13.04.1962
Neðri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. (LJós), sem var fulltrúi Alþb. í fjhn., hefur gefið út nái. sem 2. minni hl. og flutt brtt. á þskj. 758, en getur ekki verið nú enn sem komið er við þessa umr., og ef hann skyldi ekki geta verið við, áður en henni lýkur, mundi ég biðja hæstv. forseta um að fresta brtt. til 3. umr., taka þær til baka nú og fresta þeim til 3. umr. En ég vildi hins vegar segja hér nokkur orð almennt um þetta mál, án þess hins vegar að fara inn á nál. hv. 4. þm. Austf. né tala fyrir hans brtt., heldur aðeins ræða málið meira almennt, með leyfi hæstv. forseta, því að Það gekk fljótt í gegn þetta mál við 1. umr., og er þess vegna ekki óeðlilegt, þó að maður ræði það líka nokkuð í heild nú.

Ég held, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, sé þess eðlis, að yfirstéttin hér í Reykjavík ætti að athuga nokkuð sinn gang, áður en hún knýr svona mál fram í gegnum þingið. Það er ekki heppilegt, þ6 að menn nái völdum, að beita þeim völdum af slíkri græðgi sem nú er gert af hálfu auðmannastéttarinnar hér í Reykjavik, að höggva tvisvar í sama knérunn, hvað verkalýð og aðra launþega snertir, — það þótti aldrei góðri gæfu stýra í Íslendingasögunum, og það gerir það ekki heldur enn, — að á sama tíma, sem þannig er sorfið að alþýðu manna, að ekki hefur það verið öllu verr í 20 ár, þá skuli yfirstéttin sýna meiri frekju og meiri óskammfeilni í að sölsa til sín það, sem hún getur, af sameiginlegum þjóðarauði og tekjum og svífast einskis í því sambandi. Það er vert fyrir yfirstéttina hér í Reykjavík að minnast þess, að það var líka einu sinni yfirstétt, sem var skattfrjáls, gerði sjálfa sig skattfrjálsa. Franska yfirstéttin var það fyrir frönsku byltinguna, aðallinn og klerkarnir. Og mér sýnist, að með þessu frv. sé að því stefnt, að auðmannastéttin í landinu skuli verða nokkurn veginn skattfrjáls líka. Og ég held, að íslenzk yfirstétt, af því að hún er ung og ekki sterk, reynslulítil og frekar fáfróð, þá ætti hún að reyna að læra ofur lítið af sögunni, að beita sínu valdi með dálítið meira hófi en hún nú gerir.

Í 22. gr. þessa frv., H-lið, er lagt til, með leyfi hæstv. forseta, að „atvinnufyrirtækjum sé heimilt á árunum 1962–63 að láta meta áætlað endurkaupsverð fastafjármuna sinna og breyta bókfærðu verði á eignum samkv. því, enda telst verðhækkunin ekki til skattskyldra tekna. Eignirnar skulu metnar til endurkaupsverðs að frádregnum eðlilegum afskriftum, er miðist við rýrnun eignarinnar. Fjmrh. setur reglur um framkvæmd matsins.“ Hér er það tekið upp í þá almennu skattalöggjöf, að það skuli meta allar eignir til endurkaupsverðs. Fyrir þrem árum lagði hæstv. landbrh. frv. fyrir þessa d. um, að viðvíkjandi mati á áburðarverksmiðjunni og útreikningi á áburðarverði, þá skyldi Þar meta hennar eignir til endurnýjunarverðs. Þetta frv. hefur aldrei verið samþ. á Alþ. Reglan hefur verið framkvæmd sem lögbrot, áburður hækkaður til bænda, verkalaun lækkuð til verkamanna, til þess að framfylgja þessum lögbrotum. Þegar hæstv. landbrh. lagði Þetta mál fyrir Alþ., reis hv. 5. þm. Reykv. hér upp og gerði aths. og sýndi fram á, að ef farið væri inn á það að ætla að veita áburðarverksmiðjunni slíka heimild, þá væri líklegt, að ýmsir aðrir mundu koma á eftir og krefjast þess sama, og hann nefndi þetta sem dæmi um, hvílík fjarstæða það væri að fara inn á svona skattareglur. Þá brá svo við, að Nd. öll virtist vera á þeirri skoðun, að svona mál ætti ekki að ganga í gegnum þingið. Og þótt landbrh. hafi síðan lagt þetta frv. fyrir Nd. aftur, Þá hefur hv. d. aldrei afgr. málið. En svona fer nú siðferðismeðvitund stjórnarmeirihlutans hríðversnandi, að nú er þetta sett inn í skattalög sem hin almenna regla, sem auðmennirnir í landinu skuli njóta. Sem sé það, sem var fjarstæða fyrir þrem árum, enda lögbrot, það á nú að löghelgast, sbr. þegar tollar eru lækkaðir vegna Þess, að það sé smyglað svo miklu.

