12.04.1962
Sameinað þing: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

Almennar stjórnmálaumræður

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. það, sem í fyrstu gaf launþegasamtökunum gildi í huga þeirra, er raðir þeirra fylltu, var hin raunhæfa barátta, er einkenndi allt þeirra starf. Það var í raun og sannleika barizt fyrir réttinum til að lifa og geta lifað sem frjáls maður. Ég vona, að ágreiningur sé ekki um það í röðum alþýðusamtakanna nú, að sigur í þeirri baráttu er fyrir alllöngu tryggður. Barátta hins vinnandi manns á hinum síðari árum hefur langtum fremur snúizt um það að lifa betra lífi en áður, og fyrir því ber samtökunum að berjast um ókomin ár, án tillits til þess, hver eða hverjir sitja í ráðherrastólum, því að sú barátta er enn þá einn helzti aflgjafinn til bættra lífskjara. Á fyrstu áratugum verkalýðssamtakanna var baráttan því laus við að krefjast leiðsögu langskólagenginna lögfræðinga og hagfræðinga til að komast hjá botnlausum gjám talnaflækju og margslunginna taflna um réttindi þeirra óska, sem fram voru bornar, og til að geta fylgt þeim eftir með óvefengjanlegum rökum. Nú þykir það gálaus og ábyrgðarlítil verkalýðshreyfing, sem ekki brynjar sig öllum þessum þrautreyndu vopnum, og í nágrannalöndum okkar eru starfandi heilar stofnanir, sem árið um kring annast þetta hlutverk fyrir alþýðusamtökin þar.

Hér á landi hefur þessi nútímatækni lítillega verið notuð og mest eftir að til sjálfra átakanna er komið, vegna fátæktar samtakanna og e.t.v. stundum vegna mátulega mikils áhuga fyrir leiðbeiningum slíkra aðila. Þegar sjálfar baráttuaðferðirnar eru svo valdar við staðhætti síðari ára, þá hefst upp mikill ágreiningur um það, hvaða leið muni heilladrýgst. Síðasti áratugur einn sýnir það, að í þessum efnum hefur gengið á ýmsu: Vísitöludeilan 1951, verkfallið 1952, aftur verkfall 1955, vísitöluskerðingin í ágúst 1956, 19 manna nefndar samkomulagið 1958, kauplækkun og verðstöðvun 1959. Allt eru þetta deilur, sem eiga sína sérstöku sögu, og um margt ólíkar. Eitt er þó staðreynd, að á s.1. ári var fullyrt hér í sölum Alþ., að kaupmáttur almennra verkamannalauna væri 2% lakari en hann var fyrir öll þessi átök og mun af sömu aðilum ekki talin hafa batnað siðan. Þessum fullyrðingum til stuðnings var vitnað í hagfræðilega og rökstudda útreikninga. Ég skal ekki fara nánar út í einstök atriði þessarar sögu, þótt æskilegt væri. Þarf nokkurn að undra, þó að menn staldri við og hugsi: Hvað er hægt að læra af mistökum þessara ára?

Alþýðubandalagsmenn hafa svör á reiðum höndum og fullyrða, að hér sé fyrst og fremst um að ræða pólitísk hefndarverk ríkisstjórna á þessu tímabili. Ríkisstj. hafi trúað því, að allur vandi sé leystur með því að halda launum fólks niðri, svo að orðrétt sé eftir þeim haft. Vinstri stjórnin var bókstaflega mynduð til þess að sanna þessa kenningu, og þeir voru ekki fáir, sem lagt höfðu trúnað á þennan boðskap. Af þeim ástæðum hafði sú ríkisstj. mjög góðan meðbyr í upphafi síns starfs, en entist ekki nema tvö ár. Þá höfðu flestra vonir brugðizt, og ríkisstj. lét af völdum eftir sex mánaða dauðastríð.

