03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

171. mál, almannavarnir

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla að láta hv. 4. landsk. þm. (HV) það eftir að fara með þetta mál, sem hér liggur fyrir, eins og hvert annað gamanmál. Hann hefur áður skapað sér sérstöðu oft og tíðum hér í þinginu með angurgapahætti sínum, og mér kemur það ekkert á óvart, þó að hann hafi ekki lagt niður þá siðvenju sína. Hann vitnaði hér í einstöku setningar úr álitsgerðum sérfræðinganna, sem hingað komu upp, formanns almannavarna eða civilforsvaret í Noregi, Holtermanns, og talaði um það með miklum fjálgleik, að aðra eins endemis dellu hefði enginn sagt og enginn heyrt, og hvar ætti svo sem að byggja þetta byrgi, sem þar væri talað um, sem ríkisstj. ætti að kúra í og forsetinn, og taldi furðulegt, að svona endemis della væri prentuð. Sannleikurinn er sá, að þessi yfirmaður almannavarna í Noregi, sem hefur gegnt því embætti frá 1954, ef ég man rétt, hann segir að verulegu leyti frá, eins og kemur fram í hans skýrslu, hvað gert hafi verið í Noregi, og dregur almennar ályktanir af því, en tekur beinlínis fram, að þegar að því komi að semja frv. um almannavarnir á Íslandi, þá verði að miða þær ákvarðanir, sem þar verði teknar, við staðarþekkingu hér og aðstæðurnar hér á Íslandi. En þessi endemis della, sem hann er að segja frá, er þó ekki meiri en sú, að þannig byrgi hafa verið byggð og ráðstafanir gerðar þegar í Noregi til þess að búa norsku ríkisstj. og þinginu og stjórnvöldum aðstöðu til þess að geta hafzt að a.m.k. öllu lengri tíma en í síðustu styrjöld í sínu eigin landi og hafa í lengstu lög stjórn á sínum borgurum. Þetta er þessi endemis della, sem hv, þm. furðaði sig á að prentuð skuli hafa verið í álitsgerð þessa hershöfðingja.

Hv. 4. þm. Reykn. (JSk) taldi, að hraðinu væri allt of mikill á þessu frv. og of hart eftir rekið. Það kann að vera nokkuð til í því, að mönnum finnist, að það vinnist of litill tími eða minni tími en æskilegt væri til að afgreiða svo stórt mál, einkum og sér í lagi þar sem þingið hefur til meðferðar mörg önnur stórmál. En þó vil ég vekja athygli á því, að sú löggjöf, sem áður hefur verið sett svipaðs eðlis og sama eðlis og það frv., sem hér um ræðir, hefur ævinlega verið sett með brbl. og siðan staðfest á þinginu á eftir, bæði 1941 og 1950. Og í báðum þessum tilfellum var enginn ágreiningur um þessi mál í þinginu. Það kom ekki fram hjá neinum, að ekki væri full ástæða til að gera þær varúðarráðstafanir, sem með þeim lögum var gert ráð fyrir að teknar væru upp, og eru þær þó að mörgu leyti víðtækari og mjög miklu víðtækari varðandi borgaralegu skylduna en er í því frv., sem hér liggur fyrir, og skal ég koma að því síðar. Í fjölmörgum tilfellum furðaði hv. 4. landsk. sig á, hversu langt væri gengið í að veita stjórnvöldunum vald til þess að ákvarða eitt og annað í þessu sambandi, en það er þó ekkert umfram það, sem þegar er í lögum og mundi standa í lögum, hvort sem þetta frv. nær fram að ganga eða ekki, og skal ég koma nánar að því síðar. En það sýnir, að það er ekki aðeins, að hann hafi lítið lesið þetta frv. og grg. þess, eins og hann sagði sjálfur, heldur virðist hann ekki heldur bera skyn á þá löggjöf, sem við nú búum við í þessum efnum og hægt er að beita hvaða dag sem er.

