06.02.1962
Neðri deild: 42. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Það er aðeins örstutt fyrirspurn. Á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna í desember, þar sem sagt var frá samningum við ríkisstj. um ráðstafanir vegna útgerðarinnar, svo sem greiðslu tryggingariðgjalda og fleira, var samþykkt, að bátar hæfu vertíðarróðra m.a. í trausti þess, að vextir yrðu lækkaðir verulega á afurðalánum, eins og það mun hafa verið orðað í ályktuninni. Var þetta byggt á því, að undirtektir hæstv. ríkisstj. við kröfum um vaxtalækkun hefðu verið þannig, að þessu mundi mega treysta. Nú er búið að dæma fiskverð, en vaxtalækkun á afurðalánum hefur ekki verið tilkynnt. Leyfi ég mér að spyrja hæstv. sjútvmrh., því að margan fýsir að vita, hvort reiknað sé með lækkun á afurðalánavöxtum í þeim dómi, sem fallinn er um fiskverðið, og hvenær vaxtalækkun á afurðalánunum komi til framkvæmda. Ég vil leyfa mér að beina þessari fyrirspurn utan dagskrár, en ekki skriflega, vegna þess að skriflegu fyrirspurnirnar ganga svo seint, en hér er um mjög einfalt atriði að ræða. Vona ég, að hæstv. ráðherra taki þessari fyrirspurn vel.