Ég var einn í þeim hópi, er batt miklar vonir við, að nú mætti loks ljúka hinni arðlausu kjarabaráttu. Á sama hátt var ég einn þeirra, sem ekki hikuðu við að ganga gegn stefnu þessarar ríkisstj., þegar vonbrigði mín höfðu náð hámarki. Þessi merkilega tilraun til stjórnarmyndunar, ríkisstj., sem átti að afsanna nauðsyn versnandi launakjara vegna öflugrar baráttu verkalýðssamtakanna, ávann það eitt, að launalækkanir síðan hafa þótt mun sjálfsagðari en áður. Þetta er alls ekki létt að þurfa að segja, en það ber að horfast í augu við staðreyndir og hætta þeim gráa leik að blekkja sjálfan sig, það er a.m.k. fyrsta skilyrði til að aðrir í návist manns vaði ekki sama villureyk. Ég var ekki einn um þessar skoðanir. Þær náðu langt inn í raðir stjórnarliðsins, sem og kom á daginn, þegar hinn almenni kjósandi fékk aðstöðu til að kveða upp sinn dóm. Þrátt fyrir álögur vinstri stjórnarinnar á almenning virtist svo sem hagur þjóðarinnar versnaði jöfnum höndum, og byrðarnar virtust ekki heldur bera þann árangur, sem lofað var fyrir þjóðarheildina.

Þessi orð mín skyldi enginn skoða á þann veg, að mér séu ekki fullljósar þær erfiðu og þungu byrðar, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur á herðar almennings lagt með mínu atkvæði og annarra stjórnarstuðningsmanna. Sá er þó munur, að nú sést árangur erfiðisins hvað aðstöðu þjóðarinnar í heild áhrærir, sem batnað hefur markvisst s.l. mánuði, og er nú til samjafnaðar farið að vitna til nýsköpunaráranna. Stjórnir þeirra verkalýðsfélaga, sem hafa viljað eira þessum erfiðu og þungu álögum á launþega, a.m.k. um sinn, vegna efnahagsráðstafananna og þola þá erfiðleika, sem af þeim hefur leitt, fengu hvarvetna traustsyfirlýsingar með auknu atkvæðamagni við stjórnarkjör s.l. vetur. Þessar staðreyndir ættu að færa okkur heim sanninn um, að almenningur er reiðubúinn að færa fórnir, en hann krefst þess í móti, að allir færi fórnir, og umfram allt, að það álag, sem fórnir þessar óhjákvæmilega leiða af sér, beri sýnilegan árangur fyrir þjóðarheildina.

Það er of gagnsæ þjóðernistilfinning að krefjast efnalegs sjálfstæðis þjóðarinnar, ef menn vilja svo ekkert á sig leggja til að öðlast það efnalega sjáifstæði. Það sjá allir í gegnum orðin: Ísland fyrir Íslendinga, þegar sömu menn vilja horfa á öra skuldasöfnun við erlend ríki án þess að hafast nokkuð að. Hvað er auðveldari bráð erlendum stórveldum en skuldum vafið smáríki? Þessi sannindi eiga fyrst og fremst hljómgrunn í huga frjálshuga fólks í alþýðustétt. Reynsla undanfarinna ára hefur fært sönnur á, að barátta fyrir hækkaðri krónutölu fyrir selda vinnuviku er ekki einhlít. Sú starfsaðferð hefur ekki fært almenningi raunhæfar kjarabætur, hverjir sem setið hafa í ráðherrastólunum.

Ég mun verja þeim fáu minútum, sem ég á eftir ónotaðar, til þess að ræða þann þátt vandamálanna, sem enginn vefengir að sé einn stærsti liðurinn í sjálfri endingu launanna, þ.e. stærsti útgjaldaliðurinn. Hér á ég við húsnæðiskostnaðinn og möguleikana til að eignast húsnæði.

