26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

155. mál, verkamannabústaðir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Löggjöfin um verkamannabústaði, um byggingarsjóð verkamanna, var sett fyrst árið 1929 í stjórnartíð samstjórnar Framsfl. og Alþfl. Það leikur ekki á tveim tungum, að þar var um mjög merka löggjöf að ræða. Það verða ekki heldur skiptar skoðanir um það, að þessi löggjöf og sú starfsemi, sem á henni var byggð, hefur hjálpað mjög mörgum mönnum til að eignast eigin íbúð, — mörgum mönnum, sem ella hefðu ekki átt þess kost. Hins vegar er jafnvíst, að á allra síðustu árum hefur starfsemi þessa sjóðs verið miklum annmörkum bundin og því orðið minna úr henni en þörf hefði verið á. Því valda fyrst og fremst þær stórkostlegu breytingar, sem orðið hafa á byggingarkostnaði, þannig að það hefur orðið ókleift fyrir þá menn, sem hér hafa átt hlut að máli, þá tekjulægstu menn í þjóðfélaginu, að notfæra sér þau úrræði, sem þessi sjóður hefur haft upp á að bjóða, og svo jafnframt hitt, að sjóðurinn hefur ekki við þær aðstæður, sem hann þannig hefur átt við að búa, treyst sér til að afla þess fjár, sem þurft hefði, til þess að mæta þeirri þörf, sem hér hefur verið fyrir hendi. Það er að mínum dómi mjög nauðsynlegt að reyna að ráða bót á þeim annmörkum, sem á síðustu árum hafa verið á starfsemi þessa sjóðs, nauðsynlegt að afla meira fjár til þessara lána og nauðsynlegt að haga lánakjörunum á þann veg, að það sé ekki ofvaxið þessum getulitlu mönnum, sem hér er um að tefla, að taka lán hjá sjóðnum og notfæra sér þau úrræði, sem hann hefur upp á að bjóða, og eignast með þeim hætti þak yfir höfuðið. En það hlýtur eða ætti a.m.k. að vera það mark, sem að væri stefnt, að sem flestir gætu eignazt eigin íbúð og búið í eigin íbúð.

Mér sýnist, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé stefnt í rétta átt, og vil segja, að þar er um að ræða virðingarverða viðleitni til þess að leysa úr þeim vanda, sem hér er fyrir hendi. Hitt er svo annað mál, hvort gengið er nægilega langt í þessu frv. og hvort það þyrfti ekki að gera enn frekari ráðstafanir en þar er um að tefla og hvort það þyrfti ekki að binda það að ýmsu leyti fastari skorðum, með hverjum lánskjörum verður lánað, heldur en gert er í þessu frv. Ef það er ekki bundið í löggjöfinni, þá er alltaf sú hætta fyrir hendi, að lánskjörunum verði hagað á þá lund, að hinir efnalitlu menn geti ekki fært sér í nyt það úrræði, sem hér er um að ræða.

Framsfl. hefur að vísu ekki átt fulltrúa í þeirri n., sem endurskoðað hefur þetta lagafrv., en mér er óhætt að segja það, að framsóknarmenn munu samt sem áður taka hverri tilraun og viðleitni til þess að efla byggingarsjóð verkamanna og styrkja starfsemi hans vel, og þeir munu fyrir sitt leyti stuðla að því, að þannig verði frá þeim sjóði gengið, að hann geti fullnægt því hlutverki, sem honum upphaflega var ættað. En ég tel nauðsynlegt, að það verði mjög vel athugað í þeirri n., sem fær frv. til athugunar, hvort það er ekki Þörf á að gera enn frekari öryggisráðstafanir í sambandi við þetta mál, til þess að tryggja það svo vel sem unnt er, að sú aðstoð, sem hér er um að ræða, komi að tilætluðum notum.

Ég bendi t.d. á, að það er ákaflega ósennilegt, þegar byggingarkostnaður íbúðar er orðinn 380 þús. eða þar yfir, — þeirrar íbúðar, sem hér er um að tefla, — og vextir af lánum eru 6%, að þeir menn, sem hafa þær tekjur, sem hér er ráð fyrir gert, geti staðið undir slíkum lánum. Ég held, að það hljóti öllum að vera ljóst, að á því eru litlir möguleikar. Ég held, að það verði því að horfast í augu við þá staðreynd, að hér er ekki um annað að ræða en að halda áfram þeirri stefnu, sem áður ríkti í þessum efnum, að hafa þessi lán með ákaflega lágum vöxtum. Nú er að vísu svo, að það er ekki bundið í þessu lagafrv., hverjir vextirnir skuli vera, heldur er gert ráð fyrir því þar, að það sé Seðlabankinn, sem ákveði vextina í samráði við ríkisstj. Þegar litið er til þeirrar stefnu í vaxtamálum, sem nú er ríkjandi, þá er vart gerandi ráð fyrir, að Seðlabankinn fari að lækka þessa vexti verulega frá því, sem nú er. Ég teldi þess vegna sjálfsagt að ákveða strax í lögum hámark þeirra vaxta, sem hér mætti vera um að ræða. Það eitt held ég að geti veitt þá tryggingu, sem vera þarf fyrir hendi í þessu sambandi. Og einnig er það, að um lánskjörin að öðru leyti er fullmikið frjálsræði að mínum dómi í þessu frv. og þau þess vegna lögð að of miklu leyti á vald viðkomandi sveitarstjórnar og stjórnar byggingarsjóðsins. Ég held, að í máli sem þessu verði ekki komizt hjá því að hafa um þetta fastar, almennar, ófrávíkjanlegar reglur.

Ég vildi aðeins láta það koma fram á þessu stigi málsins, að þó að Framsfl. hafi sem sagt ekki átt þátt í þessari endurskoðun og hafi ekki átt fulltrúa í þeirri n., sem um þetta mál hefur fjallað, þá tekur hann heils hugar undir það, að hér þurfi að gera ráðstafanir til bóta, sem tryggi það, að starfsemi þessa sjóðs geti eftirleiðis orðið með þeim hætti, sem var lengi vel á fyrstu starfsárum hans, og að hann geti rækt hlutverk sitt í framtíðinni með svipuðum hætti og þá var. Og það mun ekki standa á framsóknarmönnum að fylgja því máli. En hins vegar tel ég og vil láta það líka koma fram þegar á þessu stigi málsins, að það þurfi mjög gaumgæfilega að athuga, hvort ekki þarf hér enn meira að að gera og hvort ekki þarf að tryggja það enn betur en gert er í þessu frv., að starfsemi þessa sjóðs geti komizt í viðunanlegt horf.