27.03.1962
Efri deild: 71. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

136. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um framkvæmdir við vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi hefur verið rætt í samgmn. á þrem fundum. Að beiðni formanns n. kom vegamálastjóri á fund nefndarinnar og gaf ýmsar upplýsingar og svör við spurningum frá nefndinni.

Frv. þetta, eins og hv. þdm. vita, gerir ráð fyrir 10 millj. kr. lántöku á ári í 5 ár til aukinna vegaframkvæmda í tveimur kjördæmum landsins, Vestfjörðum og Austfjörðum. Ég býst við, að það leiki ekki á tveim tungum með það, að það er mikil þörf á auknum vegaframkvæmdum hér á landi, ekki aðeins í þessum kjördæmum, heldur einnig í öllum öðrum kjördæmum. Ef til vill er þörfin meiri í þessum kjördæmum en sumum öðrum vegna þess, að þar eru strjálbýl byggðarlög og þar af leiðandi langir vegir. Þessar byggðir hafa frekar orðið á eftir. En eins og nál. bæði meiri hl. og minni hl. í samgmn. bera með sér, þá gat meiri hl. ekki fallizt á að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir, því að bæði er það, að af því hefði að sjálfsögðu leitt kröfur eða óskir eða brtt. við frv. um það, að lán yrði einnig tekið til aðkallandi framkvæmda í öðrum kjördæmum og öðrum byggðarlögum, og veit ég t.d. um það úr Norðurlandskjördæmum báðum, eystra og vestra, og einnig úr Vesturlandskjördæmi, að þar eru mjög sterkar raddir uppi um það, að mjög þurfi að hraða þar vissum framkvæmdum. En eins og að er vikið í nál. okkar meirihlutamanna, eru vegalög og ákvæði um vegi í endurskoðun hjá stjórnskipaðri nefnd, sem mun skila áliti og einhverjum tillögum á næsta þingi, þegar það kemur saman í haust, og töldum við meirihlutamenn, að það væri að sjálfsögðu ófær leið að taka vissar framkvæmdir út úr þeirri áætlun um endurskoðun, sem verið er að reyna að gera í þessum efnum, og þar af leiðandi ekki hægt að samþ. þetta frv. á þessu stigi málsins, og leggjum því til, að frv. verði vísað til ríkisstj.