10.04.1962
Neðri deild: 88. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Frsm. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Eins og tekið hefur verið fram þrásinnis, var ekki samstaða um málið í landbn. Er þó ekki svo að skilja, að ágreiningur sé um það meginatriði, að hér þurfi að reisa við þá sjóði, sem eiga að sjá fyrir lánaþörf landbúnaðarins. Þeir eru af völdum stjórnaraðgerða orðnir ómegnugir þess að sinna því hlutverki, sem þeim var ætlað. Þeir eiga ekki einu sinni orðið fyrir skuldum, og vantar nokkra milljónatugi þar upp á. Svo sárt hefur „viðreisnin“ leikið Þá, að þeir þurfa sérstakrar viðreisnar við til þess að verða ekki úr sögunni. Það er góðra gjalda vert, að með því frv., sem hér liggur fyrir um stofnlánadeild landbúnaðarins, er þessi staðreynd af stjórnarvaldanna hálfu viðurkennd, og sem sagt það meginatriði málsins, að hér þarf að reisa við sjálfa „viðreisnina“, er viðurkennt og flutt hér frv. um, að svo verði gert.

En þótt ég sé sammála því, að Þessir sjóðir verði að fá aukið fjármagn og til þess beri brýna nauðsyn, þá er ég ekki sammála því, með hverjum hætti frv. gerir ráð fyrir því, að Þessara tekna sé aflað, a.m.k. ekki að nærri öllu leyti.

Við hv. 2. Þm. Sunnl. (ÁÞ) höfum flutt á sérstöku þskj. sameiginlega allmargar brtt. við þetta frv., og marka þær afstöðu okkar til þess að verulegu leyti. Við höfum hins vegar skilað sínu nál. hvor, en það mun fyrst og fremst stafa af því, að við gátum ekki verið saman á nál., að okkur greinir nokkuð á um það, hvort vel eða með ófullnægjandi hætti hafi verið séð fyrir þörfum þessara sjóða fram til þess tíma, sem fellur undir þá valdasamsteypu, sem nú situr að völdum ríkisins. Ég er þeirrar skoðunar, að þrátt fyrir það, þótt þessir sjóðir hafi öðru hverju fengið fyrir tíð núverandi valdasamsteypu í landinu fjármagn af tekjuafgangi ríkissjóðs, þegar hann var einhver, þá hafi ekki verið með fullnægjandi hætti séð fyrir þörfum Þeirra. En framsóknarmenn telja yfirleitt, að vel hafi verið séð fyrir þörfum sjóðanna á þeirri tíð. Það er atriði, sem skiptir ekki mestu máli í dag, heldur hitt, hvernig hag sjóðanna er komið og hvað er hægt að gera til þess, að þeir verði nú ag í næstu framtíð megnugir þess að standa undir sínu hlutverki, því hlutverki, að veita lánsfé til hinna nauðsynlegustu framkvæmda í landbúnaði.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að þeir fái stofnframlag eins og þar segir í 3. gr. frv. Þar er samtals um að ræða nálægt 60 millj. kr., sem þeir eiga að fá með eftirgjöfum á ýmsum lánum, sem til þeirra hafa runnið og telja má að sanngjarnt sé. En auk þess hefði vissulega verið réttmætt, að þessir sjóðir hefðu fengið að skrá sín gengistöp á sérstakan reikning í Seðlabankanum, eins og gert hefur verið í öðrum tilfellum.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að sjóðurinn fái árlegt tekjuframlag á næstu árum, sem nemur u.þ.b. 25 millj. kr. Nú er það að vísu ekki alls kostar rétt, sem stundum heyrist í umr. um málið, að hér sé um að ræða tekjuaukningu sem þessu nemur, því að þegar hafa þessir sjóðir á fjárlögum nokkurt framlag, 4,1 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því í frv., að þetta framlag úr ríkissjóði minnki — að vísu ekki stórlega — og verði 4 millj. kr., en síðan verði til sjóðanna látið renna 1% af árlegum söluvörum landbúnaðarins, sem metið er að muni nema um 8 millj. kr. á ári og fara vaxandi, ef sú þróun á að verða, að framleiðsluvörur landbúnaðarins aukist. Á móti því ætlar ríkissjóður að leggja aðrar 8 millj. kr. eða jafnháa upphæð. Þar er sem sagt um að ræða 16 millj. kr. nýjar tekjur fyrir sjóðinn. En auk þess á að leggja 3/4% ofan á verðlag söluvaranna frá landbúnaðinum, sem neytendur eiga að greiða, og áætlað er, að það muni nema nálægt 5 millj. kr. á ári, miðað við þá landbúnaðarframleiðslu, sem nú kemur til sölu á innlendum markaði, og er þá upphæðin, sem á að vera tekjuauki sjóðanna, nálægt 21 millj., eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég get að mestu sparað mér að gera grein fyrir brtt. okkar hv. 2. þm. Sunnl. (ÁÞ). Hann hefur gert það í sinni framsöguræðu svo greinilega, að þar er ekki þörf miklu við að bæta. En það, sem deilan um þetta frv. virðist aðallega standa um, er, hvort réttmætt sé og sanngjarnt að taka 1% af framleiðsluvörum bænda og leggja í sérstakan sjóð, lánasjóð fyrir landbúnaðinn, eða ekki, — einnig hitt, hvort sanngjarnt sé að leggja gjald, sem nemur rúmum 5 millj. kr., á neytendur, sem neyta landbúnaðarvörunnar, til þess að leggja í hina sömu sjóði. Ég get lýst því sem minni skoðun, að ef afkoma bænda væri góð og ef meginþorri neytenda í landinu byggi við rúm lífskjör, þá væri þetta engan veginn fráleit leið. En það, sem gerir hana rangláta, er, að þessar álögur koma í kjölfar þess, að með sérstökum stjórnaraðgerðum, með sérstökum ráðstöfunum til að rýra verðgildi íslenzkrar krónu og kaupmátt bæði bænda og launþega, en launþegar eru, eins og allir vita, meginþorri neytenda, hefur verið með „viðreisninni“ ekki aðeins þjappað að fjárhag fjárfestingarsjóða landbúnaðarins, heldur líka að bændum sjálfum og meginþorra neytenda. Og þegar þessar álögur koma í kjölfar þess arna, eru þær ranglátar. Það er ekki sanngjarnt eftir allar þær búsifjar, sem „viðreisnin“ hefur veitt bændastétt landsins, að leggja á hvert einasta bú landsins 1700 kr. útgjöld að meðaltali til viðbótar öllum þeim útgjöldum, sem fyrir eru, án þess að nein tekjuaukning eigi þar að koma á móti. Miklu sanngjarnara teldi ég vera, að þetta stofnframlag yrði framreitt af almannafé, yrði greitt úr ríkissjóði, eins og við höfum gert till. um, sem skipum minni hl. landbn.