Ef þessi regla verður tekin upp með þetta endurnýjunarverð, Þá er þar með verið að innleiða alveg nýjan þátt í íslenzkri skattalöggjöf. Hingað til hefur verið miðað við kostnaðarverð á eign. Og út frá hverju hefur verið gengið? Það hefur að vísu verið hugmynd þeirra manna, sem þau lög settu upphaflega, að gengi krónu, gengi myntar væri nokkuð fast, og einu röksemdirnar, sem var hægt að færa fram fyrir því, að einhverja slíka aðferð skyldi taka upp eins og endurnýjunarverð, voru Þær, að þeir einstakir menn, sem átt hefðu fé sjálfir og lagt það í fyrirtæki og þess vegna tapað sem eigendur peninga á verðbólgunni, þeir ættu að fá þetta að einhverju leyti bætt. Að vísu var það svo, að með því að setja þessa peninga í ákveðin fyrirtæki, sem áttu fasteignir, þá uxu venjulega fasteignirnar, a.m.k. margar hverjar og jafnvel oft og tíðum flestar, t.d. hér í Reykjavík, svipað í verði og peningarnir minnkuðu. En þetta var þó það eina, sem réttlætanlegt var fyrir þessari hugmynd.

En háttar því nú þannig hér á Íslandi, að meginið af því fjármagni, sem sett hefur verið í fyrirtæki á undanförnum 20—30 árum, hafi verið eign eigendanna sjálfra? Þetta væri vissulega mjög girnilegt rannsóknarefni og væri þess virði, að það væri rannsakað. En ég held, að svo sé ekki. Ég held, að yfirgnæfandi meiri hlutinn af því fé, sem atvinnurekendur og þeir, sem hér koma undir, aðrir fésýslumenn, hafa sett í fyrirtæki á undanförnum 20-30 árum á Íslandi, hafi verið fé hins opinbera, hafi verið fé, sem þeir hafa fengið lánað frá bönkunum. Mér er nær að halda, ef maður tæki alla fjárfestingu, þar sem um bein framlög sjálfra fésýslumannanna er að ræða, að það væri ekki meira en 10—20% á móts við alla fjárfestinguna, enda hafa menn veitt því eftirtekt, að þegar við hér á Alþ. erum að veita þessum mönnum — við skulum segja togaraútgerðarmönnum eða hraðfrystihúsaeigendum og ýmsum öðrum slíkum lán, þá veitum við þeim lán allt upp í 75–85% eða ábyrgðir, sem þýða þeim lán hjá bönkunum, þannig að oft og tíðum er sem sé ekki heimtað meira af þessum mönnum en kannske 15–25%, sem þeir eiga að leggja fram sjálfir, og jafnvel stundum kemur fyrir, að það fá þeir líka lánað hjá bönkunum.

Þó skal ég taka hitt fram, því að ég vil ekki vera ósanngjarn í þessu, að það eru til og það þó nokkrir atvinnurekendur hér í Reykjavík, sem frá upphafi hafa lagt fram sjálfir meginið af því, sem þeir eiga í sínum fyrirtækjum, og þeir menn hafa orðið illa úti vegna verðbólgunnar. En allur þorrinn, mér liggur við að segja 90% af atvinnurekendunum, þeir hafa fengið þetta að láni hjá ríkinu. Ef Það væri rétt, að þeir hefðu fengið svona mikið að láni, þá væri algerlega óréttiátt að láta þessa reglu gilda um þá menn, sem fyrir 10 eða 20 árum síðan hafa fengið að láni hjá ríkinu t.d. frá 1 millj. upp í 30 millj., keypt fyrir það á Þeim tímum fyrirtæki, og Þessi fyrirtæki eiga þeir enn, skuldirnar Þeirra hafa lækkað í raunverulegu verði, fyrirtækin hafa hækkað, við skulum bara nefna sem dæmi nýsköpunartogarana, þeir kaupa þá á 3 millj., ríkið lánar þeim 75%, ef ég man rétt, af því, það þýðir, að 750 þús. kr. þurftu þeir að leggja fram sjálfir til að kaupa togarann, hitt fengu þeir að láni frá ríkinu, í mati Landsbankans og annarra banka núna, Landsbankans og Útvegsbankans, við skuldaskilasjóðinn eru þessir gömlu nýsköpunartogarar metnir til lána, held ég, á 8 millj. kr., þannig að það er alveg greinilegt, að þeir menn, sem þessi lán fengu, eru algerlega búnir að fá raunverulega með verðbólgunni gefins Þá skuld, sem þá var.

