02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv. forseti. Eins og öllum er í fersku minni, var það aðalfagnaðarboðskapur viðreisnarinnar á síðum hinnar hvítu bókar, sem gefin var út á kostnað ríkisins, að hennar hlutverk og markmið væri að gera þær ráðstafanir, að íslenzkur sjávarútvegur gæti staðið á eigin fótum án nokkurra uppbóta eða styrkja. Nú er þó augljóst mál, að svo er komið einum þætti íslenzkrar útgerðar, eftir allar viðreisnarráðstafanirnar, m.a. tvær gengislækkanir, að stórvirkustu atvinnutæki þjóðarinnar, togararnir, eru stöðvuð og safnast fyrir í Reykjavíkurhöfn. Nálgast nú, að 30 togarar séu komnir inn fyrir hafnargarðana í geymslu.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er hugsað sem aðstoð við togaraflotann í því formi að taka það fé, sem lagt hefur verið sem skattgjald á vélbátaflotann á undanförnum árum og ekki hefur verið varið í aðstoð honum til handa, heldur hefur safnazt þar fyrir sem sjóðseign. Nú munu vera í hlutatryggingasjóði bátaútvegsins um 40 millj. kr., og er það a.m.k. skýrt, að ætlunin er að taka 30 millj. af Þeim til aðstoðar við togarana. Móti þessu mun ríkisstj. ætla sér að leggja á næstu árum, með það að láta bankana koma þar inn í bili og veita það sem lánsfé, aðrar 30 millj. kr. Og þannig er hugsunin að leggja togaraftotanum nú til á þessu stigi málsins um 60 millj. kr.

Það er ekki hægt um það að deila, að hér er auðvitað verið að fara inn á stórfellda styrkjaleið, og þannig alveg krossbrotin fyrirheit viðreisnarinnar, að vísu ekki gert fyrr en allt er komið í strand, en þá er gripið til þessa ráðs og þá gripinn fyrst sá peningurinn, sem lagður hefur verið á bátaútveginn og ekki verið borgaður út til aðstoðar við hann, heldur fyrirfinnst þar sem sjóðseign. Þetta átti auðvitað að vera öryggisforði bátaútvegsins og þarf að vera tiltækur sem slíkur. En nú er aðgerðin, sem hæstv. ríkisstj. kemur auga á, sú að sópa innan úr hlutatryggingasjóði og hirða að mestu leyti þá sjóðseign, sem átti að vera bátaflotanum til öryggis. Þetta er kannske hægt að telja augnabliksúrræði, en það er þó varla hægt að viðurkenna það sem neitt úrræði til frambúðar. Það er áreiðanlega nokkuð djarft teflt að taka þennan öryggissjóð bátaútvegsins og ráðstafa honum öðrum til handa. Og Það verður áreiðanlega ekki vel séð af þeim, sem standa að vélbátaútgerð á Íslandi. Það fer sjálfsagt svo, að það verður sópaður innan hlutatryggingasjóðurinn og tekinn til þess, eins og hæstv. sjútvmrh. sagði í dag, að grynna á skuldum togaranna frá liðnum árum.

Látum þetta nú vera, ef þetta hefði verið úrræði til þess að koma hinum bundna togaraflota úr höfn og gera þá aftur að atvinnutækjum í þjónustu lifandi atvinnulífs. En svo er ekki. Hæstv, ráðh. hefur játað, að þetta er ekki til annars en að grynna eitthvað á skuldum togaranna frá liðnum árum. Og virðist auðsætt af því, að það er búizt við því af hæstv. ríkisstj., að togararnir verði eftir sem áður, þó að sópað sé innan hjá hlutatryggingasjóði, bundnir í Reykjavíkurhöfn, engin atvinnutæki fyrir íslenzka sjómenn fremur en áður.

Hæstv. sjútvmrh. var í dag að því spurður, hvort hæstv. ríkisstj. teldi, að með samþykkt frv. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins mundi verða leyst togaradeilan. Ég skildi svör hans þannig, að svo væri ekki, ríkisstj. byggist ekki við, að þessi aðstoð við togaraflotann hrykki til þess, að þeir semdu við sjómenn og togaradeilan leystist. Ég fékk ekki skilið betur en ríkisstj. byggist við, að togaraflotinn yrði eftir sem áður bundinn í höfn, þótt að honum yrðu réttar þessar 60 millj. kr., 30 millj. úr hlutatryggingasjóði bátaútvegsins og frá bönkunum í lánsformi það fé, sem ríkissjóður ætlar sér að leggja fram á nokkrum næstu árum á móti.

