12.04.1962
Neðri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hér eru ríkisreikningarnir til umræðu, og það hefur stundum brugðið svo við á undanförnum árum, að hæstv. fjmrh. hefur haft nokkurn áhuga fyrir afgreiðslu ríkisreikninga, að fá þá afgreidda snemma. Nú eru þeir til umr., með einhverjum mestu aths., sem við þá hafa komið, og með ágreiningi í fjhn. þessarar deildar og með allalvarlegum ásökunum á hendur fjmrh. Ég kann satt að segja betur við, að þegar Nd. ræðir slík mál, þá sé hæstv. fjmrh. viðstaddur. Ég vildi leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti gerði ráðstafanir til þess, að fjmrh. væri hér við. Er þá ekki viðkunnanlegra, að þessu máli sé frestað, það er búið að afgr. málið í Ed., og þetta er 2. umr.? Það eru þó það margir dagar eftir af þinginu, að ég kann satt að segja ekki við það, að — (Forseti: Það er sjálfsagt að verða við þeirri ósk hv. ræðumanns.) — [Umr. frestað um sinn.]

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er nú ekki kominn. Hins vegar kom höfuðsökudólgurinn, hæstv. fyrrv. fjmrh., hér inn áðan, en ég sé, að hann er sloppinn, svo að ég vildi spyrja hæstv. forseta, hvort hann sé orðinn vonlaus um að fá annan hvorn, fyrrv. eða núv. fjmrh., hérna inn, svo að það sé einhver til að svara til saka, því að mér sýnist, að það, sem hér sé að gerast, hljóti að kosta það, að það verði bornar allþungar sakir á menn, sem setið hafa í fjmrn. Íslands sem ráðh. nú og síðast, þannig að ég vildi óska, að hæstv. forseti gerði ráðstafanir til þess, að einhver sökudólganna væri þó við.

Það er öllum hv. þm. vonandi ljóst, að annar höfuðþátturinn í allri baráttu, jafnt Alþingis sem annarra þjóðþinga í Evrópu, gagnvart konungsvaldinu, sem réð áður löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi, var að fá í hendur Alþingis að fullu og öllu allt vald yfir fjármálum þjóðarinnar, þannig að það væri alveg ótvírætt, að sá aðili, sem réði í fjármálum þjóðar, það væri Alþingi. Það væri Alþ., sem réði, hvaða skattar væru lagðir á, það væri Alþ., sem yrði að veita fé, og það væri Alþ., sem léti rannsaka fjármálin, og það er sérstaklega ákveðið í stjórnarskránni, með hverjum hætti, hve marga yfirskoðunarmenn skuli kjósa til þess að sjá um, að ráðh. m.a. steli ekki af fé ríkisins, m.a. af þeirri mjög slæmu reynslu, að það var einu sinni fjmrh. yfir Íslandi, sem fór beint í tukthúsið úr fjmrn., af því að hann gat þá ekki lengur dulið það, sem hann var búinn að stela. Menn kannast við Alberti-málið vonandi. Það er því nokkurn veginn ljóst, að Þegar Alþingi vill fara að ráða sínum fjármálum, þá gerir Það ákveðnar kröfur í því sambandi. Samkvæmt stjórnarskránni setur Alþingi þrjá yfirskoðunarmenn og þessir yfirskoðunarmenn hafa aðgang að öllum plöggum ríkisins. Það er ekki heimilt neinum fjmrh. að stela neinu undan eða hylma yfir með neinum, og ef fjmrh. gerir það, þá hefur hann gerzt samsekur. Þá er hann að gerast samsekur þeim, sem hefur framið brot. Ég veit ekki, hvort núv. hæstv. fjmrh. er þetta ljóst, þó að hann hafi verið lögfræðiprófessor. Ég veit það ekki. Ég veit ekki heldur, hvort fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh., er það ljóst, þó að hann sé lögfræðingur. Það er stundum vitnað hér af sumum ráðherrum í lögfræðinga sem alveg úrslitaröksemd fyrir hinum og þessum málum. En mér sýnist nú, að sá háttur, sem nú er hafður hér á, komi til með að gera nokkuð lítið úr lögfræðivizku sumra lögfræðinga, a.m.k. þegar þeir eiga að gæta hagsmuna ríkisins og hagsmuna almennings. Ég skal ekkert segja, hvað viðkomandi lögfræðingar væru duglegir í því að gæta hagsmuna t.d. manna, sem væru í fjármálaráði Alþfl., annars stjórnarflokksins, manna, sem virðast hafa ausið út fé til þess að koma af stað nýjum dagblöðum í Reykjavik. Ég held, að það sé full ástæða til þess að rannsaka, hvað hér er að gerast nú.