Ef nú ætti við skattheimtu að beita þeim aðferðum að meta allt þetta til endurnýjunarverðs, Þá mundi það Þýða, að þessir togarar yrðu skattfrjálsir. Það mundi kannske ekki skipta miklu gagnvart þeim elztu, gagnvart þeim nýju mundi það gilda mjög mikið, og þar með yrði raunverulega meira eða minna skapað skattfrelsi þessum atvinnurekendum til handa. Og svo skulum við gá að öðru, sem gert væri með þessu. Nú erum við hér að gera ráðstöfun eftir 20 ára allhraða verðbólgu og göngum inn á, skulum segja, ef Alþ. samþykkir þetta frv., að taka þetta sem prinsip upp í lögin um endurnýjunarverð. Hvernig verður þá, skulum við segja, ef verðbólga heldur nú áfram næstu 20 ár, og ýmis fyrirtæki eru það, sem geta enzt þannig, ekki sízt húsin, að það kæmi til greina þá kannske á ný að fara að tala um endurnýjunarverð í skattalöggjöf, sem þá væri samþykkt, ef við hefðum gefið svona fordæmi? Þá mundi þetta þýða, að einn atvinnurekandi gæti verið hvað eftir annað að afskrifa sömu fasteignina, sama fyrirtækið, og væri sem sé skattfrjáls hvað þetta snertir endalaust. Ég þekki ekki til, að þessi regla um endurnýjunarverð hafi verið tekin upp hjá öðrum þjóðum, og hafa þó ýmsar aðrar þjóðir gengið í gegnum verðbólgu, og gengur fyrir sig hæg verðbólga alls staðar. En reglan er alls staðar, að þetta sé miðað við kostnaðarverð, og ég álít algerlega rangt að hverfa frá því.

Þetta vildi ég í fyrsta lagi undirstrika, vegna þess að þetta þýðir að fara þarna inn á þá leið að reyna að skapa skattfrelsi handa stórum hluta atvinnurekendastéttarinnar.

Þá er í öðru lagi viðvíkjandi jöfnunarhlutabréfunum. Með þessu frv. er farið fram á, að gömul hlutafélög fái að skrásetja að nýju sín hlutabréf, án þess að það sé reiknað sem eignaaukning. Það þýðir, að ríkustu hlutafélögin í landinu, við skulum segja eins og Eimskipafélag íslands, geta þar með sett sin hlutabréf upp, — ef það væri metið upp á sannvirði, mundu það vafalaust verða 100 eða 150 millj. kr., því að slíkt á Eimskipafélagið í skuldlausum eignum. Og þar með mundi um leið öll sú hlutdeild, sem viðkomandi félög mættu leggja í varasjóð, mættu úthluta sem arði og allt slíkt, vaxa að krónutölu, Þannig að með útgáfu jöfnunarhlutabréfanna, sérstaklega þegar þessar breyt. gerast um leið, þá er stigið annað stórt spor í áttina til skattfrelsis fyrir atvinnurekendastéttina í landinu. Jöfnunarhlutabréfaákvæðið er þess vegna mjög ranglátt í þeirri samfellu, sem það er, vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar eru um leið, eða þeirra ákvæða, sem er haldið. Ef hefði verið minnkað um leið það, sem mætti leggja í varasjóð, ef hefði verið minnkað um leið það, sem mætti greiðast sem arður og annað slíkt, þá kom þetta mjög vel til athugunar.

Það er einn kostur við þessi jöfnunarhlutabréf, ef það er notað, að með þeim skapast miklu réttari mynd af þeim auði, sem hlutafélögin í landinu eiga. Það er kosturinn við þetta. Það er sem sé viss hagfræðilegur kostur við þetta. En með því að verða samferða öllum þeim öðrum ákvæðum, sem hér eru, ýmist sem breytt eða óbreytt standa frá því áður, þá þýðir þetta að auka sérstaklega bæði leyfi til varasjóðsframlaga og til arðsútborgunar. Og ég vil minna á, hve óréttlátt þetta er, þegar á sama tíma sverfur að almenningi í landinu. Við skulum taka bara fjölskyldurnar í landinu núna. Ef fjölskyldurnar í landinu hefðu t.d. þennan sama rétt, sem hérna er verið að gefa hlutafélögunum, ef þær hefðu sama réttinn til þess að mega leggja fram sem alls konar varasjóði og annað slíkt, eða einstaklingarnir fengju algerlega að verða skattfrjálsir, þeir sem nú er verið að drepa með álögum ríkisstj. í sambandi við t.d. húsnæðismálin, þá ægilegu tolla, sem eru á hverri einustu íbúð, sem byggð er, þar sem ríkið veitir sjálft öll þau lán, sem það útvegar, ef það væri verið að létta undir almenningi um leið, þá væri hægt að ræða um þetta sem sanngirnismál. En eins og það liggur fyrir núna, þegar annars vegar er verið að íþyngja almenningi og ræna hann eignum sínum, en gefa eignastéttinni í landinu og auðmannastéttinni í landinu á sama tíma sérréttindi, þá verður það ranglátt, þá verður það hrópandi ranglæti. Í þriðja lagi er í þessu frv. gerð sú ráðstöfun í 25. gr. að setja skattgjald félaganna niður í 20% af skattskyldum tekjum. Skattskyldu tekjurnar hjá hlutafélögum voru áður 25%. Það var í tíð vinstri stjórnarinnar, sem því var breytt svo. Ég var alltaf andvígur því ákvæði að hverfa frá þeim gömlu ákvæðum um stighækkandi skatta á tekjur hlutafélaga, líka þegar það var gert í tíð vinstri stjórnarinnar, og ég álít, að það, sem eigi að gera, sé að hafa stighækkandi skatta á tekjum, jafnt hlutafélaga sem annarra. Það er hafður stighækkandi tekjuskattur á einstaklingum. Hví má það ekki vera á hlutafélögum líka? Hví er ástæða til þess, að maður, sem rekur sitt fyrirtæki á sína einstaklingsábyrgð og hættir öllum sínum eigum, skuli fara að borga 25 og 30% af sínum tekjum, þegar hann setur allt að veði, sem hann á, og rekur á sína persónulegu ábyrgð og verður sjálfur persónulega gjaldþrota, en ef hann stofnar hlutafélag, smásvindilfélag, sem fjármálaráðherrarnir taka gilt, með 100 þús. kr. hlutafé og snýr sér síðan út með pólitískum samböndum nokkrar milljónir ýmist hjá ríkissjóði eða bönkunum, þá getur hann látið það félag fara á hausinn rólega á eftir, og ef hann græðir á því, þá þarf hann ekki að borga nema 20%, en heiðarlegur atvinnurekandi, sem setur sjálfan sig og alla sína eign í ábyrgð, er látinn borga upp í 25% og 30%, — hví að gera þennan greinarmun?