Nú er enn fremur ætlunin með þessu frv., að í viðbót við það að taka þann sjóð, sem hefur myndazt hjá bátaflotanum, og verja honum til hjálpar togaraflotanum, án þess að það veki vonir um, að togararnir fart af stað, þá er enn fremur ætlazt til þess í frv., að hækkuð verði skattlagningin á bátaftotann, ekki til þess að efla hans sjóð sem eins konar sárabætur fyrir það, sem úr sjóðnum er nú tekið, nei, heldur til þess að verja því líka, a.m.k. fyrst um sinn, til togaranna, með það þó fyrir augum, að allar líkur bendi til að togararnir liggi áfram. Þetta held ég að flestir muni telja ófullnægjandi úrræði, misheppnuð úrræði og rangiáta úrlausn.

Ef togararnir koma til með að liggja áfram í Reykjavíkurhöfn vikum eða kannske mánuðum saman, hví geta þeir þá ekki legið þar með skuldabyrðar sínar frá liðnum árum? Hvers vegna þarf að létta skuldabyrðunum af þeim liggjandi í Reykjavíkurhöfn? Er málið þá aðkallandi? Ég sé það ekki. Ég sé ekki annað en þeir gætu prýðilega legið hér við hafnargarðana, án þess að leyst væru skuldavandkvæði þeirra frá liðnum árum. Þá sé ég ekki betur en sé verið að taka sjóðseign bátaflotans og skattleggja hann enn þá þyngra, hafa sem eins konar innheimtustarfsemi fyrir bankana. Ég tel það óviðurkvæmilegast af öllu. Þá verður þetta frv. og framkvæmd þess ekkert annað en innheimtustarfsemi fyrir bankana og engin þjónusta við atvinnulífið. Ef þessi aðstoð verður ekki til þess að leysa togarana og koma þeim í rekstur, þá segi ég: Þá er málið ekki aðkallandi. Þá geta togararnir alveg eins legið með sína gömlu skuldabagga í höfninni.

Það er furðulegt, en þó mun það rétt vera. að fátækir færeyskir sjómenn, sem myndað hafa með sér samvinnufélagsskap, m.a. um útgerð togara, telja það ekki vera áhættusamt fyrirtæki að taka nú íslenzka togara á leigu og gera þá út á Grænlandsmið, ef þær gætu átt þess kost að fá þá leigða. En íslenzkir togaraútgerðarmenn, sem stundum hafa átt í stríðu og stundum hafa búið við blíðu, stundum vegnað vel og stundum illa, þeir leggja sínum skipum. Núna er einmitt sá tími árs, sem menn mundu halda að væri einna arðvænlegast fyrir íslenzka togaraútgerð að láta togarana sækja á Grænlandsmið, fara á saltfiskveiðar á Grænlandsmið, en þá liggja þeir hér.

Það er að vísu rétt, að það er erfitt að taka þá togara, sem stöðvuðust vegna verkfallsins, og leigja þá t.d. færeyskum sjómönnum, sem vilja hagnýta þá sem atvinnutæki fyrir sitt fólk, því að þeir þurfa að vera tiltækir fyrir íslenzka sjómenn, hverra atvinnutæki þeir voru, þegar verkfallið skall á, — þurfa að vera tiltækir þessu sama fólki, þessum sömu sjómönnum að verkfallinu loknu. Þess vegna er ekki eðlilegt, að stjórn togaraverkfallsins, forustumenn sjómannasamtakanna, geti heimilað það, að þeir togarar séu leigðir Færeyingum. En nú er það upplýst, að 1/3 af togaraflotanum hefur legið ónotaður í höfnum s.l. eitt ár og jafnvel síðustu tvö ár, og það væri ekki óeðlilegt, að bankarnir og ríkissjóður, sem eiga þá dauðu útgerð, heimiluðu færeyskum sjómönnum að taka einhverja af þeim togurum á leigu, sem nú eru í höndum ríkissjóðs og bankanna. Það er þó betra, að þessi tæki fái einhverjar leigutekjur og komi einhverjum sjómönnum að gagni, fyrst auðnan getur ekki verið okkur svo hliðholl, að það hnoss falli íslenzkum sjómönnum í skaut. Auk þess hefði ég gaman af því, að það sýndi sig vera fært færeyskum sjómönnum eignalausum að taka við íslenzkum togurum, stöðvuðum í íslenzkum höfnum, og gera þá út e.t.v. með sæmilega góðum árangri. Að því leyti væri ég þess hvetjandi, að einhverjir af þeim togurum, sem ekki stöðvuðust vegna verkfallsins, — voru stöðvaðir áður og verða því sennilega ekki tiltækir sem atvinnutæki handa íslenzkum sjómönnum, þó að verkfallið leystist, — yrðu þannig leigðir, allra helzt ef sú leiga gæti orðið til þess, að einhverjir af útgerðarmönnunum kæmust hjá að verða gjaldþrota, eins og ég hef nú nokkuð öruggar upplýsingar um, að slík leiga gæti e.t.v. orðið til að afstýra, svo að ein af fáum togaraútgerðum, sem eftir hjara út á landi, gæti e.t.v. komizt undan gjaldþrotinu í næsta mánuði.

