24.01.1961
Neðri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um það, sem hæstv. viðskmrh. sagði um vextina, en það var þó bersýnilegt, að hann var mjög búinn að draga úr sínum fyrstu fullyrðingum um það, að vextirnir hefðu ekki neina verulega þýðingu fyrir atvinnureksturinn í landinu, og hann gerði ekki heldur neitt til þess að hnekkja þeim glöggu upplýsingum, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. birti hér í d. í gær, og dreg ég þá ályktun af þeirri þögn hæstv. viðskmrh., að hann telji upplýsingar hv. þm. Björns Pálssonar um það efni vera réttar.

Það, sem gaf mér tilefni til þess sérstaklega að kveðja mér hér hljóðs, voru þau ummæli, sem hæstv. viðskmrh. lét falla um þær leiðir, sem væru tiltækar til þess að mæta vaxandi greiðslubyrði. Hæstv. viðskmrh. komst svo að orði, að þar væri eiginlega ekki nema um tvær leiðir að ræða. Þessar leiðir væru þær annaðhvort að draga úr neyzlunni eða draga úr fjárfestingunni. Þetta væru aðalleiðirnar, sem væru fyrir hendi til þess að mæta vaxandi greiðslubyrði: Út frá þeim skoðunum, sem hæstv. viðskmrh. hefur tekið í seinni tíð, get ég vel skilið þessa fullyrðingu hans, því að það er yfirleitt álit íhaldssamra hagfræðinga, að ekki sé nema um þessar tvær leiðir að ræða: að draga úr neyzlu eða draga úr fjárfestingu, til þess að mæta vaxandi greiðslubyrði. En frjálslyndir hagfræðingar líta allt öðrum augum á þetta mál, eins og t.d. þeir, sem nú hafa tekið við forustunni í Bandaríkjunum. Þeir telja, að það sé fyrst o,g fremst þriðja leiðin, sem komi hér til greina, og sú leið er fólgin í því að auka framleiðsluna, auka útflutninginn í þessu tilfelli hjá okkur. Og tvímælalaust, ef litið er sanngjarnlega á þessi mál, hljóta menn að komast að þeirri niðurstöðu, að það sé langbezta leiðin til þess að mæta vaxandi greiðslubyrði, og það er einmitt sú leið, sem hefur verið farin hér á undanförnum árum með mjög góðum árangri. Þess vegna þarf, ef greiðslubyrðin eykst, engan veginn að gera ráðstafanir til að mæta aukningunni með samdrætti á neyzlu eða fjárfestingu, ef tekst að auka framleiðsluna sem hinni auknu greiðslubyrði svarar eða jafnvel meira en það, og það er það, sem var gert á síðasta áratug eða a.m.k. framan af honum. Í þeim efnum finnst mér rétt að vitna til talna, sem voru birtar á s.l. vetri af aðalbankastjóra Framkvæmdabankans, dr. Benjamín Eiríkssyni, og jafnframt hnekkja algerlega þeirri fullyrðingu, sem hæstv. viðskmrh. var hér með áðan, að lántökurnar á seinasta áratug hefðu ekki að neinu leyti orðið til þess að auka útflutningstekjurnar.