Ég álít það rangt að lækka þetta nú enn meir en það var lækkað í tíð vinstri stjórnarinnar, álít, að það hefði verið rétt að hverfa til baka að því að hafa stighækkandi tekjuskatt, þó að ég hins vegar vissulega viðurkenni, að það var óhjákvæmilegt að breyta þeim ákvæðum frá því, sem var áður fyrr. Þau voru óþolandi. Það var gersamlega óþolandi, það rak sig svo fljótt upp undir, eins og við köllum það.

Ég skal ekki fara miklu ýtarlegar í þær greinar, sem hér eru, þótt þetta sé 2. umr., því að ég álít þetta þrennt, sem þarna er um að ræða, vera höfuðatriðið hvað snertir sjálfa skattálagninguna. Um skattheimtuna skal ég ekki ræða að sinni. Ég álít það vera mjög slæmt, að þetta skuli vera gert, á sama tíma sem gengið er svo á rétt almennings hvað hans fjáröflun snertir sem gert hefur verið. Þegar launþegar hafa samið um að fá hækkaðar tekjur, fá hækkuð laun, þá hefur ríkið gripið inn í með brbl., ríkisstj. lækkað gengið og svipt launþegana þeirri hækkun, sem þeir höfðu samið frjálst um. Svona hagar ríkisstj. sér gagnvart launþegum landsins, 75% af landsbúum. En þegar auðmannastéttin á í hlut, 1–2% af íbúum þjóðarinnar, þá segir ríkisstj.: Gerið þið svo vel. Vantar ykkur ekki að safna dálitlum meiri auði? Vantar ykkur ekki að fá meira skattfrjálst af ykkar tekjum, fá að leggja meira í varasjóði, fá að njóta ýmissa sérréttinda í sambandi við, hvernig ykkar eignir séu reiknaðar? Og ríkisstj. býður auðmannastéttinni þessi fríðindi, á sama tíma sem hún tekur réttinn af almenningi. Og undir hvaða yfirskini er þetta gert? Þetta er gert undir því yfirskini, að íslenzk atvinnurekendastétt þurfi að safna fé, þurfi að safna auði til að leggja í sín fyrirtæki, til að leggja í fyrirtæki hjá þjóðinni.