Athugasemdum yfirskoðenda ríkisreikninganna, sem hv. frsm. minni hl. fjhn. gerði hér að umtalsefni áðan, svaraði rn. eins og stendur í ríkisreikningnum á bls. 259, aths. við 39. liðinn. Rn. lýsir yfir, að reikningsskilum og rannsókn þessa máls skuli hraðað svo sem föng eru á og það upplýst til fulls, m.ö.o. það liggur loforð fyrir um það til Alþingis, áður en þessir reikningar verða samþykktir, að fjmrh. muni beita sér fyrir því, að þetta verði rannsakað og hraðað rannsókninni og upplýst til fulls, og það liggur fyrir fjhn. d. nú þegar yfirlýsing um, að ríkisendurskoðandi sé búinn að rannsaka þetta og búinn að skila skýrslu. Og hvað skeður þá, sem ég man ekki eftir allan þann tíma, sem ég hef setið á þingi, í þann aldarfjórðung, sem ég hef átt hér sæti, — hvað gerist þá? Þá gerist það samkvæmt því, sem stendur hér í nái., með leyfi hæstv. forseta:

„Í svari ráðh. við athugasemdum yfirskoðunarmanna, dags. 5. des. 1961, segir, að ríkisendurskoðanda hafi verið falið mál þetta til athugunar. Og við umræður um þetta mál í Ed. var upplýst, að ríkisendurskoðandi hefði fyrir nokkru afhent fjmrh. bréf eða skýrslu um málið. Hins vegar synjaði ráðh. tilmælum um að láta þingmenn fá bréf ríkisendurskoðandans til athugunar.“

Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að auðvitað hefur fjhn. Nd. farið fram á að fá þetta bréf til athugunar og verið neitað um það. M.ö.o.: fjmrh., sem er skyldur til þess að mæta á fundum fjhn., hvenær sem hún heimtar það, skyldugur til þess að koma hingað niður eftir og mæta á fundum fjhn., til þess að hún geti yfirheyrt hann um svona hluti, hann neitar að láta af hendi skýrslu, sem ríkisendurskoðandi, — það var ekki einhver einkaendurskoðandi hans, það er ekki einhver einkaendurskoðandi Brimness eða Ásfjalls, Það var ríkisendurskoðandinn, sem er búinn að afhenda skýrslu, og fjmrh. neitar að láta fjhn. Alþingis hana í té. Hvað mundi venjulegur dómari álíta út af þessu? Venjulegur dómari mundi álíta, að þarna væri samsæri á ferðinni, samsæri ákveðinna manna um að hylma yfir ákveðinn hlut. Ef brot hefur verið framið, ef ríkisendurskoðandi er búinn að gera meiri athugasemdir og harðvítugri en gerðar hafa verið í áratugi við ríkisreikningana, ef ráðh. er nú búinn að lofa að upplýsa þetta til fulls, eftir að það liggur fyrir, að ríkisendurskoðandinn er búinn að semja skýrslu um þetta mál, þá fær fjhn. Alþ. ekki að sjá það. Þetta er hlutur, sem er það alvarlegur, að ég vil, að hv. þm. geri sér ljóst, hvað hér er um að ræða. Heldur fjmrh., sem nú situr í því sæti, að hann sé hér konungkjörinn og konungsskipaður, eða heldur hann, að hann sé útnefndur af Alþingi eða hvað? Er þeirri hugsun farið að skjóta hér upp hjá hæstv. ráðh., að þeir séu óháðir Alþingi í þessum hlutum, að þeir séu einhverjir herrar Alþingis? Eru máske þeirra fylgjendur farnir að gefa þeim þá hugmynd, að þeir geti leyft sér hvað sem vera skal? Ef einn ráðh. stelur milljón úr ríkiskassanum, er hann þá bara orðinn enn þá finni maður? Kannske hann eigi að verða forseti fyrir, fyrst ekki er hægt að lyfta honum upp úr ráðherrastólnum í neitt annað meira. Hvað er hér að gerast? Ráðh. eru starfsmenn Alþingis, þjónar Alþingis. Þeir eru ekki neinir herrar Alþingis. Og ef fjmrh. ætlar að haga sér svona, þá er ég hræddur um, að þar komi, að það verði hæstv. dómsmrh., sem fyrst og fremst hefur með það að gera, jafnvel ekki sem ráðh. Mér finnst þess vegna, að þetta framferði, sem hér kemur í ljós, að fjmrh. neitar fjhn. um bréf eða skýrslu, sem ríkisendurskoðandinn hefur gert um mál, sem yfirskoðunarmenn landsreikninganna hafa gert miklar athugasemdir við og er til umr. í Alþingi og rn. í ríkisreikningunum á bls. 259, 39. aths., er búið að lofa að upplýsa til fulls, — mér finnst það svo alvarlegt, þegar fjmrh. svo neitar að láta fjhn. þessa skýrslu í té, neitar að vera við umr. í d. um þetta og ætlar þannig að skjóta sér undan þessu máli, að þetta þarf Alþingi að láta til sín taka.