Það kann að vera ekkert óeðlilegt og æskilegt og á að vera hægt, áður en þetta mál yrði afgreitt hér á þinginu, að fyrir lægi einhver álitsgerð sveitarstjórnafundar, sem verið er að halda um þessar mundir. Nú binda ekki sveitarstjórnafundir sveitarstjórnirnar í þessum efnum. Hins vegar eru þar framámenn úr sveitarstjórnunum, og það kann að vera nokkurs virði að heyra, hvernig þeir taka á þessum málum.

Mér hefði ekki fundizt óeðlilegt, þó að nm. úr hv. heilbr.- og félmn., sem yfirfarið hafa þetta frv., hefðu fundið á því ýmiss konar vansmíð og talið, að annað mætti betur fara, og gert sér far um að leiðrétta og færa til betri vegar ákvæði þau, sem þeim finnst vera vanhugsuð og mættu vera skýrari. En hér hefur ekkert komið fram um það. Þessi nokkuð á annan klukkutíma ræða hv. 4. landsk. gekk út á allt annað, — annaðhvort að reyna að gera broslegt og hlægilegt það alvörumál, sem hér er um að ræða, eða fetta fingur út í einstök atriði, án þess að gera nokkra tilraun til þess að benda á leiðréttingar, sem mætti gera. Með því móti að hegða sér þannig hefði hv. þm. tekið með tilhlýðilegri alvöru á þessu máli og lagt sinn skerf fram til þess, að það mætti afgreiðast í betra formi á þinginu á þeim stutta tíma, sem við höfum nú til umráða.

Ég er alls ekkert frá því, þótt ég skuli ekkert segja um það nú á þessu stigi málsins, að það mætti hafa viss bráðabirgðaákvæði eða varúðarráðstafanir í þessum lögum, sem að verulegu leyti næðu þeim tilgangi, sem kom nú fram í ræðum beggja hv. frsm. minni hl., að það yrði ekki gengið of langt í því að leggja nýjar álögur á sveitarfélögin að óvörum. En ég legg áherzlu á það, að það er afar veigamikið mál, að þetta frv. nái einmitt fram að ganga á þessu þingi, og það er vegna þess, hvernig aðstaðan er hjá okkur nú varðandi viðbúnað í þessum efnum og hvernig umhorfs er í heiminum.

Þegar hinar miklu vetnissprengingar áttu sér stað á s.l. hausti, þegar Sovétríkin sprengdu á einum mánuði um 30 vetnissprengjur og margra megatonna sprengjur, þá var það álit allra sérfræðinga og ekki heyrði maður deilt um það, að þessar sprengingar út af fyrir sig gætu valdið ákaflega mikilli hættu í raun og veru, hvar sem væri á hnettinum, og sú hætta væri yfirvofandi alveg fram á næsta vor, ef geislavirk efni, sem í loftlögunum lægju, bærust þannig og þjöppuðust saman og síðan yrði úrkoma og rigning, þannig að úrfallið gæti komið á mjög þéttbýla staði og valdið óumdeilanlega miklu tjóni. En eftir að þetta gerðist, hafa Bandaríkin lýst því yfir, að þau teldu sér nauðsynlegt að sprengja vetnissprengjur í andrúmsloftinu, og því hefur verið svarað af hálfu Sovétríkjanna með því, að ef Bandaríkin sprengi, þá haldi þau áfram að sprengja. Þegar svona stendur á, er ekkert vit í því að gera ekki einmitt þegar ráðstafanir til þess að mæta hættu eins og þessari, sem er ekkert minni fyrir okkur en aðra, hvar sem raunar er í heiminum, því að við getum gert ákaflega mikið, — og það held ég að sé viðurkennt af öllum, sem um þessi mál hugsa, — til þess að verjast hættu af úrfalli, kæmi það skyndilega niður. Það er hægt að koma hér upp og það nú þegar tæki fyrir fjarskiptaþjónustu og aðvörunar- og upplýsingakerfi fyrir allan almenning, bæði hér í Reykjavík og eins annars staðar á landinu, því að alveg eins gæti þetta úrfall fallið niður á Akureyri, Seyðisfjörð eða aðra byggð á landinu eins og í Reykjavík. Og á þessum stöðum þarf að koma upp geislavirknimælum. Geislavirkni hefur, held ég, verið mæld lítið sem ekkert nema aðeins hér í Reykjavík og í Vestmannaeyjum — og sérstaklega í Vestmannaeyjum vegna hættunnar af því, að drykkjarvatnið þar mengaðist. Öllu slíku þarf að koma að mínum dómi sem fyrst í gang, og það er ekki ýkjamikill kostnaður, sem í slíkt á að fara, og það er ekki heldur ýkjamikill kostnaður fyrir einstakling að geta haft nokkurn viðbúnað, ef honum er gert aðvart í útvarpi eða á annan hátt um það, að það sé öruggara að fara í sinn kjallara, sem þá hefur að einhverju leyti verið útbúinn til frekara öryggis undir slíkum kringumstæðum en nú er.

