28.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það hafa mjög mörg atriði komið fram í umr., síðan ég flutti ræðu mína hér í dag og gerði grein fyrir brtt. minni hl. n. Það er því í sjálfu sér mikið umræðuefni, en það líður nú fast að miðnætti, og mörg þau atriði, sem rædd hafa verið, eru þess eðlis, að þau liggja ljóst fyrir hv. þm. og koma jafnvel til umr. í sambandi við fleiri mál en þetta frv., svo að ég ætla að taka þann kost að gera aðeins stuttar aths. og takmarka mál mitt við einstök fá atriði.

Ég ætla fyrst að víkja að því. sem kom fram hjá siðasta ræðumanni út af því. sem ég vék að í dag, að það gætu komið fyrir þau atvik, að einstakir menn í bændastétt fengju ekki lán úr stofnlánadeild. Það gerði ég ekki að neinu meginatriði í ræðu minni í dag, heldur vék að því í sambandi við eina tillögu okkar, en þau orð, sem hv. 4. þm. Vesturl. lét falla nú um þetta, hagga í engu því. sem ég sagði í dag, því að þótt svo sé fyrir mælt, að leita skuli álits Búnaðarfélags Íslands og nýbýlastjórnar um einstök atriði, áður en lán eru veitt, ef vafi þykir leika á um lánveitingar, þá er það ekkert úrslitaatriði í málinu. Bankastjórnin hefur vitanlega eftir sem áður valdið til þess að ákveða lánveitingarnar, og bankastjórnin er bundin af lögunum, sem hún starfar eftir. Og í lagagreininni segir beinlínis, eins og hún er orðuð, „að við ákvörðun lána skal bankastjórnin hafa hliðsjón af því, hve mikil önnur veðlán hvíla á eigninni, og skal eigi veita lán, ef ástæða er til að ætla, að búrekstur á jörðinni fái ekki staðið undir auknum lánum.“

Hér hefur verið rætt nokkuð um mótvirðissjóð eða mótvirðisfé. Og mér virtist mega a.m.k. lesa það af ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ), að hann miðaði eingöngu sitt mál við hinn gamla mótvirðissjóð, þar sem Búnaðarbankinn eða sjóðir hans fá vissan hluta af. Út af fyrir sig var það myndarlegt átak, þegar þeirri reglu var komið á, og upphafsmenn að því voru tveir gildir og gegnir þm., sem nú eru horfnir úr okkar hópi, annar úr Sjálfstfl. og hinn úr Framsfl., eins og við munum. En mótvirðisféð er ekki einungis bundið við þennan gamla sjóð, sem þá voru sett ákvæði um, því að þetta er að verða fastur liður í þjóðarbúskapnum, erlendar lántökur og að mótvirðisfé safnist upp vegna þeirra. Og það er með tilliti til þess, að við höfum flutt tillögur okkar, en miðum þær ekki við hinn gamla mótvirðissjóð, sem ræktunarsjóður nýtur nú þegar stuðnings af.

Þá hefur verið rætt nokkuð um ákvæðið, sem við leggjum til að haldist í lögum, um skyldu seðladeildarinnar eða Seðlabankans til þess að veita lán. Þetta ákvæði er, eins og ég sagði í dag, búið að standa í lögum siðan 1947, og þá var því komið í lög að tilhlutun landbrh., Bjarna Asgeirssonar, og fjmrh., Jóhanns Þ. Jósefssonar, og með fylgi yfirgnæfandi hluta þingheims. Ég fæ nú ekki séð, að við, sem Þá vorum ungir menn, eins og ég og hæstv. landbrh., og tókum þátt í afgreiðslu þessa máls, höfum verið svo óvitrir þá, þótt við værum þá yngri en nú, og aðrir þeir, sem studdu að samþykkt þessa ákvæðis, að það sé óréttmætt, að þetta haldist enn í lögum.

Nú eru líka sérstakar ástæður fyrir hendi, sem gera það kleift eða jafnvel auðvelt að gera þetta ákvæði raunhæft. Það, sem oft hefur staðið í vegi fyrir því, að þetta lagaákvæði væri talið raunhæft, er, að það hefur verið litið Þannig á, að það kynni að leiða til aukinnar peningaþenslu, að það mundi þurfa að láta út í hagkerfið raunverulega nýtt fé, sem þessu næmi. Nú er það kunnugt, að Seðlabankinn dregur saman gildan sjóð, m.a. fé utan af landsbyggðinni, fé, sem bændastéttin í raun og veru hefur aflað að nokkrum hluta með erfiði sínu og lagt síðan fyrir í innlánsdeildum kaupfélaganna. Við framsóknarmenn erum algerlega á móti þessari fjárdráttaraðferð, eins og oft hefur komið fram hér í þingi. En fyrst þetta er gert og fyrst þarna er orðinn stór sjóður, sem nemur hundruðum milljóna króna, þá er það ekki nein goðgá, það hefur ekki neina verðbólguhættu í för með sér, þó að hluti af því yrði tekinn til þess að lána veðdeild Búnaðarbankans.