Er ég þá kominn að því, að ég hlýt að svara örfáum orðum því, sem fram kom hér í framsögu hv. 3. þm. Austf. (JP), en hann hafði hér framsögu fyrir nál. meiri hl. landbn. í þessu máli.

Hann vitnaði sérstaklega í það, að gerð veert í brtt. minni hl. till. um Það, að 25 millj. kr. yrðu framreiddar úr ríkissjóði til árlegs framlags til stofnlánasjóðs landbúnaðarins. Hér er í rauninni ekki um að ræða nema rösklega 20 millj. kr. hækkun á því framlagi, sem þegar er ákveðið. En hvað um það, þetta finnst honum óhæfa. Og alveg sérstaklega finnst honum það fráleitt, að hér skuli líka hafa verið gerðar till. um það, að svipuð fjárhæð yrði úr ríkissjóði framreidd til byggingarsjóðs ríkisins, eins og hv. 4. þm. Austf. (LJós) gerði till. um, enn fremur, að gerðar hefðu verið till. um að auka framlag til byggingarsjóðs verkamanna úr ríkissjóði, og máske hefur hann talið upp eitthvað fleira af þessu tagi. Og síðan bætti hann við sem sinni ályktun, að þm. stjórnarandstöðunnar mundu aldrei hafa komið fram með slíkar till., hefðu þeir borið ábyrgð á stjórn landsins. Þetta kann vel rétt að vera. En mér þykir leitt, ef svo væri, að þessi hv. þm. heyrði ekki mál mitt, — ég sé hann ekki hér í salnum, — jú, hann kemur þarna, Það er einmitt alveg ágætt. — Ég vil í sérstöku tilefni þess, að hv. þm. er kominn í salinn, endurtaka, að ég hef gert að umtalsefni þann kafla úr framsöguræðu hans fyrir nál. um frv., að hann telur það mikla óhæfu, að gerð skuli till. um það, að lagðar verði fram úr ríkissjóði 25 millj. kr. til eflingar stofnlánadeild landbúnaðarins, og hann upphóf nokkra samtalningu á því, að gerðar hefðu einnig verið af stjórnarandstæðinga hálfu till. um framlög úr ríkissjóði til byggingarsjóðs ríkisins, sem nema máske álíka hárri upphæð, og enn fremur til verkamannabústaða og máske fleiri framkvæmda, og tók fram, að hann væri sannfærður um, að hefðu þeir stjórnarandstöðuþingmenn, sem slíkar till. bera fram, átt að bera ábyrgð á stjórn landsins, þá hefðu þeir auðvitað ekki gert neinar slíkar till. Ég vil taka fram, að þetta kann rétt að vera. En þá hefði ekki heldur til þess komið, að gerðar hefðu verið af stjórnarvaldanna hálfu ráðstafanir, sem valdið hefðu þessum sjóðum, byggingarsjóði ríkisins, ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitabæja, þeim búsifjum, sem þessi ríkisstjórn hefur valdið þeim. Þau stjórnarvöld hefðu sem sagt ekki komið sér í þá skuld hjá sjóðunum, sem þessi ríkisstj. hefur gert. Þess er skemmst að minnast, að á s.l. sumri framkvæmdi ríkisstj. alveg sérstaka aukagengisfellingu, mitt í því mesta góðæri, sem komið hefur yfir þetta land, mitt í stórhækkandi verðlagi á útflutningsvörum þjóðarinnar til annarra landa og mitt í landburðarafla, sem þá var, mitt í framleiðsluaukningunni, sem var að koma fram hjá landbúnaðinum, en auðvitað varð þetta allt saman til þess að setja þá sjóði, sem hér um ræðir, á hausinn.