Dr. Benjamín Eiríksson birti bær upplýsingar á s.l. vetri, að árið 1951 hefði greiðslubyrðin eða afborganir og vaxtagreiðslur til útlanda numið um 2 millj. dollara. 1958 var þessi upphæð komin upp í 51/2 millj. dollara, og það er alveg rétt, að hér hefur orðið veruleg aukning á greiðslubyrðinni. En hvað hefur svo komið á móti þessu, sem gerði að verkum, að hvorki þurfti að grípa til þeirra ráða að draga úr neyzlunni né draga úr fjárfestingunni? Árið 1951 námu útflutningstekjurnar 45 millj. dollara, árið 1958 námu þær hins vegar orðið 66 millj. dollara. Þær aukast m.ö.o. um 21 millj. dollara á þessu 7 ára tímabili. Greiðslubyrðin eykst um 31/2 millj. dollara, en útflutningstekjurnar aukast um 21 millj. dollara. Það getur hver og einn gert sér í hugarlund, nema hinir íhaldssömustu hagfræðingar eins og hæstv. viðskmrh. nú er orðinn, hvort ekki sé betra fyrir okkur að standa undir greiðslubyrðinni, þó að hún hafi aukizt um 31/2 millj. dollara, þegar útflutningstekjurnar á þessu tímabili hafa hins vegar aukizt um 21 millj. dollara. Ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða það, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði hér í gær, að dæmi eins og þetta er svo einfalt, að hvert barnaskólabarn ætti að geta reiknað það, þó að íhaldssamir hagfræðingar geti ekki gert það. Og ég held, að það sé bezta ráðið við slíka menn fyrir hæstv. ríkisstj. að hleypa þeim út eins og kálfunum og láta þá fara sömu leiðina, svo að maður vitni til þeirrar sögu, sem hv. 5, þm. Norðurl. v. var með hér í gær.

En það, sem ég vildi svo segja að lokum í tilefni af því, sem hefur verið sagt hér um greiðslubyrðina, er, að ráðið til þess að mæta aukinni greiðslubyrði á hvorki að vera það að draga úr neyzlu né fjárfestingu, ef aðrar leiðir eru tiltækar, eins og t.d. sú að auka framleiðsluna, sem hefur verið farin á undanförnum árum með góðum árangri og við getum farið í framtiðinni, ef hyggilega er farið að.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var þó ekki fyrst og fremst sú, að ég ætlaði að taka þátt í þessum umræðum, sem hér hafa farið fram um greiðsluhalla og greiðslubyrði, vegna þess að það mál má nú heita fullrætt. En það, sem gaf mér tilefni til þess að taka þátt í þessum umr., voru þau ummæli, sem hæstv. viðskmrh. lét falla í einni ræðu sinni hér um þetta mál, ummæli, sem voru á þá leið, að erlendir fjármálamenn og erlendar fjármálastofnanir hefðu lýst því yfir um það leyti, sem vinstri stjórnin fór frá völdum eða rétt eftir það, að fjárhag Íslands væri svo komið, að það væri útilokað, að Ísland gæti nokkurs staðar fengið erlent lán. Ég vil beina þeirri fsp. til hæstv. viðskmrh. og vænti þess, að hann svari henni: Hvaða erlendir fjármálamenn voru það, sem gáfu þessar upplýsingar, hvaða erlendar fjármálastofnanir voru það, sem gáfu þessar yfirlýsingar, og á hvaða upplýsingum voru þessar yfirlýsingar þeirra þá byggðar? Hvaðan voru þær upplýsingar komnar? Voru það kannske einhverjar hliðstæðar upplýsingar þeim, sem komu fram í ræðu, er einn af sendimönnum frá Efnahagssamvinnustofnun Evrópu flutti hér í háskólanum, — ég held, að það hafi verið haustið 1959, — og báru þess fullkomlega merki, að sá maður hafði ekki gert sér neitt far um að kynna sér efnahagsmál Íslands eða aðstöðu íslenzkra atvinnuvega, heldur hafði auðsjáanlega farið eftir því, sem einhverjir kreppuhagfræðingar hér heima höfðu sagt honum? Ræða hans bar m.ö.o. þess fullkomlega merki, að sá maður hafði ekki minnstu hugmynd um, hvernig málum Íslands var komið í þessum efnum. Voru það einhverjir slíkir menn, sem gáfu þessar upplýsingar, eða hverjir voru það? Ég vænti þess, að hæstv. viðskmrh. láti það koma alveg greinilega fram hér, hvaða menn það voru og hvaða stofnanir það voru, sem þessar yfirlýsingar gáfu, og að það sjáist þar jafnframt, hvaðan þessir aðilar hafa haft heimildirnar fyrir þessum yfirlýsingum sínum, ef þeir hafa gefið þær.