Þessir erlendu sérfræðingar, sem voru hér í haust, voru báðir á einu máli um það og eins aðrir, sem leitað hefur verið álits hjá, að byggðin í Reykjavík, svo að aðeins hún sé tekin, bjóði upp á miklu meira öryggi en almennt gerist varðandi það, hvað húsin eru hér vel byggð, og kjallarar í einkahúsum hafa í sér fólgna mikla möguleika til þess að veita verulega vernd. Hitt er svo annað mál, að menn verða að gera sér grein fyrir, að bara af þeirri hættu, sem af slíkum tilraunum, sem ég nú hef talað um, getur stafað, og einnig, ef til átaka kemur í heiminum, þá dettur raunar engum í hug, að neinar almannavarnir geti bjargað öllu. En hvað á að leggja mikið á sig til þess að gera vissar tilraunir, sem geta bjargað svo og svo miklu af íbúum borgarinnar, sem ella yrði ekki bjargað, ef ekkert hefði verið gert? Ef það kæmi í ljós eftir á, að þær ráðstafanir, sem gerðar hefðu verið, hefðu bjargað helmingnum af íbúum Reykjavíkur frá fjörtjóni, ætli mönnum finnist þá ekki, að það megi leggja í nokkuð mikinn kostnað, til þess að hægt hefði verið að ná slíkum árangri? Og hvað á að fara langt niður? Er leggjandi eitthvað á sig til þess t.d. að bjarga 10 þúsundum Reykvíkinga, sem ella mundu farast? Það er alveg öruggt, að menn mundu leggja mikið á sig til þess að bjarga 10 þúsundum Akureyringa, því að þeim væri þá bjargað öllum saman.

Það var spurt hér áðan, hvers virði væru hjúkrunargögn og hvers virði væri þessi viðbúnaður og hvort þjóðin hefði nokkurn tíma bolmagn til þess og aðstöðu að leggja í svo mikinn kostnað, að það borgaði sig að gera það. Þessu er ekki hægt að svara nema með annarri spurningu: Hvers virði er líf og heilsa borgaranna? Það fer eftir því, hvaða mat menn hafa á því, og ég hygg, að við þurfum og ættum einmitt að hafa skilning á því, hversu mikils virði það er að bjarga fáum mannslífum í landi, sem er svo fámennt eins og Ísland er.

Hv. 4. landsk, talaði um þetta eins og hvert annað grín, að gerðar yrðu einhverjar ráðstafanir og fólki veittar leiðbeiningar til þess að koma upp skýlum, sérstaklega á sveitabæjunum. Honum fannst það hlægilegast, að það ætti að gera einhverjar tilraunir til þess að bjarga sveitamönnum líka. En eins og aðstaðan er hjá okkur, hefur legið alveg niðri, eins og kunnugt er, allur viðbúnaður, og öll upplýsingastarfsemi hefur gersamlega legið niðri hér gagnvart almenningi. Og það er eitt af því fyrsta, sem þetta kerfi almannavarna, sem upp yrði tekið, yrði að hefjast handa um, að veita almenningi leiðbeiningar um það, hvað gera skuli, ef hættan dynur yfir, og það eitt út af fyrir sig skiptir feikilega miklu máli, svo að menn standi ekki allir uppi og enginn viti, hvað til bragðs á að taka. Og það er enginn vafi á því, að með litlum aðgerðum og ekki kostnaðarmiklum væri hægt að bjarga hér miklum verðmætum, ef svo bæri undir, að hættan berði að dyrum hjá okkur.