Það er aðeins eitt úrræði, sem togaraútgerðarmenn íslenzkir hafa komið auga á sem hugsanlega leið til þess, að þeir gætu samið við sjómenn. Sú leið er, sem kunnugt er, sú, að togaravökulögin væru að litlu eða engu gerð. Og ég held því miður, að það hafi verið hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ), sem fyrr á þessu þingi vék að því, að það væri vel hægt að leysa vanda togaranna íslenzku með því að lengja vinnutímann, þ.e.a.s. stytta hvíldartímann og fækka mönnum á togurunum, svo að vinnan, sem þar væri unnin um borð, væri unnin af færri mönnum, með minni tilkostnaði fyrir útgerðina, lengri vinnutíma og minni hvíldartíma. E.t.v. hafa togaraeigendur gripið þetta á lofti, er þessi hugmynd var komin fram innan þingsalanna, og því stigið það skref að skrifa sjútvn. beggja deilda þetta bréf og bera þennan boðskap fram, að viðlagðri hótuninni um það, að annars væri búið með íslenzka togaraútgerð. Ég vil þó heldur vona, að þetta hafi verið þeirra eigin uppfinning, en að þeir hafi fengið þessa hugmynd frá einum af þm. Vestf. Og það hygg ég, að sé nú öllum þorra landsmanna ljóst, að hugmyndin um að bjarga fjárhagslegri afkomu togaraútgerðarinnar með því að leggja togaravökulögin að velli, sú hugmynd sé dauðadæmd. Ég held, að flestir þeir, sem imprað hafa á þessu sem úrlausn, hafi nú heldur kippzt við og komizt að raun um það, að á þeim mönnum yrði ómjúklega tekið af íslenzku almenningsáliti, sem héldu áfram baráttunni fyrir því að leggja togaravökulögin að velli, — mesta menningarlega sigur, sem íslenzk sjómannastétt hefur unnið sér til verndar.

Það er alls ekki að ófyrirsynju, að togarasjómennirnir íslenzku boðuðu verkfall. Það var á seinni hluta ársins 1959, fyrir nokkuð á þriðja ár, að Þeir sögðu upp sínum samningum og þraukuðu síðan og þraukuðu og báru fram sínar kröfur og biðu og biðu og væntu þess, að þeir fengju einhverja úrlausn og áheyrn. En tíminn leið og engin úrlausn fékkst, og loks á árinu 1962 notuðu þeir sinn verkfallsrétt og sögðu, að ef þeir ekki næðu samningum um einhver bætt kjör, hlytu þeir að ganga í land og leggja niður vinnu. Þetta kom því ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti, Þetta hafði rösklega tveggja ára aðdraganda.

