13.04.1962
Efri deild: 88. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. sjútvn. tók fram, var ekki samstaða í n. um afgreiðslu þessa máls. Við, sem minni hl. skipum, teljum að vísu fulla þörf á Því að koma togaraflotanum til aðstoðar vegna aflabrestsins á undanförnum árum, en við teljum, að það komi ekki til mála að gera það með þeim hætti, sem þetta frv. kveður á um.

Meginefni frv. er, eins og þegar hefur verið tekið fram, að hér er um fjárhagsaðstoð að ræða til togaraútgerðarinnar vegna aflabrests á undanförnum tveimur árum. En jafnframt á þetta að verða aflatrygging togaranna framvegis. Fjáröflunin í þessu skyni er með tvennum hætti. Hún er nokkur hækkun á framlagi ríkisins til aflatryggingasjóðs frá því, sem það framlag var til hlutatryggingasjóðs, og hún er skattur á bátaútveginn í landinu. Þetta á að framkvæma að forminu til þannig að fjölga deildum aflatryggingasjóðs úr tveimur, sem nú er, í fjórar, bæta við togaradeild og jöfnunardeild. Síðan á helmingur af útflutningsgjaldinu, sem á að renna til aflatryggingasjóðs, og helmingur af ríkisframlaginu að renna til jöfnunardeildarinnar. Hinn helmingurinn á að renna til hinna einstöku deilda.

Það er sýnilegt, að jöfnunardeildin gengur fyrst og fremst til þess nú á næstunni að verða togaraflotanum til aðstoðar. Það hefur komið fram við 1. umr. þessa máls, að hér er ekki um neina aukningu eða eflingu á aflatryggingu bátanna að ræða, svo að þau auknu framlög, sem hér eiga sér stað, þær auknu tekjur, sem aflatryggingasjóður á að fá frá því, sem hlutatryggingasjóður hefur fengið, eiga að ganga til togaranna.

Þetta fé á að koma að miklum meiri hluta til beint frá sjávarútveginum, en eins og ég sagði, á framlag ríkisins að hækka nokkuð.

Þá er reglunum um það, hvað skuli teljast meðalafli, nokkuð breytt frá því, sem áður var, og verður meira á valdi sjóðsstjórnarinnar og reglugerðarákvæði, hvernig þær reglur verða. Nú verður meira aflamagn talið meðalafli en áður. Það hefur það í för með sér, að aflatryggingabætur koma fyrr til greina en ella.

Framlag til togaranna vegna aflabrestsins á árinu 1960 á að vera 30 millj, kr. lán, þ.e.a.s. það er lán, sem ætlazt er til að aflatryggingasjóður taki sjálfur til styrktar togurunum. Sjóðurinn á að standa undir vöxtum og afborgunum af þessu láni, svo að þetta er hrein fjárhagsaðstoð til togaranna, þessar 30 millj. kr. Framlag til aflatryggingar togurum á þar fyrir utan að verða 371/2 millj. kr., sem er framlag ríkissjóðs, og á að koma á 15 árum. Þar með er árið 1961, sem á þarna að taka inn í aflatrygginguna. Auk þessa kemur svo jöfnunardeildin til að hlaupa undir bagga, Þegar á þarf að halda, og er sýnilegt, að hún verður að gera það þegar í stað.

Þetta eru aðalefnisatriði frv., að ég ætla. Vegna þess að það er orðið áliðið þings og ég vil ekki tefja að óþörfu framgang þessa máls, þó að ég sé ekki meðmæltur því í þessu formi, þá sleppi ég að ræða hin minni háttar atriði, en held mér við þessi meginatriði.

Þegar slíkt frv. er lagt fyrir Alþ., þar sem um er að ræða allmikil fjárframlög til togaraútgerðarinnar, milli 60 og 70 millj., vegna aflabrests á tveimur árum, þá hlýtur sú spurning að vakna, hvað togaraflotinn þurfi mikla aðstoð vegna aflabrestsins á þessum árum og hvað mikla fjárhagsaðstoð togaraflotinn þurfi til þess að tryggja rekstur hans framvegis, ekki aðeins til þess að veita bætur út á halla, sem orðið hefur, heldur að tryggja það, að rekstur togaranna geti haldið áfram. í öðru lagi er sú spurning, hvaðan réttmætast sé að taka þetta fé. Við 1, umr. þessa máls óskaði ég þess við hæstv. sjútvmrh., að sjútvn. yrði í té látin skýrsla rannsóknarnefndar þeirrar, sem hæstv. ríkisstj. skipaði til að rannsaka hag togaraflotans. Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að það væri ekki nóg að vita aflamagn togaranna í heild hvert ár fyrir sig, heldur líka, eins og ég þá undirstrikaði, hvert andvirði aflans hefði orðið hvert ár um sig. Þar sem ætla má, að allar slíkar upplýsingar séu beztar og fullkomnastar í þessari skýrslu, þá óskuðum við, sem minni hl. n. skipum, eftir því, að n. fengi þessa skýrslu til athugunar. En því miður gat hæstv. ríkisstj. ekki orðið við þessari beiðni, og skv. skilaboðum hv. form. n. var ástæðan sú, að í skýrslunni væri trúnaðarmál, sem snerti einstök útgerðarfélög, og væri því ekki hægt að fara með það til þingnefndar.