Hv. 4. landsk. gerði mikið úr því, að á hættutímum væru auknar heimildir til þess að skipa borgurunum fyrir og ráða ráðum þeirra o.s.frv. og það væri ekki gott að fela þetta ríkisstj., sem ætti sjálf að meta, hvað eru hættutímar. En eins og ég vék að í upphafi, er það svo eftir lögunum frá 1941, sem var gerð breyting á 1951, og í hvorugt skipti var nokkur ágreiningur um, þá segir þar í 4. gr., og það er í lögum nú:

„Það er almenn borgaraleg skylda að vinna án endurgjalds að undirbúningi samkv. lögum þessum eftir fyrirmælum lögreglustjóra og loftvarnanefndar, svo og að hlýða öllum fyrirmælum og reglum varðandi slíkar ráðstafanir, þ. á m. að taka þátt í fyrirskipuðum æfingum:.”

Þetta er í núgildandi lögum. Húseigendum er einnig eftir núgildandi lögum skylt og hinu opinbera að kostnaðarlausu að annast um, að til séu í húsum þeirra nauðsynleg eldvarnartæki, eftir því sem loftvarnanefndir með samþykki bæjar- eða sveitarstjórna nánar ákveða. En þetta eru lög um ráðstafanir til loftvarna og annarra varna gegn hættum af hernaðaraðgerðum. Einnig segir í núgildandi lögum, að lögreglustjórum og loftvarnanefndum sé heimilt að taka kjallara og aðrar vistarverur einstakra manna, er nota má sem loftvarnabyrgi fyrir almenning, og útbúa þau í því skyni. Og það segir enn fremur, að ef brýna nauðsyn beri til, eins og í frv., sem hér liggur fyrir, ef brýna nauðsyn beri til, að fólk flýi hættusvæði og komi sér fyrir á öruggari stöðum, er ríkisstj. skylt að greiða fyrir flutningnum og er í því skyni heimilt að taka leigunámi skip, bifreiðar og önnur farartæki, svo og lendur og hvers konar húsnæði, sem völ kann að vera á, flóttafólki til öryggis, skjóls og aðhlynningar. Svipuð ákvæði og þessi og sum, sem ganga skemmra, eins og t.d. um borgaralegu skylduna, þótti frsm. minni hl., hv. 4. landsk. þm., ganga allt of langt, en sást þó, eins og ég sagði, yfir þetta, að hér er þó ekki um neitt að ræða, sem ekki er þegar í lögum hjá okkur.

Hv. þm. talaði mikið um það, að hann óskaði eftir að vita, hvaða aðkallandi aðgerðir væru nú á þessu ári, 1962. Sannleikurinn er sá, að þegar hafizt var handa á s.l. hausti og stjórnvöldum þótti ekki viðhlítandi að hafa ekki meiri viðbúnað en við hefðum gert á undanförnum árum og með hliðsjón af reynslu annarra, þá var ljóst, að það þurfti nokkurn tíma til þess að undirbúa löggjöfina, koma löggjöfinni fram og síðan að henni fram kominni að gera áætlanir um það, hvað gera skyldi. En það, sem er auðvitað greinilegt og mönnum á að vera ljóst að er mest aðkallandi nú í bili, það er að reyna að gera þann viðbúnað, sem helzt verður gerður gegn þeirri hættu, sem kann að vofa yfir okkur af geislavirku úrfalli, og ekki sízt ef svo skyldi fara, sem við vonum að verði ekki, að stórveldin byrji aftur á hinum geigvænlegu sprengitilraunum. En eins og horfurnar eru núna, liggur einmitt mikið á í þessum efnum, og það liggur mikið á að gefa almenningi vísbendingar um ýmsar ráðstafanir, sem hann getur gert með aðstoð hins opinbera til þess að vera nokkuð viðbúinn. Þegar þetta kerfi almannavarna er svo orðið að lögum, ef svo vill verða, þá liggur fyrir að gera áætlanir um það, hvað gera skuli, og gera sér miklu betri grein fyrir því en nokkur einn eða fáir menn í dag hafa getað gert sér grein fyrir.

