13.04.1962
Neðri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Einar Olgeirsson:

Ég vil í fyrsta lagi átelja það að eiga að fara að gera mun hér á milli þm. um málfrelsi. Ég þykist hafa hér sama rétt til málfrelsis og hæstv. fjmrh. Ég fór fram á það í gær, að þessu máli yrði frestað, sem hér á að greiða atkv. um, þangað til hæstv. fjmrh. gæti verið við. Og ég lagði áherzlu á það í gær, að 2. umr. yrði ekki lokið, ef hæstv. fjmrh. ætti erfitt með að vera við.

Nú kemur hæstv. fjmrh. hér og segir: Ég var borinn ljótum sökum hér í gær. — Hans var valdið, ef hann var upptekinn í Ed., þá gat hann óskað eftir því, að þetta mál biði, þangað til hann hefði tíma til að mæta hér í Nd. Honum ber skylda til að mæta hér, þegar verið er að ræða mál eins og ríkisreikningana. Það er ekki hægt fyrir einn ráðherra að koma, þegar á að ganga til atkv. og umr. er slitið, og fara að hefja umr. um málið þá, nema þm. hafi sama rétt og hann og umr. hefjist á ný, og það skil ég ósköp vel, að hæstv. forseta er ekki vel við. Þess vegna hefði hæstv. fjmrh. átt að hugsa um það í gær, þegar það var borið undir hann, hvort ætti að halda áfram 2. umr., hvort honum væri ekki nær að koma hingað og taka þátt í þeirri umr.

Það er alveg rétt, að það voru bornar þungar sakir á þennan hæstv. ráðherra og ekki síður á fyrirrennara hans. Hæstv. utanrrh. hefði haft tíma til að vera hérna við í gær og kannske svara fyrir ríkisstj., og hann var höfuðsökudólgurinn, svo að hann hefði átt að gera það. Ég var neyddur til þess að bera þetta fram hér í gær, forseti vildi ekki fresta umr. lengur, eins og ég óskaði, vegna þess að ég kunni ekki við það að ljúka umr.hæstv. fjmrh., bæði núv. og fyrrverandi, fjarstöddum. Þess vegna er það óviðeigandi að fara að koma nú og fara að gefa einhverjar yfirlýsingar hér utan dagskrár, sem eiga að fara að hafa áhrif á afstöðu manna við atkvgr. Það vantar þorrann af öllum upplýsingum um þetta mál enn þá. Það liggur fyrir frá yfirskoðunarmönnum landsreikninganna, að þeir hafi ekki fengið þessar upplýsingar. Og það liggur sá grunur á, að ráðherrann hafi ýmsar upplýsingar enn þá í þessu máli, sem Alþ. hefur ekki fengið.

Ég vil ekki vera að þreyta þolinmæði hv. forseta. Ég skil ósköp vel, að hæstv. fjmrh. kemur hæstv. forseta í klípu með því að ryðjast svona fram og fara að gefa hér yfirlýsingar utan dagskrár. Honum hefði verið nær að vera hér við í gær. Þetta sýnir bezt, að það er ekki til neins að vera að hafa þann hátt á, sem sumir hæstv. ráðherrar hafa tilhneigingar til, að reyna að knýja mál fram án þess að geta sjálfir verið við til þess að ræða þau. Það var ekki langur tími, sem fór í þetta mál í gær. Það var ekki það, sem var að. Það er óviðeigandi að hafa þessa starfshætti hér í þinginu. Þess vegna vil ég lýsa því yfir, að það, sem hæstv. fjmrh. hefur sagt um þetta, er markleysa og á ekki að hafa nein áhrif á þá atkvgr., sem hér fer fram. Og ég skora á hann að vera við 3. umr. þessa máls, til þess að hægt sé að fá að ræða þetta mál enn þá betur.

Á sama fundi var fram haldið 2. umr. um frv.