Þetta er yfirskin. Íslenzk atvinnurekendastétt notar þetta ekki til þessa. Það eru undantekningarnar hjá íslenzkri atvinnurekendastétt og íslenzkum fésýslumönnum, sem leggja peningana í fyrirtæki. Það er sú slæma reynsla, sem við höfum hér af okkar atvinnurekendastétt. Það hefur verið eins og árátta á henni, að jafnóðum sem fyrirtækin græddu eitthvað, þá tók hún það út úr fyrirtækjunum til þess að setja það í lúxusvillur hjá sér, í bíla hjá sér og annað slíkt, og síðan, þegar vantaði peninga, þá var farið í bankana og sagt: Nú erum við alveg blankir, og þetta er alveg bráðnauðsynlegur hlutur, sem við erum að leggja í. Getið Þið nú ekki lánað okkur peninga? — Og það hefur kveðið svo ramt að þessu, að sá maður, sem nú er talinn ríkastur af íslenzkum atvinnurekendum — og um leið skuldugastur, hann gekk bókstaflega undanfarin 20 ár á lagið hvað þetta snerti. Og það kunna kannske fleiri sömu sögu að segja. Hann bókstaflega fékk lán hjá bönkunum, setti lánin undireins föst í alls konar fyrirtækjum, gat ekki borgað, þegar hann átti að fara að borga þetta aftur. Bankarnir sögðu hins vegar: Fyrirtækin hans eru nú anzi mikils virði, — og vildu ekki ganga að honum. Hann átti vafalaust fyrir skuldum, ef allt hefði verið normalt farið að. Og bankarnir lánuðu honum enn þá meira, og hann setti það um leið fast. Og svona gekk það koll af kolli, þangað til þessi maður, sem ég veit að allir hv. þm. kannast við, enda situr hann stundum á þingbekk hér hjá okkur, var orðinn einn af ríkustu mönnum landsins. Þetta er sama aðferð og Hugo Stinnes notaði á árunum í Þýzkalandi, í verðbólgubraskinu. Nú á að verðlauna þetta alveg sérstaklega með því, að héðan af skuli allir hans togarar eða bátar eða hraðfrystihús metin til endurnýjunarverðs, sem verður ekki neitt smáræði. Það, sem er þó enn þá lakara en nokkurn tíma með þetta dæmi, og þau eru nokkur til, það er þegar ýmis heildsölufyrirtæki hér hafa tekið féð út úr fyrirtækinu, byggt fyrir það lúxusvillur í Snobbhill og annars staðar og bankarnir hafa siðan orðið á eftir að láta veðsetja þessar villur, eftir að féð hafði verið tekið út alveg leyfislaust.

Þetta eru aðferðirnar, sem okkar auðmannastétt beitir í þessu sambandi. Ég skal hins vegar taka fram, að það eru þarna til margar heiðarlegar undantekningar, alveg eins og ég tók fram áðan. Það eru til menn úr íslenzkri atvinnurekendastétt, sem virðast hafa alveg sérstakan áhuga á því að leggja í sín fyrirtæki og auka Þau að efnum, og er það góðra gjalda vert. En þorrinn hefur farið svona að, og þess vegna er það svo nú, að ég býst við, að af þeim gróða, sem íslenzk auðmannastétt hefur, verji hún meira í eyðslu og óráðsíu en nokkur önnur yfirstétt í Evrópu. Það er sú leiðinlega staðreynd, sem við stöndum frammi fyrir. Ef auðmannastétt Islands væri ákaflega sparneytin og ráðdeildarsöm og reyndi að hlynna að sínum fyrirtækjum og efla þau og hefði sýnt einhvern stórhug í þessu, þá hefur satt að segja aldrei staðið á verkalýðshreyfingunni að rétta slíkri yfirstétt hjálparhönd eða standa með henni í baráttu fyrir slíku. Við höfum fyllilega kunnað að meta það, hvað það þýddi í okkar frumstæða landi, ef hægt væri að byggja hér upp góð atvinnufyrirtæki, og jafnvel hefur verkalýðshreyfingin stundum frekar orðið að hafa forgönguna með að tryggja atvinnurekendastéttinni góða aðstöðu til að geta lagt í atvinnufyrirtæki, heldur en hitt. En ég segi það fyrir mitt leyti: Ég hef sýnt íslenzkri auðmannastétt allmikið traust og viljað vinna að því, að hún gæti fengið aðstöðu frá ríkisins hálfu, góð lán til langs tíma með lágum vöxtum, til þess að leggja í fyrirtæki. En ég hef orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum af meginhlutanum af henni. Þess vegna gildir ekki sú röksemd, að það sé nauðsynlegt að breyta öllu skattakerfi landsins til þess að gera auðmannastéttinni mögulegt að leggja fé í heilbrigð fyrirtæki, hún gildir ekki, það er ekki satt. Það, sem þetta kemur fyrst og fremst til með að gera, þegar auðmannastéttin fær að vera skattfrjáls, það er, að hún eyðir meiru.

Hvert er líka ástandið, sem er að skapast hér í dag? Það eru opnaðir nýir næturklúbbar eða ný veitingahús hér í Reykjavík að heita má á hverjum mánuði. Ég hef að vísu ekki komið inn í þau, Þessi nýjustu, en mér er sagt, að þau séu hvert öðru finna, þetta sem opnað sé, og það sé ekki fyrir aðra en þá, sem hafi mjög háar tekjur, að sitja þar að sumbli, en þau séu venjulega full. Og það er vissulega ekki verkalýðurinn í Reykjavík, sem hefur efni á því að fylla þau hús kvöld eftir kvöld. Það er hins vegar auðséð, að hér er risin upp allstór eyðslustétt, sem virðist hafa mjög mikið fé undir höndum.