Við höfum fengið nokkrar upplýsingar um almannavarnir á Norðurlöndum. Það kemur fram í grg. þessa frumvarps, að þeir fóru snögga ferð þangað í haust, borgarlæknir og lögreglustjórinn í Reykjavík, með skammri viðdvöl og viðræðum aðeins við ráðamenn í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Þó hafði það nokkra þýðingu. Menn sjá þó, að það liggur í augum uppi, að hér er ekki nema aðeins um byrjunina á því að ræða að gera sér grein fyrir, hvað aðrir hafa gert og með hvaða árangri. Við höfum ekki haft neinar verulegar upplýsingar um árangurinn af þeim loftvarnaraíðstöfunum, er Bandaríkjamenn eru nú að tala um að gera, neðanjarðarbyrgjum og öðru slíku, ekki heldur frá Kanada, sem mér er sagt að hafi mikinn viðbúnað í þessum efnum. Mér er líka sagt, að nýlega sé komin út í Sovétríkjunum mörg hundruð blaðsíðna handbók fyrir borgara Sovétríkjanna með leiðbeiningum til þeirra um viðbúnað, ef hættu ber að höndum. Þetta hefur ekki unnizt neinn tími til þess að kynna sér. Og í öðrum löndum austan járntjalds er einnig kunnugt um margar og miklar og víðtækar ráðstafanir í þessu efni. En ef allir, sem næst okkur eru og í kringum okkur eru, telja sig þurfa að gera slíkar ráðstafanir, þá má ekki kalla það undarlegt, þó að við viljum reyna að gera okkur grein fyrir, hvar við stöndum í þessu efni og hvað við getum gert til viðbúnaðar og verndar íslenzkum borgurum.

Hv. 1. landsk. talaði mikið um hjálparsveitirnar og fannst það vera flókið starfskerfi. Það er nú ekki flóknara starfskerfi en það, að í lögunum er aðeins gert ráð fyrir vissum hjálparsveitum, og það er gert ráð fyrir að setja nánari ákvæði um það í reglugerð. En hins vegar til þess að styðja slíkt ákvæði nokkuð, er einmitt vitnað í almennu grg. til þess, hvaða skoðun Holtermann hershöfðingi hafði í þessum efnum og hvaða reglur giltu í þessum efnum í heimalandi hans. Noregi. Og þar leggur hann til, það er á bls. 7 í álitsgerð hans, að frumfræðslan í hverfisþjónustunni og brottflutningsþjónustunni verði 20 tímar á ári, námskeið í 20 klukkutíma, og svo upprifjun 10 tímar á næstu árum, ef ekkert ber að, svo að æfingin verði meiri en menn óska. En um hjálparliðin, sem eru stærri lið, þar er talað um frumfræðslu 40 tíma á ári og upprifjun 20 tíma. Loks er svo gert ráð fyrir því, að fyrir þá, sem eru stjórnendur á þessu sviði, verði frumfræðsla 60 tímar á ári og upprifjun 20 tímar á ári og þá helzt í því formi, að haldin verði sérstök námskeið á einhverjum tilteknum stað og mönnum safnað saman af landinu, sem eiga að hafa forustu í þessum efnum og fræða almenning. Hér er í sjálfu sér ekki mikið á sig lagt, og hver mundi telja þetta mikið á sig lagt, ef hann sjálfur gerði sér grein fyrir, að með því að leggja þetta á sig gæti hann máske bjargað fjölmörgum af meðborgurum sínum í framtíðinni frá því að bíða dauða eða verða örkumlamenn alla sína ævi af völdum hernaðaraðgerða? Og kerfið er ekki flóknara en það, að t.d. hefur verið gert ráð fyrir því að skipta Reykjavík niður í minni hverfi, þar sem væru 12–14 menn í hverju hverfi með smááhöld, til þess að reyna að hjálpa húsunum, sem í kring eru, ef þar skyldi koma upp eldsvoði eða annað slíkt, en hins vegar séu í bæ eins og Reykjavík þrjár hjálparsveitir á vissum stöðum í útjöðrum borgarinnar, sem þessi hverfi geti kallað til, ef þau ráða ekki við voðann, og hafi stór og fljótvirk tæki. Þar koma fullkomin slökkvitæki til, ruðningstæki og annað slíkt og tæki til þess að bjarga slösuðu fólki og koma því undir læknishendur, annaðhvort á sjúkrahús eða bráðabirgðasjúkrahús, sem komið væri upp.

