13.03.1962
Efri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki vera mjög langorður. Ég sé ekki mikla ástæðu til þess, að á þessu stigi sé verið að ræða málið mikið, þar sem það á eftir að fara til n. og athugast þar og síðan tvær umr. eftir í deildinni.

Hæstv. landbrh. var að tala um blekkingar, en þessi ráðh. hefur víst aldrei blekkt nokkurn mann nokkurn tíma, og Sjálfstfl. hefur víst aldrei sýnt neitt slíkt, að hann væri að blekkja einstaklinga eða þjóðina? Ég fékk hér áðan Morgunblaðið frá því fyrir kosningarnar haustið 1959, og stefnuskráin var sú: Stöðvun verðbólgu, aukin framleiðsla, bætt lífskjör. — Hefur verðbólgan stöðvazt, — ég bara spyr, —- síðan hæstv. núverandi ríkisstj. kom til valda? Þjóðin veitti núv. stjórnarflokkum brautargengi gegn því og í því trausti, að þeir stæðu við loforð sín um stöðvun verðbólgunnar, og þjóðin veitti þessum flokkum brautargengi gegn því, að þeir stæðu við það, að framleiðslan ytri í landinu, en hún minnkaði ekki, og þjóðin veitti þessari stjórn brautargengi gegn því, að þeir bættu lífskjörin, en að þeir væru ekki sí og æ að höggva í sama knérunn og gera lífskjörin ómögulegri með hverju árinu sem líður. Svo kemur hæstv. landbrh. og talar um blekkingar, en fáir hygg ég að hafi blekkt meira hér í þingsölum en sjálfur hæstv. landbrh.

Síðan minntist ráðh. á, að það hefði ekki staðið á mér að samþ. skatt á bændurna í sambandi við bændahöllina. Þetta er alveg rétt, og ég skammast mín ekkert fyrir það. Þetta var eftir bón bændanna sjálfra, bændasamtakanna í landinu, búnaðarþings, Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Og ég skammast mín ekkert fyrir að gera það, sem starfsbræður mínir í landinu biðja um að sé gert sér til hagsbóta. En það skal fram tekið, að það gjald, sem er lagt á samkvæmt þessu frv., er allt annars eðlis og af allt öðrum rótum runnið, og hefur ekki verið leitað álits bændastéttarinnar að því er það varðar. En ég skora á hæstv. ráðh. að leita umsagnar bændasamtakanna í landinu, Búnaðarfélags, búnaðarþings og Stéttarsambands bænda, og fylgja svo því, sem þessir aðilar leggja til. Það verður farsælast fyrir hann og farsælast fyrir bændastéttina og þjóðina alla, vegna þess að ráðh. hefur upplýst það í þessum umr., að hann vill skattleggja bændurna eina, hann vill ekki skattleggja heildsala, kaupmenn, embættismenn né aðra aðila vegna stofnlánasjóða Búnaðarbankans. Það eru bændurnir einir, sem á að skattleggja til þess að fá fé í þessa sjóði, sem ráðh. hefur dregið í þrjú ár að sinna eins og vera bar.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég hefði verið að tala um mótvirðissjóð. Það má vel vera, að það sé ekki rétta nafnið. Mér er kunnugt, að það hefur verið mótvirðissjóður, sem sjóðir Búnaðarbankans hafa fengið fé úr, en hitt er mér kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. hefur ótal sjóði, ótal gjafafé, sem hún fær í erlendri mynt og myndaðir eru sjóðir innanlands, hvort sem þeir eru kallaðir mótvirðissjóðir eða annað, og það má mikið vera, ef einhvers staðar er ekki hægt að fá aura þar í stofnlánasjóði landbúnaðarins. Og á það vil ég benda hæstv. ráðh. að vinna ötullega að því, að slíkt nái fram að ganga.

Hæstv. ráðh. minntist á, að hann hefði beitt sér fyrir því, að ríkið greiddi þann hluta, sem vantaði á það verðlag, sem bændur eiga að fá fyrir sína útflutningsframleiðslu. Þetta er alveg rétt. En er þá ástæða til að fara að taka hluta af framlaginu nú í gegnum þann skatt, sem á að innheimta af tekjum bænda? Það, sem er gefið með annarri hendinni, er tekið með hinni.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði verið að blekkja með því að segja, að 2/5 hlutar af þeim höfuðstóli, sem stofnlánasjóðirnir eiga árið 1975, væru komnir frá bændum landsins eða af afurðum bænda. Ég sagði: af afurðum landbúnaðarins, og ég sný ekki til baka með það. Ég get lesið hér tölurnar, og hæstv. ráðh. getur horft á frv. og séð, hverjar blekkingarnar eru.

Þegar búið er að leggja saman það, sem getið er um í frv. á bls. 28, þar sem stendur: Framleiðslugjald, sem byrjar með 4 millj. kr. árið 1962 og endar með 11748 Þús. kr. árið 1975, og allar tölurnar eru saman lagðar, þá nemur það 132 millj. 689 kr. Og í öðru lagi 0.75%, sem líka eru lögð á framleiðslu bænda, gera öll þessi ár rúmar 80 millj. kr. Þetta samanlagt er 216 millj. kr., og 216 millj. af 507 millj. kr. höfuðstól er fyllilega 2/5 af höfuðstól sjóðanna árið 1975, það hlýtur hæstv. ráðh. að sjá fljótlega.

Það var eðlilegt, að hæstv. ráðh. líkaði ekki, að verið væri að tala um nýja stefnu, því að þessi nýja stefna er samdráttarstefna. Það hefur greinilega komið í ljós og er alltaf að koma betur í ljós, enda er til þess stofnað með öllum aðgerðum ríkisstj., sem hún hefur gert bændunum til handa, síðan hún komst til valda. Hún hefur stytt lánstímann, hækkað vextina, lagt á söluskatta, og nú síðast er hún að leggja sérstakan skatt á tekjur bænda, og allt verkar þetta í samdráttarstefnu hjá uppbyggingu landbúnaðarins í framtíðinni. Þetta er hin nýja stefna, sem er algerlega öfug við þá þróun, sem átt hefur sér stað í landbúnaðinum á undanförnum árum, og leiðir til þess, að innsti kjarni í stefnu sjálfstæðismanna að fækka bændum um helming tekst miklu fyrr en annars yrði.