Hjá almenningi er verið að bjóða upp íbúðirnar, af því að hann er efnahagslega að brotna saman undir því að reyna að koma þaki yfir höfuðið á sér. En auðmannastéttinni á að fara að veita skattfríðindi, til þess að hún geti svallað meira, en fyrst og fremst sá hluti hennar, sem verstur er í því efni. Sú röksemd er því ekki nema yfirskin, enda sjáum við það núna, að það fer í sífellu fækkandi, að því er virðist, þeim fyrirtækjum, sem lagt er í. Við sjáum bara, að einföldustu og óbreyttustu fyrirtæki, sem lagt hefur verið í á Íslandi, þ.e. að byggja hús, byggja íbúðarhús, það stórminnkar.

Viðvíkjandi sjálfu prinsipinu, sjálfri höfuðreglunni í þessum málum, þar mundi ég alveg sérstaklega vilja beina mínu máli til Alþfl. Ég man ekki eftir, að því hafi enn þá verið breytt í stefnuskrá Alþfl. frá þeim tíma, sem ég var í honum, fyrir 40 árum, að hann væri með stighækkandi tekjuskatti, að menn ættu að greiða því meira, því meiri efni sem menn hafa og því meira sem menn græða. Og mér sýnist a.m.k., að eitthvað hafi lifað enn þá í haust, um það leyti sem verið var að ræða þessi mál, í gómlum glæðum hvað þetta snertir, og einhverjir menn væru til í Alþfl. nú, sem vildu reyna að halda þessari gömlu stefnuskrá enn í gildi, þótt oft hafi hún verið brotin. 5. okt. í haust var skýrt frá því í Alþýðublaðinu, að þessi skattamál hefðu verið rædd nokkuð á fundi í fulltrúaráði Alþfl. í Reykjavík, allmyndarleg fyrirsögn, sem heitir: „Skattalækkun fyrirtækja var mótmælt“ — og síðan byrjar, með leyfi hæstv. forseta, greinin á þessa leið:

„Skattalækkun fyrirtækja, eins og nú væri ástatt í efnahagsmálum, mætti mikilli andstöðu á fundi fulltrúaráðs Alþýðuflokksins í Reykjavík, sem haldinn var í Iðnó í fyrrakvöld.“

Síðan er sagt frá, að einn alþm., hv. 9. landsk. (JÞ), hafi haft framsögu um þetta mál og hann hafi verið í nefnd, sem Gunnar Thoroddsen fjmrh. hafi sett, og manni virðist helzt á frásögninni, að það sé nú verið að negla hann á þetta. Síðan er haldið áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Er Jón hafði lokið máli sínu, tók Benedikt Gröndal alþm. til máls. Kvaðst hann algerlega andvígur því, að farið yrði í það að lækka skatta á fyrirtækjum, eins og nú væri ástatt í efnahags- og fjármálum. Sagði Benedikt, að ekki væri útlit fyrir, að ríkið mætti missa neitt af tekjum sínum, en jafnvel þótt svo væri, mætti verja þeim fjármunum betur en á þann hátt að lækka skatta fyrirtækja.“

Benedikt Gröndal alþm. er um leið 5. þm. Vesturl. og hv. varaforseti þessarar hv. d. Ég hafði eiginlega búizt við að heyra eitthvað frá honum um þetta mál núna, hvað gerzt hefði síðan, vegna þess að ég sé, að það hefur ekki tekizt, þótt nokkuð sé um liðið, að lækka frekjuna hjá yfirstéttinni í Reykjavík. En það virðist hafa tekizt að lækka rostann í Alþfl. Það er greinilegt, að í haust hefur eitthvað lifað Þarna í gömlum glæðum, þrátt fyrir allt þetta öskufarg embættismennskunnar, sem er farið að drífa þarna yfir í Alþfl., þá hefur auðsjáanlega ekki verið hægt að hindra, þegar eitthvað var skarað í frá hálfu Alþýðublaðsins, að eitthvað lifnaði þarna við. En nú er eins og einhver vatnsgusa frá auðmannastéttinni hér í Reykjavík hafi slökkt í þessum litlu glæðum, sem þarna voru. Það er eins og enginn ætli að reisa sig núna og þau andmæti, sem komu fram í fulltrúaráði Alþfl., séu nú gleymd og grafin, þegar málið sé komið inn á þing.

Ég vildi nú aðeins minna á þetta, ef það að skara í þessar gömlu glæður Alþfl. frá október í haust mætti verða til þess, að einhver ofur lítil mótmæli bærust hérna inn í þingsalina, þegar verið er að afgreiða málið. Ég skal vekja athygli á því, að það þarf ekki mörg atkv. frá Alþfl. til að knýja fram breyt. á þessum málum núna, þannig að hann hefur völdin í sínum höndum.

