11.12.1961
Efri deild: 30. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. í fjárlagaræðunni við 1. umr. fjárlagafrv. fyrir 1962 í okt. s.l. gerði ég allýtarlega grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1960, og vil ég vísa til Þeirrar grg. og tel því ekki þörf nú, þegar frv. um samþykkt á ríkisreikningnum er lagt fram, að endurtaka þá grg. Ég vil aðeins taka það fram, að tvenns konar breytingar hafa verið gerðar nú á þessum ríkisreikningi frá því, sem áður hefur verið. Annars vegar, að efnisyfirlitið er allmiklu ýtarlegra en áður hefur verið, til glöggvunar fyrir hv. þm. og aðra, sem vilja fletta upp í reikningnum, en áður hefur efnisyfirlit þótt fullstuttaralegt og nokkrum örðugleikum bundið fyrir menn að finna fljótlega það, sem þeir vildu leita að í reikningnum. Annars staðar er svo gefið yfirlit, sem ekki hefur verið gert áður í ríkisreikningnum, um greiðslujöfnuðinn á því ári. Þegar menn hafa viljað finna, hver væri greiðslujöfnuður, hagstæður eða óhagstæður, á ríkisbúskapnum, þá hefur ekki verið unnt að finna í ríkisreikningnum neina grg. um það. Nú er á bls. 227 gerð grein fyrir því máli. Eins og ég tók fram í fjárlagaræðunni, voru hins vegar mismunandi skoðanir uppi um það, hvernig eigi að reikna greiðslujöfnuð ríkissjóðsins. Ég benti þá á m.a., að nokkurt misræmi er þar milli þeirra reglna, sem ríkisbókhaldið hefur fylgt undanfarin ár, og hins vegar þeirra reglna, sem Seðlabankinn notar og m.a. kemur fram í tímariti hans, Fjármálatíðindum. Þessar mismunandi reglur leiða m.a. til þess, að eftir reglum ríkisbókhaldsins er greiðslujöfnuðurinn hagstæður á árinu 1960 um 10.7 millj. kr., en eftir reglum Seðlabankans var hann hagstæður um 35.4 millj. Rétt þykir að sjálfsögðu um sinn að nota þá sömu aðferð og notuð hefur verið undanfarin ár, en hins vegar eru lögin um ríkisbókhald og endurskoðun til endurskoðunar og verið að undirbúa nýtt frv. um þau mál, og er þá gert ráð fyrir, að reynt verði að komast að fastri reglu um það, hversu reikna beri greiðslujöfnuð ríkíssjóðsins, til þess að festa og samræmi fáist í þeim efnum.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. á þessu stigi, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.