02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

199. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Brennt barn forðast eldinn. Þannig hljóðar eitt íslenzkt spakmæli og ágætt. En þó að brennd börn forðist eldinn, þá held ég samt, að enginn fulltíða maður, sem einhvern tíma hefur brennt sig í æsku, gangi svo langt, að hann afneiti því með öllu að nota eld allt sitt líf. Þeir hv. þm., sem hér hafa talað á móti þessu frv., hv. 9. þm. Reykv. (AGI) og hv. 1. þm. Vesturl. (AB), röktu báðir þá sögu um 200 ár, sem hér á landi hefur gerzt að því er snertir innflutning búfjár og afleiðingar af honum, sem eru sannast að segja mjög slæmar yfirleitt. En þrátt fyrir það, þó að við höfum rekið okkur svona illilega á það, að inn í landið hafa flutzt sjúkdómar með innfluttu fé, þá get ég ekki fallizt á þá hugsun, að við skulum um aldur og ævi forðast það að flytja inn nokkurt búfé.

Nú er ekki einu sinni um það að ræða í þessu frv. að flytja inn búfé, heldur aðeins sæði úr búfé. Hv. 9. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu áðan, að það væri nokkru minni hætta í því að flytja inn sæði heldur en flytja inn búfé, en að vísu gæti stafað hætta af því. Hv. 9. þm. Reykv. las hér upp nokkur orð úr áliti dr. Björns Sigurðssonar um þessi mál, þar sem segir, — ég held, að ég hafi náð því orðrétt upp: Áhættuminnst er að flytja inn sæði til fullkominnar sóttvarnarstöðvar. — Það var a.m.k. mjög á þessa leið. Nú er gert ráð fyrir að setja upp fullkomna sóttvarnarstöð einmitt til þess að flytja inn sæði. Þá er að þessu leyti mjög farið að nálgast skoðun dr. Björns Sigurðssonar, ef menn á annað borð eiga að láta sér detta í hug nokkurn innflutning í þessu efni. Og er hér eins tryggilega frá öllum greinum þessa frv. gengið og föng eru á. Yfirdýralæknir þarf að samþykkja, að stöðin verði sett upp. Forstöðumaðurinn á Keldum í meinafræði þarf einnig að samþykkja það, Búnaðarfélag íslands sömuleiðis. Ég vil taka það fram, að það er ekki öldungis 100% víst, að allar þessar öryggisráðstafanir dugi, en það eru ákaflega miklar líkur til þess, og það er enginn hlutur hér í okkar lífi, sem er 100% öruggur. Ef allt ætti að vera þannig öruggt, þá væri enginn maður til á Íslandi t.d., því að það var mikil áhætta fyrir innflytjendur til landsins að leggja á hafið. En þetta gera menn í öllum greinum, en menn reyna auðvitað að gera öryggið eins mikið og unnt er.

Hv. 9. þm. Reykv. benti á, að 1933 hefði verið flutt inn erlent fé til sláturfjárbóta og með Því hefðu komið sjúkdómar. Þetta er ekki rétt. Með því fé komu, held ég, alls engir sjúkdómar. En hins vegar komu mjög alvarlegir sjúkdómar með karakúlfénu, sem var flutt inn í allt öðrum tilgangi en að bæta sláturfé. Þetta er ekki stórt atriði, en ég vildi gjarnan leiðrétta það.

Þá hefur verið á það minnzt, að ef það væri stórkostleg hætta að flytja sæði hingað til Íslands, þá hlyti einnig að vera hætta að flytja sæði milli annarra landa. En nú er þetta orðið mjög algeng framkvæmd og víða notuð og talin allra minnst hætta af því að flytja einmitt djúpfryst sæði milli landa.

Hv. 1. þm. Vesturl. var að tala um staðinn, sem valinn hefur verið, og það væri mjög óviðeigandi að velja einmitt þennan stað. Ég get ekki séð, að það sé neitt óviðeigandi að velja þann stað hér í grennd við Reykjavík, þar sem að áliti kunnugra manna verður ódýrast að reka þessa stöð. Hann lét þau orð einnig falla, að forsetinn á Bessastöðum mundi síður en svo vera hrifinn af þessari hugmynd. í því sambandi vil ég leyfa mér að benda hér á eina grein í grg. þessa frv.: „Landbrh. spurðist fyrir um afstöðu forseta Íslands til þessa máls, og sýndi forsetinn því strax mikinn skilning og áhuga og vildi fyrir sitt leyti heimila aðstöðu á staðnum til þess.“ Þetta virðist mér afsanna orð hv. þm. um það, að þarna væri verið að þvinga einhverju inn á Þetta merkilega höfðingjasetur.

