16.03.1962
Efri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

35. mál, atvinnubótasjóður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er engin ástæða til þess, að ég sé að pexa við hv. 5. þm. Austf. um þetta. En segja vildi ég þó, að útflutningsbætur og ýmsar aðrar bætur voru, áður en útflutningssjóður var stofnaður, greiddar á fjárl., og þetta kúnststykki að stofna sérstakan útflutningssjóð varð náttúrlega til þess að létta af fjárl. vissum útgjöldum, sem voru þar áður og hlutu að verða þar á eftir, þannig að mér finnst ekki fást rétt mynd út ú: þessu dæmi, nema a.m.k. verulegur hluti, ég skal ekki segja, hvort hann er alveg allur, en mjög verulegur hluti af útflutningssjóði sé tekinn saman með fjárlagaupphæðinni til þess að fá sambærilega mynd við fjárl., eins og þau eru í dag. Fjárl., eins og þau voru fyrir 3–4 árum, voru raunverlega ekki sambærileg við nein önnur fjárl., sem afgreidd hafa verið í þessu landi, vegna þess að það vantaði á þau svo gríðarlega mikið, sem hafði verið þar áður og var flutt þangað á eftir. Þess vegna finnst mér, að þetta geti ekki talizt réttur samanburður hjá hv. 5. þm. Austf., nema því aðeins að útflutningssjóðurinn sé tekinn með.