Það er satt að segja illa farið í stjórnarflokkunum, ef það eru ekki lengur menn þar, sem geta sagt sínum ráðh. til syndanna um svona hluti. Ég veit, að einn af elztu þm., sem lengi hefur verið einmitt yfirskoðunarmaður landsreikninganna, hefur verið ósmeykur við að gagnrýna þessa hluti, og sem yfirskoðunarmaður landsreikninganna stendur hann einmitt að þeim athugasemdum, sem hafa verið gerðar við þetta. Ég veit líka, að ef hv. 1. þm. Vestf. hefði verið form. fjhn., þá hefði hann látið svona mál til sín taka. Það hafa verið þann undanfarna aldarfjórðung, sem ég hef fylgzt vel með starfi Alþingis, verið menn hér líka í stjórnarflokkum allan tímann á Alþingi, sem hafa þorað að segja sinni eigin ríkisstj. og sínum eigin ráðh. til syndanna um svona hluti. Og það er mjög illa farið, ef það er komið svo, að nú eru þessi mál látin fljóta hér í gegn á þögninni, hrein hneykslismál, bara vegna þess að menn hafa ekki haft hugrekki til þess eða nenna ekki að fylgjast svo mikið með almennum málum, að þeir skipti sér af því, hvað þarna er að gerast.

Hvað er svo þetta mál, sem hér er um að ræða? Ég skal segja það, að það gildir í raun og veru einu, hvers konar mál þetta væri. Bara það, að fjmrh. leyfir sér svona yfirgang gagnvart Alþingi og svona frekju, það væri nóg til þess að gera þetta að stórmáli hér, að máli, sem varðar stjórnarskrána, að máli, sem varðar aðstöðu og afstöðu Alþ. gagnvart ríkisstj., afstöðu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds í einu landi. En hvert er svo málið? Höfuðatriðið, sem hérna er um að ræða í þessu, sem yfirskoðunarmenn landsreikninganna hafa gert athugasemdir við, er hin svokallaða Brimnesútgerð. Nú vitum við, að það hneykslismál, sem hér er um að ræða, er svo stórt, að þetta Brimnesmál er satt að segja ekki nema partur af því. Það eru tvö mál, sem þarna er um að ræða og hefur áður borið á góma hér á Alþingi. Það er annars vegar spursmálið um Ásfjall h/f og þá ábyrgð, sem fjmrh. hefur tekið á ríkissjóð gagnvart því félagi, og það er hins vegar spursmálið um útgerðina á Brimnesi, og við getum kallað það útgerð fjármálaráðherranna á Brimnesi.

