16.03.1962
Efri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

35. mál, atvinnubótasjóður

Páll Þorsteinsson:

Þetta eru aðeins örfá orð, herra forseti. — Mér þykir gott að heyra, að hæstv. ráðh. viðurkennir í raun og veru það sjónarmið, sem ég dró fram í ræðu minni um fjárhagsgetu þessa sjóðs til útlána, og að hið árlega framlag skv. frv. verði lægra en það hefur verið undanfarin ár. En það var ekki þetta, sem gaf mér tilefni til að standa upp aftur, heldur þau ummæli, sem féllu hjá hæstv. ráðh. um útflutningssjóð. Mér finnst nú hæstv. ráðh. skjóta nokkuð langt yfir markið, ef hann ætlar að leggja þá heildarfjárhæð eða heildarveltu, sem útflutningssjóður hafði, við fjárl. eins og þau voru á því árabili, sem útflutningssjóður starfaði, og gera þá dæmið upp eftir því. Gengislækkunin var gerð til þess að leysa starfsemi útflutningssjóðs af hólmi, og þær álögur, sem lagðar voru á þjóðina með gengislækkuninni í hækkuðu verðlagi, vega á móti þeirri tekjuöflun og starfsemi, sem útflutningssjóður hafði áður með höndum. Þá var aðeins innheimt með sköttum af þjóðinni í útflutningssjóð og því síðan veitt aftur til atvinnuveganna, en með gengisbreytingunni tók þjóðin, almenningur í landinu, á sig samsvarandi byrðar vegna atvinnulífsins í landinu. Ég get því alls ekki fallizt á þá röksemd, að það sé réttmætt að gera þetta dæmi þannig upp að ætla sér að leggja saman heildarveltu útflutningssjóðs og ríkissjóðs á þeim árum, sem útflutningssjóður starfaði, og bera það hvort tveggja saman við fjárl. eins og þau eru nú.