29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

155. mál, verkamannabústaðir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um verkamannabústaði er komið frá hv. Ed., þar sem það var samþ. með lítils háttar breytingum, sem ég mun koma að síðar.

Aðdragandi þessa máls er sá, að síðari hluta árs 1960 var sett á laggirnar 5 manna n. til Þess að endurskoða i. um húsnæðismálastjórn o.fl. En inn í þá löggjöf voru gömlu lögin um verkamannabústaði felld, þegar húsnæðismálastjórnarlögin voru samþ. 1956 eða 1957, að ég ætla. En þessi n., er sett var á laggirnar til að endurskoða l. um húsnæðismálastjórn, hefur svo valið þann kostinn að flytja sérstakt frv. um verkamannabústaði, og það er Það frv., sem hér liggur fyrir, allýtarlegt og með nokkrum verulegum breyt. frá þeim ákvæðum, sem nú gilda um þessi mál. Hún hefur svo skilað bráðabirgðaáliti um breytingu á sjálfum húsnæðismálastjórnarlögunum, sem líka hefur verið lagt fram og hv. þdm. kannast við. Hvað viðvikur Þessu frv., er það að segja, að lögin um verkamannabústaði voru orðin svo úrelt, að raunverulega voru þau tæpast nothæf lengur. Byggingarkostnaður hafði vaxið mjög nú síðustu árin, og þau skilyrði, sem sett voru í I. fyrir því að eignast íbúð í verkamannabústöðum, stönguðust að verulegu leyti við raunveruleikann, má segja, þar sem ákvæðin í l. um tekjumark og eignarmark voru svo ströng, að það var tæplega hægt að hugsa sér, að þeir, sem þessi skilyrði uppfylltu, væru þess megnugir að taka þátt í húsbyggingum samkv. lögunum.

Upphaflega voru verkamannabústaðalögin sett árið 1929 til þess, eins og þar stendur, að gera verkalýð bæjanna kleift að fá hollar og ódýrar íbúðir með þægindum nútímans. Þetta er erfitt og að heita má ókleift fyrir verulegan hluta af verkamönnum, nema því aðeins að aðstoð komi til. Á fskj., sem frv. fylgir, fskj. VIII, er gerð grein fyrir tekjuskiptingu landsmanna, eins og hún var árið 1959. Þar kemur í ljós, að þeir, sem hafa tekjur undir 50 þús. kr., eru taldir vera 9,3% af heildartölunni. Þessir menn, sem hafa tekjur undir 50 þús., eru Þó samkvæmt þessari töflu upp undir 1/10 hluti. Nú gera þau lög, sem í gildi eru, ráð fyrir því, að menn megi ekki hafa hærri tekjur en 50 þús. kr. til þess að fá fyrirgreiðslu samkv. lögunum. En þeir, sem aftur hafa undir 50 þús. kr., eiga mjög erfitt með að inna af hendi þær greiðslur, sem Þarf til þess að geta keypt íbúð, eins og nú standa sakir, þar sem lánin úr byggingarsjóðnum hafa komizt hæst í 160 Þús. kr. á íbúð, en byggingarkostnaðurinn hins vegar orðið verulega yfir 300 þús. kr., eða síðustu íbúðirnar í kringum 360 þús., og framlagið úr sjóðnum Því minna en helmingur.

Á undanförnum 30 árum hafa verið byggðar í kringum 16 Þús. íbúðir í landinu, í kaupstöðum og kauptúnum. En á sama tíma hafa verið byggðar rúmlega 1100 verkamannabústaðaíbúðir, þ.e.a.s. fjöldi verkamannabústaðaíbúðanna nemur um 7% rúmum af heildaríbúðafjöldanum, sem byggður hefur verið í landinu á þessu tímabili, þ.e.a.s. Þessi hundraðshlutatala nálgast að vera sú sama og tala Þeirra, sem hafa undir 50 þús. kr. tekjum árið 1959. Takmarkið með þessari breytingu, sem hér er lagt til að gerð verði, og þeirri auknu fyrirgreiðslu, sem frv. gerir ráð fyrir að komið verði á, er það, að svipað hlutfall geti haldizt, Þannig að þeir, sem í lægstu launaflokkunum eru, geti fengið fyrirgreiðslu á þennan hátt eða allt að 10%.