Ég verð að segja, að þetta eru lítt viðunandi svör frá hæstv. ríkisstj., að ekki megi trúa Þingnefnd fyrir upplýsingum um hag togaraflotans, þegar verið er að fara fram á það við Alþ. að veita honum fjárhagsaðstoð upp á 60–70 millj. Og ég verð að segja, að það er vægast sagt lítilsvirðing á Alþ., að þingnefnd skuli ekki vera trúað fyrir þeim upplýsingum, sem utanþingsnefnd er trúað fyrir, en Það felst í Þessum svörum. Þar að auki er þetta ekki nema tylliástæða, Því að auðvitað var hægt að láta sjútvn. í té Þessa skýrslu án þess að geta Þar um nöfn einstakra togara eða útgerðarfélaga. Það er hægt að hafa gamla aðferð, sem einu sinni var kallað að breiða yfir nafn og númer. Það var hægt að þurrka allt slíkt út, svo að þessi Þingnefnd, sem ekki var trúað fyrir leyndarmálum, fengi ekki að vita, um hvaða aðila var að ræða í einstökum tilfellum í þessari skýrslu. En það er komið sem komið er, að sjútvn. hefur ekki fengið þessar upplýsingar. Hins vegar fengum við Þau skilaboð, að ef Það væri eitthvað sérstakt, sem við vildum spyrja um, þá væri sjálfsagt að leitast við að svara því. En það er ekki hægt að vita það fyrir fram, hvað þarf að spyrja um, fyrr en maður sér skýrsluna.

Ég skal nefna það t.d. út af Þessu, að ég leitaðist við að afla mér upplýsinga um andvirði togaraaflans á undanförnum árum hjá Landssambandi Ísl. útvegsmanna, hjá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, hjá Fiskifélagi Íslands og fékk þær hvergi. Hvort þessar stofnanir hafa haft þessar upplýsingar eða ekki, það veit ég ekkert um, nema hvað Fiskifélagið svaraði því, að Það hefði þær alls ekki. En hvar átti þá að fá þessar upplýsingar? Ég ætla, að þær hafi hlotið að vera í skýrslunni. M.ö.o.: þetta er grundvöllurinn undir því, að þm. geti gert sér grein fyrir því, hversu mikla fjárhagsaðstoð togararnir þurfa og með hvaða hætti væri bezt að láta hana í té, þ.e. hvað aflamagnið í krónum hefur orðið hvert ár fyrir sig, því að sjálft aflamagnið talið í tonnum segir ekkert um þetta, eins og ég tók fram við 1. umr.

Þrátt fyrir þetta er okkur, sem minni hl. skipum, fyllilega ljóst, að togaraflotinn þarf fjárhagsaðstoð, og við erum reiðubúnir til Þess að samþykkja fjárhagsaðstoð fyrir togaraflotann, en fyrst og fremst í því formi, að það verði tryggt, að togararnir verði þá reknir áfram. Nú er það svo, að Þeir, sem vel ættu að Þekkja til þessara mála, eins og Landssamband Ísl. útvegsmanna, eru ekki sérlega ánægðir með þetta frv. Í umsögn Landssambands Ísl. útvegsmanna segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Framhaldsaðalfundur L.Í.Ú., haldinn í Reykjavík 12. des. 1961, skorar á Alþingi það, er nú situr, að breyta Þessu ákvæði“ — þ.e. lagaákvæði — „þannig, að tekjuauki sá, er hlutatryggingasjóður fær samkv. frv., gangi til þeirrar greinar sjávarútvegsins, er þær eru runnar frá, þ.e. til síldveiðideildar, þorskveiðideildar bátaútvegsins og togaradeildar, hafi hver Þessara deildar aðskilinn fjárhag.“

M.ö.o.: L.Í.Ú. er algerlega andvígt þessu fyrirkomulagi, að stofna jöfnunardeild, heldur hafi hver deild sinn sérstaka fjárhag og tekjur frá hverjum flokki veiða gangi til viðkomandi deildar. Og enn fremur segir:

„Stjórn L.Í.Ú. telur rétt, að þeirri skipan sé haldið, sem felst í ofangreindri ályktun aðalfundarins, að deildir sjóðsins verði aðeins þrjár, þ.e. síldveiðideild, almenn bátadeild og almenn togaradeild.“

