14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Við hv. 11. landsk. höfum leyft okkur að flytja brtt. við 20. gr. frv., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í 2. málsgr.: „Fjórðungur landsútsvara, sem til falla í hverju sveitarfélagi, skal koma í hlut þess“ o.s.frv. Við leggjum til, að þessu verði breytt á þá leið, að þar standi „þriðjungur landsútsvara af síldarverksmiðjum ríkisins og fjórðungur annarra landsútsvara, sem til falla í hverju sveitarfélagi, skal koma í hlut þess“ o.s.frv. Við flutning þessara till. höfum við tvisvar sinnum áður gert tilraun til þess í þessari hv. d. að leiðrétta augljóst ranglæti, sem í frv. felst, ef að lögum verður, þar sem gerð er mjög áberandi mismunun milli þeirra sveitarfélaga, þar sem reknar eru síldarverksmiðjur í einkaeign og síldarverksmiðjur í ríkiseign.

Við höfum lagt til í fyrsta lagi, að landsútsvarið á síldarverksmiðjur ríkisins verði fellt niður, þar sem við sjáum ekki, að frekar sé ástæða til að leggja það á þar en aðrar verksmiðjur. Eftir að sú till. hafði verið felld, þá bárum við fram brtt. við frv. um breyt. á l. um síldarverksmiðjur ríkisins. í þeirri brtt. okkar fólst það, að sveitarfélög, þar sem ríkisverksmiðjur starfa, skyldu halda þeim tekjum, sem þær hafa haft af verksmiðjunum, þannig að ekki væri gengið á þann hluta, sem þær hafa til þessa haft. Sú, till. var líka felld. Nú viljum við freista þess í þriðja sinn að fá mál þessara sveitarfélaga leiðrétt.

Ég tel, að málið sé fullskýrt, og skal ekki hafa um það fleiri orð, en vænti þess nú, að hv. þm. geti fallizt á að leiðrétta að nokkru leyti þau missmíði, sem eru á frv. að þessu leyti.