13.04.1962
Efri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hef að vísu ekki skrifað undir nál. það, sem fyrir liggur, með fyrirvara, enda mun ég ekki með tilliti til þess, hvað nú er orðið áliðið þings, treystast til þess að bera fram eða fylgja brtt., sem fram kynnu að verða bornar. Hins vegar vil ég láta það koma fram hér, að ég tel málefnaleg rök að því hníga, að það nafn, sem stofnun þessari hafi verið valið, sé of þröngt með tilliti til þeirra verkefna, sem stofnuninni er ætlað að sinna samkvæmt frv. og grg. fyrir því. Tilgangur stofnunarinnar, eins og gerð er grein fyrir honum í 2. gr. frv., er víðtækari en það eitt að annast vörzlu, rannsóknir og útgáfu handrita. Enn skýrar kemur þetta fram í grg. frv., þar sem talað er m.a. um örnefnafræði sem sérstakt viðfangsefni þessarar stofnunar, er að því komi, að henni verði skipt í deildir, en örnefnafræði er auðvitað hlutur, sem er algerlega óskyldur vörzlu og rannsókn handrita. Ég tel því rétt, að sú skoðun komi fram við þessa umr. málsins, að nafn stofnunarinnar beri að taka til endurskoðunar á sínum tíma, þegar að því kæmi að skipta henni í deildir, svo sem heimilað er í frv. Hins vegar mun ég ekki á þessu stigi málsins láta í ljós sérstaka skoðun á því, hvaða nafn skyldi þá velja stofnuninni. Að kenna hana við Jón Sigurðsson mundi auðvitað mjög koma til álita. Fleiri hugmyndir munu þegar komnar fram og koma sennilega fram, áður en lýkur.

Þessi rök, sem ég nú hef nefnt, hníga að því að mínu áliti, að þetta nafn sé of þröngt og því eðlilegt, að það komi til endurskoðunar. En eins og ég gerði grein fyrir í upphafi máls míns, mun ég samt ekki treystast til þess, þó að fram kynnu að koma brtt., að fylgja þeim vegna þess, hvernig nú er orðið ástatt með tíma þingsins.