Hvernig var með Ásfjall h/f? Það mál er raunverulega ekki til umr. í sambandi við þetta hérna, en við vitum samt, hvernig það var. Við vitum, að einn fjmrh., sem nú er utanrrh., beitti þeirri aðstöðu í þessu máli að taka á hendur ríkissjóðs meiri ábyrgð, svo að skipti millj. kr. meiri ábyrgð en hann hafði heimild til. Og það er hugsanlegt, að ríkissjóður geti tapað á því, — ég skal ekkert fullyrða, hvað Það verður, ein, tvær, kannske þrjár, fjórar millj. Mér sýnist ekki neinn vafi á því, að það er fjmrh. persónulega, sem á að borga slíkt. Hann hefur í heimildarleysi tekið á sig ábyrgð fyrir hönd ríkissjóðs, og það er náttúrlega eins og hvert annað fé, sem menn taka í heimildarleysi, og það eiga menn náttúrlega að borga sjálfir, ekki láta ríkið borga. Það hefur verið farið fram á rannsókn á þessum hluta málsins, á óleyfilegri meðferð fyrrv. fjmrh., sem nú er utanrrh., á ríkisfé. Það hefur verið flutt hér till. um, að það sé sett rannsóknarnefnd í þetta mál í þessari hv. d. samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Sú tillaga hefur ekki fengizt samþykkt. Fyrst þegar sú till. var flutt — og hún hefur tvisvar sinnum verið flutt, þá var skammazt út af henni, og þá var sagt, að þetta væri pólitísk ofsókn og þetta væri allt í stakasta lagi. Þegar till. var flutt aftur, var svo við brugðið, að það var þögn — mikil þögn — alger þögn frá hálfu stjórnarflokkanna í málinu og málið fór til n. Hæstv. utanrrh., sem áður var fjmrh. og gerði sig sekan um þetta, hélt einhverja þá hvað á ég að segja? — meinleysislegustu ræðu, sem hann hefur haldið, hann er vanur að beita sínu valdi og krafti, ef hann á nokkurn til. Það var mjög greinilegt hjá honum, að hann fann til sektar sinnar, og þarf hann mikið til að finna til sektar. Málið fór til n., til fjhn., og hefur ekki sézt síðan. Það var bara um 2 millj. að ræða eða eitthvað slíkt, sem var tekið þarna óleyfilega úr ríkiskassanum af fjmrh., og þegar hann var búinn að því, þá var hann gerður utanrrh. Síðan hefur honum ekki fundizt hann þurfa að segja neitt út af sínum ráðstöfunum, og meiri hl. hv. d. hefur ekki enn þá fengizt til þess að draga hann fyrir þann dóm, sem stjórnarskráin heimilar að draga hann fyrir. Ég tók eftir því þá, ég talaði í því máli, að einmitt hæstv. núv. fjmrh. var meinilla við, ef fjármálaráðherrunum tveimur var blandað saman, þeim fyrrv. og núv. Og mér liggur næstum við að spyrja, af því að þeir sitja nú þarna saman venjulega, þegar þeir mæta, og maður sá svipbrigðin á þeim, þegar verið var að tala um sökudólgana, þá liggur mér við að spyrja: Er hæstv. núv. fjmrh. orðinn samábyrgur hæstv. fyrrv. fjmrh. með þetta svindl? Er það þess vegna, sem hann fæst ekki til þess að tala um það? Er ríkisstj. eða þessir tveir fyrrv. og núv. fjmrh. búnir að éta sig saman um, hvernig afgreiða skuli málið? Það er ekkert undarlegt, að við viljum fá eitthvað að vita um þetta. Þm. hafa flutt hér till. til Þess að nota þá heimild, sem stjórnarskráin gefur þeim til þess að láta rannsaka mál, það er búið að tvíflytja hana, það er reynt að svæfa hana.