Íbúðaverðið hefur hækkað mjög mikið upp á siðkastið. Það var, að ég ætla, þegar upphaflega var stofnað til þessarar lagasetningar, í kringum 11 þús. eða 12 þús. kr., minnir mig að Það hafi verið. Og þá var gert ráð fyrir sem eignarmarki og raunar tekjumarki líka í kringum 4000 kr., eða um það bil þriðjungi af íbúðarverðinu. Þetta hefur breytzt mjög mikið, þannig að íbúðirnar eru nú komnar í síðustu flokkunum hér í Reykjavík upp í um 360 þús. kr., og líkur til, að enn verði um hækkun að ræða í næstu byggingarflokkum. Ástæðurnar til þessarar hækkunar eru fleiri en ein, þó að aðalástæðan sé vitaskuld sú, að allt byggingarefni og vinnulaun, sem til þessarar starfsemi þarf, hafa hækkað geysilega mikið í verði. En það er líka önnur ástæða, sem er talsvert veigamikil fyrir þessari hækkun, og hún er sú, að íbúðirnar hafa með tímanum stækkað verulega, þ.e.a.s. þegar fyrst var hafizt handa um þessa starfsemi, þá mun íbúðastærðin hafa vaxið í kringum 60 fermetra, en er nú komin um og yfir 90, þannig að sjálf íbúðastærðin hefur vaxið um 50%, sem náttúrlega gerir það að verkum, að byggingarkostnaðurinn hefur af þeim orsökum líka vaxið.

Til þess að þessi lagasetning geti komið að notum, Þarf að veita þeim, sem samkv. henni byggja, aðstoð. Og það er Það, sem lögin frá upphafi hafa gert ráð fyrir. Það hefur verið gert ráð fyrir, að sveitarsjóður á viðkomandi stað leggi fram nokkurt framlag í þessu skyni og ríkissjóður leggi framlag á móti, sem að undanförnu hefur verið jafnhátt. Þetta framlag byrjaði með 1 kr. á íbúa, hækkaði fljótlega upp í 2 kr. og síðan koll af kolli, þangað til framlagið er nú komið upp í að vera 24 kr. sem lágmark og 36 kr. sem hámark. Ein aðalbreyt., sem í þessu frv. felst, sem hér er lagt fram, er sú, að þessi upphæð, framlag sveitarsjóðanna, verði hækkuð úr 24–36 kr., eins og það er nú, upp í 40–60 kr., eða um 67%, og að ríkissjóður leggi fram jafnmikið á móti. Með þessum auknu framlögum sveitarfélaganna og ríkissjóðsins á að vera hægt að bæta mjög verulega starfsemi sjóðsins.

Í upphafi, Þegar verkamannabústaðalögin voru sett, var ráð fyrir því gert, að þessi framlög, bæði ríkisins og sveitarfélaganna, yrðu fyrst og fremst notuð til þess að greiða þann vaxtamun, sem fram kynni að koma á lánum til húsbyggjendanna og lánum, sem byggingarsjóðurinn þyrfti að taka, Þannig að það var gert ráð fyrir því, að vextirnir til húsbyggjendanna yrðu yfirleitt lægri en vextirnir af þeim lánum, sem sjóðurinn tæki, þannig að meðgjafar yrði þörf. Framkvæmdin hefur þó orðið nokkur önnur, eins og sést á einu fskj., sem með frv. fylgir, þ.e.a.s. fskj. II. Þar sést, að þeir fjármunir, sem byggingarsjóðurinn hefur haft á milli handa, eða þær tekjur eða innborganir, sem hann hefur fengið, hafa numið um 124,3 millj. kr., en lántaka sjóðsins hefur einungis numið 12 millj., eða um 10% af þeim fjármunum, sem hann hefur haft með höndum. Framkvæmdin hefur því í rauninni orðið sú, að byggingarsjóðurinn hefur að mestu leyti notazt við eigið fé og látið Þar við sitja að lána það, en mjög lítið verið gert af því að taka lán, sem aftur yrði framlánað Þeim, sem eru að byggja, eða byggingarfélögunum í hinum einstöku sveitarfélögum.

