13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

167. mál, lögskráning sjómanna

Birgir Finnason:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. hefur vakið hér umr. um annað mál, sem ekki er á dagskrá, og rætt um afgreiðslu þess í heilbr.- og félmn., og eins og hans var von og vísa, hefur hann ekki getað greint rétt frá því, sem þar hefur gerzt. Hann sagði áðan, að meiri hl. heilbr.- og félmn. hefði ekki viljað fyrir sitt leyti fallast á tillögu um það að hækka dánarbætur almennt fyrir alla upp í 200 þús. kr. Þetta er alrangt. (Gripið fram í: Þetta er rétt.) Það er einmitt þetta, sem meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur lýst yfir, að hann vildi gera. Hann vildi athuga möguleika á því að hækka dánarbæturnar almennt. Það, sem greinir á á milli okkar og minni hl. í n., er það, að minni hl. vill láta hækka bæturnar fyrir sjómenn eingöngu, en við höfum viljað vinna að því og athuga leiðir til þess að hækka bæturnar almennt, og höfum við talið, að það væru eðlileg vinnubrögð af okkar hálfu að gera það á þann hátt að ræða málið við þann ráðh., sem hefur með almannatryggingar að gera, og fá hann til þess að taka þetta mál upp á vegum nefndar, sem nú vinnur að endurskoðun almannatryggingalaganna. Þetta höfum við gert, þó að við séum ekki enn þá búnir að skila nál. okkar, og tillögur okkar um þetta efni hafa fengið vinsamlegar undirtektir.

Ég mótmæli því, sem algerlega ósönnu, að við höfum neitað að fallast á, að tryggingarnar væru hækkaðar almennt fyrir alla. Það er sú stefna, sem var tekin upp 1960 að tillögu nefndar, sem þá endurskoðaði almannatryggingalögin, sem við viljum fylgja áfram óbreyttri að almannatryggingarnar greiði sömu dánarbætur jafnt, hvort menn vinna á sjó eða landi.

Frv., sem hér liggur fyrir, er um allt annað mál í raun og veru heldur en þetta. Það er eingöngu um það, hvernig tryggja megi við lögskráningu, að þeir samningar, sem fyrir hendi eru um aukalegar tryggingar umfram almannatryggingarnar, séu haldnir. Þetta teljum við að sé hægt með því, að sannað sé fyrir skráningarstjóra, að frjálsu tryggingarnar séu í lagi ekki síður en þær, sem lögbundnar eru.

Ég verð að segja, að ég tel það mikið vanmat, sem hv. 4. landsk. þm. og forseti Alþýðusambands Íslands lætur í ljós á samtökum sjómanna og verkalýðsfélaga, ef hann vantreystir því, eins og kom fram hjá honum áðan, að þau geti með samningamætti sínum komið alls staðar á þessum frjálsu tryggingum. Þær munu nú, eftir því sem ég bezt veit, vera komnar á hjá um það bil 60% af fiskiskipaflotanum og eru sem óðast að komast á, eftir því sem samningum er sagt upp og nýir samningar takast. En það mun vera þannig t.d. með síldveiðisamninga, að þeir hafa ekki verið endurnýjaðir nýlega, og þess vegna er þetta ekki komið inn í þá. Þó veit ég dæmi þess, að útvegsmenn hafa í mörgum tilfellum, þar sem þeir hafa samið um frjálsar tryggingar á öðrum veiðiaðferðum, keypt sér tryggingu fyrir allt árið, þannig að sú trygging nær einnig til síldveiðiskipa. Ég álít, að þar eð 60% af þeim mönnum, sem vinna þessi störf, eru búnir að fá aukatryggingar inn í samninga, — og þær munu vera í lagi, samkvæmt upplýsingum frá tryggingafétögum, þá sé það vanmat á hinum, sem eftir eru í sams konar stéttarfélögum, að telja, að þeir geti ekki komið þessum frjálsu tryggingum á líka.

Ég vil að lokum benda á, að það er aldrei hægt að ganga svo frá þessum tryggingamálum, að útgerðin eða útgerðarmaðurinn geti tryggt sig að fullu fyrir ötlum þeim kröfum, sem hann kann að verða fyrir. En vitanlega er æskilegast, að hann tryggi sig sem mest og bezt, en þar hljóta frjálsar tryggingar að koma til, til viðbótar við það, sem almannatryggingar greiða.