16.04.1962
Neðri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fram. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Hæstv. forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv. í síðustu umr. þess hér. ég vildi aðeins kasta á það kveðju, um leið og það fer til baka til hv. Ed. Þó að nokkrar breyt. hafi verið gerðar á frv. hér í d., eru þær yfirleitt um minni háttar atriði og sumt lagfæringar á orðalagi, og liggur nú fyrir ein skrifleg brtt. frá fjhn. um smálagfæringu, sem enginn ágreiningur er um í n. En í meginatriðum er frv. óbreytt eins og það var lagt fyrir þingið.

Samkv. enn gildandi lögum greiða hlutafélög 25% af skattskyldum tekjum í tekjuskatt til ríkisins og útgerðarfélög þó raunverulega minna, þar sem þau hafa nokkru meiri varasjóðsfrádrátt. En þegar tekið er tillit til varasjóðsfrádráttarins, þá er tekjuskattur félaganna raunverulega 20% af hreinum tekjum nú, en 162/3% hjá útgerðarfélögum og samvinnufélögum. Þetta verða að teljast hóflegir skattar að mínu áliti. Í því sambandi má einnig benda á ákvæði í þessu frv. um endurmat eigna og afskriftir af nýju matsverði þeirra, en þetta hefur verulega þýðingu fyrir atvinnufyrirtækin. Það, sem hefur þjakað atvinnureksturinn undanfarið, eru hin ranglátu veltuútsvör til bæjar- og sveitarfélaga. Nú var verið að samþ. hér í hv, d. fyrir fáum mínútum frv. um tekjustofna sveitarfélaga, og samkv. því eru veltuútsvörin afnumin, en í staðinn kemur aðstöðugjald svonefnt. Þetta aðstöðugjald er mjög frábrugðið veltuútsvörunum að því leyti, að það má teljast með öðrum kostnaði við atvinnureksturinn, og þessi breyt. er mjög til hagsbóta fyrir atvinnufyrirtækin, og því er enn síður ástæða til að lækka um leið skatta á þeim til ríkissjóðs. En með þessu frv. er tekjuskattur félaga ákveðinn 20% af skattskyldum tekjum, en áður en skattur er á lagður, má draga frá tekjunum 1/4 til varasjóðs, svo að raunverulega er skatturinn 15% af hreinum tekjum félaganna. Raunverulega er hann 15% af hreinum tekjum þeirra. Þetta er lægra skattgjald til ríkisins en félög í nágrannalöndum okkar þurfa að borga.

Það má segja, að það hefði ekki gefið ástæðu til aths., þó að tekjuskattur félaga væri lækkaður úr 20 í 15% af hreinum tekjum, ef búið væri að óðrum skattgreiðendum á svipaðan hátt. En þar er allt annað upp á teningnum. Tekjuskattur einstaklinga kemst upp í 30%. Tekjuskatturinn er þó léttbær hjá einstaklingum í samanburði við tollana og söluskattana, sem á þeim hvíla og alltaf er verið að auka við. Í fyrradag var samþ. hér á þingi frv., sem leggur aukasöluskatt á kjöt og mjólk og aðrar landbúnaðarvörur, brýnustu nauðsynjar almennings, og um leið var lagður sérstakur skattur á bændur, en sá skattur hefur sömu einkennin og hið illræmda veltuútsvar, sem nú var verið að afnema. Hann má ekki teljast með gjöldum við atvinnurekstur.

Þegar hæstv. fjmrh. lagði þetta frv. fyrir þingið í Ed. í vetur, þá flutti hann að sjálfsögðu framsöguræðu, er málið var tekið til 1. umr., og þar vitnaði hann m. a. í sáttmála, sem stjórnarflokkarnir gerðu, þegar stjórnin var mynduð fyrir rúmum tveimur árum. Þá sagði hæstv. fjmrh. m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Í stjórnarsamningnum er komizt svo að orði, að til þess að tryggja, að þær heildarráðstafanir, sem gera þarf, verði sem réttlátastar gagnvart öllum almenningi, hefur ríkisstj. ákveðið m.a. að endurskoða skattakerfið.“ Þetta mun hafa staðið í stjórnarsamningnum, samkv. því sem hæstv. ráðh. sagði í Ed. í vetur. Ég hygg, að þeir verði æðimargir, sem telja, að í þessu efni hafi fyrirheitin brugðizt hjá hæstv. stjórn, eins og í mörgu fleira, því að það munu margir líta svo á að stjórnin hafi ekki hagað framkvæmdum skattamála þannig, að byrðarnar verði sem réttlátastar gagnvart öllum almenningi. Það er langt frá því. Sagan hermir allt annað um þetta.

Í nál. mínu um þetta mál lét ég þess getið, að afstaða mín til frv. í heild mundi fara eftir því, hvernig færi um brtt. þær, sem ég lagði fram. Þær hafa nú verið felldar, og ég mun því greiða atkv. gegn frv. Með því vil ég mótmæla skattamálastefnu hæstv. ríkisstj.