Þessu þarf að breyta, og það þarf að gera ráðstafanir til þess, að byggingarsjóðurinn fái aðstöðu til þess eða möguleika að taka nokkru frekar lán en hann hefur gert og að Þessi lán verði ekki með hærri vöxtum en svo, að árlegar greiðslur geti orðið viðráðanlegar fyrir húsbyggjendurna, því að þeir hafa vitanlega ekki úr miklu að spila, sem ekki hafa nú nema um eða undir 50 þús. kr. árstekjur. Vextir, sem sjóðurinn hefur tekið á undanförnum árum, hafa verið mjög breytilegir. Þeir hafa verið breytilegir, frá 2% eða undir 2% og upp í 6%. og hafa þó, að ég ætla, komizt niður í það að nema það litlu, að árleg vaxta- og afborganagreiðsla hefur numið 21/2 %.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir ýmsum breytingum. Það er t.d. gert ráð fyrir því að leggja þessar auknu byrðar á sveitarsjóðina og ríkissjóðinn, sem ég nefndi, sem á að gefa sjóðnum eigið fé um það bil 67%o meira en hann hefur nú úr að spila. Það er líka gert ráð fyrir því, að tekjumarki þeirra, sem undir lögin komast, verði breytt, Þannig að Það verði hækkað úr 50 þús. kr. upp í 60 þús. kr., eins og var þegar frv. var lagt fram. En þessari upphæð hefur hv. Ed. breytt þannig, að eins og frv. er nú er lagt til, að þetta tekjumark verði 65 þús. kr. auk 5 þús. kr. fyrir hvert barn, sem húsbyggjandinn hefur á framfæri sínu. Eignarmarkið, sem var 50 þús. kr., var hækkað upp í 150 þús. kr. og þar með gert mögulegt, að fleiri geti notið fyrirgreiðslu samkv. lögunum, því að sannleikurinn er sá, að þó að farið sé þetta langt í fyrirgreiðslu fyrir menn, þá eiga þeir sjálfsagt erfitt með að standa undir lánum, sem nema kannske í kringum 400 þús. kr.

Lánstíminn, sem var 42–75 ár, verður óbreyttur samkv. þessu nýja frv., og var ekkert við honum hróflað. Hins vegar er gert ráð fyrir, að mögulegt verði að hækka framlagið eða lánin út á hverja íbúð úr því marki, sem nú er og hefur í framkvæmd orðið 160 þús. kr., að ég ætla, mest upp í 300 þús. kr., sem ætti, ef vextir verða ekki því hærri, að vera viðráðanlegt fyrir hvern og einn, sem þessar tekjur hefur.

Vextirnir skulu samkv. frv. vera ákveðnir af Seðlabankanum í samráði við ríkisstj., þannig að ríkisstj. getur á hverjum tíma haft nokkur áhrif á Það, hvernig vextirnir verða reiknaðir. En þó að stefnt sé að því að hafa Þá sem lægsta, verða þeir a.m.k. að verða ákveðnir þannig, að ekki verði stofnað til hættu fyrir sjóðinn, að hann geti ekki staðið undir sínum lánum.

Frv. fylgir mjög ýtarleg grg. um bæði sögu þessarar starfsemi og hlutverk byggingarsjóðs, fjármál sjóðsins og ýmislegt annað, sem máli skiptir í þessu sambandi, og einnig níu fylgiskjöl, sem gefa upplýsingar um fjöldamörg atriði, sem málið snerta. Ég sé ekki ástæðu til að fara að lesa Þetta allt hér upp, það geta hv. alþm. gert og hafa vafalaust gert, en í þessum töflum, fskj. og grg. felast mjög ýtarlegar og veigamiklar upplýsingar um málið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, en ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.