15.12.1961
Neðri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var í allshn. hjá okkur, gat ég þess, að ég teldi rétt, ef ætti að fara að breyta ákvæðum líkt og minni hl. leggur til í sambandi við 11. gr. frv., þá ætti það að horfa við almennt og ætti þá að eiga við yfirleitt dómara og fulltrúa þeirra, bæði í Reykjavík og utan Reykjavíkur, og þess vegna bæri ekki að koma slíkri breytingu fram í sambandi við þetta frv., heldur annað frv., sem liggur hér fyrir til athugunar og úrslita, og það er í sambandi við einkamálalöggjöfina. Það er álit mitt, að breytingar af þessu tagi eigi að ræðast í sambandi við það frv., en ekki þetta.

Það er engin ný bóla, að embættismönnum og opinberum starfsmönnum sé illa launað hér á landi og að launalögin séu mjög úrhendis á ýmsa lund, og þarf ekki að hafa mörg orð um það, það er búið að ganga svo til lengi. En sannarlega væri það mjög ánægjulegt, ef meiri hluti þings gæti fallizt á það og það í verki, að launalöggjöfin væri tekin til endurskoðunar og þá ekki sízt að því er varðar þessa embættismenn, sem eiga að vera mjög sjálfstæðir í starfi og óháðir, eins og einn ræðumanna hér í dag gat um að væri ákveðið í sjálfri stjórnarskránni. Það er vissulega erfitt að vera dómari og sinna ýmsum störfum öðrum, en þarf ekki að fara verr úr hendi. En ég held, að ég geti lýst því yfir, að það er mjög þungur dómur og alls ekki réttur að mínu viti, sem kveðinn er upp í bréfi Lögmannafélags Íslands. Ég hef ekki heyrt annað en að þeir embættismenn, sem þar getur, þ.e.a.s. dómarar og fulltrúar dómara hér í Reykjavík, hafi yfirleitt unnið sín dómarastörf mjög vel, og kannske það eina, sem mætti fetta fingur út í, er, að þeim ynnist kannske seinna en vera bæri og með þyrfti. Það er alveg rétt. En að niðurstöður og annað slíkt væri ekki í mjög sæmilegu og enda góðu lagi, ég hef ekki heyrt annað en svo hafi verið, og það er sennilega ekki, að dómarar og fulltrúar þeirra hafi dregið mál hér vegna þess, að þeir hafi verið hlaðnir öðrum störfum, heldur eru dómsmál hér yfirleitt svo innviðamikil í Reykjavík og margþætt, að það vinnst ekki venjulegur vinnudagur til þess að ganga frá þeim. Ég þekki ýmsa af þessum mönnum, bæði dómurum og fulltrúum, sem vinna oft eftir venjulegan vinnutíma án þess yfirleitt að fá nokkra þóknun þar fyrir til að koma dómum og úrskurðum fram, og er mjög alsiða. — Ég vildi láta þetta koma fram í sambandi við þann þunga dóm, sem Lögmannafélagið er einhuga um að kveða upp yfir þessum embættismönnum hér í Reykjavík. Og mér skilst, að það eigi að byrja á því að lagfæra laun hinna opinberu embættismanna og þá ekki sízt dómara og fulltrúa þeirra. Ég segi fyrir mig, að ég er mjög inni á því og það væri mjög ánægjuríkt, ef meiri hluti þings vildi taka það mál fyrir og reyna að ganga nokkurn veginn viðhlítandi frá því. Og þá vil ég segja það, að ef sú gæti orðið niðurstaðan, þá er brtt. minni hl. og álit hans í þessu máli ekki úrhendis, heldur kemur fram á nokkurn veginn réttum og eðlilegum tíma.

Ég get getið þess í sambandi við brtt. á þskj. 216 frá minni hl., að þar segir, með leyfi forseta: „Embættismönnum þeim, er um ræðir í 2.–6. gr., og fulltrúum þeirra samkv. 10. gr. er óheimilt að hafa á hendi öll lögmannsstörf, svo og hvers konar önnur störf, er valda kunna vanhæfi þeirra.“ Ef maður ályktaði in contrario eða öfugt, þá ætti öðrum embættismönnum en sem þar greinir að vera heimilt að hafa lögmannsstörf og hvers konar önnur störf o.s.frv. Ég vil aðeins benda á þetta til athugunar, til að sýna fram á, að þetta er engan veginn eins augljóst og eðlilegt og kannske ætla mætti í fljótu bragði. Og þá kemur að því, sem ég sagði í upphafi, að till. af þessu tagi eða sem stefnir í þessa átt á heima í sambandi við frv. til laga um einkamálalöggjöfina og í sambandi við breytta launalöggjöf ríkisins.