Að brottflutningi fólks var nokkuð vikið, og spurt: Hvar er öryggi, og hvaða öryggi er fyrir því að vera að flytja fólk burt? Við höfum nokkra sérstöðu að þessu leyti, og brottflutningar verða erfiðir vegna þess, hvað fólk er saman safnað á takmörkuðum stað hér í Reykjavík og nágrenni. En auðvitað verður helzta öryggið í brottflutningi dreifingin á fólkinu, ef byrjaðar eru hernaðaraðgerðir eða annað slíkt, og liggur þetta í augum uppi, og þarf enginn að furða sig á því. En slíku verður aldrei komið fyrir nema með því að gera sér fyrir fram grein fyrir því, hvert fólkið á að fara, og þá þarf einnig að hafa stjórn á því fólki, sem farið hefur á tiltekna staði, að það safnist ekki á önnur svæði og yfirfylli allar byggingar og aðstöðu þar heldur en ráðgert hefur verið í hinni fyrirframgerðu áætlun.

Það er vissulega svo, að það er mikið alvörumál, sem hér er verið að fjalla um, og hér erum við í þeirri aðstöðu að þurfa að gera fleira en gott þykir. En það er frumskylda stjórnarvalda á hverjum tíma, þeirrar ríkisstj., sem á hverjum tíma fer með völd, að reyna að búa íbúum sínum í einu og öllu sem bezt öryggi. Við vonum öll, að það komi ekki til neinna aðgerða, sem gert hafa þær varúðarráðstafanir, sem hér er um að ræða, nauðsynlegar, hjá okkur eða öðrum þjóðum. En samt sem áður eru þeir, sem að flutningi þessa máls standa, sammála um það, að það er óverjandi af hálfu Alþingis og ríkisstj. að láta þetta mál reka á reiðanum og aðhafast ekkert, og það er í algerri mótsögn við allt það, sem gert hefur verið áður, þegar líkt hefur staðið á hér, eins og ég vitnaði til áðan, 1941 og 1951. Hvort hins vegar þessu frv. yrði eitthvað breytt til meira samræmis við það, sem óskir kynnu að koma fram um hjá sveitarfélögum, það er allt annað mál, og það hefur að sjálfsögðu engum dottið í hug, að þetta mál ætti að keyrast í gegnum þingið þannig, að menn hefðu ekki fyllstu aðstöðu til þess að geta lagt fram sinar brtt. og ábendingar, sem mættu vera til hins betra. Það var mín einlæg von, að þetta mál mundi ekki valda miklum ágreiningi hér á þingi, þó að mönnum fyndist kannske, að tíminn væri stuttur til að afgreiða málið. Ég hef því miður orðið fyrir vonbrigðum í ræðu minni hl., hv. 4. landsk., því að mér fannst ræða hans öll ekki bera keim viljans og alvörunnar, sem nauðsynleg er til þess að koma slíku máli í höfn, borgurunum kannske til meiri blessunar í framtíðinni en nokkur getur gert sér vonir um í dag. Ég þakka meiri hl, og þykir vænt um, þar sem ég átti nokkurn þátt að undirbúningi þessa máls, hvernig hann hefur tekið á málinu, og vil ljúka máli mínu með því að vænta, að þm. leggist nú samt sem áður á eitt um það að afgreiða þetta mál með þeirri alvöru, sem slíku máli hæfir.