En það tekst ekki betur með svæfinguna á þessu hneykslismáli en það, að þegar nefnd, sem Nd. hefði átt að setja í þetta, fæst ekki sett, þá eru það sjálfir yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna, sem taka það upp hjá sér, af Því að málið hrópar á þá, að gera athugasemdir, ekki að vísu um Ásfjall, því að það kemur ekki beint undir þá, en um Brimnesútgerðina. Hvað segja þeir? Þeir segja, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 241: „Yfirskoðunarmenn álíta, að ekki sé viðunandi, að þessu máli sé ekki ráðið til lykta svo fljótt sem verða má og það rannsakað til fulls.“ Yfirskoðunarmenn Alþingis eru búnir að kveða upp sinn dóm. Það á að rannsaka þetta mál til fulls, og það á að leiða það til lykta svo fljótt sem verða má. Og ráðh. er búinn að viðurkenna, að hann sé búinn að láta ríkisendurskoðandann rannsaka þetta mál, búa til skýrslu um það, og neitar að sýna skýrsluna. Það er kannske búið að framkvæma það, sem yfirskoðunarmennirnir heimtuðu, og málið verið rannsakað til fulls, en það er neitað að sýna Alþingi þetta. Þetta eru hlutir, sem Alþingi á ekki að þola. Svona er ekki hægt að haga sér. Ef haldið verður áfram á þennan hátt, þá verður ríkisstjórn, sem er gefið undir fótinn af hálfu meiri hl. Alþ. með svona framferði, búin að fá svo að segja einræðisvald í sínar hendur í öllum fjármálum landsins eftir nokkurn tíma, og þá geta fjmrh. farið með ríkiskassann eins og hann væri þeirra einkafjársjóður.

Ég verð að segja það, að ég undrast þá ósvinnu, sem er í sambandi við þetta mál, þegar það er vitað, að einn sökudólgurinn í þessu máli, hæstv. núv. utanrrh., fyrrv. fjmrh., er aðalmaður í fjármálaráði Alþfl., annars stjórnarflokksins, að maðurinn, sem er ákærður f málinu og undir rannsókn í málinu, Axel Kristjánsson, er líka einn aðalmaðurinn í fjármálaráði Alþfl., og þegar það þar að auki er vitað, að maðurinn, sem þar næst á undan var aðalmaðurinn í því fjármálaráði, er þegar dæmdur. Ég fæ ekki skilið, hvernig menn geta látið það viðgangast, að ríkið sé leikið á þennan máta, að Alþingi sé sýnd slík óvirðing, að það sé ekki tekið tillit af hálfu eins starfsmanns þess, fjmrh., til þeirra athugasemda, sem yfirskoðunarmenn landsreikninganna hafa gert, og til þeirra krafna, sem Þm. og fjhn. hafa gert um að fá að sjá þau plögg, sem búin hafa verið til einmitt út frá kröfu yfirskoðunarmanna landsreikninganna. Ég verð að segja það, að f sporum eins fjmrh. hefði ég álitið, að ég vildi ekki fá ríkisreikninga afgreidda, meðan svona væri.

