12.04.1962
Efri deild: 86. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

192. mál, skólakostnaður

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Menntmn. mælir með þessu frv. eins og fram er tekið í nál. og frsm. lýsti. En ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara og gerði ég hann, þann fyrirvara, vegna þess að ég vil með stuttri ræðu gera grein fyrir atkv. mínu um þetta mál.

Þetta frv. er flutt í hv. Nd. af 1. þm. Vestf., Sigurði Bjarnasyni, og þrem öðrum flokksbræðrum hans. Eins og frv. var lagt fram, þá feist í því sú breyting, að ríkið kosti að fullu eða standi að fullu straum af stofnkostnaði heimavistarskóla gagnfræðastigs og enn fremur rekstrarkostnaði þeirra skóla. Þetta var samkv. frv. ekki takmarkað við þá skóla, sem nú starfa, heldur náði til nýrra skóla, er stofnaðir yrðu, sem væru heimavistarskólar gagnfræðastigs. Við meðferð málsins í hv. Nd, tók þetta frv. miklum breytingum, því að 1. þm. Vestf., Gísli Jónsson, lagði til, að allar greinar frv. féllu niður nema ein, og sú eina, sem eftir stóð, var umorðuð gersamlega, þannig að ekki stóð stafur eftir af frv. sjálfu nema fyrirsögnin. En með þeirri breytingu, sem gerð var á þennan hátt í hv. Nd., eru ákvæði frv. takmörkuð við þá héraðsskóla, sem nú starfa, og eru þeir taldir upp í 1. gr. frv., eins og það liggur nú fyrir.

Rök fyrir þessu máli eru m.a. færð fram í grg. frv. og eru einkum þau, að fjárskortur sýslufélaga, sem að þessum skólum standi, sé svo mikill, að þeim sé ekki auðið að bera sinn hluta stofnkostnaðar — eða viðhaldskostnaðar — og rekstrarkostnaðar skólanna, og er í því sambandi vitnað til ályktunar, sem fulltrúar frá nokkrum sýslufélögum gerðu á fundi fyrir nokkrum árum. Og enn fremur er í grg. vitnað til þess, að fyrrv. þm. Borgfirðinga, Pétur Ottesen, hafi á árunum 1956 og 1957 flutt frumvörp um svipað efni og það, sem hér liggur fyrir.

Mér þykir ástæða til að benda á það nú við afgreiðslu þessa máls, að ályktun fulltrúa sýslufélaganna, sem er prentuð sem meginröksemd með þessu máli, tekur jafnframt til húsmæðraskóla í sveitum. í ályktuninni segir orðrétt svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér undirritaðir fyrir hönd hlutaðeigandi skóla og sýslufélaga beinum hér með þeirri áskorun til ríkisstj. og alþm., að á Alþingi því, er nú situr að störfum, verði gildandi lögum varðandi gagnfræðanám og húsmæðrafræðslu breytt þannig, að héraðsskólar og húsmæðraskólar í sveitum verði kostaðir og reknir að fullu af ríkinu, en til vara, að ríkissjóður greiði öll kennaralaun við skóla þessa og 90% af stofnkostnaði, viðhaldskostnaði og öðrum rekstrarkostnaði þeirra:

Og frv. Péturs Ottesens, fyrrv. þm. Borgf., sem einnig er vitnað til í grg., tók bæði til héraðsskóla gagnfræðastigsins og húsmæðraskóla sveitanna. 1. gr. þess frv. er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkissjóður greiðir stofnkostnað heimavistarskóla barnafræðslustigs að þremur fjórðu hlutum, en stofnkostnað heimavistarskóla gagnfræðastigs og húsmæðraskóla að 9/10 hlutum.”

Og hliðstæð ákvæði setti Pétur Ottesen í sitt frv. um rekstrarkostnað þessara skóla.

Önnur röksemd, sem færð er fram í grg. fyrir þessu máli, er sú, að þar sem ríkið kosti rekstur Eiðaskóla — og í grg. er einnig talað um húsmæðraskólann að Staðarfelli í Dalasýslu, þá sé með því gefið fordæmi fyrir þeirri breytingu, sem hér er rætt um. Það er nú mín skoðun, að þetta út af fyrir sig, að ríkið kostar Eiðaskóla og húsmæðraskólann að Staðarfelli, sé ekki fordæmi að þessu leyti, vegna þess að það komu til á sínum tíma sérstakir samningar við ríkið, þannig að ríkinu voru afhentar að gjöf verðmiklar eignir, eins og allar eignir Eiðaskóla, búnaðarskólans, sem þá starfaði þar, og gjöfin var veitt með því skilyrði, að ríkið kostaði og ræki þar alþýðuskóla. Enda voru samin um þetta sérstök lög, löngu áður en hin almennu lög um héraðsskólana voru sett, og því á þá starfsemi komin hefð að vissu leyti. Og svipað er að segja um húsmæðraskólann á Staðarfelli, að ég ætla. En ég lít þannig á og vil láta það koma fram í umr. um þetta mál, að með þessu frv. er tekin upp ný stefna um greiðslu kostnaðar þeirra skóla, sem hér um ræðir, og eignarrétt á þeim. Hér er að mínum dómi skapað fordæmi, þannig að sú nýja regla, sem Alþingi lögfestir nú í þessu máli, hljóti að gilda um nýja héraðsskóla, er reistir kunna að verða, þótt svo sé ekki fyrir mælt í þessu frv., eins og það er nú orðað og liggur hér fyrir. Og ég vek enn fremur sérstaka athygli á því, að með þessu frv. er aðeins fjallað um annan þátt þessa máls, sem ályktun fulltrúa sýslufélaganna nær til og er færður fram sem rök fyrir þessu máli í grg. frv. Húsmæðraskólar í sveitum eru skildir eftir. Að mínum dómi er hér og skapað fordæmi, þannig að brautin er rudd fyrir húsmæðraskóla í sveitum, ef hlutaðeigandi sveitarfélög óska þess og leita eftir því síðar við hv. Alþ. að koma málum þeirra skóla í sama horf og málefnum héraðsskólanna, sem hér er fjallað um.

Með þessum skilningi greiði ég atkv. með frv. óbreyttu eins og það liggur hér fyrir.