03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

155. mál, verkamannabústaðir

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. til l. um verkamannabústaði, og var samþ. að mæla með frv. óbreyttu, eins og það kom frá hv. Ed. Einn nm., Jón Skaftason, áskildi sér rétt til að flytja eða styðja brtt., og einn nm., Hannibal Valdimarsson, var fjarstaddur, þegar n. afgr. málið. í aths., sem frv. fylgja. eru greinagóðar upplýsingar um starfsemi byggingarsjóðs verkamanna frá upphafi og skýringar á þeim breytingum frá gildandi lagaákvæðum, sem frv. hefur inni að halda. Við 1. umr. gerði hæstv. félmrh. einnig ýtarlega grein fyrir málinu, og er þess vegna óþarft að fara um það mörgum orðum að þessu sinni. Ég mun þó minnast á nokkur þeirra atriða, sem, mestu máli skipta.

Þess er getið í grg. með frv., að þegar fyrst voru sett l. um verkamannabústaði árið 1929. þá hafi tilgangur þeirra I. verið sá að gera verkalýð bæjanna kleift að eignast hollar og ódýrar íbúðir með þægindum nútímans. Aðstoð hins opinbera hafi þá verið talin nauðsynleg vegna bágborins efnahags mikils fjölda fólks. Sýnt er fram á, að í reynd hafi l. að vísu veitt mikilvæga aðstoð við að ná þessu marki, þar sem sjóðurinn hefur, miðað við árslok 1960, veitt lán að upphæð 104.1 millj. kr. út á 1108 íbúðir, en hins vegar hefur efnahagur landsmanna batnað mikið á þessu tímabili, þannig að húsakostur þjóðarinnar hefur verið stórlega bættur eftir öðrum leiðum. Þannig hafa í heild verið byggðar um 16 þús. íbúðir í kaupstöðum og kauptúnum á árunum 1930–1960, en þar af eru íbúðir byggðar samkvæmt l. um verkamannabústaði 1108 talsins, eins og fyrr var sagt. Af þessu má ráða, að margt manna úr verkalýðsstétt, sem lögunum um verkamannabústaði var upphaflega ætlað að ná til, hefur haft tök á að koma sér upp húsnæði eftir öðrum leiðum, og sýnt er fram á, að hin síðustu ár hefur lánsfjárskortur verið aðalvandinn í sambandi við húsbyggingar. Af þessu dregur undirbúningsnefnd frv. eftirfarandi ályktun á bls. 6 í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar l. um verkamannabústaði voru sett, var verkalýðsstéttin í heild flokkuð hér undir. Sem betur fer er svo ekki lengur, enda viðurkennt af öllum, að þessari fjölmennustu stétt þjóðfélagsins verði að búa þau kjör, sem geri henni yfirleitt mögulegt að koma sér upp viðunandi íbúðum. En þegar svo er ástatt, ætti að geta orðið þeim mun hægara að aðstoða þá þegnana, sem raunverulega eru verst settir. En til þess að svo geti orðið, er tvennt nauðsynlegt: 1) Takmarka fyrirgreiðsluna við ákveðið tekju- og eignarhámark þeirra, sem hennar geta notið. 2) Veita nægilega mikla aðstoð, svo að hún komi að fullu gagni þeim, sem njóta eiga.“

Skv. þessu er síðan gerð grein fyrir þeim þrem atriðum, sem fyrst og fremst komu til athugunar við endurskoðun laganna. Þau eru þessi: 1) Ákvæði um tekju- og eignarhámark þeirra, sem fyrirgreiðslu geta notið skv. lögunum. 2) Lánsupphæð á hverja íbúð og lánskjör byggingarsjóðs verkamanna. 3) Tekjuöflun sjóðsins.

Varðandi fyrsta atriðið hefur undirbúningsnefndin í till. sínum stuðzt við athugun Framkvæmdabanka Íslands á skiptingu launþega eftir tekjum og ómagafjölda, sbr. fskj. VIII með grg. Út frá því leggur n. til, að tekjumarkið verði 60 þús. kr., miðað við meðaltal þriggja í síðustu ára, þ.e.a.s. árstekjur að viðbættum 5 þús. kr. fyrir hvern ómaga á framfæri, og að skuldlaus eign megi ekki vera yfir 150 þús. kr. Þessar tölur hafa verið 50 þús. kr. og 75 þús. kr. síðan 1957. Í meðförum hv. Ed. var tekjumarkið hækkað upp í 65 þús. kr. árstekjur. Skv. þessu ætti að mega reikna með, að fyrirgreiðsla byggingarsjóðs geti náð til rúmlega 10% launþega í kaupstöðum og kauptúnum.

Varðandi annað atriðið er lagt til, að lánstími skuli vera 42–75 ár, lánsupphæð megi vera allt að 90% af kostnaðarverði íbúðar, en þó ekki yfir 300 þús. kr. á íbúð, Seðlabankinn skuli ákveða vexti í samráði við ríkisstj.

Skv. þessu verður heimilt að hækka hámarkslán á íbúð úr 160 þús. kr. í 300 þús. kr., og leggur n. á það áherzlu, að búa þurfi þannig eð sjóðnum, að hann geti a.m.k. veitt lán, sem séu 75% af byggingarkostnaði og með þannig lánskjörum, að viðráðanlegt sé fyrir það fólk, sem l. eiga að ná til.

Varðandi þriðja atriðið, tekjuöflun sjóðsins, er lagt til, að lágmarksframlag sveitarfélaga, sem nú er 24 kr. á íbúa, verði hækkað í 40 kr., og hámarksframlagið, sem nú er 36 kr. á íbúa, verði hækkað í 60 kr., en ríkissjóður greiðir á móti sveitarfélögunum jafnhátt og þau. Miðað við íbúafjölda þeirra sveitarfélaga, þar sem nú eru starfandi byggingarfélög verkamanna, eða um 130 þús. manns, þýðir þetta hækkun um 4 millj. 160 þús. kr. miðað við lágmark, en um 6 millj. 240 þús. kr. miðað við hámark framlags. Geti þá árlegar tekjur sjóðsins orðið 10.4 millj. til 15.6 millj. kr. að viðbættum vaxtatekjum og árlegum afborgunum lána, sem hann hefur til ráðstöfunar.

Þau atriði úr frv., sem ég hef nú lauslega drepið á, miða að því að gera byggingarsjóð verkamanna færan um að hjálpa efnaminnstu þegnum þjóðfélagsins til að eignast þak yfir höfuðið. En meira þarf til. Það er okkur ljóst, sem mælum með samþykkt þessa frv. Vandinn er sá að fullnægja eftirspurninni eftir lánsfé til húsbygginga og skapa jafnvægi á því sviði. í trausti þess, að áframhaldandi verði ötullega unnið að því að leysa þann vanda, er mælt með frv. ú þskj. 497.