Þá vil ég aðeins að lokum ítreka það, sem þegar hefur verið sagt í Ed. af hv. 5. þm. Norðurt. e., sem hafði framsögu af hálfu Alþb. um þetta mál, viðvíkjandi þeirri almennu þróun, sem er að verða í tíð þessarar ríkisstj. í skattamálunum. Ég hef þessar tölur frá honum, hann hefur beitt þeim áður hér og þær hafa ekki verið hraktar. Tekju- og eignarskatturinn og tollarnir voru 1959 796 millj. kr., 1962 eru þeir áætlaðir 1401 millj. kr., hækka um 605 millj., allir skattarnir og tollarnir alls, tekju- og eignarskatturinn þar með. Það eru 76%, sem skattarnir og tollarnir þannig hækka til ríkissjóðs. Tekju- og eignarskatturinn af þessu hins vegar lækkar á

sama tíma úr 165 millj. í 95 millj. eða lækkar um 42%. Hlutdeild þessara beinu skatta, tekju- og eignarskattsins, í heildarupphæð tolla og skatta lækkar úr 21% af ríkistekjunum 1959 niður í 6.7%. Ég býst við, að það sé orðin minni hlutdeild þannig með beinu skattana hér á Íslandi en í nokkru annarra Norðurlanda. Á sama tíma hefur t.d. hlutur söluskattsins hækkað úr 20% upp í 34%.

Þessi þróun er allsendis óviðunandi. Þetta er þróun, sem þýðir, að það er sífellt verið að íþyngja almenningi og sífellt verið að auka fríðindin hjá auðmönnunum í landinu. Þegar það svo bætist við, að verið er að taka þar að auki með valdi, með ríkisvaldinu, tekjur, sem verkamenn eiga að fá samkv. sínum samningum, alveg bókstaflega með valdboði, eins og gert var í ágúst í sumar, Þá fer sannarlega að kasta tólfunum.

Hefur þessi breyt. nú verið gerð vegna þess, að skatturinn, sem hlutafélögin í landinu greiða, væri svo gífurlegur, að hann væri að drepa þau? Allur skatturinn mun hafa verið nú siðasta ár, held ég, um 54 millj. kr., allt, sem hlutafélögin hafa greitt í skatta, eða 3.8% af heildarskattheimtunni til ríkissjóðs. Því miður hef ég þar ekki nákvæmar tölur. Það er, eins og ég hef oft getið um hér áður úr þessum ræðustól, erfitt að fá það rannsakað, hvað hver launabreyting þýðir í nákvæmum tölum, en því hefur verið haldið fram af hálfu ríkisstj., að 13% launahækkunin, sem hún hefur haldið fram að launþegar hafi fengið í sumar, þýddi 500 millj. kr. Og eins og vitað er, þá var þessi upphæð, þessi 13%, sem ríkisstj. segir að sé 500 millj. kr., þá var hún tekin af launþegunum í landinu með einu pennastriki ríkisstj., gengislækkunarlögunum. En á sama tíma sem 500 millj. kr., talan er ríkisstj., — eru teknar af launþegunum í landinu, þá þykir það allt of mikið, að auðfélögin í landinu borgi 54 millj. kr. í ríkissjóð, sömu auðfélög sem hafa þó fengið mjög mikil skattfríðindi á undanförnum árum, sífellt verið að bæta þeirra aðstöðu, og njóta — meira en nokkur auðfyrirtæki í nokkru öðru landi okkur nálægu — meiri fríðinda af hálfu ríkisins í lánum og öðru slíku en nokkur önnur auðfélög, þau sem á annað borð þurfa til ríkisins að sækja.

Ég vil þess vegna aðeins tjá þá skoðun mína, sem ég sagði í upphafi þessa máls: íslenzk yfirstétt gerist með þessu frv. frekari en góðu hófi gegnir. Það er ekki heillavænlegt fyrir hana, þó að hún hafi 1959, meira eða minna með undirferli eða blekkingum gagnvart kjósendum, — ég á þar við kosningaloforð Alþfl., — náð þessum einkavöldum í landinu, sem hún hefur beitt síðan, að hagnýta þau völd svona miskunnarlaust. Það er ekki viturlegt. Ég veit, að okkar yfirstétt er ung, óþroskuð og reynslulaus og frekar fáfróð í stjórnmálum eins og efnahagsmálum, og þess vegna hefði hún átt að fara sér ofur lítið gætilegar, Þetta að samþykkja svona lög, eins og hér er lagt til, Það er að storka almenningi. Það er harðvítugt að storka almenningi með því að stela beint af honum. Það er enn þá harðvítugra fyrir viðkomandi auðmannastétt að fara um leið að hrifsa til sín drýgri hluta en áður af þjóðartekjunum og minnka Það, sem hún á að borga til almenningsþarfa.

Ég þykist vita, að það þýði ekki mikið að skírskota til réttlætis eða sanngirni í þessum málum. Það er auðséð, að þróunin stefnir hér í þá áttina, að það verði valdið, það verði, hvor stéttin er sterkari, sem sker úr. Það er slæmt, að það skuli allt saman stefna í þá áttina. Það var mögulegt fyrir íslenzka atvinnurekendastétt, ef hún sýndi hófsemi og skynsemi, að hafa gott samstarf við alþýðuna í Þessu landi, bæði bændur og verkamenn. Og það hefur þá vegnað bezt í okkar landi, þegar það hefur verið gert. Nú er auðsjáanlega farið inn á aðra leið, hrifsað til sin, á meðan tækifæri er til, notuð tækifærin til hins ýtrasta. Sú skattalöggjöf, sem hér er verið að samþykkja eða meiningin er að samþykkja, er auðmannastéttinni meira í vil en nokkur skattalöggjöf í nokkru Norðurlandanna, skapar meiri sérréttindi og meiri fríðindi henni til handa en í nokkru Norðurlandanna.