Um langt árabil hefur það verið eitt aðalbaráttumál verkalýðshreyfingarinnar og Alþfl. að tryggja sem flestum fjölskyldum eignar- og aðstöðurétt á mannsæmandi íbúðarhúsnæði. Barátta þessi hefur verið studd þeim rökum, að trygging fyrir húsaskjóli væri frumþörf fjölskyldulífsins og þar með veigamikill liður í uppbyggingu heilbrigðra þjóðfélagshátta, um leið og saman færi lífsöryggi einstaklinganna, sem fjölskyldurnar mynda. Af þessum ástæðum hafa húsnæðismátin verið í fremstu röð þeirra málefna, er Alþfl. hefur barizt fyrir. Það var í beinu framhaldi þessarar fyrri baráttu flokksins, sem hæstv. núv. félmrh., Emil Jónsson, form. Alþfl., hefur beitt sér fyrir endurskoðun laganna um verkamannabústaði, sem lauk um s.l. áramót, og laganna um húsnæðismálastofnun ríkisins, sem einnig er lokið að hluta til. Um áraraðir hefur hver ríkisstj. á fætur annarri lofað endurskoðun þessara mikilvægu laga, en lítið hefur þó staðið eftir af þessum loforðum, þegar upp hefur verið staðið. Síðasta dæmið um vanefndir í þessum málum var þegar fyrrv. félmrh. Alþb. skipaði í fjörbrotum vinstri stjórnarinnar 1958 n. til að endurskoða l. um verkamannabústaði. Það er skemmst af þessari endurskoðun að segja, að sú n. kom aldrei saman og skilaði af þeim sökum heldur aldrei neinu áliti. Þegar svo þetta sama mál kemur til Alþ. nú að lokinni endurskoðun, sem þessum mönnum hafði ekki tekizt að framkvæma, þá eiga flokksbræður hins fyrrv. félmrh. ekki nógu sterk lýsingarorð til að réttlæta endurskoðunina, en telja aðeins, að þeir hefðu unnið þá endurskoðun mun betur en gert var. Það þarf meira en lítinn kjark til að ætlast til þess af almenningi, að hann trúi því, að þessir hinir sömu menn séu sérstakir áhugamenn um lausn á húsnæðisvandamálum Alþýðumanna eftir slíka frammistöðu. Meðan þeir höfðu völdin og aðstöðuna til þess að láta ljós sitt skína, þ.e. framkvæma sín eigin úrræði, fundust þau ekki og ekkert var gert. Svo sem málgögn stjórnarandstöðunnar hafa borið með sér að undanförnu, stendur nú ekki á því, að ráð sé undir hverju rifi til lausnar þessum mikla vanda, húsnæðisskortinum og kostnaðinum við að eignast húsnæði, og sést vart munur á, hvor stjórnarandstöðuflokkurinn á metið í ábyrgðarlausum fullyrðingum, sem allt fram til þessa hafa reynzt húsbyggjendum haldlitlar til lausnar vanda sínum.

Framsfl. hefur einnig fengið að reyna sig í húsnæðismálum og talið sig Þar sérstakan fyrirsvarsaðila húsbygginga í sveitum og dreifbýli landsins. Hinn fjárhaglegi stuðningur við þessar byggingar átti lögum samkvæmt að mestu að koma frá veðdeild Búnaðarbankans. Áður en framsóknarmenn viku sæti úr ráðherrastólunum, var sýnt, að geta veðdeildarinnar eða byggingarsjóðs í þessum efnum var þrotin, og var við valdatöku hæstv. núv. ríkisstj. svo komið þessum málum, að veðdeild Búnaðarbankans var nánast orðin gjaldþrota. Það voru þeirra afrek í lausn húsnæðismála dreifbýlisins. Það skal því ekki síður kjark til í herbúðum framsóknarmanna heldur en kommúnista að bjóða fram úrræði sín og forustu í húsnæðismálum með slíka afrekaskrá á bakinu.

Við endurskoðun laganna um verkamannabústaði, sem litlum breyt. höfðu tekið í þrjá áratugi, varð fyrst og fremst að hafa í huga gerbreytta aðstöðu almennings um og eftir árið 1930 og nú, en sem betur fer hafa allar ytri aðstæður almennings breytzt verulega til batnaðar á þessum árum. Lögin um verkamannabústaði höfðu vegna hinna stórfelldu breytinga á öllum þjóðfélagsháttum orðið mjög takmarkað gildi fyrir þá, sem þau voru sérstaklega ætluð fyrir upphaflega, þ.e. lægst launaða fólkið í landinu. í einstöku byggðarlögum munu þess m.a. dæmi, að aðrir en láglaunafólk hafi átt hægari aðgang að þessum íbúðum en láglaunafólkið eða verkamennirnir, svo langt voru ýmis ákvæði laganna komin frá uppruna sínum.

Þrátt fyrir ýmsa ágalla við framkvæmd laganna í hinu úrelta formi ber að líta til þess, að enn hefur launafólk almennt ekki átt kost á hagkvæmari lánum til að eignast húsnæði. í hinum mikla íbúðafjölda, sem byggður hefur verið á gildistíma laganna, þ.e. frá 1930 til ársloka 1959, er talið, að um 16 þús. íbúðir hafi verið byggðar í bæjum og kauptúnum landsins, en hlutur verkamannabústaðanna á sama tíma aðeins talinn 1108 íbúðir. Við þennan samanburð ber þó þess að gæta, að án þeirra hlunninda, er lögin hafa þrátt fyrir allt veitt, væru þessar láglaunafjölskyldur án eigin íbúðar.