Þá hefur verið vikið að því í þessum umr., að Það gjald, sem á að leggja á landbúnaðinn eða bændastéttina samkv. 4. gr. þessa frv., sé hliðstætt útflutningsgjaldi á sjávarafurðir. Og hv. 4. þm. Vesturl., sem hér talaði áðan, dró Það mjög fram, hvaða byrðar sjávarútvegurinn hefði tekið á sig með greiðslu útflutningsgjalds. Mér þykir það nú í sjálfu sér ekki hæfa að gera mikið að því að ræða mál þannig, að skapa meting á milli atvinnuvega. Mér er það vel ljóst, og það er okkur sjálfsagt ötlum, að landbúnaður og sjávarútvegur eru hvorir tveggja nauðsynlegir atvinnuvegir, undirstöðuatvinnuvegir þjóðarbúsins. Og þessa atvinnuvegi þarf að styðja og efla jöfnum höndum. En ég get þó ekki varizt því að benda á það í þessu sambandi, að framkvæmdir við sjávarútveg og landbúnað eru ekki að öllu leyti sambærilegar. Sjórinn er okkar mikla bjargarlind, Íslendinga, og við eigum velgengni okkar að miklu leyti undir því, að hann bregðist ekki. En sjómaðurinn þarf ekki að rækta hafið, hann ræktar ekki fiskinn í sjónum, hann kaupir bara sitt tæki og tekur síðan afraksturinn eins og hann getur komið við með því tæki, sem hann eignast. En það er ekki nóg fyrir bóndann að kaupa vélina og fara síðan og ætla að hirða afraksturinn. Hann þarf að gera miklu meira. Hann þarf að breyta landinu til þess að geta komið véltækninni við, og um leið og hann leggur í þennan stofnkostnað að breyta landinu, þá er hann ekki einungiz og jafnvel ekki fyrst og fremst að vinna fyrir sjálfan sig, heldur er hann að vinna fyrir framtíðina, fyrir það þjóðfélag, sem hann er aðili að og er að efla. Þessa sérstöðu landbúnaðarins verður að hafa í huga og skoða hlutdeild þjóðfélagsins í þessu starfi bóndans í réttu ljósi að þessu leyti. En ef litið er á þetta í þrengri merkingu, þá er það svo, að útflutningsgjald sjávarafurða er talið einn af kostnaðarliðum við rekstur sjávarútvegsins. Og því hefur verið haldið fram hér í umr., að það væri ekki rétt að orða það svo að tala um verðlagsgrundvöll sjávarútvegsins, vegna þess að hann yrði að taka sínar tekjur af sölu á erlendum markaði og hefði í sjálfu sér engan verðlagsgrundvöll. Þetta er nú nánast talað orðaleikur, því þó að það sé kannske ekki alveg bókstaflega rétt, að sjávarútvegurinn búi við ákveðinn verðlagsgrundvöll, þá vitum við, sem setið höfum á Alþingi um nokkur undanfarin ár, að það er ekki lítið af starfstíma þingsins, sem mörgum sinnum hefur farið til þess að leggja rekstrarhæfan grundvöll fyrir sjávarútveginn, og að þjóðfélagið sem slíkt hefur verið látið taka á sig eigi litlar byrðar í því sambandi, bæði með útflutningsuppbótum á vissu tímabili, bátagjaldeyri og nú síðast með gengisfellingunni, sem leiðir það af sér, að almenningur í landinu verður að taka á sitt bak miklar byrðar í hækkuðu verði til þess að skapa rekstrarhæfan grundvöll fyrir sjávarútveginn. Og alltaf þegar þessar ráðstafanir hafa verið til athugunar og umr. á Alþingi, þá er vitanlega litið á kostnaðarliði sjávarútvegsins í heild, og einn af þeim liðum er þetta útflutningsgjald, sem hér um ræðir.

