09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

119. mál, Hjúkrunarskóli Íslands

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. mun vera samið af landlækni og stjórn hjúkrunarkvennaskólans í samráði við stjórn Hjúkrunarfélags Íslands. Aðalbreytingin, sem í þessu frv. felst, frá því, sem nú gildir, er, að gert er ráð fyrir, að námstíminn sé styttur um 3 mánuði eða því sem næst, en það er ætlunin, að námið verði a.m.k. ekki lakara, heldur er ætlunin, að það verði heldur betra, og það er ætlunin að ná því með því að skipuleggja Það betur en gert hefur verið og hafa meiri kennslu í skólanum, áður en nemendurnir fara út í verklega námið, og er búizt við, að Þeim notist þannig betur að verklega náminu.

Nefndin ræddi þetta frv. og var sammála um að mæla með að samþykkja Það óbreytt, eins og það liggur fyrir. En það var nokkuð rætt um það í n., hvort ástæða væri til að setja inn í frv. ákvæði um það, að halda mætti námskeið í skólanum fyrir aðstoðarfólk á sjúkrahúsum og ljósmæður. Það hefur verið svo mikill skortur á hjúkrunarkonum að undanförnu, að það hefur stundum orðið að notast við ljósmæður og aðstoðarfólk, sem hefur ekki hjúkrunarmenntun, til þess að vinna nokkuð af Þeim störfum, sem hjúkrunarkonur annars vinna, og hefur verið reynt að kenna þeim á námskeiðum það, sem nauðsynlegt er til þess að geta annazt þau störf. Það kom til tals í n., að nú á næstunni mundi verða svo mikil þörf á fleiri hjúkrunarkonum en til eru, að nauðsynlegt væri að gera einhverjar ráðstafanir í þessu skyni. En það varð ofan á í n. að geta þessa, að ætlazt væri til, að þörfin yrði leyst með námskeiðum, eins og heimild mun til í lögunum.

Við leggjum sem sagt til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.