Ekki verður því við borið, að þarna séu ill öfl að verki. Auðvitað hefur Sjómannafélag Reykjavikur haft forustuna í þessu máli með fylista stuðningi Sjómannafélags Akureyrar og verkalýðsfélaga þeirra, sem hafa samningsaðild fyrir togarasjómenn, bæði á Akureyri, Siglufirði, Patreksfirði og Hafnarfirði. Það er nú ekki nema á fimm stöðum á landinu, sem togaraútgerð hjarir enn þá. Það er búið að leggja hana í auðn á Austurlandi, og það er aðeins einn togaraútgerðarstaður á Vestfjörðum enn þá eftir, og svo eru það Reykjavík og Hafnarfjörður, Siglufjörður og Akureyri. Og forustufélag sjómannanna, Sjómannafélag Reykjavíkur, hefur að formanni einn af áhrifa mönnum, ég held einn af framkvæmdanefndarmönnum Alþfl., og varaformaður þessa félags er einn af hv. þm. Sjálfstfl. Og þeir fóru vissulega ekki af stað með kröfur sjómanna, fyrr en þeir voru til neyddir og fyrr en Þeir eidar brunnu á baki þeim, sem þeir þoldu ekki lengur, og í von um það, að þeir með slíka aðstöðu, standandi föstum fótum hvor í sínum stjórnarflokki, kynnu að geta komið því fram, að einhverjar kjarabætur fengjust handa hetjum hafsins, togarasjómönnunum íslenzku, sem að meðaltali hafa dregið á land um 100 smálestir fisks á s.l. ári hver um sig.

En því miður, þeim virðist enn þá ekki hafa orðið ágengt, síður en svo, því að um það leyti, sem þessi mál komust á dagskrá, gerðist það hér á Alþ., að varaformaður Sjómannafélags Reykjavíkur, einn af hv. þm. Sjálfstfl., hvarf skyndilega af þingi, þegar einmitt hætta var á Því, að þessi mál yrðu rædd innan þingsalanna, — þá hvarf þessi hv. þm. af þingi. Hann var auðvitað ekki líklegur til þess að bregðast málstað sjómannanna og leggja hér lið sitt til þess, að sú yrði eina aðgerðin í þessum málum að bera fram og samþ. hér eitthvert frv. um að grynna á skuldum togaraflotans, án Þess að það leiddi á nokkurn hátt til þess, að málin leystust. Þá er hann sendur af þingi.

Ég hygg, að mörgum komi til hugar það, sem stóð í forustugrein í öðru aðalmálgagni stjórnarflokkanna um daginn, á þá leið, að efnahagsvandræðin séu í föstum farvegi og gangi bara vei. Þegar menn líta á togaraflotann í Reykjavíkurhöfn, þá er það eins og dæmigerð staðfesting á því, að hv. ritstjóri, einn af þm. Alþfl., hafi haft rétt fyrir sér í það sinn, að efnahagsvandræðin séu í föstum farvegi og gangi bara ljómandi vel: Togararnir allir bundnir. Þannig heppnast viðreisnin, — því að af hverju er það, sem togararnir eru sérstaklega bundnir? Það er af því, að tvennar gengislækkanir hafa orðið þessum atvinnuvegi þungar í skauti, í staðinn fyrir að þær voru sagðar eiga að bjarga togaraflotanum. Ég skal nefna nokkur dæmi. Vátryggingargjöld togara hafa hækkað úr 300—350 þús. kr. á skip upp í allra lægst 700 þús. kr. og allt upp í 1250 000 kr., eftir því, hvort þetta eru eldri skip eða nýlega keypt skip, - vátryggingargjöldin ein hækka úr 300–350 þús. og í 700—1250 þús. Olían hefur, ekki hvað sízt vegna gengislækkana, meira en tvöfaldazt í verði, og olíueyðsla eins togara nemur nú, eftir því sem kunnugustu menn herma, um 1.3 millj. kr. á ári. Svo kemur vaxtabyrðin. Hvað halda menn, að hún nemi miklu af aflamagni eins togara á ári? Það er eitthvað yfir millj. kr. Bankarnir taka þannig af hverjum togara meira en helminginn af þeirri upphæð, sem allur mannskapurinn á togaranum tekur til sín, — meira en helming. Það er því ekki skorinn mjög þröngur stakkur þeim öðrum aðilum, sem eiga viðskipti við togaraútgerð á Íslandi. En einn lið verður að skera eins naumt og hægt er, og það eru launin til togarahásetanna. Þau eiga að standa óbreytt ár eftir ár. Þau hafa staðið óbreytt, síðan samningar fengust seinast fyrir togara, sem var í árslok 1958. Er það alveg óvenjulega langt tímabil, sem launakjörum togaraháseta hefur verið haldið óbreyttum.