Með gildistöku laga þeirra, er nú hafa verið samþ. hér á Alþingi, er eftir sem áður gert ráð fyrir, að ákvæði þeirra eigi að gilda fyrir þá, sem við erfiðastar aðstæður búa vegna lágra launa, ómegðar og sjúkdóma og nægir ekki sú fyrirgreiðsla, sem húsnæðismálastofnunin eða hið almenna veðlánakerfi getur í té látið. Til að tryggja þennan höfuðtilgang laganna eru lánin úr sjóðunum enn háð ákveðnu tekju- og eignamarki, en lánsfjárhæð á íbúð að hámarki til hækkuð úr 160 þús. kr., sem almennast hefur verið, í allt að 300 þús. kr. á hverja íbúð.

Bráðabirgðabreytingar þær, sem gerðar voru á lögunum um húsnæðismálastofnunina, voru ekki stórar í sniðum. Vegna hækkaðs verðlags á byggingarefni var nauðsynlegt talið að hækka hámarkslánin úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr. og útborgun lána nú leyfð til bæjar- og sveitarfélaga, þegar hús þau eru fokheld, sem ætluð eru til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði.

Í stjórn stofnunarinnar eru nú þingkjörnir fimm menn í stað fjögurra áður, og er sú ráðstöfun í samræmi við sams konar breytingar á öðrum þingkjörnum stjórnum og nefndum.

Áfram verður unnið að endurskoðun þessara laga með sömu höfuðmarkmiðum, að auðvelda og bæta aðstöðu einstaklinga og sveitarfétaga til að eignast mannsæmandi húsnæði.

Að fjáröflun til húsnæðisframkvæmda er nú unnið, og er þess að vænta, að almenningur fái áfram að þreifa á bættri aðstöðu til að eignast húsnæði, þar eð telja verður, að erfiðasti hjallinn sé yfirstiginn um verðhækkanir byggingarefnis, ef ekki upphefjast á ný verðbólguáhrifin, sem öli alþýða manna hefur mest skaðazt á og þó fæstir á borð við húsbyggjendur í launastétt. Takist að ná nauðsynlegu jafnvægi í launa- og verðlagsmálum, má og vænta þess, að vextir lána lækki aftur.

Að sjálfsögðu er lánsfjárútvegunin undirstaðan undir því, að framangreindar endurskoðanir nái tilgangi sinum, en næstu mánuðir munu leiða í ljós, hvaða möguleikar eru í þeim efnum. Lánsfjárþörfin til verkamannabústaða og húsnæðismálastofnunar ríkisins er mikil; og mun aldrei fyrr í sögu þessara stofnana hafa legið fyrir annar eins umsóknafjöldi. Hjá sjóðsstjórn verkamannabústaða liggja nú fyrir lánsbeiðnir til rúmlega 120 íbúða, og hjá húsnæðismálastjórn liggja fyrir 2148 umsóknir, þar af 1241, sem enn þá hefur enga úrlausn fengið. Hér er því um vanda 2500 fjölskyldna að ræða.

Af framangreindum tölum má sjá, hve stór hluti fólks hefur beinna hagsmuna að gæta um lausn þessa vandamáls. Ljóst er og, að lausn húsnæðisvanda þessa fólks er um leið vísasti vegurinn til lækkunar húsaleigu og íbúðasölu, sem fyrst og fremst grundvallast á hinum alvarlega húsnæðisskorti.

Ég leyfi mér að fullyrða, að hér er um að ræða alvarlegasta vanda alls almennings og þá fyrst og fremst láglaunafólksins. Efnafólk leitar ekki aðstoðar húsnæðismálastjórnar eða verkamannabústaða. Lausn húsnæðisvandamálanna er brýnasta vandamálið, sem úrtausnar bíður. Raunhæfasta kjarabótin er lausn þessa vanda. Þess vegna er það einnig skylda Alþýðusamtakanna að aðstoða af öllum mætti ríkjandi ríkisstj. á hverjum tíma til að fullnægja þörfum fólksins til lausnar þessum frumþörfum. Þá er farin leið raunhæfra kjarabóta. Að því, að svo geti orðið, mun Alþfl. áfram vinna í ríkisstj. Góða nótt.