Þá hefur það komið fram hér í umr., að hætta muni geta stafað af því, að búfé verði flutt út úr girðingunni, út úr sóttvarnarhólfinu, út frá sóttvarnarstöðinni, og það kynni að geta borizt sýkingarhætta með því. En í 16. gr. stendur skýrum stöfum: „Aldrei má flytja búfé út úr sóttvarnarstöð ríkisins, og girða skal tryggilega fyrir það, að það hafi nokkurt samband við búfé utan hennar.“ Og í 19. gr. stendur: „Eigi er heimilt að flytja sæði úr nautgripum í sóttvarnarstöðinni til notkunar utan hennar fyrr en tveim árum eftir að fyrst var sætt í henni með hinu innflutta sæði.“ M.ö.o.: Þarna á að einangra þær skepnur algerlega innan girðingarinnar, sem þangað verða fluttar til þess að framkvæma kynblöndunina. En hún er hugsuð þannig, að fluttar verði frá Gunnarsholti kýr, sem þar eru til, blendingar af Gallovay-kyni, og síðan hreinræktaðar þarna í stöðinni.

Eins og frá þessum málum öllum er gengið í frv. og rakið hefur verið, virðist mér, að það sé eins mikið öryggi í því, að ekki flytjist sjúkdómar inn með þessu sæði, eins og mögulegt er að gera sér vonir um. Hitt er svo aftur annað mál, þó að einhverjir menn hafi á því þá skoðun, að það eigi alls ekki að hætta nokkru til, ekki einu sinni svona litlu. En þá verðum við íslendingar alger undantekning frá öðrum þjóðum, sem yfirleitt, a.m.k. nágrannaþjóðirnar, hafa farið út á þessa braut, að kynbæta sína stofna einmitt á þennan hátt. Og þó að varfærni sé góð, getur hún þó gengið út í öfgar, og þeir menn, sem hafa ár eftir ár, t.d. bændur á búnaðarþingi, óskað eftir því, að leyfður væri innflutningur á holdanautum eða vissum kynjum nautgripa, gera sér auðvitað ljóst, að einhver örlítil hætta kann að vera þessu samfara. En með þeirri vísindalegu þekkingu og aðferðum, sem nú þekkjast, og með því að viðhafa þá varúð, sem hér kemur fram í þessu frv. á allan hátt, þá hafa þeir talið, að ekki væri áhorfsmál að leggja út í þetta. Síðasta búnaðarþing meira að segja samþykkti áskorun með 19:4 atkv., að mig minnir, um það að styðja að því, að þessi hugmynd kæmist í framkvæmd.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða miklu meira um þetta. Mín afstaða til málsins er hreinlega sú, að ég álít, að íslenzkur landbúnaður og íslenzk bændastétt verði að fá sem allra flestar búgreinar til viðbótar þeim, sem fyrir eru, og kanna, hvort þar er ekki um aukna tekjumöguleika að ræða. Kynbætur búfjár hafa um langan tíma verið alviðurkenndar sem eitt öruggasta ráðið til þess að auka afrakstur búanna. Fjölgun búgreina annarra er einnig mikilsvirði, t.d. fiskeldi og ýmiss konar ræktun, og hvar sem maður eygir möguleika til þess að renna styrkari stoðum undir landbúnaðinn, þá tel ég, að það verði að kanna vandlega og leggja út í framkvæmdir, ef líkur — og ég tala nú ekki um þegar miklar líkur eru til, að það geti gefið auknar tekjur og aukna fjölbreytni í framleiðsluna. Ég get vel játað það, að ég hef ekki haft þann áhuga fyrir þessu máli sérstaklega, að ég teldi, að ætti að leggja út í verulega hættu þess vegna. En eins og þessi mál öll horfa við nú orðið og eins og þetta er undirbúið nú hér, þetta frv., þá get ég ekki annað en stutt það, því að ég tel hættuna af smitun í sambandi við innflutning þessa sæðis svo litla, að það sé of mikil svartsýni og of mikil íheldni og of mikil varúð og hræðsla að þora ekki að leggja út í það.