Þá hefur því verið haldið fram í þessum umr., og það kemur í raun og veru oft fram svona eins og innan sviga, jafnvel þótt rætt sé um önnur efni, hjá ýmsum ræðumönnum, að við Framsóknarflokksmenn séum nú með vakandi áhuga á því að bæta hag stofnlánasjóða landbúnaðarins, eða a.m.k. tölum við svo, segja nú ýmsir ræðumenn, en Framsfl. hafi bara látið undir höfuð leggjast, þegar hann hafði völdin, að gera nokkuð í þessu efni. Ég ætla aðallega með þeim orðum, sem ég segi hér á eftir, að gera nokkra grein fyrir þessu atriði.

Þess er þá fyrst að geta, að það var Framsfl. á sinni tíð, sem kom því til leiðar með harðri pólitískri baráttu, að byggingarsjóður var stofnaður. Þá snerust íhaldsöflin í landinu, þáv. íhaldsflokkur, á móti þessari ráðstöfun. Það er náttúrlega ekki hægt að skrifa það á ábyrgð þeirra, sem nú starfa, það voru fyrirrennarar þeirra á hinu pólitíska sviði, sem þá gengu að verki. En alla tíð síðan Framsfl. kom því til leiðar, að byggingarsjóður sveitanna var stofnaður og ræktunarsjóður efldur a.m.k. og honum breytt í nýtt form, hefur Framsfl. borið hag þessara sjóða mjög fyrir brjósti, og það vili nú svo til, að á þrjátíu ára skeiði, sem þessir sjóðir hafa starfað, hefur Framsfl. mikinn meiri hluta af þeim tíma setið í stjórn landsins, og jafnan þegar hann hefur átt sæti í ríkisstj., hefur hann farið með landbúnaðarmálin og þar með yfirstjórn þessara sjóða, sem hér um ræðir, og oft farið með fjármálastjórn ríkisins jafnhliða. Sú starfsemi, sem sjóðirnir hafa haldið uppi og verið séð um, að þeir gætu innt af hendi, hefur því sérstaklega getað átt sér stað vegna þess, hvernig Framsfl. bar ávallt hag þessara sjóða fyrir brjósti.

Ef vitna á í einstök atriði í þessu sambandi, má geta þess, að nú á síðasta áratug, þegar Framsfl. fór með fjármálastjórn ríkisins, varð mörg árin greiðsluafgangur hjá ríkinu, og framsóknarmenn beittu sér fyrir því í ríkisstj. og á Alþingi, að verulegur hluti af þeim greiðsluafgangi, sem ráðstafað var með sérstökum tögum, rynni einmitt til þessara sjóða, og settu Það sem númer eitt á sínum óskalista. Framsfl. beitti sér einnig fyrir því, eins og ég gat um áðan, eða studdi það eindregið ásamt Sjálfstfl. eða a.m.k. miklum hluta Sjálfstfl., að á sínum tíma var ræktunarsjóði tryggt það mótvirðisfé, sem hann hefur notið góðs af nú um mörg ár. Og þegar hagur sjóðanna hallaðist, beitti Framsfl. sér fyrir því, að sum af þeim lánum, sem höfðu verið veitt af ríkisfé, voru gerð að óafturkræfum framlögum með sérstökum lagaákvæðum í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. Ég ætla, að það hafi komið fram við fjárl, bæði 1953 og 1957 á stjórnartíma vinstri stjórnarinnar, sem oft er nú vitnað til. Þegar svo þetta allt nægði ekki, var gripið til þess að taka erlent lán, til þess að starfsemi sjóðanna þyrfti ekki að leggjast niður eða bíða mikið áfall.

Nú hefur hæstv. landbrh. haldið því fram, að það hafi verið yfirsjón að láta sjóðina taka erlend lán, það hefur ekki sérstaklega verið lögð áherzla á það í þessum umr., en hann hefur haldið því fram hér á þingi, og þá liggur næst að spyrja: Alítur þá hæstv. ráðh., að landbúnaðurinn hafi fengið nóg fé án þess að fá þetta fjármagn, sem hin erlendu lán veittu? Ef hann þurfti á því fé að halda, sem honum var látið í té, var þá hægt að vísa á sjóði innanlands á þeim tíma til þess að verða við þessum þörfum stofnlánasjóðanna? Það var ekki fylgt þeirri reglu á þeim tíma að draga inn fé í Seðlabankann og halda því þar föstu. Ég held, að það umráðafé, sem þjóðfélagið hafði yfir að ráða á þessum árum, hafi verið notað til útlána.