Af hverju leggur hæstv. fjmrh. svona mikið upp úr því að fá þennan ríkisreikning endilega afgreiddan nú? Því má ekki þessi ríkisreikningur bíða, þegar svona athugasemdir koma fram? Er ekki skynsamlegra að láta þá athuga þetta mál til fulls og láta þessa hluti koma algerlega fram? Því er verið að flýta þessu svona núna, að það er helzt neitað að láta fjmrh. mæta hérna, þegar verið er að ræða ríkisreikningana? Maður gæti skilið, ef það væri um mál að ræða, sem væri frv. til laga um að veita ríkisstj. einhverjar heimildir, sem hún þyrfti endilega að hafa. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Það er ekkert sérstakt, sem liggur fyrir með að afgr. endilega ríkisreikningana á þessu þingi. Ég veit að vísu, að það er til fyrirmyndar að afgr. ríkisreikninga tiltölulega fljótt og vel, en því aðeins að Þeir séu afgreiddir vel. Og þetta er ekki góð afgreiðsla. Ég veit ósköp vel, að yfirskoðunarmenn landsreikninganna hafa oft verið óánægðir með þá á undanförnum áratugum, að þeim hefur ekki þótt Alþingi gera nægjanlega mikið með Þeirra athugasemdir. Það hefur verið vísað til aðgerða Alþingis um hitt og þetta, það hefur verið vísað til athugunar framvegis um hitt og þetta, og yfirskoðunarmönnum hefur ekki þótt Alþingi vera nærri nógu vakandi til þess að taka undir við þá, og þeir eru þó fulltrúar Alþingis í þessum málum. Það hefur þá aldrei verið um að ræða mál, sem kynni að vera að einhverju leyti krímineit, sem sé mál, sem nálguðust hvorki fjárdrátt, slæma meðferð á fé, ábyrgðarlausa meðferð á fé eða eitthvað þess háttar. Hér aftur á móti eru þess háttar mái á ferðinni, að tveir af fimm í fjhn. vilja ekki afgr. málið, og meira að segja þeir, sem tala með málinu, mæla með afgreiðslu ríkisreikninganna úr fjhn., þeir koma ekki inn á þetta mál, þeir ræða það ekki. Það er auðséð, að þeim finnst málið svo skítugt, að þeir vilja ekki flekka sig á því, ætlast bara til, að með þögninni á Alþingi sé hægt að hylja þetta. Og rannsóknartillögurnar, sem fyrir liggja hjá fjhn., á auðsjáanlega að svæfa. Athugasemdir yfirskoðunarmannanna á alls ekki að gera neitt með. Ráðh. láta ekki sjá sig í þingsalnum, þegar þetta er til umr. Það er máske i því, sem Þeirra sekt birtist, og ég skil Það ósköp vel. En Þá kemur til kasta stjórnarfylgismannanna hér á Alþingi, hvort þeir láta bjóða sér slíkt. Ég býst við, að þeir kjósi nákvæmlega sömu aðferðina, hafa sig burt úr þingsölunum, máske til þess að geta sagt eftir á: Ég vissi ekki, hvað ég var að gera. — Þetta er eitt af því, sem mest hefur verið misnotað úr biblíuinni, — ég held, að það hafi upprunalega verið úr henni, ég þori annars ekki að segja það fyrir víst, því að það getur farið fyrir mér eins og fjmrh. að flaska á tilvitnunum í hana. Einhvern tíma var sagt við einhvern: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gera.“ En ég er hræddur um, að þjóðin muni ekki hugsa á þá leið um þá þm., sem koma sér hjá því að heyra, hvaða hneyksli það eru, sem eru í gangi, og gæta þess að vera ekki við, rétt eins og þeir væru fjmrh., og ætla svo að afsaka sig með því eftir á, að þeir hafi ekkert vitað, hvað þeir voru að gera. Og eitt er a.m.k. víst, að það hafa komið raddir úr öðrum stjórnarflokknum, Sjálfstfl., um, að það sé eitthvað gruggugt við málin viðvíkjandi Brimnesi og Ásfjalli, þannig að ég á bágt með að skilja, að það sé alveg 100% eining í báðum stjórnarflokkunum um það að hylma yfir öll þessi mál. Ég veit ekki, hvort Þessi Hilmisútgáfa, sem er með þeim stærstu í Reykjavík núna, á að hafa eitthvað með þessi yfirhylmingarmál að gera eða hvort hún á að birta myndir af því, sem kom með Brimnesinu, og nýju rafgrafvélunum, sem verið er að setja upp, sem ég veit ekki hvernig er með tollana af. En það gæti e.t.v. verið, ef það væri farið að rannsaka þessi mál, eins og einn af rannsóknardómurunum vildi gera, að það kæmi nokkuð margt fram, sem væri nokkuð óþægilegt fyrir þá aðila, sem hér standa að.

