09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

124. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 1. þm. Norðurl. e. Hann talaði um, að það væri illt að stíga skrefið ekki nema til hálfs með því að setja þetta bráðabirgðaákvæði í staðinn fyrir staðaruppbót. En í Því sambandi vil ég upplýsa það, að þessum málum er nokkuð öðruvísi háttað en var, þegar landlæknir samdi sínar till. Það hefur breytzt þó nokkuð aðstaðan til þess að fá þessi héruð skipuð frá því, sem þá var um að ræða. Það hefur tekizt nú, að ég hygg, að fá skipuð, a.m.k. um sinn, öll læknishéruð á landinu nema þrjú, og eru líkur til þess, að svo verði á næstunni. En um bráðabirgðaákvæðið og staðaruppbótina vil ég segja það, að staðaruppbótin var eingöngu hugsuð sem launauppbót til þeirra lækna, sem færu í þessi héruð, bæði Þau allra fámennustu og raunar í miðlungshéruðin líka, sem hafði reynzt örðugt að fá skipuð nú undanfarið. En það hefur rætzt nokkuð úr því nú í svip vegna fjölgunar lækna. En ég er ekki alveg sammála hv. 1. Þm. Norðurl. e. að því leyti, að ég tel, aðþÞessi bráðabirgðaheimild, sem felst í frv. núna, sé rýmri en staðaruppbótin. Það getur verið svo háttað og er svo háttað í sumum þessum héruðum, sem nú hafa ekki fengizt skipuð, að það er fleira en bara launin ein, sem gerir það að verkum, að ekki er hægt að fá þangað lækna. Það er ófullnægjandi húsnæði og ýmislegt annað, sem getur verið þörf á að greiða fyrir í svip, og þessi heimild að veita sérstaka upphæð til þess að greiða úr í þessum efnum er að því leyti rýmri, að það er hægt að nota hana til hvers þess, sem má verða til þess að fá skipuð þessi héruð, sem ekki hafa fengizt læknar í undanfarið.