skilning eða þekkingu á þessum atvinnurekstri. Húsbóndinn á heimilinu á að setja sig inn í hlutina, og þegar hann er búinn að því, er hann fær um að segja öðrum, hvernig þeir eiga að breyta, en fyrr ekki. Þessu álít ég, að við þurfum að breyta. Jafnvel þó að yfirsjónir hafi verið gerðar, er hægt að bæta úr þeim, ef vilji er fyrir hendi.

Nú koma kröfur um hækkað kaup. Hvernig ætlar ríkisstj. að mæta þeim? Hún þarf að taka afstöðu til þess fyrr en seinna. Sannleikurinn er sá, að það er algert neyðarbrauð að hefja verkföll í landinu. Verkamenn hafa ekki nema til hnífs og skeiðar, og eftir mánaðar verkfall eru þeir farnir að svelta. Hækki kaupið að mun í krónutölu, þýðir það gengislækkun. En ef ríkisstj. vill stíga það spor til baka, sem hún gerði að óþörfu í fyrra, og hækka gengið um 20% t.d., þá væri það svipað og það var raunverulega, þegar núv. ríkisstj. tók við. Þá skaðast útgerðin ekkert á því, en hefur aðeins það hagræði, að hún þarf minna rekstrarfé. Og það gerði ríkisstj. kleift að afnema fjölskyldubætur með tveimur fyrstu börnunum. Þetta mundi lækka vöruverðið yfir 30%, en það mundi þýða það, að engar kaupkröfur væru gerðar. Þannig getur ríkisstj. leyst þetta vandamál. Nú er búið að binda kaup sjómannanna við brúttótekjur aflaverðmætis, þannig að þó að þeir fái færri krónur, fá þeir verðmeiri krónur. Það hefur engin áhrif á afkomu útgerðarinnar, þó að gengið sé hækkað um 20%. Þetta athugar ríkisstj. vafalaust. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að þetta er eina heilbrigða lausnin í okkar fjármálum. Við þurfum að hafa stöðugt og traust gengi. Það er undirstaðan undir heilbrigðu efnahagslífi.