Víðast hvar erlendis er það svo, að þeir, sem i fjmrn. standa, reyna venjulega að sjá um að ná tekjum í ríkissjóð og standa vörð um ríkissjóðinn, og þorrinn af allri ráðandi borgarastétt viðkomandi lands álítur það skyldu sína að vinna að því, að þess sé gætt, að fjmrn. passi upp á þessa hluti, vegna þess að borgarastéttin í þessum löndum er það stór, að þótt einn og einn eða jafnvel fleiri en einn geri sig seka um einhverja hluti, þá vill viðkomandi stétt, að þessir menn séu dæmdir, vegna þess að stéttina sem heild munar ekki um það. Þetta heldur uppi hennar áliti. Hér hjá okkur á Íslandi er það svo, að yfirstéttin í okkar landi er svo lítil, braskarastéttin er svo fámenn, að hún er hrædd í hvert skipti, sem eitthvert hneyksli kemur upp hjá einum aðilanum, og það gerir það að verkum, að það er meiri tilhneiging hér til þess að hylma yfir þessa hluti heldur en annars staðar og þar með meiri tilhneiging til að gera okkar fjármálalíf sjúkara en annarra þjóðfélaga. Og þetta er hættuleg tilhneiging. Þess vegna er illa farið, að það skuli bara básúnað út sem einhvers konar pólitískar ofsóknir eða eitthvað slíkt, þegar þingmenn, þegar næstum helmingurinn af fjhn., þegar allir yfirskoðunarmenn landsreikninganna gera aths. við ákveðna fjármálalega hluti. Svo framarlega sem þeir hefðu verið konungkjörnir þessir ráðherrar og Íslendingar ekki skipað þá, heldur danskur konungur, þá hefði Alþingi risið upp á móti þessum mönnum, og í Danmörku hefði ríkt það siðferði, að einn fjmrh. gat gengið beint úr ráðherrastólnum og i tugthúsið eins og gerðist fyrir fimmtíu árum. Það er auðséð, að hér á að skapa öðruvísi siðferði. Það er ekki það siðferði, sem okkur dreymdi um, þegar við skópum lýðveldið. Við gengum út frá, að það yrði betra eftirlit með þessum málum, þegar við Íslendingar tækjum þau i okkar eigin hendur, heldur en meðan danskur kóngur hefði það, að við hefðum ekki siðspilltari yfirstétt og frekari, sem sæti við völdin hérna, heldur en sú danska var, þegar hún réð yfir okkur. Þetta er réttur, sem er búinn að standa í stjórnarskránni, frá því að við fengum hana fyrst, og það hefur ekkert Alþingi enn þá misvirt svona álit yfirskoðunarmanna landsreikninganna, og það hefur enginn fjmrh. leyft sér að vera fjarverandi og neita að koma á fund, þegar verið var að afgreiða mál eins og hér er um að ræða, og það fjmrh., sem er ákærður fyrir að hafa tekið ábyrgð á hendur ríkissjóðs í heimildarleysi upp á milljónir króna og hafa stjórnað þannig togaraútgerð fjmrn., Brimnesútgerðinni, að það fást ekki skil í þessu enn þá. Og þegar skil koma frá ríkisendurskoðanda, þá neitar fjmrh. að birta nefndum Alþingis þau. Þetta er ekki að verða mál bara um Axel í Rafha eða Brimnes og Ásfjall. Þetta er að verða mál um tvo fjmrh. Ég gat skilið Það undir einum kringumstæðum, að hæstv. fjmrh. hefði ekki komið. Ég gat skilið það undir þeim kringumstæðum, að eftir skýrslu ríkisendurskoðanda væri slík óreiða á þessum málum, að hann vildi hylma yfir það. Við vissum, að hann og fleiri voru reiðir í fyrra, þegar málið var tekið fyrir. Nú þagði hann. Ég hefði skilið þetta, ef hann hefði rofið þögnina með Því, að hann hefði sent sín skilaboð og sagt: Ég er búinn að senda þetta mál til saksóknara ríkisins, þess vegna er ekki meira um það að tala. — Og þá hefðum við náttúrlega getað hætt umr. um þetta mál hér og vonazt eftir, að þetta gengi eitthvað dálítið fljótar en olíumálið.

Ég held Þess vegna, að á meðan við fáum ekki þau skilaboð frá hæstv. fjmrh., að hann hafi sent málið til saksóknara, þá hljótum við að bera fram Þá spurningu til stuðningsmanna ríkisstj., ef enginn ráðh. vill svara því, hvort þeim finnist það viðkunnanlegt, að Alþingi, sem hefur barizt fyrir því um áratugi að fá fjármálavöldin í þjóðfélaginu í sínar hendur, afhendi Þetta vald nú í hendur hvaða fjmrh. sem kann að vilja hrifsa það til sín. Það er Það, sem er að gerast núna. Ef Alþingi ætlar að gefast upp við að fylgjast með slíku, ef Alþingi ætlar að daufheyrast við öllum aths. yfirskoðunarmannanna, ganga frá hneykslismálum þannig, að Þau fáist ekki upplýst, þá er verið að gefa fjármálaráðherrunum, hverjir sem Þeir eru, einræðisvald í fjármálum Þjóðarinnar. Þess vegna vil ég eindregið skora á hv. Þm. að láta þetta mál til sín taka. Það er ekki bara um aths. í 39. liðnum að ræða. Það er um að ræða vald Alþingis gagnvart fjmrh.