Ég veit, að okkar gamla skattalöggjöf var of þröngur stakkur. Það stafaði af því, að okkar þjóðfélag var bændaþjóðfélag, og sú bændaalþýða, sem mikið til markaði stefnuna í þessum málum í upphafi aldarinnar, óttaðist auðsöfnun. Hún var á móti auðsöfnun. Hún óttaðist auðvald, vildi helzt ekki, að auðvald kæmi upp. Sú gamla skattalöggjöf var þess vegna sniðin þannig, að það var erfitt á löglegan máta að láta auð skapast í landinu, það er alveg rétt. Ég man eftir, þegar við hér fyrir 17-18 árum ræddum þetta, í tíð Péturs Magnússonar, þegar hann var fjmrh., þá minnti ég hann á það, að kapítalisminn eða auðvaldsskipulagið væri ólöglegt á Íslandi. Hann hafði ekki gert sér það ljóst. Auðsöfnun þrifist hér aðeins í banni laganna og svo með broti á skattalögum og gjaldeyrislögum. Og ég held, að það hafi verið viðurkennt af flestum þá. Það ástand út af fyrir sig var náttúrlega óþolandi. Þegar kapítalisminn á annað borð hafði rutt sér til rúms á Íslandi, var rétt að skapa honum möguleika til þess að geta lifað hér löglega. Og það hefur ekki vantað, að verkalýðshreyfingin hafi verið til í það að veita kapítalistum í landinu þá aðstöðu. Þegar stærsta átakið var gert til þess að tryggja uppbyggingu atvinnulífsins í landinu, bæði á grundvelli prívatkapítalisma, samvinnufélaga, bæjarrekstrar og ríkisrekstrar, þá voru auðmönnunum í landinu gefin sérstök fríðindi til þess að mega afskrifa á mjög skömmum tíma og mjög mikið þær eignir, sem ríkið og bankarnir gerðu mögulegt að eignast. M.ö.o.: það var vilji af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og bændanna í landinu til þess að búa þannig að auðmannastéttinni, að hún þyrfti ekki endilega að brjóta lög við auðsöfnun. Og var sífellt verið að stefna í þá áttina að rýmka þannig um. Og það var út af fyrir sig rétt. Það, sem nú hefur hins vegar gerzt, það er, að auðmannastéttin hefur einhvern veginn fundið það á sér, því lengur sem núv. hæstv. ríkisstj. sat, að henni væri allt leyfilegt, að hún gæti hrifsað til sín slík sérréttindi, að engin önnur auðmannastétt á Norðurlöndum hefði slík. Og það er það, sem hún er að gera, m.a. með þessu skattafrv., líka að vísu með þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru í sumar, þegar gengið var lækkað, líka með Þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru, Þegar vísitöluútreikningurinn var bannaður. Ég tel það miður farið, tel það mjög miður farið, að menn skuli ekki kunna sér hóf um þessa hluti og keyra þess vegna í gegn þessa löggjöf eins og hún er. Ég þykist vita, og það ætti kannske að koma fram hér í þessum umr., að í öðrum stjórnarflokknum, eins og ég þegar hef reynt að færa sönnur á, hafi verið nokkur andstaða gegn þessu. Mér sýnist sú andstaða hafa verið barin niður. Það hefur komið fyrir áður í samvinnu, sem Alþfl. hefur verið í, að Þá hefur verið barið slíkt niður, slíkar heilbrigðar hreyfingar þar. Framsfl. reyndi líka á sínum tíma að nota slíkt húsbóndavald gagnvart Alþfl. Afleiðingin hefur alltaf orðið sú, að menn hafa Þá að lokum risið upp. Venjulega er einhver dugur til, einhver karlmennska leynist, þó að langt sé nú undir, og rís upp gegn þessu. Jafnvel þó að menn séu barðir niður í þinginu, jafnvel ritstjóri Alþýðublaðsins og hæstv. varadeildarforseti okkar, Þá rísa menn upp utan þess. Þess vegna vil ég aðeins segja Það, að það er óklókt að berja svona frv. í gegnum þingið með þessum krafti.

Ég mun svo, ef ekki verða meiri umr. um þetta mál nú, biðja hæstv. forseta að lýsa því yfir, að við tökum til baka brtt. á Þskj. 758, svo að frsm. 2. minni hl. fjhn. gefist tækifæri að ræða þær við 3. umr. málsins.