20.03.1962
Neðri deild: 70. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

119. mál, Hjúkrunarskóli Íslands

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Hæstv. forseti. Frv. petta um Hjúkrunarskóla Íslands felur m.a. í sér breytingu á nafni þess skóla, sem menntað hefur hjúkrunarfólk. Hann hefur til þessa heitið Hjúkrunarkvennaskóli Íslands. En Þar sem karlmenn stunda nú orðið einnig nám í þessum skóla, þótti eðlilegra, að breytt yrði um nafn hans og hann ekki kenndur við kvenfólk eitt, en nefndur Hjúkrunarskóli Íslands.

Þess má geta, að skólinn hefur útskrifað tvo karlmenn til þessa. Nú er í honum einn karlmaður, þannig að enn þá virðist ekki vera ös af karlfólki í stofnuninni, en væntanlega getur orðið á þessu breyting, þar sem skortur er mikill á hjúkrunarfólki í landinu.

Þá er sú breyting ráðgerð með frv., að skólinn er lagður undir stjórn menntmrh., í stað þess að hann hefur áður heyrt undir heilbrmrn. Þykir það eðlilegra, þar sem læknadeildin og menntun lækna almennt heyrir undir menntmrh., að þessi skóli hjúkrunarfólks heyri undir sama ráðh. Um þetta atriði var þó nokkur ágreiningur í heilbr: og félmn., en n. mælti þó í heild með samþykkt frv., en einn hv. þm. hafði fyrirvara um þetta atriði.

Með þeirri breytingu, sem lögð er til í frv., að stytta heildarnámstíma skólans nokkuð, er reynt að bæta nokkuð úr þeim mikla skorti á hjúkrunarliði, sem nú ríkir í landinu. Þess má geta, að nemendur í hjúkrunarskólanum í vetur hafa verið 115 talsins. Það er talið, að þeim þurfi að fjölga verulega, til þess að þörfinni verði fullnægt fyrir hjúkrunarmenntað fólk, og er það von þeirra, sem að þessum breyt. standa, er í þessu frv. greinir, að Þær megi stuðla að því, að fleira fólk telji sér kleift að hefja nám í skólanum og ljúka þaðan prófi.

Nefndin leggur til, að þrjár smávægilegar breytingar verði gerðar á frv. Við 10. gr., að fyrir orðið „geðfræði“ í 1. málsgr. komi: geðsjúkdómafræði. Í öðru lagi, að í 12. gr. komi fyrir orðið „framhaldsnám“ í 1. málsgr.: framhaldsmenntun. Og loks í þriðja lagi við 14. gr. Fyrir orðið „bæjarsjúkrahússins“ komi: borgarsjúkrahússins.

Þessar brtt. skýra sig allar sjálfar og þarf því ekki að fara um þær eða frv. í heild fleiri orðum. Heilbr: og félmn. mælir í heild með því, að frv. verði samþykkt með þessum breytingum og vísað til 3. umr.