Auk þess segir í þessari umsögn:

„Geti einhver hinna þriggja deilda ekki gegnt hlutverki sínu í samræmi við tilgang sjóðsins vegna fjárskorts, telur stjórn L.Í.Ú. eðlilegt, að hinar deildir sjóðsins hlaupi undir bagga með lánveitingum, séu þær þess umkomnar, og verði slik lán frá einni deild til annarrar einungis veitt gegn ríkisábyrgð á láninu, svo sem verið hefur með deildir hlutatryggingasjóðs. Þá telur stjórn L.Í.Ú. eðlilegt, eins og áður var, að framlag ríkissjóðs nemi jafnhárri upphæð og tekjur sjóðsins nema af útflutningsgjöldum af afurðum togara og báta. Á hinn bóginn telur stjórn L.Í.Ú. það hæpna ráðstöfun að hækka gjöld af útfluttum sjávarafurðum til sjóðsins, þótt það gangi til uppbyggingar hans, vegna hinnar erfiðu afkomu sjávarútvegsins.“

Brtt. þær, sem við í minni hl. n. flytjum, eru í fullu samræmi við þetta álit L.Í.Ú. En ef ekki á að taka fjárframlögin með þessum hætti, sem gert er ráð fyrir, en það er með hækkun á útflutningsgjaldi af öllum sjávarafurðum, þannig að í framkvæmdinni verður mikill hluti hækkunarinnar beint frá bátaflotanum, hvaðan eiga þá peningarnir að koma?

Okkur, sem skipum minni hl., virðist, að það séu til nægir peningar í þetta og meira að segja frá sjávarútveginum sjálfum. Það er það fé, sem tekið var af útflytjendum með gengislækkuninni s.l. sumar og mun vera um 150–170 millj. kr. Miklum hluta af þessu fé er óráðstafað. Þess vegna leggjum við til, að Þaðan sé fengið fé til aðstoðar togurunum og meira fé en gert er ráð fyrir í þessu frv., þannig að út úr fjárhagsaðstoðinni komi meiri aflatrygging en í frv. felst. En samkv. frv. er ætlazt til, að hækkað verði útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem hér segir: Í stað 3/4% útflutningsgjalds af síldarafla komi 11/4%. Í stað 1/2 % af Þorskafla komi 11/2%, og í stað þess, að togarar greiddu ekkert í hlutatryggingasjóð, komi nú líka 11/4%. Mér sýnist, að þegar maður bætir við 21/2 millj. kr. framlagi ríkissjóðs á ári, eins og ætlazt er til, þá nemi þessi hækkun frá því, sem áður var, 271/2 millj. kr., þ.e.a.s. bæði af útflutningsgjaldinu og af framlagi ríkissjóðs. Tekjur hlutatryggingasjóðs hafa verið, miðað við afla 1961, í kringum 271/2 millj. kr. og eiga að hækka upp í 521/2 millj. að viðbættu 21/2 millj. ríkisframlagi, þannig að tekjur aflatryggingasjóðs í heild, Þegar frv. er komið til framkvæmda, ættu að verða um 55 millj., að meðtöldum þeim 21/2 millj. á ári, sem gert er sérstaklega ráð fyrir í þessu frv.

Það er gert ráð fyrir því í grg. þessa frv., að andvirði útfluttra sjávarafurða á s.l. ári muni verða um 2800 millj., og ég hef fengið þær upplýsingar, að það megi áætla, að 500 millj. af því séu fyrir togaraafla, 900 millj. fyrir síldarafla og 1400 millj. fyrir þorskafla bátanna. Ég skal taka fram, að ég hef ekki sjálfur getað rannsakað þetta, en mér hefur verið tjáð, að þannig megi áætla þetta. Að óbreyttum lögum átti því að koma í hlutatryggingasjóð 6.75 millj. frá síldaraflanum og 7 millj, frá þorskafla bátanna eða 133/4 millj. Móti þessu hefur ríkið lagt jafnháa upphæð, og hefðu þá tekjur hlutatryggingasjóðs að óbreyttum lögum orðið um 271/2 millj. kr. Samkv. þessu frv. aftur á móti, þar sem allar þessar deildir útvegsins eiga að greiða sama gjald til aflatryggingasjóðs, 11/4%, þá sýnist mér, að tekjurnar verði, miðað við afla síðasta árs og þá skiptingu, sem ég nefndi, frá togurunum 61/4 millj., frá síldveiðunum 111/4 millj. og frá þorskafta bátanna 171/2 millj., eða samtals 35 millj., og kemur þetta heim við það, sem mun standa í grg. þessa frv. En á móti þessu á ríkið ekki að greiða nema helminginn. í stað þess að áður greiddi ríkið jafnháa upphæð, þá greiðir ríkið helminginn á móti, 171/2 millj., og koma þá út 521/2, en þar fyrir utan er svo framlagið, sem ég nefndi áðan, 21/2 millj. kr. á ári, svo að út úr þessu ættu að koma 55 millj.

