04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2566 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

167. mál, lögskráning sjómanna

Eðvarð Sigurðsson:

Forseti. Í umr. um dánarbætur til sjómanna, sem hér hafa allmikið verið til umr. í hv. d., hefur hvað eftir annað verið vitnað til nál. mþn., sem átti að endurskoða lögin um slysatryggingar og skilaði áliti 1960. Til þessa álits hefur verið vitnað og nú síðast í kvöld af hv. 1. þm. Vestf. sem raka gegn því, að sjómenn fengju þær bætur, sem frv. 4. landsk. gerði ráð fyrir.

Hvernig stóðu mál, þegar þær breytingar voru gerðar á slysatryggingalögunum, sem þessi n. vann að? Þá var málum þannig háttað, að sjómenn voru með rösklega 87 þús. kr. tryggingu. Trygging þeirra hafði verið af löggjafarvaldinu hækkuð alloft, en trygging annarra stétta staðið í stað. Og nú var sá munur orðinn á, að trygging annarra en sjómanna, lögboðin trygging skv. almannatryggingum, var aðeins rúmar 19 þús. kr., þegar hin tryggingin var 87 þús. kr. Það var öllum ljóst, að þessi lög um slysatryggingu þurftu endurskoðunar við, og hafði af hálfu verkalýðssamtakanna hvað eftir annað verið gerð krafa um það, að þau yrðu endurskoðuð. í þeirri n., sem hæstv. félmrh. þáv. setti til þess að endurskoða lögin, varð algert samkomulag um það að hækka dánarbætur, ekki aðeins þeirra, sem ekki höfðu nema 19 þús. kr., heldur voru líka dánarbætur sjómanna hækkaðar, en miklu minna. En dánarbætur allra voru þá hækkaðar í 90 pús. kr. Það álit n. að hækka dánarbætur allra í 90 þús. kr. er svo hér notað sem rök gegn því, að allir sjómenn verði tryggðir fyrir minnst 290 þús. kr. og sett verði lög þar um.

Hver var tilgangurinn með því frv., sem hefur nú verið fellt hér í þessari hv. d.? Það er margbúið að taka það fram. Tilgangurinn var sá að jafna það misrétti, sem var á tryggingu sjómanna, ekki aðeins eftir landshlutum, heldur og mjög innbyrðis, þannig að menn t.d. á sama báti voru kannske á vetrarvertíð tryggðir fyrir 290 þús. kr., en á síldarvertíð eða á síldveiðum aðeins fyrir 90 þús. kr. Það var þetta misræmi, sem frv. gerði ráð fyrir að leiðrétt yrði, og mönnum var einmitt þá, þegar það kom til umr. og afgreiðslu hér í þessari hv. d., þá voru mönnum mjög í fersku minni þau miklu sjóslys, sem urðu í vetur.

Menn geta haft ýmsar skoðanir á því, hvort rétt sé, að dánarbætur séu misjafnar til manna, hvort heldur þeir vinna á sjó eða í landi. Það er annað mál. En ég held, að allir hljóti að vera á einu máli um það, að sjómenn, sem vinna sömu störf, skuli njóta sömu tryggingar. Og það var þetta, sem frv. fjallaði um. Ég er alveg sannfærður um, að það mun ekki standa á þeim, sem hér börðust fyrir því máli, sem hv. 4. og 7. landsk. fluttu hér í vetur, og með þeim stóðu að framgangi þess máls hér á hv. Alþ., það mun ekki standa á þeim að gera bætur jafnar til allra, ef hækkun fæst þá til allra. En það er ekki hægt að skjóta sér á bak við afgreiðslu máls, eins og gert var hér um daginn, einvörðungu á þeim grundvelli, að bætur skuli vera jafnar til allra og eigi ekki að bæta einn hærri bótum en annan, en gera þá ekki till. um að bæta þá, sem lægst eru nú bættir, jöfnum bótum við þá, sem hæst eru bættir.

Það frv., sem hér liggur nú fyrir, gerir ráð fyrir því, að við lögskráningu skuli framvísa skilríkjum fyrir því, að greidd hafi verið umsamin trygging. Eins og hér er margbúið að taka fram, bætir þetta ekki nándar nærri úr því, sem bæta þarf. Það vita allir, að á lögskráningu sjómanna er ákaflega mikið sleifarlag. Ég veit, að hv. þm. allir saman þekkja það mál vei og sjálfsagt ekki sízt hv. 1. þm. Vestf., — ja, ég vildi segja alveg óþolandi sleifarlag í þeim hlutum. Jafnvel munu fyrirfinnast verstöðvar, þar sem heilar skipshafnir eru ekki skráðar. Við þessu eru náttúrlega viðurlög, og það eru ákveðnir embættismenn, sem eiga að líta eftir þessu, en ástandið er nú samt sem áður svona. Þá vita allir, eins og hér var tekið fram áðan, að þegar menn forfallast af skráðri skipshöfn e.t.v. og gripið er til landmanna, sem raunverulega eiga líka að vera lögskráðir yfirleitt, þá mun það í langflestum tilfellum svo, að þeir fara ólögskráðir út á skipin. Þess vegna er þetta frv., auk þess sem það svo nær ekki til fiskibáta, nema þeirra, sem eru yfir 12 tonn, mjög fjarri því að tryggja sjómenn eins og vera skyldi. Eins og málum er nú komið, þá er að sjálfsögðu bót að þessu, að felldum þeim till., sem hér hafa áður verið fram bornar, og þó væri það mun skárra og meiri bót að, ef sú brtt., sem hér hefur verið lögð fram skrifleg, yrði einnig samþ. Að sjálfsögðu hljótum við að fylgja þessu frv. fram, en eins og hér hefur verið margsagt, þá væri það algerlega óþarft, ef hv. alþm. hefðu staðið að málinu um daginn, þegar annað frv. var hér til afgreiðslu, — hefðu þá staðið að því eins og sjálfsagt var að standa að.