Helztu kröfur togarasjómannanna núna eru um það, að kaup Þeirra, hásetakaupið, hækki úr 3 412 kr. á mánuði í rúmar 4 Þús. kr. á mánuði og að skipverjar fái sama verð fyrir aflahlut sinn, sem er 17%, og útgerðin fær á hverjum tíma. Hækkunarkröfurnar nema þannig um 20–22%. Og Það þarf enginn að undrast það, það eru ekki óbilgjarnar kröfur, þegar á það er litið, að þeirra kjör hafa staðið svona lengi óbreytt.

Það hefur blandazt hér inn í umr. um þetta mál, hvort svo sé komið, að Það sé ástæða til að gefa upp alla von um íslenzka togaraútgerð. Ég held það sé síður en svo. Ég held, að Þetta séu stundarerfiðleikar, sem þurfi að ráða fram úr á skynsamlegan hátt, en alls ekki nein sönnun þess, að við Íslendingar eigum að hætta togaraútgerð. Mér finnst liggja í augum uppi, að Íslendingar hljóti að vernda fiskveiðilandhelgi sína við Ísland til þess að varðveita alla möguleika fyrir bátaflotann, — bátaflota, sem byggður sé upp af ýmsum stærðum og gerðum vélbáta, smærri og stærri. En hins vegar eigum við auðvitað einnig að hafa togaraútgerð til þess að hagnýta auðæfi fiskimiðanna við Ísland á djúpmiðum, annars verða þau ónotuð eða eingöngu nýtt af erlendum þjóðum, og til þess að sækja fiskimagn á fjarlæg mið, og þess Þurfum við líka. Hvorugt þetta má vanrækja. Og þessir tveir meginþættir íslenzkrar útgerðar verða að halda áfram.

Menn hafa haldið því fram í umr. um þetta mál, að hinn rýri afli togaranna á s.l. ári sé eingöngu aflatregðu að kenna og þannig óviðráðanlegt böl. En Þetta er ekki með öllu rétt. Víst hefur það verið svo, að aflatregða hefur verið allmikil. En þegar verið er að bera saman heildaraflamagn togaraflotans íslenzka í tonnum talið móts við eitthvert annað ár, eins og t.d. 1958 eða 1959, þá verða menn að gæta þess, að þá var allur togaraflotinn hagnýttur, alla daga ársins 1958. Nú er það staðreynd, að þriðji hluti togaraflotans hefur legið ónotaður í höfnum s.l. ár. Og enn kemur fleira til, að samanburðurinn er ekki réttur. 1958 og 1959 lögðu íslenzku togararnir svo að segja allan afla sinn upp í íslenzk fiskiðjuver og voru þannig miklu fleiri daga á veiðum en Þeir hafa verið nú s.l. tvö árin. Á s.l. ári fóru þeir fjöldamargar söluferðir til útlanda með afla sinn, því að helzt tókst togaraskipstjórunum og útgerðarmönnunum að halda hásetunum á skipunum með því, að þeir fengju að sigla. Og þeir voru látnir sigla, forðast Ísland eins og hægt var, sigla fram hjá því og í hverri veiðiför fóru 10–11 dagar frá veiðum í það að koma aflanum á sölumarkað. í einum 5–6 söluferðum á ári fara þarna 55–60 dagar í siglingar fram og aftur milli landa til þess að koma aflanum á erlendan markað, og Þessir dagar allir dragast frá veiðidögum flotans.

Þetta verða menn að taka með í reikninginn, þegar þeir eru að bera saman aflamagn — heildaraflamagn í tonnum 1958 t.d. og nýliðið ár. 55—60 veiðidagar eru teknir frá til þess að koma fiskinum á erlendan sölumarkað. Og þegar verið er að reyna að komast að niðurstöðu um fjárhagslega afkomu togarans eftir þetta ár, þá verða menn auðvitað að taka með í reikninginn það, sem þeir voru að slægjast eftir með þessum siglingum. Það var að fá miklu hærra, margfalt hærra fiskverð í Englandi og í Vestur-Þýzkalandi heldur en hægt var að fá á Íslandi, og þennan mismun á fiskverðinu mátu þeir meira en þá töf, sem þeir urðu fyrir við veiðarnar, við að komast í samband við þennan sölumarkað.