Man ég það ekki rétt, að einmitt við það sama tækifæri, gengisfellinguna í ágústmánuði í sumar, hafi ríkisstj. slegið vernd sinni á svokallaðan gengishagnað, þ.e.a.s. á þann verðmismun, sem kom fram á vörubirgðum, sem í landinu voru til, þegar gengisfellingin var gerð í byrjun ágústmánaðar, og framleiðendur fengu ekki að njóta neins hagnaðar af, en seldar voru á hinu nýja gengi, sem auðvitað varð til þess, að fyrir þær komu inn fleiri íslenzkar kr. en ef gengisskráningunni hefði ekki verið breytt? Ég hygg, að sá gengishagnaður, sem ríkisstj. þarna hirti, hafi verið 150 millj. kr. eða u.þ.b. Það er von, að hv. stuðningsmönnum ríkisstj. blöskri það, að 20 plús 20 plús kannske einar 20 millj. enn, eða samtals einar 60 millj., sjáist á till. stjórnarandstöðunnar um greiðslur úr ríkissjóði. Um þetta fórust hv. 3. þm. Austf. svo orð í sinni framsöguræðu, að þeir, sem gerðu svona tili., hlytu enn þá að lifa í gömlum hugmyndaheimi frá uppbótatímunum. Hann skyldi nú ekki lifa á uppbótatímunum í dag? Eða er það skakkt hjá mér, að þessi hv. þm. hafi verið látinn taka þátt í því hér með öðrum þm. stjórnarliðsins að samþ. t.d. að borga togaraútgerðinni u.þ.b. 60 millj. kr. í uppbætur fyrir tvö s.l. ár? Það er að vísu rétt, að þetta eru uppbætur dálítið annars eðlis en tíðkuðust á þeim tímum, er hann kallar uppbótatímana, það munu vera tímar vinstri stjórnarinnar, — reyndar voru uppbæturnar komnar til sögunnar löngu fyrir hennar tíð, — en það munu vera tímar vinstri stjórnarinnar, sem hann kallar sérstaka uppbótatíma og telur hafa verið alveg fráleita. Þá voru sem sagt iðulega greiddar uppbætur, það er rétt, í þeim tilgangi að halda framleiðslu landsmanna gangandi og fá fram framleiðsluaukningu. Breytingin er ekki sú, að það hafi verið hætt uppbótum, það er alger misskilningur þm. Uppbætur eru greiddar enn í stórum stíl, og hér á Alþ. hefur verið samþ., a.m.k. hér í þessari d., — ég man ekki, hvort búið er endanlega að afgr. það frv. sem lög frá þinginu, — að greiða togaraútgerðinni 60 millj. kr. í uppbætur fyrir tvö s.l. ár, en ekki til þess að skipin verði gerð út. í því felst munurinn. Það mætti kalla uppbætur núv. ríkisstj. helzt legkaup eða eitthvað þess háttar, því að nú er útgerðinni greitt fyrir að binda skipin og framleiða ekki neitt. Það skyldi nú aldrei vera, að gömlu uppbótatímarnir, sem hér hefur verið talað um af lítilli virðingu af talsmönnum ríkisstj., væru, þegar allt kemur til alls, kannske ekki óskynsamlegri tímar en þeir, sem tíðkast í uppbótum núv. ríkisstj.

