02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Ágúst Þorvaldsson:

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir aðstoð við sjávarútveginn með þeim hætti, að stofnað er til sérstakra lánveitinga til útgerðarmanna og til þeirra fyrirtækja, er hafa með höndum fiskvinnslu. Þessar ráðstafanir, sem ég tel nauðsynlegt að gera þessum gamla og þýðingarmikla atvinnuvegi til viðreisnar, eftir að „viðreisn“ hæstv. ríkisstj. var búin að stöðva hann, eiga að verða sjávarútveginum og þeim, sem þar eiga hlut að máli, til eflingar og þar með þjóðinni allri til gagns.

Ég er þessu fylgjandi, að þessi þýðingarmikli atvinnuvegur sé á þennan hátt studdur, og hef því ekki kvatt mér hljóðs til þess að finna að því, heldur til þess að láta í ljós, að ég er málinu fylgjandi. Hins vegar álit ég, að í þessu frv. hefði átt að vera gert ráð fyrir víðtækari aðstoð, þannig að þar hefði báðum hinum fornu höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar verið gert jafnhátt undir höfði, sjávarútvegi og landbúnaði. Ég hef ekki dregið það í efa, að útgerðarmenn og þeirra fyrirtæki séu illa á vegi stödd og hafi safnað skuldum nú á s.l. ári, en mér er kunnugt um, að þetta sama hefur átt sér stað hjá bændum og kannske hlutfallslega í enn stærra mæli. Ég hygg, að þeir bændur séu fleiri en hinir, sem á s.l. ári söfnuðu lausaskuldum, og margir eru þeir áreiðanlega, sem eiga nú í erfiðleikum með að fá nauðsynlegar vörur til heimila sinna vegna skuldabyrði, sem þyngdist stórkostlega vegna vaxta og verðhækkana á árinu, sem leið. Þetta er engin furða, þegar þess er gætt, að flestar vörur, sem bændur þurfa til rekstrar búa sinna, hækkuðu á s.l. ári frá 30 og upp í 60%, en tekjurnar hafa svo að segja staðið í stað. Hvernig á nú slíkt að geta gengið í nokkrum atvinnuvegi? Landbúnaðurinn er svo þýðingarmikill og stór þáttur í þjóðarbúskap okkar Íslendinga, að hann verður að fá stuðning frá löggjafarvaldinu nú, svo að hann komist yfir erfiðleikana og geti þróazt áfram á eðlilegan hátt. Ég tel þess vegna höfuðnauðsyn nú fyrir bændurna og landbúnaðinn í heild, að lausaskuldum bænda verði breytt í alllöng hagstæð, föst lán.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), frsm. minni hl. fjhn., hefur gert um þetta till. á þskj. 421. Er ég bæði þeirri og öðrum brtt. hans samþykkur og mun greiða þeim atkvæði mitt.

Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér um þessi mál, og það, sem í nál. hans stendur um það, hversu nauðsynlegt er að hjálpa bændum eins og útgerðarmönnum til þess að koma lausaskuldum þeirra í föst lán með viðráðanlegum vöxtum.

Ég vil þá ekki heldur leyna því, að þegar rætt er um þessi mál, verður mér hugsað til þess, að bændur á Suðurlandi, þar sem ég er búsettur, eiga í erfiðleikum með fleira en sínar eigin lausaskuldir, sem hjá þeim söfnuðust hverjum einum á s.l. ári. Það kemur einnig til, að hið nýreista og stóra mjólkurbú þeirra á Selfossi hefur ekkert lán fengið enn til langs tíma með hagstæðum kjörum. Eru nokkrir milljónatugir af byggingarkostnaði mjólkurbúsins á yfirdráttarhlaupareikningsláni í Landsbankanum, og vaxtabyrðin ein af slíku láni jókst á s.l. ári hjá þessari stofnun, Mjólkurbúi Flóamanna, um 2 millj. kr. vegna vaxtahækkunarinnar, sem gerð var á árinu. Það eru gerðar harðar kröfur af hálfu heilbrigðisyfirvalda og neytenda til bænda um hollar og góðar vörur. Bændur telja sér skylt að verða víð slíkum kröfum, enda á það, þegar til kemur, að vera þeirra hagur. En það þarf miklu til að kosta, svo að þetta geti orðið. Á Suðurlandsundirlendinu eru um 1200 bændur, sem eru aðilar að byggingu mjólkurbúsins á Selfossi, þar sem öll aðstaða er til að meðhöndla og vinna úr mjólkinni með hinni fullkomnustu tækni, sem nú er kunn. Það er að mínu áliti engin sanngirni og ekkert vit í því, að ein kynslóð bænda borgi slíka stöð niður, því á að dreifa á fleiri kynslóðir. En ef það á að ske, að slík vinnslustöð og aðrar, sem hafa verið eða verða reistar annars staðar, eiga að borgast niður á einum eða tveimur áratugum, þá má þó varla minna vera en lánin, sem á þeim hvíla þennan stutta tíma, séu með þolanlegum kjörum.

Bændurnir á Suðurlandi hafa fyrir alllöngu samþykkt, að tekinn sé ákveðinn hluti af mjólkurverði þeirra upp í bygginarkostnaðinn, til þess að hægt sé að borga skuldirnar fljótt niður. Ég tel, að það hái þeim mjög við búskapinn, hve mikill hluti af þeirra lágu teklum verður að fara árlega í þetta. Hitt er þó kannske enn verra, að ofan á þetta skuli bætast hinir gífurlega háu vextir, sem voru þyngdir stórkostlega á s.l. ári, og þótt nú hafi verið aftur dregið nokkuð úr því, þá er vaxtabyrðin svo ægilegar klyfjar á bændum, að fjöldi þeirra mun áður en langt liður sligast undir þeirri byrði, ef ekki verður fljótlega að gert og undir baggann lyft.

Um leið og ég hér hef minnzt á Mjólkurbú Flóamanna á Selfossi í sambandi við þetta mál, vil ég einnig minnast á dreifingar- og sölusamtök bændanna, sem þeir reka hér í Reykjavík, Mjólkursamsöluna. Sú stofnun verður vitanlega að nota lánsfé til rekstrar síns, og ég veit, að lausaskuldir há mjög þeirri stofnun og þjarma að þessu fyrirtæki bændanna, sem þó er ómissandi fyrir lif íbúanna í höfuðstaðnum og hér í nágrenni hans.

Þótt ég hafi hér talað um bændur á Suðurlandi fyrst og fremst, vegna þess að þar er ég kunnugastur, og þeirra fyrirtæki, þá veit ég, að svipað er til staðar um allt land, því að bændur hafa staðið í því núna á undanförnum árum og standa enn að því að byggja upp sláturhús og mjólkurbú og koma vinnslu afurða sinna í nýtízkuhorf, sjálfum sér og þjóðinni allri til gagns.

Ég legg því áherzlu á það, að bændastéttin fái svipaða fyrirgreiðslu sinna mála á þessu sviði og frv. þetta gerir ráð fyrir, sem hér er til umr., til handa útgerðarmönnum, að bændastéttin fái sams konar fyrirgreiðslu sinna mála. Brtt. þær, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur lagt fram, leysa þennan vanda, ef þær yrðu samþ., og þess vegna mæli ég eindregið með því, að svo verði gert.