Þá kemur að því, sem hæstv. ráðh. hefur raunar sagt hér á þessu þingi, að ríkið hefði átt að taka lánin og endurlána sjóðunum. Hér ber þá að þeim sama brunni, að eftir þessari leið, sem ráðh. hefur talið að hefði verið eðlileg, hefði ríkið borið og átt að bera að dómi ráðh. gengisáhættuna, því að ríkið átti þá ekki að endurlána sjóðunum með gengisáhættu, heldur sat hún eftir á vegum ríkisins, þegar Það endurlánaði sjóðunum fé. Hér ber því að sama brunni eins og við höfum lagt til, framsóknarmenn, bæði fyrr og nú, að það sé eðlilegt, að ríkið beri gengisáhættuna, sem á þessum sjóðum hefur lent.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að erfiðleikar Þessara sjóða, sem hér um ræðir, urðu fyrst miklir, þegar gengishallinn fór að segja til sín. Og hvenær myndaðist þessi gengishalli? Það má segja, að fyrstu drögin til þess, að gengishallinn myndaðist, eða fyrsti þátturinn í því máli hafi gerzt 1958, þegar yfirfærslugjaldið var lagt á, síðan í enn stærra mæli 1960 og loks enn viðbót 1961. Ég hef fengið tölur um þetta frá Búnaðarbankanum, hvað þessi gengishalli í heild nemi miklu, og samkvæmt þeim tölum nemur hann 123 millj. kr., og ef á að skipta því á þessa þrjá liði, þá lætur nærri skv. þeim tölum, sem ég hef fengið, að það séu rúmar 30 millj., eða 32–33 millj., vegna yfirfærslugjaldsins, milli 60 og 70 millj. vegna gengisfellingarinnar 1960 og um 26 millj. vegna gengisfellingarinnar 1961.