Ég geri ráð fyrir, að þeir hafi valið hinn betri kostinn og að þeir hafi bætt fjárhagslega afkomu sina einmitt með því að notfæra sér þetta hærra verð. Hið rétta sé því, þegar slíkur samanburður sé gerður, að miða við aflaverðmætið 1958 og aflaverðmætið, sem togari hafi fengið með því að fara fram hjá Íslandi og selja óunna fiskinn erlendis. En hver sá, sem vildi svo reikna dæmið nákvæmar, hann mundi vitanlega einnig vilja athuga þá hliðina, hversu mikið íslenzkt þjóðfélag hafi svo skaðazt á því að selja óunninn fisk í staðinn fyrir unninn og forðast þannig Ísland, vegna Þess að kjör sjómannanna voru orðin svo slæm, að þeir hefðu gengið í land fyrir löngu, ef þeir hefðu ekki selt aflann erlendis.

Útgerðarmennirnir hafa alltaf afsakað sig með því, þegar bent hefur verið á, hvers vegna Þeir seldu aflann erlendis óunninn, í stað þess að leggja hann hér á land og vinna hann og fá fyrir hann hærra verð, — þá hafa þeir alltaf afsakað sig með Því að segja: Ja, ef við gerðum það, þá kæmi í ljós, að togarakjörin eru svo léleg, að togarasjómennirnir mundu ganga í land. Þess vegna verðum við að sigla. Auk þess hafa þeir bent á það, að ef þeir legðu aflann á land hér, þyrftu þeir að bíða óratíma eftir að fá aflaverðmætið heim, sbr. að menn hafa orðið að bíða 8–10 mánuði, upp undir árið, hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eftir því að fá peningana heim. En þarna fengju Þeir auk hins háa verðs aflaverðmætið greitt eftir hendinni. Og þegar væri farið að þrengjast um fyrir togaraútgerðinni, þá gæti hún ekki valið annan kost en þann, sem gerði henni mögulegt að halda togarahásetunum og að fleyta sér eitthvað lengur fjárhagslega, og ég skal varla lá þeim það. Það verður hver að reyna að bjarga sér, þegar í nauðirnar rekur, eins og unnt er. En þjóðhagslega er þetta ekki farsæl útgerðaraðferð, það er mönnum ljóst. Og hún bendir til þess, að það hefði þurft fyrir löngu að lagfæra kjör íslenzku togarasjómannanna, svo að hægt væri að fá þá til að una sínum hag, þó að togararnir legðu aflann hér upp til vinnslu, og til þess að tryggja það jafnframt, að þjóðin fengi meira verðmæti út úr fengnum afla. En togaraútgerðin var svo komin, að hún heldur því fram, að þetta hafi hún ekki getað þolað.

En hvað sem öllu öðru líður um þetta mál, þá undrast ég það mjög, ef allir gera sér ekki það ljóst, að höfuðatriði þessa máls hlýtur að vera að finna einhverja lausn á vandamálum togaraflotans, sem leysi togaradeiluna, sem geri það að verkum, að togararnir sigli út á veiðar og gerist aflandi tæki í þjóðarbúið. Það er talið, að togaraflotinn hafi á s.l. ári þrátt fyrir allt fært í Þjóðarbúið 600–650 millj, kr. Og þá að viðreisnin hafi gengið prýðilega, þá tel ég þó, að það væri að missa dálítinn spón úr aski sínum fyrir hæstv. ríkisstj., ef togaraflotinn lægi og færi ekki í gang aftur og yrði ekki aflandi 650–700 millj. kr. Nema því aðeins, að það sé ekkert mismæli, heldur bara takmark, að efnahagsvandræðin eigi að vera í föstum farvegi og ganga vel.

Lausn á þessu máli, án þess að togaraflotinn fari af stað, er engin lausn. Það er enginn að bættari, þó að það séu teknar 60 millj. kr. og látnar til togaraútgerðarinnar, ef togararnir eiga að liggja áfram. Það væri miklu fremur tilvinnandi, að henni væru réttar nú 100 millj. kr. með einhverjum hætti, ef það mætti duga til þess, að útgerðin gæti samið við sjómennina og íslenzkir sjómenn fengju þessa togara aftur, þessi mikilvirkustu tæki þjóðarinnar, sem sín atvinnutæki og gætu dregið björg í bú þjóðarinnar. Ekkert annað en Það er lausn á þessu vandamáli. Og ég skil ekkert í þeim hv. alþm., sem greiða atkvæði með þessu frv., nema því aðeins að þeir fái vitneskju um Það, að samþykkt þess verði til að leysa togaradeiluna.