Hverjir taka nú á sig þessar hækkanir á fjárhagsaðstoðinni til togaraflotans? Hverjir taka á sig þessa 271/2 millj. kr. hækkun á ári, miðað við aflabrögð síðasta árs? Tekjurnar verða: Frá togurunum sjálfum eiga að koma 61/4 millj., frá síldveiðum bátaflotans, og það eru eingöngu bátar, má heita, sem stunda síldveiðar, 41/2 millj., frá þorskafla bátanna 101/2 millj., eða frá bátaflotanum í heild 15 millj. Loks kemur hækkun á framlagi ríkissjóðs, og hvað er það mikið? Það eru 3 millj. 750 þús., miðað við það aflamagn, sem ég nefndi áðan. Hækkunin er 3 millj. 750 þús., þegar hækkunin, sem lögð er á bátaflotann í þágu togaraflotans, er um 15 millj. En við þessar 33/4 millj. má bæta þeim 21/2, sem ég nefndi áðan, svo að öll hækkun á framlögum ríkisins til bjargar togurunum er 61/4 millj., nákvæmlega sama og togararnir eiga að leggja fram sjálfir.

Það er þetta fyrirkomulag, sem við í minni hl. getum ekki sætt okkur við, að skattleggja bátaftotann þannig, í stað þess að taka fjármagnið þaðan, sem það er til og handbært. Þar að auki skal ég geta þess, að ríkissjóði er ekki ættað að leggja fram nema 81/2 millj. á þessu ári, en mundi eiga að leggja fram samkv. reglunni 171/2, og er sagt í grg. frv., að þetta sé í samræmi við ákvæði fjárlaga, — en ekki veit ég, hvort það er nægileg afsökun.

Ég skal þá gera grein fyrir þeim brtt., sem við í minni hl. flytjum við þetta frv. og eru í samræmi við þær till., sem fluttar voru í hv. Nd.

1. till. er í samræmi við það, sem ég sagði áðan, að við leggjum til, að ekki verði höfð jöfnunardeild, heldur verði deildirnar þrjár og með aðskilinn fjárhag.

2. till., sem við flytjum, er. að meðalafli, sem talað er um í frv., verði talinn hinn sami hjá bátaflotanum og hjá togaraflotanum. miðað við 85%, þ.e.a.s. að bætur komi þá til, þegar á skortir þann afla að hafa náð 85% af meðalafla, nema á síldveiðum leggjum við til, að það verði eins og í frv. miðað við 75%.

3. till. er aðeins í samræmi við 1. till.

4. till., sem við flytjum, er, að hækkunin á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum verði minni en gert er ráð fyrir í frv. — Rökin fyrir því að hafa þessa hækkun minni en er í frv. eru þau, að við ætlumst til, að fé komi til aðstoðar togaraflotanum af gengishagnaði, eins og ég nefndi áðan. — 2. liður í 4. till. er það, að framlag ríkisins verði jafnt gjaldinu, sem kemur frá sjávarútveginum, eins og hefur verið til hlutatryggingasjóðs. — 3. liðurinn í þessart 4. till. er, að tekjur af hverjum flokki fiskveiða renni til viðkomandi deildar aflatryggingasjóðs. — 4. liðurinn er um það, að heimilt skuli, að ein deild láni annarri deild innan aflatryggingasjóðs gegn ábyrgð ríkissjóðs, en þetta hefur verið í lögum áður, og þannig mun bátadeildin eiga nú nokkurt fé hjá síldveiðideild.

5. till., sem við flytjum, er um það, að togbátar geti komið til greina, að heimilt sé að veita togbátum fjárhagsaðstoð vegna aflabrests 1960 eins og togurum, enda eru þessi 250 tonna skip togarar. — B-liður þessarar till. er um gengishagnaðinn, sem ég ræddi um áðan, að hann gangi til aðstoðar togurunum vegna aflabrests beggja þessara ára, 1960 og 1961, og að skilið verði þannig á milli aflatryggingar og styrkja til togaranna, þannig að aflatryggingin sjálf byrji með árinu 1962.

Þar sem nú er orðið áliðið, vil ég ekki vera að lengja mál mitt meira að svo komnu, en tel, að öll sanngirni og rök mæli með því, að togurunum verði veitt meiri aðstoð en í frv. felst en ekki með skattlagningu á bátaútveginn í landinu, eins og hér er gert ráð fyrir.