Nú segja ræðumenn hér, hæstv. ráðh. og fleiri: Framsfl. stóð fyrir því á sínum tíma að leggja þetta yfirfærslugjald á, en svo skildi hann við sjóðina í óreiðu. — Þegar þetta er skoðað, verður að rifja upp samhengi atburðanna, hvernig stjórnmálaviðhorfið og valdaskipting milli flokkanna þróaðist á þessum tíma. Yfirfærslugjaldið var lagt á með lögunum um útflutningssjóð 1958. Þau lög eru samþ. alveg í þinglokin, eða 29. maí 1958, og áhrifa þeirrar löggjafar á sjóðina fór aðallega að gæta um haustið eða á síðustu mánuðum ársins 1958, þegar sjóðirnir eru vanir að fá fé til útlána og afgreiða sín lán. Um haustið, þegar þing kom saman 1958, er komið að því, að stjórnarskipti verða, og stjórnarskiptin urðu í byrjun desember, — vinstri stjórnin sagði af sér í byrjun desember, 4. des. 1958, og stjórn Emils var mynduð 23. des. það sama ár. Við vitum það, sem sitjum hér á þingi, að þegar stjórnmálaviðhorfið er með þessum hætti, er ekki unnið að stórmálum, á meðan svona ástand ríkir hér á þingi og stjórnmálasviðinu. Þetta er eins konar biðtími, þegar ein ríkisstj. er að fara frá og önnur að taka við, og það voru engin skilyrði til þess á þeim fáu vikum, sem vinstri stjórnin sat haustið 1958, að koma því við að gera stórátök á þessu sviði. Þegar stjórn Emils var mynduð, færðist meirihlutavaldið yfir í hendur núv. stjórnarflokka, þó að það væri önnur stjórn, sem þá sat, heldur en sú, sem nú situr. Og síðan er framhaldið þetta, að einn liður í viðreisnarstefnunni er hin mikla gengisfelling 1960 og svo enn gengisfelling 1961. Framsfl. hefur verið andvígur þessum efnahagsaðgerðum, sem núv. stjórn hefur beitt sér fyrir, og ber ekki ábyrgð á þeim. En hér kemur fleira til. Á árinu 1959 þótti það mestu varða að koma fram kjördæmabreytingunni, og afgreiðsla efnahagsmála og annarra þýðingarmikilla mála var öll miðuð við það að fleyta þjóðarbúskapnum um stuttan tíma, þangað til hin nýja kjördæmabreyting væri um garð gengin. Þetta er okkur kunnugt. En svo þegar kosningarnar um haustið 1959 eru um garð gengnar, ganga núverandi stjórnarflokkar þá þegar til samninga um stjórnarmyndun. Það tók ekki langan tíma að strika yfir kosningaloforðin um stöðvunarstefnuna og batnandi lífskjör. Það var viðreisnin, sem þá kom til skjalanna, og núverandi stjórn var mynduð. áður en þingið kom saman, og á fyrsta degi þingsins haustið 1959 kemur núv. ríkisstj. og sezt í sína ráðherrastóla, tilkynnir þingheimi sinn stjórnarboðskap, og einn liður í honum er það, að hún taki að sér að koma sjóðum Búnaðarbankans á fjárhagslega traustan grundvöll. Þar með hafði hún þegar lýst því yfir, að hún tæki að sér þetta verkefni. Þá var náttúrlega ekkert annað að gera fyrir Framsfl., þó að hann út af fyrir sig bæri hag þessara sjóða fyrir brjósti, heldur en að biða eftir tillögum valdhafanna. Þeir höfðu sjálfir lýst því yfir, að þeir ætluðu að leysa þetta verk af hendi, og þegar framsóknarmenn buðu það fram, að stofnað yrði til víðtækrar samvinnu um lausn efnahagsmálanna með því að skipa nefnd allra flokka, sem athugaði þau gaumgæfilega, þurftu stjórnarflokkarnir ekki lengi að hugsa sig um. Viljinn til víðtæks samstarfs á sviði efnahagsmálanna kom fram í því, að þeir synjuðu um viðræður um víðtækara samstarf. Þeir voru ákveðnir í því að vinna þessi verk á eigin spýtur og hafa að ýmsu leyti hagað sér í sinni stjórnaraðstöðu eftir boðorðinu: Vér einir vitum. Og undir slíkum kringumstæðum er ekki með nokkrum rétti hægt að krefjast þess eða ætlast til þess, að Framsfl. væri að beita sér fyrir því að flytja gagngerar breytingar á þeirri löggjöf, sem hér um ræðir. Hitt er svo annað mál, að við höfum flutt frv. um það, að ríkið bæri gengisáhættu þessara sjóða. Það höfum við flutt oftar en einu sinni. Það var aldrei hugsað sem allsherjarlausn af okkar hálfu, heldur þáttur í málinu, sem við töldum eðlilegan og teljum enn eðlilegan og réttmætan. En þá bar svo við, þegar við fluttum þetta frv. um þessa aðstoð ríkisins við þessa sjóði, að hæstv. landbrh. taldi skrefið nokkuð stórt. Hann talaði um, að við legðum til, að ríkið tæki á sig í einu lagi 160 millj. kr. vegna þessara sjóða. Þá þótti honum skrefið nógu stórt, þó að hann nú í ræðu sinni hér áðan vildi gera lítið úr þessum till. okkar, sem aldrei voru hugsaðar nema bara einn þáttur í þessu máli.

Ég ætla, að þegar þessi saga er rakin og málsatvik öll skoðuð í réttu ljósi, verði ekki með réttum rökum hægt að ámæla Framsfl. fyrir það, að hann hafi látið undir höfuð leggjast um skör fram að efla sjóði Búnaðarbankans.

Þetta frv. gengur nú sjálfsagt til atkvæða og úrslita hér, fyrst í þessari hv. d. og síðar í Nd. Reynslan sýnir, hvernig um þær brtt., sem fyrir liggja, fer og um afgreiðslu málsins. En af því að hæstv. ráðh. fór að minnast í ræðu sinni á samvizku og að einhverjir mundu hafa vonda samvizku, þá hygg ég, að Það sé bezt að láta dóm reynslunnar tala í því efni. Það getur farið svo um þá, sem að þessari löggjöf standa, ef þeir knýja hana fram með offorsi óbreytta, að samvizka þeirra kunni síðar að verða eitthvað óró. Og satt að segja bendir það til þess, að eins og haft er eftir gömlum og gegnum þm., sem sat hér um langt árabil fyrir mörgum árum, hann hafi haft það að orðtaki, að það væri hægt að smíða skábretti á mál, sem voru dálítið óþægileg, að það sé ekki laust við, að þetta komi nú fram, eða mér kom í hug, þegar hæstv. landbrh. fór nú við þessa umr. og frsm. meiri hl. landbn. að tala sérstaklega um að breyta þessum skatti síðar í lífeyrissjóð fyrir bændur, að samvizkan væri nú þegar farin að verða óró hjá þessum mönnum og nú væru þeir sjálfir byrjaðir á að smíða skábretti á sitt eigið mál til þess að reyna að komast þannig frá því á sómasamlegan hátt.