23.11.1961
Efri deild: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi var sú breyting gerð á embætti sakadómara, að ákveðið var, að sakadómarar skyldu vera 3–5 eftir ákvörðun ráðh. og skyldi einn þeirra vera yfirsakadómari. Hefur hann yfirstjórn yfirsakadómaraembættisins, skiptir störfum með sakadómurum og er í fyrirsvari út á við. Rökin fyrir þessari breytingu voru þau, að fjöldi sakadómsmála væri svo mikill, að útilokað væri, að einn sakadómari gæti fylgzt með þeim öllum, hvað þá kveðið upp dóma í þeim. Um langt árabil hafði það tíðkazt, að fulltrúar sakadómara rannsökuðu og dæmdu mál á ábyrgð sakadómara, enda þótt hann gæti ekki fylgzt með málsmeðferð og dómum nema að takmörkuðu leyti. Þótti því rétt að taka upp þann hátt að fjölga sakadómurum, sem ynnu á eigin ábyrgð að dómaraverkum og hefðu réttindi og skyldur sem dómarar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um borgardómaraembættið og borgarfógetaembættið, þessum embættum skuli breytt þannig, að borgardómarar og borgarfógetar verði 5–7 við hvort embætti. Sömu rök eru fyrir slíkri breytingu og þau, er gilda um sakadómaraembættið. Málafjöldi er slíkur við bæði þessi embætti, að ofvaxið er einum manni að fylgjast þar með öllu, sem gera þarf. Breyting borgardómaraembættisins felst í 2. gr. frv., þar er gert ráð fyrir, að vera skuli 5–7 borgardómarar, þar af einn yfirborgardómari, sem hafi samsvarandi aðstöðu við embættið og yfirsakadómari hefur við sakadómaraembættið. Um samsvarandi breytingar á borgarfógetaembættinu er fjallað í 3. gr. frv. önnur ákvæði frv. eru ekki nýmæli, nema í 12. gr. eru ákvæði um launagreiðslur til þessara embættismanna.

Allshn. þessarar deildar hefur haft frv. til meðferðar og nefndarformaður hefur átt viðræður við embættismenn þá, sem frv. fjallar um. N. leggur einróma til, að það verði samþ. með einni breytingu á 3. gr. auk örfárra orðabreytinga, eins og sjá má af nál. á þskj. 129. Brtt. n. gengur í þá átt, að dómsmrh. sé heimilt að ákveða, að borgarfógetar skuli vera 5—7, er hafi réttarstöðu samsvarandi borgardómurum og sakadómurum, m.ö.o.: í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir, að þetta skuli vera svo, er lagt til, að ráðh. verði heimilað að taka upp þessa skipan. Brtt. þessi er gerð að höfðu fullu samráði við borgarfógeta og dómsmrh., og því er ekki að leyna, að till. er upp tekin eftir ósk borgarfógeta. Embætti hans er að því leyti ósambærilegt við embætti sakadómara og borgardómara, að borgarfógetaembættinu fylgja miklu meiri fjárreiður og fjárhagsábyrgð. Borgarfógeta er því meiri vandi á höndum að skipta þessari ábyrgð og um alla tilhögun á rekstri embættisins, og hann kveðst illa treysta sér til að gera það nema með nokkrum fyrirvara og undirbúningi. Af þeim sökum er það að hans ráði gert og með samráði við dómsmrh., að n. leggur til, að 3. gr. verði heimildargrein.

Aðrar brtt. n. eru einungis orðalagsbreytingar til leiðréttingar og lagfæringar og þurfa ekki skýringa við.

Við 1. umr. um þetta mál hér í þessari hv. d. kom fram ábending frá hv. 9. landsk. þm. um það, að ástæða kynni að vera að athuga, hvort ekki þyrfti að hafa borgardómara fleiri en frv. gerir ráð fyrir. Þetta mál hef ég sérstaklega rætt við borgardómara og hann taldi ekki neina ástæðu til þess. Hefur því verið látið við svo búið standa.

Fleira ætla ég, að ekki þurfi að taka fram um þetta mál, nema tilefni gefist til.