15.12.1961
Neðri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forseti. Það eru nokkur orð út af þeim umr., sem hér hafa orðið.

Tveir af hv. þm., sem sæti eiga í allshn. og skipa þar meiri hl., hafa þegar tekið til máls á móti því, að till. á þskj. 216 væri samþykkt. Þessir menn eru báðir sýslumenn, og ég held, að af þeim fjórum mönnum, sem skipa meiri hl., séu þrír ýmist bæjarfógetar eða sýslumenn. Það er nú raunverulega svo, að ég held, að það sé að því komið, að við þurfum að fara að taka þessi mál til allrækilegrar athugunar. Það er engan veginn viðkunnanlegt, að svo að segja embættismennirnir afgreiði sjálfir lög hér á þinginu um, hvernig embættismennirnir eigi að haga sér í þjóðfélaginu. Ég held, að það megi gjarnan taka nokkurt tillit til þess, sem þeir, sem eru utan við þetta embættiskerfi sjálft, segja í þessum efnum frá sjónarmiði þess almenna borgara. Ég held þess vegna, að fyrir okkar embættismannastétt og alveg sérstaklega hvað dómstólana snertir ættu menn að fallast á það og byrja á því með þessu frv., að um þessa dómara og þá fyrst og fremst skulum við segja dómarana hér í Reykjavík, svo að við byrjum dálítið á þeim, þá verði að gilda sérstök ákvæði. Þeir eru, eins og stjórnarskráin gerir alveg sérstaklega ráð fyrir, einir af þeim alfáu dómurum í landinu, sem hafa ekki umboðsstörf á hendi. Og þegar dómarar hafa ekki umboðsstörf á hendi, hafa þeir vissan ákveðinn rétt samkv. stjórnarskránni, sem engir aðrir menn hafa, þannig að það er alveg sérstaklega gengið út frá því, að slíka menn eigi að vernda, og um leið náttúrlega, að til slíkra manna verði að gera sérstakar kröfur, fyrst og fremst um það, að þeir séu fjárhagslega sjálfstæðir og þeir geti sinnt sínum málum. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt við það, þó að byrjað sé með því að gera þær kröfur til dómaranna í Reykjavík, sem gegna ekki umboðsstörfum, og hitt er svo hægt að athuga seinna í sambandi við meðferð einkamála í héraði, hvort farið er að gera þessa kröfu t.d. til dómara úti á landi, sem gegna umboðsstörfum, eða hvort menn vilja fara inn á það, sem ég held að hljóti nú að fara að liggja mjög nærri, að fara að aðskilja algerlega þetta tvennt, dómarana annars vegar og þá menn, sem gegna lögreglustjórastörfum, tollstjórastörfum, innheimtustörfum eða öðru slíku. Það er náttúrlega meira mál, sem ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni.

Hæstv. dómsmrh. kom inn á það og mótmælti því, að hér væri í sambandi við þetta frv. um einhverja sérstaka spillingu að ræða, það væri aðeins um þá almennu spillingu að ræða, og það get ég verið honum alveg sammála um. Það er bara verið að halda áfram með þá almennu spillingu í okkar þjóðfélagi. En spurningin er, hvort við ættum að reyna að gera eitthvað til að stöðva hana. Okkur var t.d. sagt á síðasta þingi, þegar við vorum látnir samþykkja ákvörðun um ný embætti, — það var embætti saksóknara, held ég, — að nú væri aldeilis verið að gera góða umbót á okkar réttarkerfi, nú gætum við þó verið öruggir, nú mundu ekki neinir aðilar fara að stinga neinum málum undir stól, nú kæmi óháður saksóknari, nú væri það ekki lengur pólitískur dómsmrh., sem réði um, hvort mál væri höfðað eða annað slíkt. Ég lét það í ljós þá, jafnvel þó að andstæðingur minn sæti í dómsmrh. stóli, að ég hefði nokkurn veginn alveg eins mikið traust á því, að pólitískur dómsmrh. hefði yfir þessum málum að segja, vegna þess að þjóðin á miklu hægara með að kalla hann til ábyrgðar og hann hefur þess vegna miklu meira aðhald. Og hver hefur orðið reynslan? Gengur fljótt í saksóknaraembættinu með þau mál, sem beðið er eftir svo að segja og eru búin að vera lengi á döfinni? það er sagt við okkur hér, ólögfróða mennina: Í guðanna bænum, þið þurfið að samþykkja að bæta þessum embættum við. Þetta er alveg nauðsynlegt fyrir réttaröryggið. Það þarf að taka upp sérstakt embætti saksóknara. Það þarf að koma upp svona mörgum sakadómaraembættum. Það þarf að koma upp svona mörgum borgardómaraembættum. — Jú, þetta getur allt saman verið gott og blessað. Ég held, að yfirleitt hafi þetta allt saman verið samþykkt hér nokkurn veginn samróma. En mér sýnist, að við þurfum bara að passa upp á hinn endann um leið, að embættin séu ekki sköpuð til að viðhalda og jafnvel efla þá almennu spillingu í þjóðfélaginu og að það sé reynt, um leið og þau nýju embætti eru sköpuð, að tryggja, að þau verði rekin eitthvað betur en þau gömlu voru. Ég held meira að segja, að hæstv. dómsmrh. hafi bent á það og það jafnvel alveg réttilega, að þeir kvörtuðu yfir því sumir, þeir, sem gerðir voru að sakadómurum og voru áður fulltrúar, að þeir hefðu jafnvel ekkert betri laun, vegna þess að þeir höfðu sem fulltrúar vafalaust greiðslu fyrir sína aukavinnu og annað slíkt, en þegar þeir eru sjálfir orðnir aðalmennirnir, dómararnir, þá vinna þeir oft og tíðum aukavinnu, eins og þeim mönnum, sem í æðstu embættum eru, er tamt að vinna, án þess að fá nokkra greiðslu þar fyrir, þannig að það er orðið ákaflega aðkallandi að breyta þessum lögum.

Ég er alveg sammála hæstv. dómsmrh. um það, að háu launin eru of lág, og ég vona, að hæstv. dómsmrh. sé mér sammála um, að lágu launin séu allt of lág. Þá gætum við líklega farið að reyna að hjálpast að með að laga eitthvað launastigann í þjóðfélaginu. Það, sem virðist koma út úr þessum umr. hjá okkur, er, að launin, sem menn bera úr býtum, jafnt verkamenn fyrir sína vinnu sem embættismenn, sem sitja í allmiklum virðingarstöðum og þýðingarmiklum störfum fyrir þjóðfélagið, beri allt of lítið úr býtum. Og það þýðir, að við þurfum að endurskoða allt okkar þjóðfélagskerfi, allt okkar launakerfi, til þess að koma einhverju viti í þetta, því að það veit hver einasti maður, þó að menn séu kannske sammála um almenna spillingu í þjóðfélaginu, þá eru menn líka sammála um, að það er óskaplegt sleifarlag á okkar þjóðfélagsrekstri, sóun og vitleysa í því. Við skulum ekki fara út í það hérna. En ég vildi mjög eindregið mælast til þess, að menn samþykktu þá tillögu, sem minni hl. allshn. hefur flutt, þó að bæjarfógetar og sýslumenn í nefndinni séu á móti henni, og ég held, að það væri góð byrjun, bæði til þess að endurskoða launakerfið og til þess að vinna eitthvað á móti þeirri almennu spillingu í þjóðfélaginu.