16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til athugunar og umr. í fjhn. þessarar hv. d., vakti ég athygli á því, að brýn þörf mundi vera fyrir lánveitingar til bænda og fyrirtækja landbúnaðarins á sama hátt og til þeirra, er stunda sjávarútveg, sem eiga að fá fyrirgreiðslu samkv. þessu frv. til þess að breyta lausaskuldum í hagstæðari lán.

Það var nokkuð um þetta rætt í nefndinni, og kom þá fram hjá fulltrúum stjórnarflokkanna í nefndinni, að ríkisstj. mundi hafa sett á stað einhverja athugun á þessu máli. En ég taldi það eðlilegt, að ákvæði væru sett um það í þetta frv., og bar því fram brtt. í nál. mínu á þskj. 421 um stofnun sérstakrar lánadeildar við Seðlabankann, er veita skyldi lán til þess að bæta fjárhagsaðstöðu bænda og fyrirtækja, er eiga vinnslustöðvar fyrir landbúnaðarafurðir, með sama hætti og gert er ráð fyrir, að bráðabirgðalögin, sem sett voru í vetur, greiði úr þessum málum að því er varðar sjávarútveginn. Þetta bar svo á góma í útvarpsumræðum, sem fóru fram í sameinuðu þingi í fyrradag. Upphafsmaður þess, að málið var nefnt þar, var hv. 3. þm. Austf., sem lét þess getið, að stjórnin hefði ákveðið að sjá fyrir því, að bændur fengju lán til greiðslu á hluta af víxilskuldum sínum. Ég held, að ég muni það rétt, að þetta hafi verið orðað á þann veg hjá hv. þm. Ég lét þess getið á eftir í þessum umr., að fulltrúar stjórnarflokkanna í fjhn. hefðu mælt á móti till., sem ég flutti um stofnun þessarar lánadeildar fyrir landbúnaðinn. Síðar í umr. gerði frsm. meiri hl., hv. 5. þm. Reykv., athugasemd við þetta og hélt því fram, ef ég man rétt, að stjórnarflokkarnir væru ekki á móti þessu, heldur væri þetta mál til athugunar. En eftir það, sem fram kom bæði hjá honum og hv. 3. þm. Austf., varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum, þegar atkvgr. fór fram hér í deildinni í gær um mína brtt. þessu viðkomandi. Ég hafði einmitt búizt við því eftir þær yfirlýsingar, sem komu frá þeim, að þeir vildu fallast á að setja inn í þetta frv. ákvæði um lánveitingu til bænda til þess að greiða úr þeirra málum á svipaðan hátt og gert er fyrir sjávarútveginn. En bæði þeir og aðrir þm. stjórnarflokkanna greiddu atkv. gegn þessari till. minni.

Nú vil ég í tilefni af þessu leyfa mér að óska upplýsinga um það, annaðhvort frá frsm. meiri hl. fjhn. eða hæstv. landbrh., hvernig áformað sé að fara með þetta mái. Ég vil vekja athygli á því í sambandi við það, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Austf., að það er vitanlega alveg ófullnægjandi, þó að bændur fái lán til þess að greiða hluta af víxilskuldum, eins og ég held að hv. þm. hafi orðað það. Bændur skulda lausaskuldir, þó að ekki sé þar um víxilskuldir að ræða. Ég geri ráð fyrir, að meiri hl. af lausaskuldum bænda sé ekki víxilskuldir og þess vegna mundi ekki vera nema að mjög takmörkuðu leyti greitt úr þeirra málum, ef þetta væri bundið við aðeins hluta af víxilskuldum þeirra. Og ég vil vekja athygli á því, að slík ákvæði eru ekki í frv. að því er varðar lán til útvegsmanna. Þar er ekkert fram tekið um það, að lán til þeirra skuli aðeins ganga til greiðslu á víxilskuldum að meira eða minna leyti, heldur mun það vera ætlunin, að þeir fái þar lán til að greiða með lausaskuldir, hvort sem er um víxilskuldir eða aðrar að ræða. Ég vildi sem sagt mjög óska eftir því að fá upplýsingar um það, hvað áformað sé að gera að því er landbúnaðinn varðar og hvernig með það mál verði farið.

Eins og ég hef áður sagt, hefði ég talið það eðlilegast, að ákvæði um þessar lánveitingar til landbúnaðarins væru sett inn í þetta frv. Ég geri ráð fyrir, að um það þurfi lagasetningu eins og lánin til sjávarútvegsins. Ég vildi því spyrjast fyrir um það, hvernig áformað sé að hafa þetta, t.d. hvort það sé ætlun hæstv. ríkisstj. að setja um þetta brbl. Ég hefði talið miklu eðlilegra, að lög væru sett um þetta á þinginu nú, áður en það hættir störfum, heldur en ef stjórnin færi að gefa út brbl. um það síðar. Það hefur komið fram, og ég sé ekki ástæðu til að véfengja það, að það sé meiningin að veita bændum lán, og þá þykir mér líklegt, að til þess þurfi einhverja löggjöf, og er miklu eðlilegra, að það sé Alþingi, sem setur lög um það, úr því að tækifæri er til þess að gera það nú áður en þingi lýkur, heldur en slíkt verði síðar ákveðið með brbl.