Hv. frsm. meiri hl. taldi líka vera býsna hlálegt, þegar gerð er till. um það núna allt í einu, að lán erlendis fyrir sjóði landbúnaðarins verði tekin á vegum Seðlabankans, svo hafi ekki verið áður. Það er rétt hjá honum, þetta hefur ekki verið svo áður. En við hv. 2. þm. Sunnl. höfum samt leyft okkur að gera till. um þetta, og ég skal benda hv. frsm. á, að það hafa gerzt hlutir, sem gera það alveg sérstaklega nauðsynlegt nú og nauðsynlegra en nokkru sinni áður, að þessar lántökur, ef einhverjar verða, fari fram á vegum Seðlabankans. Ríkisstj. hefur með brbl. og að því er ég verð að telja á sinni tíð stjórnarskrárbroti afhent Seðlabankanum valdið yfir gengisskráningunni. Þetta framferði ríkisstj. hafa hv. liðsmenn hennar hér á Alþ., og þar hygg ég hv. frsm. ekki neina undantekningu, — þeir hafa samþ. þessa ráðstöfun, að Seðlabankinn skuli vera sá aðilinn, sem ræður gengisskráningunni. Hvað er þá eðlilegra en hann taki erlendu lánin? Ætli það sé ekki fullt eins eðlilegt, að hann geri það, eins og hver annar, þegar svo er komið, að hann á að ráða genginu? Eða mundi hv. þm. að athuguðu máli telja það vera æskilega tilhögun, að stofnlánadeild landbúnaðarins gæti tekið lán erlendis, en síðan gæti Seðlabankinn ákveðið, að þetta lán yrði að borga með kannske margfalt fleiri íslenzkum krónum en fyrir það fengust á sinni tíð? Er ekki sanngjarnt, að Þau vandkvæði, er við slíka ráðstöfun kynnu að skapast, brynnu á baki þeirrar stofnunar, sem valdið hefur til að ákveða gengið? Mér sýnist, að ekkert sé sjálfsagðara.

Hv. frsm. meiri hl. beindi að vísu höfuðmáli sínu um það, sem hann hafði að athuga við þær brtt., sem hér hafa verið gerðar, að Framsfl., og situr kannske ekki sérstaklega á mér að svara fyrir það, og ber ekki að skilja það, sem ég hef hér um þessa hluti sagt, sem neinn sérstakan stuðning minn við Framsfl. Ég hef áður lýst því yfir, að ég tel, að á valdatíma Framsfl. yfir þessum málaflokki, landbúnaðarmálunum, hafi ekki verið gengið með fullnægjandi hætti frá tekjuþörf þeirra sjóða, sem áttu að sjá landbúnaðinum fyrir lánsfé. Engu að síður tel ég mig nú eiga um flesta hluti samleið með Framsfl. að því er þetta mál varðar og þær till., sem hér hafa verið gerðar sameiginlega af mér og hv. 2. þm. Sunnl. Mig skiptir það ekki miklu, þó að að ég fái þannig að fljóta með í því, sem minni hv. frsm. á keipótt börn. Um hann verður varla sagt, að hann sé mjög keipóttur sem barn sinnar stjórnar. Ég held, að hann ætti að geta fengið hið bezta þægðarvottorð hjá henni, fyrst hann telur það vera til sérstakrar fyrirmyndar að skattleggja bændastéttina alveg sérstaklega til þess að bæta upp þau töp, sem hlotizt hafa af stjórnarráðstöfunum eins og alóþörfum gengisbreytingum, sem ríkisstjórnin framkvæmdi á s.l. sumri.