02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. spurði, hvort ríkisstj. teldi, að þær aðgerðir, sem hér væri verið að gera, dygðu til þess að leysa þá deilu, sem nú stæði yfir á milli togaraeigenda og sjómannasamtakanna. Þessu er til að svara, að höfuðtilgangur þessa frv. er fyrst og fremst að bæta það skakkafall, sem togaraeigendur urðu fyrir á árunum 1960 og 1961. Þetta er yfirlýst um aðalfjárhæðir frv., bæði þær, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram fyrir árið 1960, og það, sem aflatryggingasjóður leggi beint fram fyrir árið 1961. Þess vegna má segja, að þessar ráðstafanir eru framkvæmdar, áður en kom til um þessa deilu á milli togaraeigenda og sjómannasamtakanna og áður en menn vissu um hana, svo að það eru ekki út af fyrir sig líkur til þess, að hægt sé að segja, að Þessar ráðstafanir valdi úrslitum um lausn deilunnar að öðru leyti en því, að náttúrlega þegar bættur er hagur togaraeigenda með þessum bótum, sem hér er gert ráð fyrir, þá er þeim auðveldað að geta leyst deiluna.“

Eins og ég held að ég hafi tekið fram áður, þegar þessi mál hafa verið hér á fyrra stigi, og raunar í sambandi við annað mál en þetta, þá var það álit n. þeirrar, sem um þessi mál fjallaði, að til þess að ná saman endum eins og var, þegar hún starfaði, mundi þurfa um 3 millj. kr. á skip til þess að bæta upp hinn gamla halla, en síðan um 1.2 millj. á ári, ef fiskveiðitakmörkin yrðu ákveðin óbreytt eins og þau nú eru. Þessar 3 millj. á skip eru veittar á tvennan hátt. Annars vegar með því að greiða vátryggingaiðgjöld fyrir togara, sem má gera ráð fyrir að nemi í kringum helming þessarar upphæðar, og þessar bætur aflatryggingasjóðs og ríkissjóðs, sem nema hinum helmingnum. Þannig er frv. sniðið eftir till. n. og er miðað við það ástand, sem þá var. Vinnudeilur geta alltaf komið fyrir og ómögulegt að segja, hvert þær geta leitt eða hver verður árangurinn af þeim, hver lausn þeirra verður, og ég get ekkert á þessu stigi málsins sagt um það, hver muni verða lausn deilunnar, því að það veit hvorki ég né hv. þm., hvað sjómannasamtökin og togaraeigendur kunna að koma sér saman um, og verður þá að taka það mál sérstaklega til athugunar, þegar það liggur fyrir.